Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

23. fundur 05. júní 2003

Mættir voru allir nefndarmenn þau: Inga Hersteinsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Tómas M. Sigurðsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Stefán Bergmann.

Fundargerð ritaði Haukur Kristjánsson.

1. a. Umsókn frá Kristni Einarssyni og Gunnhildi Ó. Pálsdóttur, Bollagörðum 18, (Björk) um skiptingu lóðarinnar Bollagarðar 18, í samræmi við hverfiskort nr. 1.061 frá verkfræðistofunni Hnit s.f., í lóðirnar Hofgarðar 17 og Bollagarðar 18.

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir skiptingu lóðarinnar enda verði henni þinglýst.

b. Umsókn frá Páli Einari Kristinssyni, Grænumýri 4, um byggingu einbýlishúss á lóðinni nr. 17 við Hofgarða samkvæmt uppdráttum Runólfs Þ. Sigurðssonar, byggingartæknifræðings.

Samþykkt, enda verði lóðinni þinglýst sbr. lið 1.a.

2. Fyrirspurn frá Margréti Harðardóttur, arkitekt varðandi byggingu einbýlishúss á lóðinni Hrólfsskálavör 2.

Skipulags- og mannvirkjanefnd tekur jákvætt í erindið, en bendir á að þar sem vikið er frá byggingarskilmálum, þurfi húsið að fara í grenndarkynningu.

3 Fyrirspurn frá Rúnu Gísladóttur, Látraströnd 7, varðandi leyfi til að byggja turn ofan á garðskála hússins að Látraströnd 7, samkvæmt teikningu frá Jóni Guðmundssyni, arkitekt.

Frestað. Tillagan send í grenndarkynningu.

4. Erindi frá Jóhanni Helgasyni og Þórhildi G. Egilsdóttur, Melabraut 31, varðandi færslu runna við lóðamörk lóðanna Melabraut 31 og Miðbraut 34 sbr. 6. lið fundargerðar frá 3. apríl sl.

Byggingafulltrúa falið að kynna eiganda Miðbrautar 34 efni bréfsins.

 

5 Önnur mál.

a) Sefgarðar- girðingarmál.

Lögð fram umsögn lögmanns bæjarins Valgarðs Sigurðssonar hrl., um kærur sem borist hafa frá Úrskurðarnefnd skipulags- og byggingarmála vegna girðingarmála við Sefgarða sbr. 6. lið 21. fundar.

Umsögnin verður send Úrskurðarnefndinni sem svör skipulags- og mannvirkjanefndar við kærunum.

b) Aðalskipulag .

Lagðar fram og yfirfarnar ábendingar varðandi drög að skýrslu um forsendur aðalskipulags Seltjarnarness 2004-2024.

c) Fulltrúar NESLISTANS í skipulags og mannvirkjanefnd leggja fram eftirfarandi bókun.

Það olli miklum vonbrigðum að verða vitni að því hvernig meirihlutinn í bæjarstjórn stóð að kynningu að tillögu um skipulag á Hrólfsskálamel, sem skipulags- og mannvirkjanefnd lagði til við bæjarstjórn. Tillagan fólst í staðsetningu á gervigrasvellinum. Bæjarstjórn samþykkti hinn 28 maí s.l. tillöguna og fól nefndinni að hefja deiliskipulag og hönnun á forsendum tillögunnar.

Einum og hálfum sólarhring síðar er litabæklingur borinn út með pósti í öll hús á Seltjarnarnesi þar sem aðal fréttaefnið er að bæjarstjórn hafi samþykkt að reisa 182 íbúðir 80-140 m2. Umræddur bæklingur er augljóslega unninn áður en bæjarstjórn hefur fengið málið til afgreiðslu og er innihald hans ekki í samræmi við það sem í raun var verið að samþykkja, þ.e. staðsetningu gervigrasvallar.

Fulltrúar NESLISTANS í skipulags- og mannvirkjanefnd og í bæjarstjórn höfðu ekki hugmynd um að litabæklingur væri tilbúinn til dreifingar áður en niðurstaða bæjarstjórnar lá fyrir. Fulltrúar NESLISTANS, sem fram að þessu töldu að verið væri að vinna að heilindum í þessum mikilvæga málaflokki, fordæma þessi vinnubrögð. Í ofanálag er því svo hampað í fréttatilkynningum frá bæjarstjóra að hér sé á ferð ákvörðun sem þverpólitísk samstaða sé um.

Þessi vinnubrögð sýna með óyggjandi hætti að meirihlutinn í bæjarstjórn virðir að vettugi lýðræðisleg og fagleg vinnubrögð og hikar ekki við að nota hvaða meðul sem er í pólitískum tilgangi.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir (sign) Stefán Bergmann (sign).

d) Fulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi tillögu:

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir, að eftirtaldir þættir verði teknir til rækilegrar athugunar og afgreiðslu í nefndinni við undirbúning deiliskipulags á Hrólfsskálamel og vallarsvæði:

1. Mótun tillögu að aðalskipulagi fyrir umrædda skipulagsreiti með tilliti til þjónusturýmis og nýtingarhlutfalls á svæðinu. Þetta verði gert með hliðsjón af "kampus" hugmyndinni frá íbúaþinginu, sem takmarkar bílaumferð og leggur áherslu á góð tengsl innan svæðisins og á mannvænt útisvæði. Athugaðir verði möguleikar á þjónusturými neðanjarðar, s.s.í gömlu malargryfjunum neðst við Kirkjubraut.

2. Þjónusta veitt á Hrólfsskálamel og vallarsvæði.

3. Þjónusta við aldraða, íbúðir, heimaþjónusta, hjúkrunarheimili og félagslegt leiguhúsnæði unnið í samráði við félagsmálaráð.

4. Íbúðarhúsnæði fyrir námsmenn og ungar fjölskyldur á svæðunum.

5. Viðbyggingar við Mýrarhúsaskóla, mötuneyti fyrir nemendur og nýbygging tónlistarskóla, og skólalóð.

6. Aðstaða fyrir tómstundastarf barna og unglinga, sem tekur sérstaklega mið af þörfum þessa hóps, í samráði við ÆSIS.

7. Þörf bæjarskrifstofa fyrir aðstöðu, ráðhús.

8. Hvað felst í skilgreiningu á D stærð gervigrasvelli?

Stefán Bergmann (sign) Guðrún Helga Brynleifsdóttir (sign).

e) Formaður skipulags- og mannvirkjanefndar leggur fram eftirfarandi tillögu:

Bæjarstjórn Seltjarnarness hefur falið skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness gerð deiliskipulags og hönnun Hrólfsskálamels og Suðurstrandar á forsendum tillögu 1A frá ráðgjafafyrirtækjunum ALTA/CPP og á grundvelli skipulagslaga. Tillaga 1A var samþykkt í skipulagsnefnd 22. maí 2003 og í bæjarstjórn 28. maí 2003.

Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir að skipa þriggja manna starfshóp um verkefnið. Í hópnum sitji tveir fulltrúar meirihluta og einn fulltrúi minnihluta. Bæjarstjóri sitji jafnframt fundi starfshópsins. Byggingafulltrúi verði starfsmaður hópsins.

Starfshópurinn leggur tillögur sínar fyrir skipulags- og mannvirkjanefnd.

Inga Hersteinsdóttir (sign) Ingimar Sigurðsson (sign) Tómas Sigurðsson (sign).

Greinargerð.

Í verkefninu felst þróun rammaskipulags, sem síðan leiðir til deiliskipulags. Starfshópurinn ræður ráðgjafa til verksins, annars vegar arkitekta og hins vegar verkfræðinga og aðra ráðgjafa til einstakra verkþátta teljist það nauðsynlegt.

Arkitektar skulu koma með fleiri en einn valkost um útlit, íbúðarfjölda, fjölda hæða og nýtingu. Verkfræðingar hafi umsjón með kostnaðargreiningu og meti hagkvæmni mismunandi lausna.

Gert er ráð fyrir að starfshópurinn þurfi 3-4 mánuði til verksins.

Þar sem ekki er til fjármagn í verkefnið í núverandi fjárhagsáætlun, mun starfshópurinn leita eftir vilyrði fjárhags- og launanefndar fyrir því að fara í samningaviðræður við hönnuði og síðan leita samþykkis nefndarinnar á tilboðinu þegar kostnaðartölur í þennan áfanga liggja fyrir.

 

Fundi slitið kl.10:30. Haukur Kristjánsson.

Inga Hersteinsdóttir (sign) Ingimar Sigurðsson (sign)

Tómas M. Sigurðsson (sign) Guðrún Helga Brynleifsdóttir (sign)

Stefán Bergmann (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?