Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

95. fundur 31. ágúst 2006

95. fundur skipulags- og mannvirkjanefndar haldinn fimmtudaginn 31, ágúst 2006 kl. 08:00 að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.    

Mættir: Ingimar Sigurðsson, Þórður Búason, Ólafur Egilsson, Erna Gísladóttir, Stefán Bergmann,  og Einar Norðfjörð byggingafulltrúi. 

Fundargerð ritaði Einar Norðfjörð.

Dagskrá:

1.         Fundarsetning

2.         Deiliskipulag Hrólfsskálamels. Á fundinn mæta fulltrúar Hornsteina og VSÓ.

3.         Deiliskipulag skóla og íþróttasvæða.

4.         Deiliskipulag Vesturhverfis.

5.         Umsókn frá Valdimar Ólafssyni f.h. Fimis ehf. um niðurrif húsanna að Suðurmýri 36 og 38 og byggingu nýrra fjölbýlishúsa samkvæmt uppdráttum Péturs Arnar Björnssonar arkitekts.

6.         Erindi frá Sigurði Halldórssyni fh. Glámu – Kím arkitekta þar sem lögð er fram tillaga að deiliskipulagi lóðanna Skerjabraut 1-3.

7.         Tekin fyrir að nýju umsókn frá Ingigerði Jónsdóttur um leyfi til að rífa húsið að Sæbraut 13 og byggja nýtt samkvæmt uppdráttum Kristjáns Garðarssonar arkitekts.

8.         Tekið fyrir erindi frá G. Oddi Víðissyni fh. Þyrpingar hf. vegna landfyllingar við Norðurströnd frá síðasta fundi.

9.         Tekin fyrir að nýju umsókn frá Erni V. Skúlasyni og Kristínu Lárusdóttur um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Unnarbraut 15.

10.     Bréf frá Arkitektur.is og Klasa hf. sem vísað var til nefndarinnar á 640. fundi bæjarstjórnar varðandi landfyllingu.

11.     Umferðarmál.

12.     Önnur mál.

a.       Nesbali 1

b.       Erindi frá Páli Magnússyni bæjarritara Kópavogs varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

c.       Erindi frá Salvöru Jónsdóttur sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

13.     Fundarslit.

 

1. Fundur settur af formanni kl. 08:05.

 

2. Deiliskipulag Hrólfsskálamels. Á fundinn mættu Ögmundur Skarphéðinsson frá Hornsteinum og Grímur M. Jónasson frá VSÓ.

Ráðgjafarnir gerðu grein fyrir tillögu sinni að svörum við athugasemdum sem bárust við auglýsingu deiliskipulagstillögunnar.

Alls bárust athugasemdir frá fjórum aðilum og ræddu nefndarmenn þær hverja fyrir sig. Stefán vék af fundi þegar rædd var athugasemd sem hann átti aðild að.

Ólafur lagði fram eftirfarandi bókun í tveimur liðum:

a)  Ég tel að taka beri tillit til framkominna óska Gróttu og þeirra sem bera vöxt og viðgang fimleikanna fyrir brjósti og ætla rýmra svæði fyrir stækkun íþróttahússins. Brýnt er að horfa af raunsæi til framtíðar og halda möguleikum til þróunar opnum.

b)   Ég tel að aðlaga beri skipulagstillöguna því sem kynnt var fyrir íbúakosningu og taka fullt tillit til þeirra athugasemda sem fram hafa komið frá Áhugahópi um betri byggð á Seltjarnarnesi. Enginn viðhlítandi rökstuðningur hefur t.d. komið fram á nauðsyn þess að meira en tvöfalda byggingarmagn neðanjarðar sem ná mun upp í 1,50 m. hæð yfir götuhæð og því óhjákvæmilega setja mark á byggðina ef úr verður. Mikilvægt er einnig að hæð húsa taki fullt tillit til hagsmuna íbúa nærliggjandi byggðar svo sem heitið hefur verið.

                                               Ólafur Egilsson (sign)

Að loknum umræðum var gengið til atkvæða um tillögurnar að svörum.

1.  Tillaga að svari við athugasemdum Hauks Viktorssyni var samþykkt með þremur atkvæðum, Ólafur og Stefán sátu hjá.

2. Tillaga að svari við athugasemdum Íþróttafélagsins Gróttu var samþykkt með þremur atkvæðum, Ólafur greiddi atkvæði á móti en Stefán sat hjá.

3. Tillaga að svari við athugasemdum Ragnhildar Ingólfsdóttur og Stefáns Bergmanns var samþykkt með þremur atkvæðum, Ólafur sat hjá en Stefán tók ekki þátt í atkvæðagreiðslunni.

4.  Tillaga að svari við athugasemdum Áhugahóps um betri byggð á Seltjarnarnesi var samþykkt með þremur atkvæðum, Ólafur greiddi atkvæði á móti en Stefán sat hjá.

Samþykkt var með fjórum atkvæðum, Ólafur sat hjá, að vísa deiliskipulagstillögunni til bæjarstjórnar til frekari afgreiðslu.

 

3. Deiliskipulag skóla og íþróttasvæða.

Ráðgjafarnir gerðu grein fyrir drögum að greinargerð deiliskipulagsins ásamt uppdráttum. Samþykkt var að fela ráðgjöfunum að semja endanlegan texta í samræmi við umræður á fundinum. Ennfremur að vinna kort af gönguleiðum deiliskipulagssvæðisins.

Ráðgjafarnir viku af fundi.

 

4. Deiliskipulag Vesturhverfis.

Deiliskipulagstillagan var samþykkt samhljóða með breytingum og vísað til bæjarstjórnar til frekari afgreiðslu.

 

5. Umsókn frá Valdimar Ólafssyni f.h. Fimis ehf. um niðurrif húsanna að Suðurmýri 36 og 38 og byggingu nýrra fjölbýlishúsa samkvæmt uppdráttum Péturs Arnar Björnssonar arkitekts.

Samþykkt að fela byggingarfulltrúa að koma athugasemdum nefndarinnar á framfæri. Jafnframt bendir nefndin á að áformaðar byggingar samræmast ekki núgildandi deiliskipulagi né byggðamynstri.

 

6. Erindi frá Sigurði Halldórssyni fh. Glámu – Kím arkitektum þar sem lögð er fram tillaga að deiliskipulagi lóðanna Skerjabraut 1-3.

Formanni og byggingarfulltrúa var falið að ræða við ráðgjafa nefndarinnar við gerð deiliskipulags alls Lambastaðahverfisins um fram komna tillögu.   

 

7. Tekin fyrir að nýju umsókn frá Ingigerði Jónsdóttur um leyfi til að rífa húsið að Sæbraut 13 og byggja nýtt samkv. uppdráttum Kristjáns Garðarssonar arkitekts.

Frestað til næsta fundar.

 

8. Tekið fyrir erindi frá G. Oddi Víðissyni fh. Þyrpingar ehf. vegna landfyllingar við Norðurströnd frá síðasta fundi.

Skipulags- og mannvirkjanefnd óskar eftir kynningarfundi umsækjanda með bæjarstjórn svo og á almennum íbúafundi sem fyrst.

 

9. Tekin fyrir að nýju umsókn frá Erni V. Skúlasyni og Kristínu Lárusdóttur um leyfi fyrir viðbyggingu við húsið að Unnarbraut 15.

Umsóknin samþykkt. Byggingarfulltrúa jafnframt falið að svara athugasemd sem borist hafði við grenndarkynningu.

 

10. Bréf frá Arkitektur.is og Klasa hf. sem vísað var til nefndarinnar á 640. fundi bæjarstjórnar varðandi landfyllingu. Samþykkt var að formaður og varaformaður ræði við bréfritara.

 

11. Umferðarmál.  Frestað til næsta fundar.

 

12.  Önnur mál.

 

a. Erindi frá Magnúsi Margeirssyni Nesbala 1 varðandi stíg milli Nesbala og Sævargarða.

Skipulags- og mannvirkjanefnd bendir á að samkvæmt upplýsingum tæknideildar er umræddur stígur rétt staðsettur samkvæmt gildandi skipulagi og að honum liggja einkalóðir á báða vegu.

 

b. Erindi frá Páli Magnússyni bæjarritara Kópavogs varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins. Skipulags- og mannvirkjanefnd gerir ekki athugasemd við erindið.

 

c. Erindi frá Salvöru Jónsdóttur sviðsstjóra skipulags- og byggingarsviðs Reykjavíkurborgar varðandi breytingu á svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins.

Skipulags- og mannvirkjanefnd gerir ekki athugasemd við erindið.

 

13.  Fundi slitið kl. 11:15

 

Ingimar Sigurðsson (sign)

Þórður Búason (sign)

Ólafur Egilsson (sign)

Erna Gísladóttir (sign)

Stefán Bergmann (sign)

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?