Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

160. fundur 27. febrúar 2025 kl. 08:15 - 09:20

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Hákon Jónsson, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson skipulagsfulltrúi.

Dagskrá:

1. 2022100084 – Vallarbraut 3 - byggingarleyfisumsókn bílskúr og svalalokun

Sótt er um byggingarleyfi vegna nýs bílskúrs og svalalokunar að Vallarbraut 3. Umsóknin er í samræmi við óverulega deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í nefndinni á 145. fundi hennar í nóvember 2023 og kynnt fyrir nágrönnum í framhaldinu án athugasemda. Nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir breytinguna verður 0,44.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

2. 2025020194 – Lindarbraut 29 - byggingarleyfisumsókn

Sótt er um byggingarleyfi vegna viðbyggingar við bílskúr og garðsskála að Lindarbraut 29. Umsóknin er í samræmi við óverulega deiliskipulagsbreytingu sem samþykkt var í nefndinni á 146. fundi hennar í desember 2023 og kynnt fyrir nágrönnum í framhaldinu án athugasemda. Nýtingarhlutfall lóðarinnar eftir breytinguna verður 0,2.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

3. 2024070057 – Suðurmýri 60 byggingarleyfisumsókn

Sótt er um byggingarleyfi fyrir húsið Suðurmýri 60. Um er að ræða hæðaskipt tveggja íbúða hús sem að hluta er byggt á grunni eldra hús sem stóð á lóðinni. Málinu var frestað á síðasta fundi nefndarinnar en nú hefur verðið bætt úr þeim vanköntum sem voru á þeirri umsókn.

Húsið er í samræmi við gildandi deiliskipulag lóðarinnar og verður nýtingarhlutfall 0,68 við breytinguna.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

4. 2025020198 – Fyrirspurn um skiptingu lóðarinnar Steinavör 12.

Eigandi spyr hvort skipta megi lóðinni Steinavör 12 í tvær lóðir á sinn kostnað.

Afgreiðsla: Nefndin tekur jákvætt í erindið en bendir á að sækja þarf formlega um deiliskipulagsbreytingu. Lóðareigandi ber kostnað af breytingu skipulags og gerð lóðablaða og öðrum kostnaði sem fellur til.

5. 2025020199 Umsögn um breytingu á rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur vegna 1. lotu Borgalínu

Milli funda gaf skipulagsfulltrúi umsögn um breytingu á rammahluta aðalskipulags Reykjavíkur vegna 1. lotu Borgalínu.

Um er að ræða tillögu að rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 um Borgarlínuna. Í honum birtast forsendur og viðmið fyrir framkvæmdum, bindandi stefna um legu Borgarlínunnar og staðsetningu kjarnastöðva, ásamt leiðbeiningum um forgangsröðun ferðamáta og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau viðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar, hvort sem er í deiliskipulagi göturýmis eða hönnun innviða Borgarlínunnar. Nákvæm útfærsla Borgarlínunnar verður ákvörðuð í deiliskipulagi fyrir hvern legg. Í hönnunarleiðbeiningunum er svigrúm til að móta Borgarlínuna að þörfum, rými og ásýnd umhverfisins. Fyrsta lota Borgarlínunnar er um 14 km löng og liggur milli Ártúnshöfða í Reykjavík og Hamraborgar í Kópavogi. Lengd Borgarlínuleiðar innan Reykjavíkurborgar er tæplega 12 km.

Umsögn skipulagsfulltrú var á þessa leið:  „Fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar er ekki gerð athugasemd við tillögu að rammahluta Aðalskipulags Reykjavíkur 2040 þar sem fjallað er um Borgarlínuna.“

Afgreiðsla: Lagt fram.

6. 2025020200 – Umsögn um drög að tillögu að rammahluta vegna Borgarlínu á Kársnesi

Sveitarfélaginu barst umsagnarbeiðni vegna draga að tillögu að rammahluta aðalskipulags Kópavogs vegna Borgarlínu á Kársnesi. Frestur til að koma með athugasemd rann út fyrir fundinn svo skipulagsfulltrúi gaf umsögn fyrir hönd nefndarinnar.

Lögð er fram tillaga að legu, staðsetningu stöðva, áherslum á forgang og skipulag göturýmis. Jafnframt eru kynnt þau viðmið sem líta ber til við útfærslu Borgarlínunnar, hvort sem er í deiliskipulagi göturýmis eða hönnun innviða Borgarlínunnar. Rammahlutinn um 1. lotu Borgarlínunnar er ítarlegri stefna tillögu en fram kemur í Aðalskipulagi Kópavogs 2019-2040 til að tryggja framfylgd meginmarkmiða skipulagsins um Borgarlínuna. Viðfangsefni tillögunnar eru liður í því að stuðla að framfylgd samgöngusáttmála ríkis- og sveitarfélaganna og tryggja framfylgd samgönguáætlunar 2020-2034.

Umsögn Skipulagfulltrúa var á þessa leið: „Fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar er ekki gerð athugasemd við drög að tillögu að rammahluta aðalskipulags Kópavogs vegna Borgarlínu á Kársnesi. Bærinn áskilur sér rétt til að koma með athugasemdir á seinni stigum málsins.“

Afgreiðsla: Lagt fram.

7. 2024040061 – Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 5. janúar

Lagðar fram skýrslur um umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 5. janúar 2025. Ekkert umferðarslys varð á Seltjarnarnesi.

Afgreiðsla: Lagt fram.

8. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Lögð fram tillaga um að næsti fundur nefndarinnar verði þann 20. mars 2025.

Afgreiðsla: Samþykkt að næsti fundur verði þann 20. mars 2025.

 

Fundi slitið kl. 09:20

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?