Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

156. fundur 22. október 2024 kl. 16:00 - 17:24

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Hákon Jónsson, Erlendur Magnússon, Karen María Jónsdóttir og Bjarni Torfi Alfþórsson.

Fundarritari: Hákon Jónsson nefndarmaður.

Dagskrá:

1. 2024090167 – Byggingarleyfi Austurströnd 8 – svalalokanir

Sótt er um byggingarleyfi fyrir lokun á svölum þriggja íbúða í húsinu Austurströnd 8. Um er að ræða íbúð 05-05, 06-01 og 07-03. Er lokunin sem nú er sótt um í fullu samræmi við áður samþykktar og útfærðar svalalokanir á húsinu. Staðfesting formanns húsfélagsins liggur fyrir um að húsfélagsfundur hafi áður samþykkt að íbúar hafi almennt leyfi til að loka svölum.

Afgreiðsla: Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verða gefin út þegar umsækjendur hafa skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

2. 2024080294 – Tjarnarstígur 2 - skipting lóðar og sameining útskipta hlutans við aðra lóð

Óskað er eftir að óverulegri breytingu á deiliskipulagi í samræmi við uppdrátt í viðhengi. Tillagan gerir ráð fyrir að sneið verði tekin út úr lóðinni Tjarnarstíg 2 og bætt við lóðina Lambastaðabraut 14. Þannig verður aðkoma að lóðinni Lambastaðabraut 14 frá Tjarnarstíg í framtíðinni.

Afgreiðsla: Nefndin samþykkir að grenndarkynna tillöguna og beinir því til bæjarstjórnar að skipulagsfulltrúa verði falið að kynna hana í samræmi við 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr. 123/2010. Tillaga verði grenndarkynnt fyrir húseigendum að Tjarnarstíg 1,3 og 4 auk Lambastaðabrautar 9 og 12.

3. 2022120105 – Suðurmýri 60, breyting á deiliskipulagi vegna þaksvala

Húseigandi óskar eftir að gerð verði óveruleg breyting á deiliskipulagi svo hann geti komið fyrir þaksvölum á húsi sínu að Suðurmýri 60. Afmörkunin fyrir þaksvalirnar er inndreginn á þrjá vegu til að draga úr innsýn á nágrannalóðir.

Afgreiðsla: Nefndin hafnar ósk um breytingu á deiliskipulagi til að heimila þaksvalir.

4. 2024030060 – Hofgarðar 16 breyting á áður samþykktum byggingaráformum

Anna Margrét Hauksdóttir arkitekt óskar eftir að fá samþykkta örlítið breytta uppdrætti af Hofgörðum 16. Húsið hefur verið fært um 45 sentímetra í átt frá götunni.

Afgreiðsla: Við afgreiðslu málsins vék Erlendur Magnússon af fundi.

Byggingaráform samþykkt. Byggingarleyfi verður gefið út þegar umsækjandi hefur skilað inn öllum tilskyldum gögnum í samræmi við byggingarreglugerð nr. 112/2012.

5. 2024090152 – Lóð fyrir dreifistöð Veitna ehf við Ráðagerði

Veitur óska eftir heimild fyrir deilistöð við bifreiðastæði Ráðagerðis. Fyrirtækið er með tvö verkefni á Seltjarnarnesi. Annars vegar er verið að taka niður loftlínu í Gróttu við Fræðahús og setja í jörðu. Tveir eldri rafmagnsstaurar verða skildir eftir og verða eftirleiðis á forræði sveitarfélagsins. Hins vegar er tekin niður loftlína sem liggur frá Ráðagerði og að bílastæðinu við Snoppu. Þar verða einnig skildir eftir rafmagnsstaurar að beiðni sveitarfélagsins. Lagðar verða tvær nýjar línur í jörðu, önnur að Snoppu og hin að Borholuhúsi hitaveitunnar í nágrenninu. Vegna þessa þarf að koma fyrir nýrri deilistöð og afmarka lóð fyrir hana vegna. Framkvæmdin er ekki skipulagsskyld.

Afgreiðsla: Við afgreiðslu málsins vék Hákon Jónsson af fundi.

Nefndin samþykkir lóð fyrir deilistöð í samræmi við erindi Veitna ohf.

6. 2024010191 – Steinavör 8 og 12 fyrirspurn um uppbyggingu

Lóðareigandi spyr hvort heimilað verði að byggja 550 fermetra einbýlishús á lóðinni Steinavör 8 og 900 fermetra þríbýli á lóðinni Steinavör 12, án kjallara. Í skipulagsskilmálum kemur fram að mikilvægt sé að varðaveita sérkenni byggðar við endurgerð húsa og lóða.

Afgreiðsla: Nefndin er jákvæð gagnvart uppbyggingu á lóðunum tveimur en skv. gildandi deiliskipulagi er hámarksnýting lóða 0,4 og getur nefndin ekki annað en hafnað framkomnu erindi um stærðir og fjölda eignarhluta. Nefndin telur að mögulegt sé skv. gildandi skipulagi að byggt verði parhús á lóð nr. 12.

7. 2024060035 – Umferðaröryggi á Norðurströnd

Skipulagsfulltrúi bæjarins vinnur að endurbótum við götuna m.t.t. umferðaröryggis. Ekki var gert ráð fyrir fjármagni til verksins í fjárhagsætlun yfirstandandi árs. Nefndinni verður haldið upplýstri um framgang málsins.

Afgreiðsla: Nefndin vísar málinu til gerðar fjárhagsáætlunar fyrir 2025 sem er í gangi um þessar mundir.

8. 2024100144 – Nokkur erindi/ábendigar um hraðahindranir og umferðaröryggismál í bænum

Borist hafa nokkur erindi um hraðahindranir, meðal annars við Bakkavör, Lambastaðabraut, Bollagarða, Hofgarða, Skerjabraut og Fornuströnd.

Afgreiðsla: Nefndin þakkar ábendingarnar. Erindunum er vísað til endurskoðunar umferðaröryggisáætlunar sem er í gangi um þessar mundir.

9. 2024100150 - Hoppspott – stæði fyrir rafskútur

Fyrirtækið Hopp Reykjavík óskar eftir að koma upp stæði fyrir rafskútur á Seltjarnarnesi. Óskað eftir stað/staðsetningu fyrir rafskútustæði þar sem rafskútunotendur hafi fjárhagslegan ábata af því að skilja skúturnar eftir. Verða þær þá síður skildar eftir í reiðuleysi á gangstígum og í vegi fyrir vegfarendum, en þess í stað á vel merktum og vel völdum stað. Helst er litið til íþróttahússins og Eiðistorgs þar sem mikið er um rafskútur á gangstéttum og er ekki gert ráð fyrir að skúturnar verði á þegar merktu bifreiðastæði.

Afgreiðsla: Nefndin tekur vel í erindið og felur skipulagsfulltrúa að finna nokkra hentuga og smekklega staði fyrir rafskútustæði. Nefndin tekur þó fram að á slíkum stæðum sé heimilt að leggja rafskútum frá öllum rekstraraðilum.

10. 2024040061 – Umferðarslys á höfuðborgarsvæðinu frá 1. september 2024

Lagðar fram skýrslur um umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu frá 1. september 2024. Ekkert slys varð á Seltjarnarnesi á tímabilinu.

Afgreiðsla: Lagt fram.

11. 2024100151 – Fundartími næsta fundar nefndarinnar

Næsti fundur nefndarinnar verður mánudaginn 18. nóvember 2024, kl. 08:00

 

Fundi slitið kl. 17:24

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?