147. fundur Skipulags- og umferðarnefndar haldinn í fundarsal Bæjarstjórnar Seltjarnarness, miðvikudaginn 17. janúar, 2024 kl. 08:15
Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Karen María Jónsdóttir og Örn Viðar Skúlason.
Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson, sviðsstjóri Skipulags- og umhverfissviðs og starfsmaður nefndar.
Dagskrá:
1. 2024010191 – Steinavör 8 og 12 - Breyting á deiliskipulagi
Lögð fram tillaga að deiliskipulagsbreytingu vegna Steinavarar 8 og 12. Um er að ræða breytingu þar sem heimilt er að gera parhús á lóðinni Steinvör 8 og 5 eininga raðhús á lóðinni Steinavör 12.
Í aðalskipulagi er fjöldi íbúða í reitnum 11 sem deiliskipulagið fjallar um 98 íbúðir. Samkvæmt gildandi deiliskipulagi eru 101 íbúð í reitnum. Tillagan gerir ráð fyrir fjölgun íbúða á lóðunum sem fjallað er um, um 5 íbúðir þannig að breyta þarf aðalskipulagi samhliða þessari breytingu á deiliskipulagi þannig að innan reitsins verði heimilt að gera 106 íbúðir.
Afgreiðsla: Nefndin synjar beiðninni. Hvergi í skilmálum deiliskipulagsins er gert ráð fyrir fjölgun íbúða heldur er sérstaklega kveðið á um að mikilvægt sé að varðveita sérkenni byggðar við endurgerð lóða og að viðhalda skuli yfirbragði byggðarinnar. Fyrirliggjandi áform um nýbyggingar þykja ekki falla að umhverfi sínu líkt og áskilið er í gildandi skilmálum en í aðalskipulagi segir að uppbygging skuli taka mið af byggð sem fyrir er. Með hliðsjón af þessu telur meirihluti nefndarinnar fram lagða tillögu að deiliskipulagsbreytingu ekki samræmast stefnu sveitarfélagsins á skipulagssvæðinu.
Minnihluti nefndarinnar lagði fram eftirfarandi bókun: Sótt er um breytingu á deiliskipulagi. Fulltrúar Samfylkingar og óháðra taka jákvætt í tillöguna sem fyrir liggur, og hefðu viljað sjá hana fara í eðlilegt kynningarferli þar sem íbúar gætu tjáð sinn hug.
Tillögur um að breyta tveimur einbýlishúsum í eitt parhús og eitt raðhús með fimm íbúðum við Steinavör eru smekklegar og látlausar í umhverfinu. Ekki er verið að biðja um aukið byggingarmagn, einungis hóflega fjölgun íbúða á stað þar sem nýting svæðisins, að teknu tilliti til umhverfisgæða (t.d. útsýni, skuggavarp, hljóðvist, garðsvæði, umferð etc.), mun ekki hafa áhrif á nærliggjandi hús með neinum hætti, hvað þá önnur hús í hverfinu eða á skipulagssvæðinu.
Fleiri dæmi um sambærilega þéttingu í einbýlishúsahverfi hafa áður verið samþykkt af meiri og minnihluta t.d. í Suðurmýri. Hér er því ekki verið að gæta jafnræðis.
Á ákveðnum áhrifasvæðum s.s. þar sem almenningssamgöngur eru aðgengilegar eins og tilfellið er hér, eiga sveitarfélög að setja sér markmið um svæðisnýtingu. Sú vinna er í gangi í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu þar sem jafnframt er unnið að þéttingu byggðar. Seltjarnarnesbær telur sig hins vegar ekki þurfa að líta til hámarksþéttleika svæðisins eins og gert er annars staðar. Né heldur telur það sig þurfa að skilgreina þær kröfur sem verða að vera til staðar ef hámarka á heildarnýtingu svæðisins, ekki bara nýtingu á einstaka lóð. Viðloðandi húsnæðisskortur er á höfuðborgarsvæðinu með tilheyrandi áskorunum fyrir fjölskyldur. Er það samfélagsleg skylda Seltjarnarnesbæjar eins og annarra að skoða hvar hægt er að þétta byggð til að mæta þeirri grunnþörf einstaklingsins sem húsnæði yfir höfuðið er. Hér virðast það vera hagsmunir fárra sem trompa hagsmuni heildarinnar.
2. 2023110084 – Tjarnarmýri 33 - Ósk um leiðrétta skráningu húss og nýir gluggar
Páll Gunnlaugsson arkitekt sækir um breytingar í samræmi við það hvernig húsið var byggt árið 1992 en þá var kjallari gerður nokkuð stærri en sá sem var á uppdráttum og settir gluggar á hann. Húsið hefur nú verið endurteiknað í samræmi við hvernig það var byggt og fylgir ný skráningartafla með erindinu. Breytingarnar frá samþykktum uppdráttum eru stækkun kjallara og bætt hefur verið við gluggum á kjallara. Allt í samræmi við það hvernig húsið hefur verið frá upphafi.
Húsið er í dag skráð 252,4 m2 en er í raun 288,9 m2 og munar 36,5 m2 frá samþykktum uppdráttum.
Afgreiðsla: Samþykkt að fela skipulagsfulltrúa að leiðrétta skráningu hússins í samræmi við hvernig það var byggt í upphafi.
3. 2023120254 – Melabraut 4 byggingarleyfisumsókn
Shruthi Basappa sækir um að breyta innra fyrirkomulagi og burði, fyrir hönd eiganda miðhæðar Melabrautar 4. Erindið snýst um að bætt er við einu herbergi og annað stækkað og allstórt op gert milli eldhúss og stofu.
Afgreiðsla: Samþykkt. Áskilið er uppáskrift burðarvirkishönnuðar á teikningar áður en endanlegt byggingarleyfi verður gefið út.
Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.
4. 2023120254 – Sævargarðar 2 – Ný fyrirspurn í 4 liðum
Arkitektarnir Anna Leoniak og Bjarni Kristinsson arkitektar FAÍ leggja fram fyrirspurn í fjórum liðum varðandi byggingarmöguleika á lóðinni Sævargarðar 4.
Þau lögðu nýlega fram aðra fyrirspurn varðandi sömu lóð með stærri byggingarreit en nú er sýndur og þá var bókað:
Borist hefur fyrirspurn til að kanna möguleika á að stækka byggingarreit að Sævargörðum 2 og byggja aukahús á lóð. Í deiliskipulagi hverfisins er húsum snúið þannig að sem flestir haldi útsýni til norðurs út á Eyjasund.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd telur að byggingarreitur eins og hann er sýndur á uppdrætti fyrirspyrjanda mun skerða útsýni nágranna sunnan við lóðina verulega og samþykkir ekki erindið.
Fyrirspurnin sem nú liggur fyrir nefndinni er svohljóðandi:
Óskað er eftir svari varðandi möguleika að:
1. Fá heimild til að stækka byggingarreit til suðausturs. Tillagan okkar staðsetur byggingarreit 7m frá lóðarmörkum til að fylgja byggingarmynstri göturnar.
a. Fá heimild til að stækka byggingarreit til suðausturs og fá leiðbeiningar hvað væri lágmarks fjarlægð frá Sævargörðum 4 og frá götunni ef tillagan okkar er ekki samþykkt.
2. Fá heimild að byggja á stækkuðum byggingarreit frístandandi hús á lóð ~35-40m2 (vinnustofa).
a. Fá heimild að frístandandi hús á lóð væri með kjallara.
3. Fá heimild að byggja við húsið á stækkuðum byggingarreit (það er ef frístandandi hús á lóð er ekki möguleiki).
a. Fá heimild að viðbyggingin væri tengd með þaki og sökkli við húsið, en mynda lítið B rými á milli hús kroppa.
b. Fá heimild að stækka húsið (A rými) á stækkuðum byggingarreit.
4. Fá heimild að viðbyggingin á stækkuðum byggingarreit væri með kjallara.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd telur að byggingarreitur eins og hann er sýndur á þeim uppdrætti sem nú er lagður fram muni líkt og sá sem spurt var um í fyrri fyrirspurn skerða útsýni nágranna sunnan við lóðina verulega.
Svör Skipulagsnefndar við einstökum liðum:
1.a Nefndin veitir ekki heimild til að stækka byggingarreit umfram það sem hann er í gildandi skipulagi.
2.a Nefndin heimilar ekki frítt standandi hús/vinnustofu á lóð, hvorki með eða án kjallara.
3.a og 3.b Sjá svör við lið 1.a varðandi stækkun byggingarreits.
Heimild er til að stækka húsið innan núverandi byggingarreits. Stækkunin þarf að vera tengd núverandi húsi.
4. Ekki er heimild fyrir kjallara undir viðbyggingu, jafnvel þó viðbygging sé að öllu leyti innan núverandi byggingarreits.
5. 2024010223– Nesvegur hjólastígur
Samkvæmt áætlunum um uppbyggingu á stofnhjólaneti höfuðborgarsvæðisins (sem er fjármagnað af Samgöngusáttmálanum) þá voru hjólastígar eftir Nesvegi settir í fyrsta forgang. Málið var skoðað á sínum tíma af VSÓ Ráðgjöf og ólíkar lausnir settar í umferðaröryggismat.
Vegagerðin hefur óskað eftir afstöðu Seltjarnarnessbæjar til áframhaldandi vinnu með þetta verkefni. Óskað er eftir að verkefnið verði unnið í samstarfi við Reykjavíkurborg þannig að heildstæð lausn verði fundin fyrir Nesveginn óháð því hvort hann tilheyri Seltjarnarnesi eða Reykjavík. Möguleiki á að Vegagerðin haldi utan um verkefnið og sjái um útboð á hönnun og framkvæmd og óskað er eftir að bærinn skipi tengilið/liði fyrir verkefnið sem myndi vinna að málefnum sveitarfélagsins, t.d. ef það þarf að fara í skipulagsbreytingar.
Afgreiðsla: Nefndin fagnar erindinu og skipar þau Gunnlaug Jónasson skipulagsfulltrúa og Helgu Hvanndal verkefnisstjóra umhverfismála sem fulltrúa sína í verkefninu.
6. 2024010224 – Ósk um að setja upp hraðhleðslustöðvar við íþróttamiðstöð
Orkusalan spyr Seltjarnarnesbæ um heimild til að setja tvær 50 KW hleðslustöðvar við íþróttamiðstöðina að Austurströnd 8 með möguleika að fjölga síðar um nokkrar 22kW stöðvar. Orkusalan ehf. Býðst til að setja upp og sjá um rekstur þeirra. Þeir hafa skoðað aðstæður og séð að engar slíkar stöðvar eru á svæðinu og telja að slíkar stöðvar verði væri mikil og góð þjónusta við alla þá sem heimsækja íþróttamannvirki og skóla bæjarins. Eins væri þjónustan góð fyrir alla þá sem eru komnir á rafmagnsbíla en eru ekki komnir með hleðslustöðvar við heimilið. Meðfylgjandi er mynd af stöð frá okkur ásamt stærðarmálum.
Afgreiðsla: Frestað. Nefndin tekur jákvætt í erindið og felur skipulagsfulltrúa að vinna málið áfram.
7. 2024010225 - Húsnæðisáætlun
Fyrir liggur uppfærð húsnæðisáætlun fyrir Seltjarnarnesbæ. Áætlunin er unnin eftir stöðlum Húsnæðis- og mannvirkjastofnunnar í kerfi sem stofnunin hefur látið gera og er fyrir árin 2024-2033. Starfsmenn stofnunarinnar hafa farið yfir áætlunina og samþykkt hana.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir áætlunina og beinir áætluninni til bæjarstjórnar til staðfestingar.
8. 2024010226 122. fundur í svæðisskipulagsnefnd SSH
Lögð er fram fundargerð 122. fundar svæðisskipulagsnefndar Samtaka sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu.
Afgreiðsla: Fundargerðin lögð fram.
9. 2023120252- Umerðaslys á höfuðborgarsvæðinu haustið 2023
Borist hafa skýrslur með skráning á umferðaslysum á höfuðborgarsvæðinu sem lagðar eru fram.
Eitt slys varð á Seltjarnarnesi.
Afgreiðsla: Lagt fram.
10. 2023120252 - Hraðamæling á Nesvegi 18-12-23
Lögð er fram skýrsla um hraðamælingu á Nesvegi sem fram fór 18.12.2023
Eftirfarandi kemur fram í skýrslunni:
Á tímabilinu frá kl. 13:45 til 14:45 þann 18/12/23 var vöktuð umferð með hraðamyndavél sem ekið var vestur Nesveg móts við Suðurmýri 34. Þarna er 40 km hámarkshraði. Á ofangreindu tímabili vaktaði vélin 185 ökutæki og var meðalhraði þeirra 37 km. Af vöktuðum ökutækjum voru ljósmynduð 4 brot eða um 2%. Meðalhraði þeirra var 52 km og hraðast ekið á 54 km hraða.
Afgreiðsla: Lagt fram.
11. 2024010249 – Umsögn um vínveitingaleyfi fyrir þorrablót Seltjarnarness
Sýslumaðurinn á Höfuðborgarsvæðinu óskar eftir umsögn bæjarins um timabundið áfengisleyfi vegna Þorrablóts Seltjarnarness sem haldið verður þann 27. janúar 2024.
Afgreiðsla: Samþykkt
Fundi slitið kl. 9:28