Fara í efni

Skipulags- og umferðarnefnd

146. fundur 21. desember 2023 kl. 08:15

146. fundur Skipulags- og umferðarnefndar haldinn í fundarsal Bæjarstjórnar Seltjarnarness, fimmtudaginn 21. desember, 2023 kl. 08:15

Mættir: Svana Helen Björnsdóttir sem stýrði fundi, Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, Guðmundur Ari Sigurjónsson mætti fyrir Bjarna Torfa Álfþórsson, Stefán Bergmann mætti fyrir Karen Maríu Jónsdóttur og Hákon Jónsson mætti sem varamaður fyrir Örn Viðar Skúlason.

Fundarritari: Gunnlaugur Jónasson, sviðsstjóri Skipulags- og umhverfissviðs og starfsmaður nefndar.

Dagskrá:

1. 2023110002 – Fyrirspurn um endurbætur á húsinu Sæbraut 4

Spurt er um afstöðu nefndarinnar til breytinga á húsinu á síðasta fundi og var málinu frestað. Breytingarnar eru: Viðgerð á þaki, nýr kvistur vestan megin og svalir á bílskúr.

Hugmyndirnar eru innan byggingarreits og samræmast deiliskipulagi hverfisins.

Á nóvemberfundi nefndarinnar var eftirfarandi bókað: Skipulagsfulltrúa falið að vinna málið áfram og leggja það fyrir næsta fund.

Nágrannar hafa lýst yfir áhyggjum af því að nýr kvistur muni varpa skugga á sína lóð og skerða útsýni. Húshæð núverandi húss er uþb. 0,8 m hærri en hámarkshæð skv. gildandi deiliskipulagi.

Nefndin tekur neikvætt í erindið. Kvistur rúmast ekki innan hámarks hæðarkóta gildandi deiliskipulags.

2. 2023110072Bakkavör 28 - Ósk um leiðrétta skráning á lóð og hús

Á síðasta fundi nefndarinnar var skipulagsfulltrúa falið að leiðrétta skráningu hússins.

Jafnframt var honum falið að kanna afmörkun lóðarinnar og með hvaða hætti það misræmi sem er í gögnum varð til.

Deiliskipulag er unnið 2010, það sýnir stærri lóð sem nær undir sólskála. Þar er tekið sérstaklega fram að lóðin sé stækkuð í 1011,4 m2 um 8,4 m2.

Lóðarblað var unnið árið 1986, þar sem lóðin er sýnd 1003 m2.

Lóðin er skráð 1003 m2 hjá Fasteignaskrá óskað er eftir að breyta því.

Nefndin felur skipulagsfulltrúa að leiðrétta skráningu lóðarinnar í samræmi við gildandi deiliskipulag.

3. 2023030056 – Bygggarðar 7 byggingarleyfisumsókn

Gróttubyggð ehf sækir um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu fjölbýlishúsi með 4 íbúðum að Bygggörðum 7, í samræmi við deiliskipulag. Aðalinngangur eru norðaustan megin hússins. Húsið er staðsteypt, nema að stigar milli hæða eru forsteyptir. Á síðasta fundi var samþykkt óveruleg breyting á húsinu þar sem þak kóti var hækkaður lítillega í húsum 7 og 25 en þegar deiliskipulag var gert voru þessi hús með staðföngunum 17 og 26.

Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.

4. 2023030055 – Bygggarðar 9 byggingarleyfisumsókn

Gróttubyggð ehf sækir um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu fjölbýlishúsi með 4 íbúðum að Bygggörðum 9, í samræmi við deiliskipulag. Aðalinngangur eru norðaustan megin hússins. Húsið er staðsteypt, nema að stigar milli hæða eru forsteyptir.

Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.

5. 2023030076 – Bygggarðar 25 byggingarleyfisumsókn

Gróttubyggð ehf sækir um byggingarleyfi fyrir staðsteyptu fjölbýlishúsi með 4 íbúðum að Bygggörðum 25, í samræmi við deiliskipulag. Aðalinngangur eru norðaustan megin hússins. Húsið er staðsteypt, nema að stigar milli hæða eru forsteyptir. Á síðasta fundi var samþykkt óveruleg breyting á húsinu þar sem þak kóti var hækkaður lítillega í húsum 7 og 25 en þegar deiliskipulag var gert voru þessi hús með staðföngunum 17 og 26.

Byggingaráform samþykkt. Umsóknin samræmist lögum um mannvirki nr. 160/2010 og byggingarreglugerð nr. 112/2012, m/síðari breytingum. Byggingarleyfi verður gefið út þegar skilyrði 2.4.4.gr. sömu byggingarreglugerðar hafa verið uppfyllt.

6. 2023070045 - Nesvegur 104 byggingarleyfisumsókn

Á 142. fundi nefndarinnar í ágúst var lögð fram byggingarleyfisumsókn fyrir breytingum á húsinu Nesvegur 104. Um er að ræða stækkun á húsinu um 27,3 m2 og stækkun svala.

Eftirfarandi bókað á 142. fundi nefndarinnar:

Lögð fram umsókn um byggingarleyfi, dagsett 13. júlí 2023, þar sem sótt er um heimild til að reisa garðskála og stækka svalir auk svalalokunnar á tvíbýlishús við Nesveg 104.

Skipulags- og umferðarnefnd frestar erindinu, samræmist ekki deiliskipulagi.

Síðan þetta var bókað hefur komið ábending frá hönnuði breytingarinnar sem bendir á atriði í skilmálum þar sem fram kemur:

„Byggingarreitir eru afmarkaðir á þeim lóðum sem heimilar eru breytingar. Á öðrum lóðum eru útlínur húsa jafnframt byggingarreitir. Heimilt er að gera smávægilegar breytingar á þeim húsum t.d. byggja litla sólskála, loka svölum með svalakerfi o.þ.h. án þess að þess að breyta þurfi deiliskipulagi. Sækja skal þó um allar breytingar til Skipulags- og umferðarnefndar Seltjarnarness…..heimilt að gera smávægilegar breytingar …….t.d. lagfæringar þaki, loka á svölum“.

Er farið fram á að nefndin endurskoði afstöðu sína í ljósi þessara upplýsinga.

Nefndin ítrekar fyrri afstöðu um að breytingin samræmist ekki gildandi deiliskipulagi, enda ekki um smávægilega breytingu að ræða.

7. 2023120238 - Lindarbraut 29, garðskáli á lóð

Eigandi spyr hvort heimilað verði að grenndarkynna um 70 fermetra garðskála í samræmi við skissur hans í viðhengi. Nýtingarhlutfall lóðar er 0,33 og verður byggingarmagn á lóð eftir breytinguna innan nýtingarhlutfalls. Nýi garðaskálinn er hins vegar að mestu utan byggingarreits í gildandi deiliskipulagi.

Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að tillaga að deiliskipulagsbreytingu verði grenndarkynnt þegar húseigandinn hefur skilað inn uppdráttum sem uppfylla þá staðla sem gilda um uppdrætti til grenndarkynningar. Tillaga verði grenndarkynnt fyrir húseigendum að Lindarbraut 27 og 31 auk Nesbala 3, 5 og 7.

8.2023040100 - Melabraut 16, fyrirspurn um útistiga

Hönnuður spyr fyrir hönd eiganda, hvort heimilað verði að gera útistiga í samræmi framlagðar teikningar og hvort það kalli á skipulagsbreytingu. Í almennum skilmálum deiliskipulagsins kemur eftirfarandi fram: „Á öðrum lóðum eru útlínur húsa jafnframt byggingarreitir þó er heimilt að gera smávægilegar breytingar á þeim húsum t.d. lagfæringar á þaki, loka svölum með gleri o.þ.h. án þess að þess að breyta þurfi deiliskipulagi en sækja skal um allar breytingar til Skipulags- og

mannvirkjanefndar.“ Stiginn telst til svokallaðra C-rýma og telst því ekki með í nýtingarhlutfalli hússins. Áður hefur deiliskipulagi lóðarinnar verið breytt til að auka nýtingarhlutfall og heimila 3 hæð ofan á húsið.

Tillagan samræmist ekki deiliskipulagi. Nefndin telur breytinguna þó óverulega og heimilar að grenndarkynna breytinguna.

9. 2023120060 - Erindi frá Landssamtökum hjólreiðamanna varðandi rafskútur á hjólastígum

Borist hefur erindi frá Landssamtökum hjólreiðamanna LHM með mótmælum samtakanna við því hættuástandi sem skapast þegar rafmagnshlaupahjólum er lagt við hjólaleiðir og einnig er meintum samningi milli sveitarfélagsins og rafskútuleiga mótmælt. Fyrirspurn kom frá rafskútu fyrirtækinu Hopp varðandi rafskútustæði árið 2020.

Nefndin tekur undir þær áhyggjur sem koma fram í erindinu og felur sviðsstjóra að hafa samband við fyrirtækin með það fyrir augum að koma upp öruggum svæðum til að leggja hjólunum svo þau valdi ekki hættu.

10. 2020040063 - Biðskýli og hugsanleg slysagildra við horn Lindarbrautar og Hofgarða

Borist hefur erindi frá íbúa varðandi gangbraut á Lindabraut við Hofgarða.

Við þessa gangbraut er strætóskýli og er það ítrekað að koma upp að bílar séu að keyra framhjá stöðvuðum vagni á fullri ferð án þess að taka eftir börnum sem eru á leið yfir gangbrautina. Nefndi íbúinn atvik sem kom upp nýlega þar sem vagn var kyrrstæður við strætóskýlið og ungur drengur er á leið yfir gangbrautina, þeim megin sem strætó skýlið er, og í þann mund kemur bíll á vel yfir 60 km hraða. Íbúinn bjargaði mögulega lífi drengsins með því að öskra á hann.

Skipulagsfulltrúi hefur fundað með fyrirtækinu sem á skýlið og þeir eru tilbúnir til að færa það á sinn kostnað ef bærinn sér um jarðvinnu.

Vísað í fyrri afgreiðslu um færslu skýlisins og sviðstjóra falið að fylgja málinu eftir.

11. 2023120247 - Gamalt lúið biðskýli við Lindarbraut

Flest biðskýli í bænum hafa verið endurnýjuð síðustu árin. Eitt hefur þó orðið út undan en það er gamalt skýli við Lindarbraut 18. Íbúar í nágreninu hafa bent á að lélegt ástand þess sé til skammar fyrir bæinn og hafa ítrekað óskað eftir að það verði lagað. Íbúar hafa einnig lýst yfir áhyggjum af því að nútímaskýli eins og eru annars staðar í bænum lýsi umhverfið upp óþæglega mikið.

Skipulagsfulltrúi hefur fundað með fyrirtækinu sem sér um endurnýjun skýlanna og þeir fullyrða að þeir séu með skýli sem passi á þennan stað. Það sé skýli sem er ekki með ljósum á bakhlið eða göflum og er mynd af þannig skýli í viðhengi. Þessi nýju skýli eru með USB tengi sem gerir hleðslu síma mögulega meðan beðið er eftir vagni, tillögur eru um að í þeim verði þráðlaust netsamband og þar verða upplýsingar í rauntíma um biðtíma eftir næstu vögnum, byggður á GPS staðsetningarbúnaði í vögnunum sjálfum. Einnig er ljósastyrk á skiltum stýrt sjálfvirkt út frá birtustigi umhverfisins til að koma í veg fyrir óþægindi af honum.

Skipulagsfulltrúa falið að funda með nágrönnum og kynna þeim þær lausnir sem fyrir hendi eru, þar sem illmögulegt er að gera upp gamla skýlið svo sómi sé af.

12. 2023120248 - Gangbrautir nærri skólum - lýsing og fleira

Borist hefur erindi frá sviðstjóra fjölskyldusviðs varðandi gangbraut við Kirkjubraut til móts við Kirkjuna þar sem áhyggjum er lýst yfir af öryggi hennar ma. vegna óþægilegrar staðsetningar hennar á horni.

Nefndin hefur Þegar sett af stað verkefni sem miðar að því að auka ljósstyrk við gangbrautina. Þá stendur einnig til að kalla saman samráðshóp um umferðaröryggismál.

13. 2023120249 - Sorpílát við strætóskýli við Suðurströnd næst ljósastýrðum gatnamótum við Eiðistorg

Borist hefur erindi þar sem óskað er eftir að sorpílát verði sett upp við biðskýli á Suðurströnd sem er nærri ljósstýrðum gatnamótunum við Eiðistorg. Sorpílát er nú þegar við flest ef ekki öll önnur biðskýli í bænum.

Nefndin beinir því til Skipulags og umhverfissviðs að sett verði upp sorpílát við skýlið eins fljótt og mögulegt er.

14. 2023120250 - Erindi frá foreldrafélagi um öryggi gangandi og hjólandi í nágrenni Valhúsaskóla

Stjórn foreldrafélagsins bendir á það að umferðaröryggi í nágrenni við Valhúsaskóla sé ábótavant. Þau hafa sent erindi sem er að finna í viðhengi þar sem farið er gaumgæfilega yfir vandamálin. Þau óska eftir að strax verði brugðist við og benda á að ein, eða tvær, vel upplýstar gangbrautir gætu hjálpað mikið, takmörkun á farmflutningum við ákveðna tíma og fleiri ljósastaurar sem hugmyndir að lausnum.

Nefndin þakkar fyrir ábendinguna og er samála því að bregðast þurfi skjótt við enda er aldrei of varlega farið þegar öryggi barnanna í bænum er annars vegar. Þegar hefur verið sett í gang verkefni sem miðar að því að bæta lýsingu á svæðinu, bæta við gangbraut á Skólabraut við Tónlistarskóla og lýsa gangbrautir betur sem skólabörn fara um. Hugmyndir um auknar merkingar á gangbrautir eru góðar og nefndin mun beina því til framkvæmdaaðila sem vinna að endurbótum á skólahúsnæði að beina vöruafhendingu utan skólatíma ef þess er nokkur kostur.

15. 2023120251 - Fundargerð 122. fundar í svæðisskipulagsnefnd SSH

Í viðhengi er fundargerð 122. fundar svæðisskipulagsnefndar Samtaka sveitarfélag á höfuðborgarsvæðinu sem er lagður fram til upplýsinga.

Frestað.

16. Umferðaslys á höfuðborgarsvæðinu

Borist hafa skýrslur frá umferðadeild um slys á höfuðborgarsvæðinu sem eru í viðhengi. Sem betur fer er ekkert þeirra á Seltjarnarnesi.

Frestað.

17. 2023120253 - Fundartímar skipulags- og umferðarnefndar á næsta ári

Bæjarstjórn mun funda eftirtalda daga á næsta ári: 24. janúar, 7. og 21. febrúar, 6. og 20. mars, 3. og 17. apríl, 8. og 22. maí, 5. og 19. júní, 21. ágúst, 11. og 25. september, 9. og 30. október, 13. og 27. nóvember og 11. desember.

Lagðir eru til eftirfarandi fundardagar nefndarinnar næstu misseri: sem eru því sem næst 6 dögum fyrir fundi bæjarstjórnar. Þetta gildir þó ekki í júlí eða desember en í júlí fundar bæjarstjórn ekki og í desember fundar stjórnin snemma eða 11. desember:

18. jan, 15. feb, 14. mars, 11. apríl, 16. maí, 13. júní, 18. júlí, 15 ágúst, 5. sept, 24. okt, 21 nóv, og 19. des.

Samþykkt.

 

Fundi slitið kl. 10:00

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?