Fara í efni

Öldungaráð

30. maí 2016

Annar fundur Öldungaráðs Seltjarnarness haldinn á Bæjarskrifstofum Seltjarnarness að Austurströnd 2 þann 30. maí 2016 kl. 15:00 til 16:45.

Mættir: Ólafur Egilsson, Magnús Oddsson, Þóra Einarsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Birgir Vigfússon.

Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson fundinn og ritaði fundargerð.

  1. Fomaður bauð Hans Kristján Guðmundsson velkominn en hann var gestur fundarins með kynningu og einnig bauð hann Hildigunni Gunnarsdóttur velkomna í ráðið en hún tók sæti í stað Stefáns Bergmanns vegna jafnréttislaga.
  2. Háskóli 3ja æviskeiðsins – kynning. Hans Kristján Guðmundsson eðlisfræðingur og formaður „U3A REYKJAVÍK – University of the Third Age“ greindi frá samtökunum og því sem hefur verið að gerast hjá þeim undanfarin ár, m.a. sívaxandi þátttöku fólks á efri árum í námskeiðum á vegum U3A. Þarna er vettvangur fræðslu og þekkingar fyrir fólk á þriðja æviskeiðinu sem er fólk hætt á vinnumarkaði en oft á tíðum með óskerta starfs- og námsgetu. Flestir þátttakendur eru á aldrinum 65 – 79 ára en meðalaldurinn er 69 ár. Í boði eru fjölbreyttir viðburðir oftast í formi fyrirlestra eða fræðsluferða einu sinni í viku, námskeiða, hópastarfs um áhugaverð efni, o.fl. Oftast eru það á bilinu 20 til 60 manns sem mæta. Tengsl eru við Háskólann í Reykjavík, Reykjavíkur-akademíuna o.fl. Erlend samskipti eru við alþjóðasamtökin AIUTA (International Association of Universities of the Third Age) sem halda ráðstefnur í ýmsum heimshlutum a.m.k. tvisvar á ári.

    U3A fékk myndarlegan styrk frá Erasmus, menntaáætlun ESB 2014, til að vinna evrópska rannsókn er lýtur að því hvernig fólki sé farsælt að haga undirbúningi sínum að þriðja æviskeiðinu. Styrkgreiðslum lýkur í ár. Gefin verður út í haust skýrsla um niðurstöður verkefnisins sem gengur undir
    skammstöfuninni BALL („Be Active through Lifelong Learning“). Þær munu birtast í þremur þáttum sem lýst er svo:

    Vitundarvakningar er þörf í samfélaginu og hjá einstaklingum um virði og mannauð þriðja æviskeiðsins. Gerðar verða tillögur um slíka vakningu.
    Sjálfskoðunar- og sjálfshjálparaðstoð til einstaklinga sem vilja undirbúa sig undir seinni hluta ævinnar. Greina styrk sinn og getu, óskir, væntingar og ástríður. Námskeið, samtöl og ráðgjöf.
    Vöruhús tækifæranna, þar sem hægt er að leita í rekkum og hillum að tólum til að láta óskirnar rætast.

    Starfslok eru breytingarskeið og því hvatning til fólks að endurskoða stöðu sína og kanna styrkleika sína og möguleika. Þessi leið getur hentar mörgum eldri borgurum og er hægt að kynna sér starfsemina nánar á
    u3a.is og áðurnefnt verkefni á ball-project.eu - Lögð var fram á fundinum Skýrsla stjórnar U3A Reykjavík starfsárið 2015-2016 frá aðalfundi samtakanna 15. mars sl.
  3. Niðurstöður íbúaþings. Fyrir fundinum lágu ítarleg gögn um þingið. Magnús Oddsson formaður félags eldri borgara á Seltjarnarnesi greindi frá þeim viðbrögðum sem hann hefði fengið frá félagsmönnum um hvaða niðurstöðum íbúaþingsins væri brýnast að fylgja eftir. Almennt eru félagar ánægðir með þjónustu við eldra fólk og telja að yfirleitt snúist málið um að gera gott enn betra. Á íbúaþinginu voru listaðar upp fjölbreyttar og ólíkar hugmyndir sem sumar hverjar er ekki á færi bæjaryfirvalda að framkvæma meðan aðrar eru það.

    Það sem helst hefur komið fram í tölvupóstum til formanns nú er:

    Óskir um
    heimaþjónustu utanhúss, þ.e. aðstoð við að halda görðum snyrtilegum með slætti og hreinsun beða. Snorri upplýsti um að fyrir nokkrum árum hefði þessari þjónustu verið hætt á vegum bæjarins en hægt væri að kaupa hana af einkaaðilum. Ólafur lagði til að FEB kannaði hvort hægt væri að semja við einhverja garðþjónustuaðila um að veita eldri borgurum afslátt af þjónustu.

    Þá hefur komið frá nokkrum aðilum fyrirspurn
    um hvort eldri borgarar gætu ekki fengið að nýta sér tómstundastyrki bæjarins, ekki síst þegar ekki væru nýttir af barnafjölskyldum en vitað er að nokkur hluti barnafjölskyldna sækir ekki um styrkina. Bent var á að breyta þyrfti reglum til þess að styrkirnir gætu nýst fyrir fleiri aldurshópa. Æskilegt þótti að bæjaryfirvöld íhugi þetta.

    Einnig var rætt um hvort hægt væri að skilyrða styrki til félagasamtaka í bæjarfélaginu á þann veg að
    gegn móttöku styrkja gæfu þessi félög afslátt til eldra fólks á félagsgjöldum. Í þessu sambandi var nefndur Golfklúbburinn - GN og sérstaklega bent á að eldri borgarar gætu haft áhuga á að sækja væntanlega púttaðstöðu við Eiðistorg fyrir ofan Hagkaup. Því er beint til bæjarstjórnar að þetta verði athugað.

    Þá hafa borist fyrirspurnir um
    hvort eldra fólk geti fengið afslátt á líkamsrækt og íþróttaiðkun.

    Fyrirspurn var um
    hvaða dreifingu fundargerðir Öldungaráðs fái og var upplýst að þær fari fyrir bæjarstjórn og séu lagðar fram til kynningar í fjölskyldunefnd.

    Loks var spurt hvort allar
    hugmyndir af íbúaþinginu séu til á skrá. Upplýst var að þær séu til flokkaðar í exelskjali sem verður sent Formanni félags eldri borgara á Seltjarnarnesi og öðrum í ráðinu svo fylgjast megi með framkvæmd þeirra. Benti Magnús á að æskilegt væri að meta hverjar sé rétt að setja í forgang og hverjar kunni að vera óframkvæmanlegar eða heyra öðrum til en bæjaryfirvöldum.
  4. Önnur mál. Rætt um að fá kynningu frá Janusi Guðlaugssyni á rannsókn á líkams- og heilsurækt eldri aldurshópa, sem hann hefur unnið að, helst ef hægt væri á næsta fundi.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið.

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?