Áttundi fundur Öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar (ÖS) var haldinn á bæjarskrifstofunum að Austurströnd 2 hinn 7. desember 2017 kl. 14:30 til 15:50.
Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Birgir Vigfússon, Hildigunnar Gunnarsdóttir, Magnús Oddsson og Þóra Einarsdóttir. Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri bæjarins fundinn og var fundarritari. Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri var á fundinum undir 1. lið.
- Álagning fasteignagjalda og kjör eldri borgara á Seltjarnarnesi. Gunnar Lúðvíksson kynnti meðaltekjur íbúa í bæjarfélaginu eftir aldri, greint niður á aldurshópa. Kynnti afsláttartöflu af fasteignaskatti m.v. álagningu þeirra 2018. Sýndi yfirlit yfir fjölda þeirra sem fá afslátt eftir aldurshópum og upphæðum. Fasteignaskattar eru áætlaðir tæpar 208 milljónir á næsta ári (eru um 202 milljónir skv.áætlun yfirstandandi árs) og afslættir áætlaðir um 28 milljónir. Gunnar kynnti samanburð á milli stærri sveitarfélaga á fasteignasköttum og þann mikla mismun sem er á fasteignasköttum á atvinnuhúsnæði eftir umfangi þess í sveitarfélögunum. Óskar Öldungaráð eftir að fá upplýsingar um skiptingu afsláttar á ellilífeyrisþega eftir því hve mikinn afslátt þeir fá, og fjölda þeirra í hverjum afsláttarflokki, 100%, 75%, 50% og 25%. Ákvörðun bæjarstjórnar um afslátt er pólitísk ákvörðun en byggir ekki á breytingum á vísitölum. Gunnar upplýsti að til að mæta umtalsverðri hækkun fasteignamats milli áranna 2017 og 2018 hafi bæjarstórn ákveðið að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts úr 0,2 í 0,175. Jafnframt verður vatnsskattur lækkaður á komandi ári.
- Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar – mál sem varða ellilífeyrisþega. Snorri fór yfir þau atriði í stefnuyfirlýsingunni sem varða eldri borgara sérstaklega. Uppbygging hjúkrunarheimila og hækkun frítekjumarks aldraðra frá næstu áramótum eru þeir þættir sem vega þyngst.
- Hjólreiðastígar umhverfis Seltjarnarnes. Öldungaráð telur varhugavert að lagður verði sérstakur hjólastígur um Kotagranda vegna slysahættu sem kann að skapast af því og leggur áherslu á að hjólreiðafólk taki almennt meira tillit til gangandi fólks. ÖS beinir til bæjaryfirvalda að kannað verði hvernig best er að koma því á framfæri til hjólreiðafólks.
Fundi slitið 15:50.
Snorri Aðalsteinsson