Fara í efni

Öldungaráð

18. september 2017

Sjöundi fundur Öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar (ÖS) var haldinn á bæjarskrifstofunum að Austurströnd 2 hinn 18. september 2017 kl. 15:00 til 16:25.

Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Birgir Vigfússon, Hildigunnar Gunnarsdóttir, Magnús Oddsson og Þóra Einarsdóttir. Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri bæjarins fundinn og var fundarritari.

  1. Fasteignagjöld og tengd gjöld. Magnús Oddsson greindi frá umræðum á stjórnarfundi í Félagi eldri borgara á Seltjarnarnesi (FebSel) þar sem fyrir lágu upplýsingar er fram komu við umfjöllun málsins í ÖS.
    Miklar hækkanir á fasteignamati munu hafa tilsvarandi áhrif á fasteignagjöld nema álagningarprósenta lækki.
    FebSel bendir á að fasteignagjöld hjá Vestmannaeyjabæ falli alveg niður hjá 70 ára og eldri skv. sérstakri samþykkt sem gerð er í bæjarstjórn ár hvert utan við hinar almennu reglur sem gilda um hlunnindi eldri borgara á þessu sviði.
    Þá óskar FebSel upplýsinga um hvort tekjuviðmið í reglum Seltjarnarnesbæjar um afslátt eldri borgara af fasteignaskatti fylgi einhverri vísitölu og þá hverri.
    Einnig bendir félagið á að lækkun hér í bæ nær einungis til fasteignagjalda og fráveitugjalda en ekki vatnsskatts og sorphirðugjalda. Óskaði félagið upplýsinga um hve margir eldri borgarar njóta afsláttar hér í bæjarfélaginu (fjölda eigna og einstaklinga). Ennfremur hvort hlutfall afsláttarins af heildarfasteignagjöldum aldraðra hafi hækkað eða lækkað. Sérstaklega í ljósi þeirra upplýsinga sem komu fram á fundinum að heildarupphæð afsláttar hefur lítið breyst í krónum talið sl. þrjú ár.
    Þá hefur sú umræða komið upp innan Feb Sel hvort skoðaðar hafi verið aðrar leiðir til að létta byrði eldri borgara á umræddu sviði, svo sem ákveðinn fastur afsláttur til allra óháð tekjum og svo tekjutenging þar ofan á? Slíkt hefur verið reynt á einhverjum tíma á Akureyri t.d.
    Ábending MO í lokin var að í öllum samþykktum bæjarins er talað um elli- og örorkulífeyrisþega en eftir nýlega breytingu á lögum almannatrygginga er nokkur fjöldi 67 ára og eldri sem fær engan „ellilífeyri“og fellur því strangt tekið utan skilgreiningarinnar. Breyta ætti samþykktum til samræmis við þessa nýju stöðu og tala um 67 ára og eldri.
    Óskað er nánari upplýsinga varðandi framangreind atriði hið allra fyrsta og eigi síðar en á næsta fundi ráðsins.

    SA lagði fram yfirlit frá Gunnari Lúðvíkssyni fjármálastjóra bæjarins um fjölda þeirra sem fá lækkun fasteignagjalda, flokkaða eftir aldri, og heildarupphæð sem lækkunin nemur á þessu ári. Eru þær upplýsingar sem hér segir:
    Fjöldi þeirra er fá lækkun fasteignagjalda
    ÖS tekur undir áherslu FebSel á að álagningarprósenta fasteignagjalda í bæjarfélaginu lækki með hliðsjón af nýjustu hækkun fasteignamats og á þann hátt verði komið í veg fyrir að þessi gjöld íþyngi bæjarbúum meira en verið hefur. Einnig áréttar ÖS þau tilmæli sín til bæjaryfirvalda að tekið verði fyllsta tillit til aðstæðna eldri borgara og gjöldum á þá stillt í það hóf sem frekast er unnt. – Álögur á eldri borgara í okkar vel stæða bæjarfélagi verði þannig aldrei þungbærari en best þekkist í öðrum bæjarfélögum.
  2. Rafræn upplýsingagjöf til eldri borgara á Seltjarnarnesi. MO gerði grein fyrir málinu en það hefur verið rætt í FebSel. Fólk óskar nánari upplýsinga um ýmis efni sem snerta eldri borgara en nú eru útundan í upplýsingagjöf. Um er að ræða atriði sem ekki er að finna á heimasíðu bæjarins. FebSel hefur til að bæta úr þessu óskað eftir sérstöku horni á heimasíðunni og mun væntanlega fá það. Þar verða þá möguleikar á fjölþættari upplýsingagjöf. Félagið hefur fundað með skjalastjóra bæjarins um málið.
    ÖS leggur áherslu á að upplýsingagjöf til eldra fólks í bænum um hagsmunamál þess og önnur efni sem því er gagnlegt að þekkja verði jafnan sem ítarlegust og kappkostað verði að nýta rafræn tækni svo sem frekast er hægt í því skyni.
  3. Þjónusta Seltjarnarnesbæjar við eldra fólk. SA kynnti sundurliðaða greiningu á rekstri félagsþjónustunnar og hvaða fjármunum er sérstaklega varið til þjónustu við eldra fólk á árinu 2016. Upplýsti einnig um fjölda notenda á ýmsum þjónustuþáttum. Helstu upplýsingar sem fram komu eru þessar:
    Sundurliðun greining á rekstri félagsþjónustu
  4.  Önnur mál:
  1. Atvinnuþátttaka eldra fólks. Haldið var áfram umræðum um þetta mál sem telja verður meðal mikilvægustu hagsmunamála eldri borgara um þessar mundir. Í framhaldi ályktunar ráðsins á 5. fundi þann 29.03.2017 stóðu fulltrúar einróma að eftirfarandi nýrri ályktun:

  2. ÖS telur eðlilegt og brýnt að atvinnuþátttaka eldra fólks hafi ekki önnur áhrif en þau að það greiði skatt af launum sínum líkt og aðrir. Afnema eigi allar skerðingar lífeyrisgreiðslna frá Tryggingastofnun ríkisins og gera eldra fólki þannig kleyft án fjárhagslegs skaða að stunda atvinnu svo lengi sem það óskar eftir og hefur heilsu til. Margt eldra fólk býr enn við svo bág kjör að ÖS hvetur stjórnvöld og stjórnmálaflokka eindregið til að sameinast um úrbætur hið allra fyrsta.

  3. Heilsuefling eldra fólks. Spurst var fyrir um verkefni Janusar Guðlaugssonar varðandi heilsueflingu eldra fólks og hvort hægt sé að fá kynningu á því í ÖS.

  4. SA mun kanna það.

  5. Erindi til Öldungaráðs. MO vakti athygli á því að ÖS berist mjög fá erindi til umfjöllunar og umsagnar.

    Óskaði MO eftir að kannað yrði hvort ráðið gæti ekki orðið virkara í stefnumótun og ákvörðunum. Tóku aðrir ráðsfulltrúar undir þetta.

Fundi slitið 16:25.

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?