Fara í efni

Öldungaráð

28. nóvember 2016

Fjórði fundur Öldungaráðs Seltjarnarnesbæjar var haldinn á bæjarskrifstofunum að Austurströnd 2 hinn 28. nóvember 2016 kl. 15:00 til 17:00.

Mættir: Ólafur Egilsson formaður, Magnús Oddsson, Hildigunnur Gunnarsdóttir, Birgir Vigfússon. Þóra Einarsdóttir var erlendis.

Auk þess sat Snorri Aðalsteinsson félagsmálastjóri bæjarins fundinn og ritaði fundargerð.

  1. Skipulagsmál
    1.a Umsögn um tillögu að forsögn/skipulagslýsingu varðandi deilskipulag nýs miðbæjar.
    Bæjarstjóri hefur óskað umsagnar nefnda bæjarins og Öldungaráðsins um tillögu vinnuhóps sem unnið hefur að málinu
    Rætt var um ýmsa þætti tillögunnar og voru ráðsfulltrúar sammála um eftirfarandi umsögn:

    Öldungaráð Seltjarnarnesbæjar leggur áherslu á að frekari uppbygging miðbæjarsvæðis Seltjarnarness taki mið af þeirri byggð sem fyrir er og sitji þarfir núverandi bæjarbúa og hagsmunir þeirra í fyrirrúmi, m.a. verði forðast að skerða útsýni og skilyrði sköpuð til ennþá fjölþættari verslunar og þjónustu á Eiðistorgi, eða þar á skipulagsvæðinu sem best þykir henta.

    Öldungaráð bendir á að þétting byggðar í nærliggjandi hverfum Reykjavíkur, og þar með vaxandi umferð á helstu umferðaræðum Seltirninga til annarra hluta höfðuborgarsvæðisins, setji fjölgun íbúa og byggingarmagni í bæjarfélaginu takmörk.

    Ráðið leggur áherslu á að þess verði ávallt gætt til hins ýtrasta að aukin umferð skerði ekki öryggi eða torveldi umfram brýnustu nauðsyn för eldri borgara né annarra bæjarbúa um miðbæjarsvæðið.

    Ef rétt þykir að færa leikskóla bæjarins frá mestu umferðargötu bæjarins er bent á svæðið í jaðri Valhúsahæðar ofan sk. Plútóbrekku þar sem eru einkar góð skilyrði til útivstar og ekki gætir loftmengunar frá umferð.

    1.b
    Umsögn um skýrslu nefndar um stefnumörkun í ferðaþjónustu á Seltjarnarnesi (júlí 2016).
    Bæjarstjóri hefur óskað umsagnar nefnda bæjarins og Öldungaráðsins um skýrsluna.
    Ráðsfulltrúar fjölluðu ítarlega um skýrsluna og voru ásáttir um vekja athygli á eftirfarandi atriðum í umsögn sinni:

    Öldungaráð Seltjarnarnesbæjar styður áform um að Seltjarnarnesbær setji sér stefnu í ferðamálum. Þar verði m.a. samræmdar þær ákvarðanir sem bæjaryfirvöld hafa þegar tekið varðandi ferðamál og settur rammi um þá starfsemi á þessu sviði sem eðlileg þykir í bæjarfélaginu.
    Meðal annars þarf að taka afstöðu til þess hvort vera skuli tjaldstæði í bæjarfélaginu og/eða annars konar gistaðstaða.
    Einnig er bent á að samfara skilgreiningu á seglum, þ.e. því í bæjarlandinu sem aðdráttarafl hefur fyrir ferðafólk, þurfi að skoða hvaða markhópa geti verið um að ræða. Þá er mikilvægt að samhliða stefnumótun verði unnin markvís og raunhæf aðgerðaáætlun.
    Leitast verði við að gefa bænum í hvívetna sem menningarlegast yfirbragð, m.a. með uppsetningu höggmynda við gönguleiðir á Valhúsahæð.
    Lögð verði áhersla á að styðja við atvinnustarfsemi í bænum sem felur í sér að aukinn fjöldi ferðamanna leiði ekki einasta til átroðnings heldur skapi tekjur sem geti m.a. staðið undir nauðsynlegum og æskilegum framkvæmdum er afstýri óþægindum og veiti ferðamönnum aukna ánægju af komu í bæjarfélagið.
    Ráðið leggur áherslu á að afstýra þurfi því að vaxandi straumur ferðamanna verði til að rýra lífsgæði eldri borgara og annarra íbúa bæjarins.
  2. Kjaramál eldri borgara
    Þröng kjör margra eldri borgara og brýn nauðsyn skjótra og markvísra aðgerða til viðunandi úrbóta voru ítarlega rædd. Samþykkti ráðið einróma eftirfarandi ályktun:

    Öldungaráð Seltjarnarnesbæjar fagnar þeim áföngum til bóta á kjörum ellilífeyrisþega sem felast í nýjum almannatryggingalögum og ákvörðun um hækkun lífeyris í 300 þúsund krónur. Um leið vill ráðið beina því til bæjarstjórnar hve mikilvægt það er, bæði á vettvangi bæjarins og landsvísu, að haldið verði áfram að bæta kjör eldri borgara og annarra sem verst eru settir í þjóðfélaginu.
    Meðal þess sem vinna þarf að er að eldri borgarar njóti lífeyris almannatrygginga án skerðinga af völdum greiðslna úr lífeyrissjóðum sínum eða vegna atvinnutekna, þannig að eldri borgarar séu örvaðir til en ekki lattir frá að starfa áfram eftir getu, enda varðar slíkt bæði heill þeirra og þjóðfélagsins.
  3. Önnur mál
    Rætt var um tímasetningu reglubundinna funda Öldungaráðs á árinu 2017. Ákveðið var að stefna að eftirfarandi fundardögum: 27. febrúar, 29. maí, 4. september og 27. nóvember, sem allt eru mánudagar, og hefjist fundirnir kl. 15 á venjulegum stað.
    Þóra Einarsdóttir var fjarverandi erlendis en hefur lýst sig samþykka ofangreindum umsögnum og ályktun.

Fleira ekki gert.

Fundi slitið.

Snorri Aðalsteinsson

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?