58. fundur menningarnefndar haldinn fimmtudaginn 14. október 2004 kl. 17:20-19:00 að Austurströnd 2.
Fundarritari: Pálína Magnúsdóttir
Fundarmenn: Sólveig Pálsdóttir, Bjarki Harðarson, , Bjarni Dagur Jónsson, Arnþór Helgason, Jakob Þór Einarsson
1. Fjárhagsáætlun.
Lögð fram drög að fjárhagsáætlun 2004 og þau lögð fram til samþykktar. Samþykkt með 4 atkvæðum af fimm. Arnþór Helgason sat hjá og sagði fram eftirfarandi bókun:
Undirritaður situr hjá vegna afgreiðslu fjárhagsáætlunar af eftirgreindum ástæðum:
Með tölvupósti dags. 13. okt. 2004 óskaði ég eftir gögnum um fjárhagsáætlun á tölvutæku sniði en mér hafði borist skimað ljósrit sem var ekki fullnægjandi. Tafir urðu á afgreiðslu gagna vegna neitunar bæjarritara sem e.t.v. hefur stafað af misskilningi. Kl. 14:10 hinn 15. okt., sama dag og fundur menningarnefndar var haldinn, barst mér heildaráætlun Seltjarnarnesbæjar í tölvupósti og var óvinnandi vegur fyrir mig að vinsa úr það sem snerti mennningarnefnd. Óskaði ég því strax eftir þeim gögnum. Þau bárust ekki fyrr en kl. 16:15 og var það um seinan.
Grunnreglur Sameinuðu þjóðanna fjalla um réttindi fatlaðra. Reglurnar hafa verið kynntar á Alþingi og til þeirra hefur verið vitnað í dómum Hæstaréttar, samanber dóm frá 19. desember 2000, mál Öryrkjabandalags Íslands gegn Tryggingastofnun ríkisins. Í 5. reglu er fjallað um aðgengi. Formálinn hljómar svo:
"Aðildarríkjunum ber að viðurkenna almennt mikilvægi aðgengis fyrir jöfnun tækifæra á öllum sviðum samfélagsins. Fyrir einstaklinga sem eru fatlaðir á einn eða annan hátt ber aðildarríkjum að (a) leggja fram aðgerðaáætlanir um gott aðgengi í umhverfi fatlaðra; og (b) gera ráðstafanir til þess að tryggja aðgang að upplýsingum og samskiptum."
Í 6. tölulið segir:
"Aðildarríkjunum ber að móta áætlanir sem miða að því að gera upplýsingaþjónustu og gögn aðgengileg mismunandi hópum fatlaðra. Nýta ber blindraletur, hljóðupptökur, leturstækkun og aðra viðeigandi tækni svo blindir og sjónskertir hafi aðgang að rituðum upplýsingum og gögnum. Einnig ber að nýta viðeigandi tækni til að heyrnarskertir og þeir sem eiga í skilningserfiðleikum hafi aðgang að upplýsingum í töluðu máli."
Síðan reglur þessar voru samdar hefur tækni fleygt mjög fram og skipa nú tölvur æ ríkari sess í aðgengi fatlaðra að upplýsingum. Til þess að fatlaðir einstaklingar geti tekið þátt í nútíma samfélagi með lýðræðislegum hætti þurfa sveitarfélögin að móta sér ákveðna stefnu í aðgengi að upplýsingum.
Minnt skal á frumkvæði Seltjarnarness í aðgengismálum á 9. áratug síðustu aldar. Undirritaður leggur til að bæjarstjórn hugi að setningu reglna um aðgengi að upplýsingum og verði Seltjarnarnes þannig öðrum sveitarfélögum til fyrirmyndar.
Arnþór Helgason (sign)
2. Menningarhátíð. Rætt um menningarhátíð sem haldin verður næsta vor. Ýmsar hugmyndir ræddar. Formanni falið að vinna úr fyrstu hugmyndum.
3. Önnur mál.
a) Auglýst verður eftir bæjarlistamanni 2005 í lok mánaðarins og í næstu Nesfréttum. Frestur til að skila inn umsóknum verður 25. nóvember.
b) Útilistaverk. Rætt um útilistaverk og staðsetningu þess.
c) Formaður kynnti opinn dag í Félagsheimili Seltjarnarness þar sem félagasamtök kynna sig. Sp. hvort og hvernig menningarnefnd komi að þessum degi.
Fundi slitið 18:50
Sólveig Pálsdóttir (sign)
Bjarki Harðarson (sign)
Bjarni Dagur Jónsson (sign)
Arnþór Helgason (sign)
Jakob Þór Einarsson (sign)