Mættir voru: Sigrún Edda Jónsdóttir, Hildur Jónsdóttir, Ingveldur Viggósdóttir, Jón Jónsson og Arnþór Helgason. Auk þeirra sat Pálína Magnúsdóttir fundinn.
Dagskrá fundarins: 1) Bæjarlistamaður Seltjarnarness.
2) Leiga á listaverki.
3) Önnur mál.
Formaður setti fund kl. 17.15 og var strax gengið til dagskrár.
1. Átta umsóknir bárust nefndinni að þessu sinni og fylgdu þeim ýmis gögn, sem nefndarmenn kynntu sér samviskusamlega en tóku ekki endanlega ákvörðun á þessum fundi. Ákveðið að taka endanlega afstöðu á næsta fundi nefndarinnar.
2. Varðandi listaverkið á horni Lindarbrautar/Suðurstrandar þá er listamaðurinn fús að selja okkur verkið á hagstæðu verði og á góðum kjörum. Staðurinn, sem verkið stendur á er ætlaður fyrir verk, sem ætluð eru til sýnis skamman tíma í senn og skipt væri um verk á eins og hálfs árs fresti. Rætt var um nýjan stað fyrir verkið ef af kaupum verður.
3. Önnur mál:
a. Lagt var fram bréf frá Sambandi Íslenskra Myndlistarmanna þar sem þeir kynna skoðun sína á samvinnu sveitarfélaga um sín mál.
b. Rætt um nauðsyn þess að kaupa sýningarskáp fyrir uppstoppaðan örn, sem keyptur var fyrir Náttúrugripasafn Seltjarnarness. Samþykkt að festa kaup á einum slíkum. Náttúrugripasafninu var boðin til kaups eyrugla og var samþykkt að kaupa hana fyrir kr. 30.000.
c. Pálína Magnúsdóttir tilkynnti fundinum að Helga Valgerður Ísaksdóttir ein af starfskonum Bókasafnsins um langan tíma, hefði hætt störfum. Var henni færð gjöf frá Menningarnefnd og bókasafni. Einnig var minnst á samvinnu bókasafns við Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla um skráningu og plöstun bóka í skólabókasöfnunum. Pálína lagði fram drög að þjónustusamningi milli grunnskólans og bókasafnsins um að bókasafnið tæki að sér skráningu, flokkun og plöstun fyrir ákveðið gjald. Menningarnefndin samþykkir þessi drög og fagnar því að sérþjónusta á þessu sviði sé komin í hendur bókasafnsins og telur að þessu fylgi mikil hagræðing.
d. Myndband um náttúrufar á Seltjarnarnesi:
Farið er að texta myndbandið. Um tónlist á bandinu var bent á að nota lag Bjarna Guðmundssonar blaðafulltrúa við ljóð Þórbergs Þórðarsonar “Seltjarnarnesið er lítið og lágt”. Jóhann Óli hefur samið drög að texta á bandið. Talað var um að fá Stefán Bergmann, dósent, til þess að líta á myndbandið.
e. Hildur Jónsdóttir tjáði fundinum að hún hefði leitað eftir frekari upplýsingum vegna beiðni frá Þýskalandi um tónleikahald hér í bæ en ekkert svar fengið.
Næsti fundur boðaður á sama stað 11. september 2001 kl. 17.00.
Fleira var ekki gert og fundi slitið kl. 18.55.
Jón Jónsson, ritari nefndarinnar.
(sign)