Fara í efni

Menningarnefnd

70. fundur 28. mars 2006

70. fundur menningarnefndar þriðjudaginn 28. mars 2006 kl. 17:10-19:00 á bæjarskrifstofunum Austurströnd 2.

Fundarstjóri: Sólveig Pálsdóttir formaður

Fundarritari: Pálína Magnúsdóttir

Mættir: Sólveig Pálsdóttir, Bjarki Harðarson, Auður Hafsteinsdóttir, Arnþór Helgason og Jakob Þór Einarsson. Bjarni Dagur Jónsson boðaði forföll.

Dagskrá:

1.       Styrkbeiðni frá Leiklistarfélagi Seltjarnarness
Málsnúmer: 2006030070

2.       Styrkbeiðni v/uppfærslu Lúðrasveitarinnar á “The Commitment”
Málsnúmer: 2006030044

3.       Mótun heildstæðrar safnastefnu

4.       Önnur mál

 1)       Styrkbeiðni frá Leiklistarfélagi Seltjarnarness
Málsnúmer: 2006030070

Leiklistarfélag Seltjarnarness vinnur að uppsetningu leikritsins ,,Litla Kláus og Stóra Kláus” undir leikstjórn Bjarna Ingvarssonar.
Félagið óskar eftir styrk frá Seltjarnanesbæ við uppsetningu verksins.
Samþykkt að veita þeim styrk að upphæð 200.000 krónur.

2)       Styrkbeiðni v/uppfærslu Lúðrasveitarinnar á “The Commitment”
Málsnúmer: 2006030044

Tónlistarskóli Seltjarnarness er í samvinnu við elstu meðlimi lúðrasveitarinnar að æfa söngleikinn ,,The Commitments” undir stjórn leikaranna Atla Þórs Albertssonar og Bryndísar Ásmundsdóttur. Um leikmynd og grafíska hönnun sér Hannes Páll Pálsson og Kári H. Einarsson æfir og stjórnar hljómsveitinni. Óskað er eftir styrk til verkefnisins.
Samþykkt er að veita 100.000 króna styrk til verkefnisins.,
Menningarnefnd telur eðlilegt að í framtíðinni verði slík verkefni á fjárhagsáætlun viðkomandi stofnunar.

3)       Mótun heildstæðrar safnastefnu.
Í bókun bæjarstjórnar frá 18. janúar var samþykkt að fela menningarnefnd að móta tillögu að heildstæðri safnastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ.
Menningarnefnd leggur til að unnin verði menningarstefna fyrir Seltjarnarnesbæ og verði heildstæð safnastefna hluti hennar.

Greinargerð:
Í fundargerð frá 68 fundi menningarnefndar 2.12.2005 segir í samhljóða bókun: ,,Menningarnefnd lýsir áhuga sínum á tillögum Jóns Ólafs Ísbergs. Þær gefa tilefni til að hugað verði að mótun heildstæðrar safnastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ”.  Á fundi bæjarstjórnar 18.01.2006 var undir lið 16 tekin til afgreiðslu tillaga Neslistans samkvæmt 9. lið 628 fundar bæjarstjórnar um ,,mótun heildstæðrar safnastefnu fyrir Seltjarnarnesbæ”. Tillagan var samþykkt einróma í bæjarstjórn og vísað til menningarnefndar.

Því miður urðu þau mistök að bókun menningarnefndar var ekki nógu ýtarleg eða þá að málið gekk hraðar fyrir sig en menningarnefnd hafði gert ráð fyrir. Menningarnefnd hefur á fundum sínum eingöngu rætt um safnastefnu sem hluta af heildstæðri menningarstefnu sem þörf er á að vinna fyrir Seltjarnarnesbæ. Bókunin á 68. fundi var eingöngu útfrá þeim hugmyndum sem Jón Ólafur Ísberg sagnfræðingur sendi nefndinni til skoðunar og vörðuðu framtíð Nesstofusafns. 

Samþykkt bæjarstjórnar byggir síðan á bókun menningarnefndar.

Málið var til umfjöllunar á 70. fundi menningarnefndar þann 28.03. 2006. Var nefndin ennþá sammála um að unnið skuli að heildar menningarstefnu fyrir Seltjarnarnesbæ sem m.a. skuli innihalda langtíma stefnumótun í safnamálum bæjarins. Þessi leið hefur verið farin í þeim sveitafélögum sem þegar hafa mótað sér stefnu í þessum málum eða eru nú að vinna að henni.

Nefndin telur afar mikilvægt fyrir menningarstarf á Seltjarnarnesi að til verði leiðarljós í menningarmálum til að vinna eftir. Menningarstefnu þarf að vinna í samráði við marga aðila. Stefnan þarf að innihalda marga þætti s.s. sérstöðu Seltjarnarness, varðveislu og kynningu muna og minja, metnaðarfulla starfssemi safna, markmið í listrænu uppeldi barna og unglinga, samþættingu í menningarstarfi stofnana og eflingu list-og verkgreina í skólum bæjarins svo eitthvað sé talið.  

Það er mikilvægt að vel takist til við fyrstu mótun menningarstefnu. Bæjarstjórn óskar eftir að tillögur liggi fyrir í árslok 2006. Menningarnefnd telur þann tíma of skamman af tveimur ástæðum: 1) Kosningar fara nú í hönd og mun því ný menningarnefnd taka til starfa í júní nk. 2) Vegna mistaka barst menningarnefnd ekki samþykkt bæjarstjórnar fyrr en 7.mars og málið því ekki  tekið fyrir fyrr en á fundi menningarnefndar 28. mars s.l.

Þá vill menningarnefnd nú í lok kjörtímabils vekja athygli á hve takmörkuðu fjármagni er varið til menningarmála á Seltjarnarnesi. Bæjarstjórn hefur í orði stutt vel við starf menningarnefndar á líðandi kjörtímabili og bæjarstjóri sýnt starfi menningarnefndar mikinn velvilja. Menningarnefnd þakkar fyrir það. Einnig hefur 1 milljón króna verið úthlutað til menningarhátíðar í þau tvö skipti sem hún hefur verið haldin.  Er það vel en betur má ef duga skal.

Það er einlæg von núverandi menningarnefndar að á nýju kjörtímabili verði menningarmálum og framlögum til þeirra gert hærra undir höfði en verið hefur til þessa. Fráfarandi menningarnefnd beinir þeim tilmælum til nýrrar bæjarstjórnar að kynna sér vel þátt menningar í samfélagi okkar og mikilvægi þess að virkja og ýta undir sköpunarkraft barna, almennings og listamanna.

Þá vill menningarnefnd vekja athygli á að hjá Seltjarnarnesbæ er ekki starfandi menningarfulltrúi líkt og hjá flestum öðrum sjálfstæðum sveitafélögum. 

Sólveig Pálsdóttir (sign)
Bjarki Harðarson (sign)
Auður Hafsteinsdóttir (sign)

Arnþór Helgason (sign)

Jakob Þór Einarsson (sign)

4)       Önnur mál

a) Jónsmessuganga.
Hugmyndir um Jónsmessugöngu ræddar.

Sólveig Pálsdóttir (sign)
Bjarki Harðarson (sign)
Auður Hafsteinsdóttir (sign)

Arnþór Helgason (sign)

Jakob Þór Einarsson (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?