158. fundur Menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar haldinn í fundarsal á Bæjarskrifstofu Seltjarnarness, þriðjudaginn 30. maí 2023 kl. 08:30
Mættir: Þórdís Sigurðardóttir formaður, Inga Þóra Pálsdóttir, Þröstur Þór Guðmundsson, Stefán Árni Gylfason og Eva Rún Guðmundsdóttir
Fundargerð ritaði: María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri Þjónustu- og samskiptasviðs.
Dagskrá:
1. 2023050235 – 17. júní 2023
Sviðsstjóri kynnti fyrirhugaða dagskrá á vegum Seltjarnarnesbæjar á 17. júní en gert er ráð fyrir því að hátíðarhöldin fari fram með hefðbundnum hætti á Seltjarnarnesi m.a. með skrúðgöngu og dagskrá í Bakkagarði. Óvissa varðandi boðuð verkföll getur þó sett strik í reikninginn.
Menningarnefnd lýsti yfir ánægju með dagskrá 17. júní og telur rétt að halda áfram undirbúningi þjóðhátíðardagsins með von um að boðuð verkföll leysist farsællega.
2, 2023010141 – Starfsemi og viðburðadagskrá Bókasafns Seltjarnarness
Sviðsstjóri fór yfir fjölbreytta viðburðadagskrá safnins í vetur og það sem framundan er í sumar.
Menningarnefnd þakkar sviðsstjóra og starfsmönnum bókasafnsins fyrir að halda úti sterku og fjölbreyttu menningarlífi á bókasafninu í vetur.
3. 2023050234 – Ályktun SFA um stöðu almenningsbókasafna á Íslandi í dag
Lögð var fyrir yfirlýsing Samtaka forsvarsmanna almenningsbókasafna frá 26. maí 2023 um stöðu almenningsbókasafna á tímum niðurskurðar hjá sveitarfélögum.
Menningarnefnd telur ályktun SFA fela í sér góða samantekt á mikilvægi almenningsbókasafna og tekur undir þau sjónarmið sem þar koma fram. Bókasafn Seltjarnarness gegnir afar mikilvægu hlutverki í menningarlífi bæjarins og hefur haft góðan stuðning bæjarbúa og bæjarstjórnar. Menningarnefnd leggur til að ályktunin verði einnig lögð fyrir bæjarráð til upplýsinga.
4. 2023050233 – Afmælismynd um Seltjarnarnes í tilefni 50 ára afmælis
Kynnt tillaga Valdimars Leifssonar kvikmyndagerðarmanns að gerð myndar um mannlífið á Seltjarnarnesi þar sem eldra myndefni yrði blandað saman við nýtt.
Menningarnefnd þakkar fyrir tillöguna sem verður skoðuð nánar þegar að skipulagningu afmælisársins kemur.
5. 2023050238 – Jónsmessuganga 2023
Sviðsstjóri ræddi mögulega Jónsmessu- eða sumargöngu og tímasetningar henni tengt.
Menningarnefnd felur sviðsstjóra að skipuleggja göngu á tíma sem hentar best.
6. 2023050236 – Fjölskyldudagur í Gróttu 2023
Sviðsstjóri lagði til að fjölskyldudagur í Gróttu yrði að þessu sinni haldinn fyrstu helgina í september sem hentar best vegna flóðatöflunnar og að dagskráin yrði skipulögð með hefðbundnum hætti.
Menningarnefnd er sammála og felur sviðsstjóra að útfæra fjölskyldudaginn.
7. 2023050237 – Bæjarhátíð Seltjarnarness 2023
Sviðsstjóri ræddi mögulega bæjarhátíð í lok sumars og að aðkoma bæjarins yrði með sambærilegum hætti og undanfarin ár í samstarfi við íbúahóp á Seltjarnarnesi.
Menningarnefnd telur að bæjarhátíð 2022 hafi verið afar vel heppnuð og leggur til að svipað skipulag verði haustið 2023.
Fundi slitið kl. 10.24