Fara í efni

Menningarnefnd

01. september 2022

155. fundur Menningarnefndar Seltjarnarnesbæjar haldinn í fundarsal á Bæjarskrifstofu Seltjarnarness, fimmtudaginn 1. september 2022 kl. 16:00

Mættir: Þórdís Sigurðardóttir formaður, Inga Þóra Pálsdóttir, Þröstur Þór Guðmundsson, Stefán Árni Gylfason og Bryndís Kristjánsdóttir.

Fundargerð ritaði: María Björk Óskarsdóttir, sviðsstjóri Þjónustu- og samskiptasviðs.


Áður en gengið var til formlegrar dagskrár bauð formaður menningarnefndar nefndarmenn velkomna á þennan fyrsta fund nýrrar menningarnefndar, ræddi starf nefndarinnar og bað fundargesti um að kynna sig. Fól auk þess sviðsstjóra Þjónustu- og samskiptasviðs að kynna lauslega starfsemi sviðsins og segja frá því helsta í menningarstarfi bæjarins.


Dagskrá:

1. 2022010110 – Menningarnefnd, kosning varaformanns

Formaður gerði að tillögu sinni að Inga Þóra Pálsdóttir tæki að sér hlutverk varaformanns menningarnefndar og var það einróma samþykkt.


2. 2022030093 – 17. júní 2022

Sviðsstjóri gerði grein fyrir því hvernig til tókst með 17. júní hátíðarhöldin á Seltjarnarnesi sem voru loks haldin á hefðbundin hátt í Bakkagarði eftir 2ja ára covid hlé. Framkvæmd og dagskrá hátíðarhaldanna gekk afar vel en um stærsta einstaka viðburð bæjarins er að ræða. Hátt í 4000 gestir tóku þátt með einum eða öðrum hætti og einkenndist stemningin í Bakkagarði af gleði og góðri samveru bæjarbúa þennan dag.

Menningarnefnd telur að afar vel hafi tekist til með hátíðarhöldin í heild sinni og þakkar sviðsstjóra og starfsmönnum fyrir vel unnin störf.


3. 2022080164 – Bæjarhátíð Seltjarnarness 2022 / Fjölskyldudagur í Gróttu 2022

Sviðsstjóri upplýsti hvernig til tókst með bæjarhátíðina og fjölskyldudaginn í Gróttu sem haldin voru í blíðskaparveðri um nýliðna helgi í fyrsta sinn síðan 2019 vegna covid. Fjölmenni sótti þá viðburði sem boðið var upp á bæði af hálfu bæjarins og í samvinnu við íbúa auk þess sem fjölskyldur og vinir nutu þess að eiga samverustundir á Seltjarnarnesi.

Menningarnefnd lýsir yfir ánægju sinni með skipulag og framkvæmd bæjarhátíðarinnar og fjölskyldudagsins í Gróttu. Menningarnefndin vill sérstaklega þakka þeim íbúum sem lögðu fram krafta sína og frumkvæði við hátíðina.


4. 2022050067 – Útilistaverk bæjarlistamanns

Sviðsstjóri kynnti stöðu mála en í sumar hefur listamaðurinn unnið að frekari útfærslu og undirbúningi útilistaverksins sem málað verður á húsnæði hitaveitunnar við Gróttu.

Ný menningarnefnd lýsir ánægju sinni með fyrirhugað útilistaverk bæjarlistamanns Seltjarnarness 2022 og hlakkar til að sjá það verða að veruleika.


5. 2022050202 – Umsókn um menningarstyrk, Seltjörn hjúkrunarheimili

Menningarnefnd sér sér ekki fært að styrkja verkefnið eins og það er lagt fram en felur sviðsstjóra að aðstoða hjúkrunarheimilið Seltjörn við að efla tengsl við menningartengda starfsemi félagasamtaka og stofnana bæjarins.


6. 2022080107 – Umsókn um menningarstyrk, Bakað brauð í hamstola heimi

Menningarnefnd fagnar frumkvæði listamannanna og samþykkir að styrkja verkefnið um 100.000 kr. að því gefnu að sviðsstjóri fái og meti nánari upplýsingar um fyrirkomulag og framkvæmd viðburðarins.


7. 2022010103 – Starfsemi Bókasafns Seltjarnarness – sumar og haust 2022

Sviðsstjóri upplýsti að sumardagskrá bókasafnsins hefði gengið vel með vaxandi fjölda gesta á safninu. Daglegt starf er að komast aftur í rútínu og lagði sviðsstjóri fram fyrstu drög að viðburðadagskrá haustsins sem er í vinnslu þessa dagana.

Menningarnefnd telur dagskrá safnsins vera fjölbreytta og spennandi og hlakkar til að njóta vetrarstarfsins.


Fundi slitið kl. 18.35

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?