12. fundur Jafnréttisnefndar Seltjarnarness haldinn í Mýrarhúsaskóla eldri, þriðjudaginn 20. maí 2008 kl. 17:00 – 18:20
Mætt voru: Guðrún Brynja Vilhjálmsdóttir, Hildigunnur Gunnarsdóttir og Helgi Þórðarson. Einnig sat fundinn Snorri Aðalsteinsson.
- Rædd nýlega samþykkt jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar. Ákveðið að hefja kynningu með því að vekja athygli á henni á heimasíðu bæjarins og að gefa hana út í prentuðum kynningarbæklingi. Merki nefndarinnar verði notað í kynningunni. Snorra falið að kanna útgáfumál og stefnt að því að próförk liggi fyrir í júní / júlí. Áætluninni verði dreift í hvert hús og fyrirtæki í haust. Jafnréttisnefnd hefur hug á að vekja athygli á henni í Nesfréttum með grein.
- Rædd niðurstaða jafnréttisvogarinnar fyrir sveitarfélög sem nýlega var kynnt. Snorri kynnti samanburðarúttekt sína á nokkrum sveitarfélögum sem unnin var út frá upplýsingum jafnréttisvogarinnar. Mikill launamunur milli kynjanna í bæjarfélaginu og hlutfallslega færri leikskólarými hafa áhrif á niðurstöðuna miðað við samanburðarsveitarfélög. Snorra falið að kanna leikskólamál frekar. Rætt um að leita til Hagstofu um upplýsingar um hlutfall Seltirninga eftir kyni á vinnumarkaði.
- Framkvæmdaáætlun í jafnréttismálum. Í kjölfar nýsamþykktrar jafnréttisáætlunar Seltjarnarnesbæjar skal jafnréttisnefnd vinna framkvæmdaáætlun um hvernig leiðrétta skuli mismun á stöðu kvenna og karla innan sveitarfélagsins, sbr. 12. gr. nýlega samþykktra jafnréttislaga. Ákveðið að leita til Jafnréttisstofu um hvernig best sé að standa að slíkri áætlun. Vísbendingar um kynjamismunun koma m.a. fram í nýlegum mælingum Jafnréttisvogarinnar og geta nýst í framkvæmdaáætlun.
- Spurst fyrir um hvað líði jafnréttisáætlun grunnskóla. Ekki liggja fyrir nýjar upplýsingar en til stóð að ræða hana á starfsdegi nú í vor og ljúka vinnu við hana þá eða klára hana í haust.
- Jafnréttisviðurkenning til stofnana og fyrirtækja á Seltjarnarnesi sem veitt er á kjörtímabilinu til þess fyrirtækis eða stofnunar sem mest hefur unnið að framgangi jafnréttisáætlunarinnar og/eða sýnt jafnréttismálum sérstakan alhug í verki. Viðurkenningin verður veitt næsta vetur. Rætt um hvernig staðið verður að útnefningu og hvernig leita skal upplýsinga. Ákeðið að heyra í Jafnréttisstofu um hvort þeir hafi einhver viðmið eða staðla og kanna gátlista frá síðasta kjörtímabili.
Fleira ekki gert.
Fundi slitið 18.20
Snorri Aðalsteinsson