Fara í efni

Íþrótta- og tómstundanefnd

14. desember 2021

430.(21.) fundur Íþrótta- og tómstundanefndar Seltjarnarness, haldinn þriðjudaginn 14.desember 2021 kl. 8:15 á bæjarskrifstofunni.

Mættir voru: Guðmundur Helgi Þorsteinsson, Hákon Jónsson, Dagbjört Snjólaug Oddstóttir, Stefanía Helga Sigurðardóttir og Áslaug Ragnarsdóttir.

Ritari fundar: Haukur Geirmundsson.


1. Fjárhagsáætlanir Gróttu. Mnr. 2021110002

Formaður ÍTS upplýsti að hann hefði átt samræður við ÍSÍ um fyrirmyndarfélög til þess að athuga hvort íþróttafélög á Seltjarnarnesi uppfylltu ákvæði ÍSÍ þar af lútandi. Hann benti á mikilvægi þess fyrir Seltjarnarnes og fyrir bæjarsjóð að svo væri, enda skýrt ákvæði um að góðir stjórnunarhættir væru hafðir að leiðarljósi samkvæmt samstarfssamningi aðila.

Það er því mikið ánægjuefni að upplýsa að Golfklúbbur Ness var samþykktur sem fyrirmyndarfélag ÍSÍ þann 25.nóvember s.l. Fyrir var Grótta og deildir félagsins með slíka vottun frá ÍSÍ síðan 2016. Grótta og deildir félagsins eru í ferli hjá ÍSÍ með endurnýjun á áframhaldandi viðurkenningu sem fyrirmyndarfélag.

Þegar því ferli lýkur þá verður Seltjarnarnesbær eina sveitarfélagið á landinu þar sem öll íþróttafélög og deildir þeirra hafa hlotið gæðaviðurkenningu ÍSÍ sem fyrirmyndarfélög. Slíkt er samfélaginu á Seltjarnarnesi mikilvægt, að gæðaviðmið séu höfð að leiðarljósi í íþróttastarfinu, jafnt á afrekshliðinni sem í fjárhagslegu tilliti.

Því miður hefur ekki náðst að funda með fulltrúum íþróttafélagsins Gróttu um fjárhagsáætlanir félagsins og ljóst að það bíður nýs fundar. Í samræmi við ákvæði samstarfssamnings Gróttu og Seltjarnarnesbæjar þá sér ÍTS og íþróttafulltrúi um samskiptin fyrir hönd Seltjarnarnesbæjar. Eitt af markmiðum ÍTS er að fylgja samstarfssamningnum eftir með því að fara yfir áætlanir deilda og taka mið af hálfsársuppgjöri Gróttu.

Fjárhagsáætlanir aðalstjórnar og deilda félagsins greina skilmerkilega frá rekstrarstyrkjum Seltjarnarnesbæjar í samræmi við ákvæði samstarfssamnings. Ljóst er við yfirferð fjárhagsáætlana aðalstjórnar og deilda félagsins, að styrkir Seltjarnarnesbæjar skipta gríðarlega miklu máli fyrir íþróttastarfið á Seltjarnarnesi og framþróun þess.

Í ljósi niðurstaðna fjárhagsáætlana aðalstjórnar og deilda félagsins mælir ÍTS með að deildir skili ekki neikvæðri rekstrarniðurstöðu í fjárhagsáætlunum sínum. Ennfremur beinir ÍTS þeim tilmælum til handknattleiksdeildar félagsins að skilað sé sér áætlun fyrir meistaraflokk kvenna og sér áætlun fyrir meistaraflokk karla til að fá betri yfirsýn og til að tryggja samræmi á milli deilda.


2. Heilsuefling 65+ - Janusarverkefnið. Mnr. 2021040134.

Fyrstu niðurstöður mælinga verkefnisins kynntar. Það má segja að fyrsta þrep verkefnisins hafi gengið mjög vel þar sem allar breytur færast til betri vegar hjá báðum kynjum í hópnum eftir fyrstu tvær mælingarnar. Sérstaklega er áhugaverð lækkun á blóðþrýstingi hópsins. Almenn heilsufarsstaða hópsins er mjög góð miðað við aðra hópa í öðrum sveitarfélögum. Framundan er áætlað að kynna áframhaldið á milli jóla og nýárs eða í byrjun ársins 2022 og jafnvel að kynna helstu niðurstöður mælinganna. Einnig er vert að geta þess að mikil ánægja er meðal þátttakenda verkefnisins. ÍTS þakkar aðstandendum Heilsueflingar 65+ fyrir frábær og fagleg störf og tilhlökkun á áframhaldandi samstarfi til eflingar heilsueflandi sveitarfélags.


3. Styrkbeiðni frá aðalstjórn Gróttu. Mnr. 2021120142.

Óskað var eftir styrk til að kaupa lyftingastangir í lyftingaaðstöðu félagsins. Þar sem ekki hefur tekist að fá fulltrúa Gróttu á fund nefndarinnar og fá m.a. útskýringar á rekstrarformi aðstöðunnar, frestast þessi liður þangað til.


4. Styrkbeiðni vegna U-18 í handknattleik. Mnr. 2021120140

Samþykkt að veita Katrínu Önnu Ásmundsdóttur kr. 30 þúsund króna styrk vegna landsliðsferðar hennar til Danmerkur.


5. Kjör íþróttamanns Seltjarnarness í kvenna og karlaflokki. Mnr. 2021120141.

Áætlað er að kjörið fari fram fimmtudaginn 20.janúar 2022 ásamt viðurkenningum til landsliðsfólks og ungra og efnilegra. Þar sem félagsheimilið er lokað og ekki vitað um hvernig fjöldatakmörkunum verði háttað á þessum tíma mun viðburðurinn verða auglýstur sérstaklega þegar nær dregur.


Fundi slitið kl.9:15.

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?