Fara í efni

Bæjarstjórn

15. desember 2015

Þriðjudaginn 15. desember 2015 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar Gunnar Lúðvíksson, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

Forseti bar upp við bæjarfulltrúa að fá að taka inn fundargerð bæjarráðs nr. 21 samþykkt samhljóða.

  1. Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 ( 2017-2019) síðari umræða.

    Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2016-2019.

    Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2016-2019.

    ,,Fjárhagsáætlun 2016 var unnin með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2017-2019.

    Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4,5% frá upphafi til loka ársins 2016.

    Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2016.

    • Álagningarhlutfall útsvars verður 13,70% með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

    • Fasteignagjöld:
      A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,20% af fasteignamati
      B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati
      C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati
      b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati

    • Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,10% af fasteignamati húsa ásamt lóðarréttindum, sbr. heimild í reglugerð um vatnsveitur

    • Sorp- og urðunargjald kr. 15.650.- sorphreinsigjald kr. 7.250.-

    • Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,14% af fasteignamati

    Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2016 verða óbreyttir frá fyrra ári.

    Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.

    Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.

    Gert er ráð fyrir fjölgun íbúa árinu u.þ.b. 50.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign).

    Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir starfsárið 2016 - 2019, ásamt gjaldskrá og greinargerð, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni.

    Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2016 samhljóða.

    Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2017-2019 með fjórum atkvæðum og þrír sátu hjá.

    Bókun Neslista og Samfylkingar

    Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar styðja þá tillögu að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 sem hér liggur fyrir í trausti þess að tekið verði tillit til athugasemda minnihlutans sem lagðar voru fram á fundi bæjarstjórnar 25. nóvember síðastliðinn og fjallað var um á samráðsfundum 8. og 15. desember. Þar varð samstaða um að tryggja fjármagn til og hefjast handa við nauðsynlegar umbætur á Skólaskjólinu á næsta ári; koma á fót félags- og/eða þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara og vinna ötullega að því að festa kaup á félagslegum íbúðum í stað þeirra sem seldar hafa verið á yfirstandandi fjárhagsári.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Liður 1 í dagskrá.

    Bókun Neslista

    Það vegur þungt í stuðningi Neslistans við fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 að leikskólagjöld verða lækkuð myndarlega á næsta ári, en bæjarfulltrúi Neslista flutti tillögu um að það yrði gert á yfirstandandi ári en var ekki samþykkt þá. Það er stefna Neslistans að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Hátt fasteignaverð á Seltjarnarnesi gerir ungu fjölskyldufólki erfitt um vik að setjast að í sveitarfélaginu. Því þarf að koma með afgerandi og markvissum hætti til móts við þennan hóp og auðvelda honum búsetu í bænum, m.a. með lágum leikskólagjöldum og öðrum þjónustugjöldum vegna barna og ungmenna.

    Bæjarfulltrúi Neslista harmar að enn bólar ekki á nauðsynlegum endurbótum og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina og áréttar mikilvægi þess að þessu brýna verkefni verði fundinn farvegur sem fyrst.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Bókun meirihluta:

    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 hefur nú verið samþykkt. Þar er gert ráð fyrir að tekjur bæjarfélagsins verði tæpir 2,6 milljarðar króna og rekstrarafgangur verði 14 milljónir króna. Fjárhagsáætlun skal gefa glögga mynd af rekstri sveitarfélagsins, efnahag og breytingum á handbæru fé. Bæjarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að bæjarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.

    Fjárhagsáætlun var unnin á samráðsfundum meiri- og minnihluta og eru það vinnubrögð sem við Sjálfstæðismenn teljum farsæl fyrir bæjarfélagið. Við teljum að markmið og áherslur um forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna hafi náð fram að ganga í fjárhagsætluninni.

    Það er stefna bæjarstjórnar að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Frá og með 1. janúar 2016 lækka leikskólagjöld á Seltjarnarnesi um 25% og verða þar með þau lægstu á landinu. Lækkun leikskólagjalda um 25% frá 1. janúar er ætlað að koma til móts við barnafjölskyldur í bæjarfélaginu. Tómstundastyrkir með hverju barni 6 – 18 ára verða kr. 50.000,- og niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum, sem nú nema kr. 75.000,- verða einnig hækkaðar frá 1. janúar nk.

    Álagning fasteignagjalda í A-flokki verður 0,20% af matsverði íbúðarhúsnæðis og lóðar og álagningarprósenta útsvars verður langt undir hámarki eða 13,70%, en hámarkið er 14,52%.

    Helstu framkvæmdir á næsta ári felast í byggingu 40 rýma hjúkrunarheimilis. Einnig stendur til að endurnýja gervigrasið á knattspyrnuvelli Íþróttafélagsins Gróttu ásamt því að sinna öðrum almennum viðhaldsframkvæmdum. Endurbætur og viðhald á stofnunum bæjarins hefur gengið vel eftir. Bæjarstjórn hafa falið bæjarstjóra að ræða áfram við Reykjavíkurborg um samstarfsverkefni um byggingu frekari aðstöðu fyrir fimleikaiðkun, bæjarstjórn eru sammála um að hér er mjög þarft verkefni sem skoða á í samvinnu við borgina í þeim anda sem núverandi formaður SSH, Dagur B. Eggertsson hefur talað fyrir.

    Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Skuldastaða sveitarfélagsins er með því lægsta er gerist á landinu og komið niður í 50%. Seltjarnarnesbær hefur staðið fyrir miklum framkvæmdum í bænum, framkvæmt hefur verið fyrir rúman milljarð á liðnum fjórum árum.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)

    Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign)

    Bókun vegna 3ja ára fjárhagsáætlunar

    Liður 2 í dagskrá.

    Bókun Neslista og Samfylkingar

    Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista sitja hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar.

    Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er eingöngu verið að uppfylla lagskyldu og engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára.

    Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu. Áætlun unnin á þeim forsendum skapar mikilvæga möguleika til lýðræðislegrar þátttöku íbúa við mótun framtíðarstefnu bæjarins og ákvarðanir um áherslur og forgangsröðun verkefna.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Bókun Sjálfstæðismanna

    Í þriggja ára áætlun birtist sýn sjálfstæðismanna á hvernig starfsemi og fjármál sveitarfélagsins komi til með að þróast á næstu þremur árum út frá gefnum forsendum.

    Við gerð þriggja ára áætlunar ríkir óvssa um ýmsa þætti sem skipta verulega máli við áætlanagerð. Óvissan eykst eftir því sem lengra er skyggnst inn í framtíðina m.a. óvissa um verðlagsþróun. Því eru niðurstöður þriggja ára áætlunar ætið háðar ákveðnum óvissuatriðum. Grundvallaratriði er aftur á móti að mati Sjálfstæðismanna að vandað sé til allra vinnslu þriggja ára áætlunar til að hún komi að því gagni sem ætlast er til, útsvarstekjur, fasteignaskattur, greiðslur úr jöfnunarsjóði hefur verið áætlaðar með tilliti til fyrri ára og fjárhagsáætlunar ársins 2016. Varðandi gjöldin er laun og launatengd gjöld stærsti einstaki liðurinn.

    Við samþykkt 3ja ára fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2017-2019 skal tekið fram að niðurstaða fyrir seinni þrjú ár fjárhagsáætlunar er ekki bindandi. Tilgangur þriggja ára áætlana er að bæjarstjórn horfi til framtíðar við vinnslu hennar og setji ramma um rekstur, framkvæmdir og fjármál bæjarfélagsins með ákveðin markmið í huga. Við slíka vinnu hljóta að koma upp ýmis sjónarmið varðandi ákvarðanatöku, umfang framkvæmda, áherslur og fjárhagslega getu bæjarins út frá ýmsum sjónarmiðum.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)

    Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign)

    Til máls tóku: ÁH, ÁE, MLÓ, GAS

  2. Fundargerð 20. fundar Bæjarráðs.

    Fundargerðin sem er 8 tl. er samþykkt samhljóða.

    Fundargerð 21. fundar Bæjarráðs.

    Fundargerðin sem er 3 tl. er samþykkt samhljóða.
    Bæjarstjórn samþykkir, 3. tl. fundargerðar 21, viðauka 5 við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 105.000.000. vegna aukningar á útsvarstekjum. Vísað er til 1. málsl. 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011. Tekjur þessar skulu færðar á lið 00-010 0020 í þegar samþykktri áætlun fyrir árið 2015.
    Viðauki 5 við 3.tl. fundargerðar, samþykktur samhljóða.
    Bæjarstjórn samþykkir, 3. tl. fundargerðar 21, viðauka 6 við fjárhagsáætlun að fjárhæð kr. 80.791.356. vegna launahækkana nýrra kjarasamninga 2015. Kostnaður þessi skal greiddur af mismunandi deildum skv. fylgiskjali 1 og kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
    Viðauki 6 við 3.tl. fundargerðar, samþykktur samhljóða.
    Til máls tóku: ÁH, SEJ

  3. Fundargerð 34. Fundar Skipulags- og umferðarnefndar lögð fram, liður 1 í fundargerðinni málsnúmer 2013060016 vísað til næsta fundar bæjarstjórnar í janúar 2016.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE

  4. Fundargerð 271. fundar Skólanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: SEJ, ÁE, GAS

  5. Fundargerð 127. fundar Menningarnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  6. Fundargerðir 386. og 387. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.

    Fundargerðirnar lagðar fram.

    Til máls tóku: MÖG, GAS, MLÓ

  7. Fundargerð 261. fundar Umhverfisnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  8. Fundargerðir 395. og 396. fundar Fjölskyldunefndar.

    Fundargerðirnar lagðar fram.

  9. Fundur í samráðshópi um áfengis- og vímuvarnir.

    Fundargerðin lögð fram.

  10. Fundargerð 62. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.

    Fundargerðin lögð fram.

  11. Fundargerð 832. fundar Sambands íslenskra sveitarfélaga.

    Fundargerðin lögð fram.

    Tillögur og erindi:

  12. a) Lögð var fram umsagnarbeiðni v/áfengisveitingaleyfis í Íþróttahúsi Seltjarnarness þann 01.01.2016. Bæjarstjórn samþykkir leyfið fyrir sitt leyti.

    b) Beðið er um umsögn sveitarstjórnar um leyfi fyrir brennu á Valhúsahæð á Seltjarnarnesi þann 31.12.2015.

    Bæjarstjórn Seltjarnarness gerir ekki athugasemdir við útgáfu leyfinu.

    Samþykkt samhljóða.

    c) Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2016.

    Bæjarstjórnarfundir á árinu 2016 verða á eftirtöldum dögum.

    20. janúar, 10. og 24. febrúar, 16. og 30. mars, 13. og 27. apríl, 11. og 25. maí, 8. og 22. júní, 13. júlí, 17. ágúst, 14. og 28. september, 12. og 26. október, 9. og 23. nóvember og 14. desember.

    Samþykkt samhljóða.

    Til máls tóku: GAS, BTÁ

Fundi var slitið kl: 17:48

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?