Fara í efni

Bæjarstjórn

25. nóvember 2015

Miðvikudaginn 25. nóvember 2015 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Eva Margrét Kristinsdóttir (EMK), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar Gunnar Lúðvíksson, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.

  1. Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 ( 2017-2019) fyrri umræða.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2016 og 2017-2019.

    Bæjarstjóri lagði til að frumvarpinu verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 15. desember 2015.

    Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun.

    Bókun minnhlutans

    Tillaga að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2016 er hér lögð fram til fyrri umræðu. Við vinnslu hennar hafa sviðsstjórar kynnt verkefni einstakra sviða fyrir bæjarfulltrúum. Góðar og gagnlegar umræður hafa verið á þessum fundum um ýmsa þætti varðandi rekstur og verkefni bæjarins. Þar hafa bæjarfulltrúar haft tækifæri til að koma hugmyndum og athugasemdum á framfæri.

    Samkvæmt áætluninni stendur reksturinn í járnum en við bendum á að undanfarin ár hafa tekjur verið talsvert vanáætlaðar, sem hefur leitt til þess að rekstrarniðurstaða bæjarsjóðs hefur verið sem nemur meira en 200 milljónum á ári umfram áætlanir að meðaltali síðustu fimm ár. Af því má ætla að í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016 sé til staðar svigrúm til þess að tryggja betur ýmsa brýna þjónustu og ráðast í verkefni sem setið hafa á hakanum.

    Bæjarfulltrúar Neslista og Samfylkingar telja að eftirfarandi þættir þurfi sérstakrar skoðunar við á milli umræðna um fjárhagsáætlunina:

    Skólaskjólið

    Börnum í skólaskjólinu hefur fjölgað umtalsvert á síðustu misserum og núverandi húsnæði því í raun sprungið. Því til viðbótar hefur lengi verið bent á nauðsyn þess að skólaskjólið komist í hentugra húsnæði sem hæfi starfinu sem þar fer fram og geri mögulegt að bæta þjónustuna.

    Nú er starfandi vinnuhópur sem innan skamms mum skila tillögum um endurskoðun á fyrirkomulagi leik- og grunnskólastarfs bæjarins með það að markmiði að auka samfellu starfsins og bæta þjónustuna. Það er brýnt að hægt verði að hefjast handa sem fyrst við þær breytingar sem fyrirsjáanlegar eru og því nauðsynlegt að gera ráð fyrir kostnaði vegna þeirra í fjárhagsáætlun fyrir næsta ár.

    Félagsstarf eldri borgara

    Mikill uppgangur er í starfi eldri bæjarbúa á Seltjarnarnesi. Má þar nefna velheppnað íbúaþing um málefni eldri bæjarbúa sem haldið var 28. mars síðastliðinn og stofnun Félags eldri borgara á Seltjarnarnesi í framhaldi af því.

    Á íbúaþinginu kom skýrt fram að eldri borgarar er fjölbreyttur hópur með margvísleg áhugamál sem þarf að taka tillit til. Eldri borgurum á Seltjarnarnesi fer fjölgandi sem nauðsynlegt er að bregðast við með fjölþættum stuðningi.

    Mikilvægt er að styðja við áhuga og virkni þessa aldurshóps, m.a. með því að koma á fót félags- og/eða þjónustumiðstöð fyrir eldri borgara, eins og minnihluti bæjarstjórnar hefur ítrekað bent á.

    Við leggjum því til að gert verði ráð fyrir fjármunum í þessu skyni í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.

    Félagslegar íbúðir

    Í svörum við spurningum Samfylkingar og Neslista um félagslegt húsnæði á Seltjarnarnesi sem lagðar voru fram á fundi bæjarstjórnar 9. september 2015 kemur fram að biðlisti er eftir félagslegu húsnæði. Bærinn hefur auk þess selt félagslegar íbúðir á árinu án þess að nýjar hafi verið keyptar í staðinn.

    Við lítum því á það sem algjört forgangsmál að keyptar verði íbúðir í stað þeirra sem seldar hafa verið auk einnar til viðbótar og að gætt sé að því að stærðir þeirra sé í samræmi við þarfir þeirra sem bíða úrlausnar. Gert verði ráð fyrir þessu í fjárhagsáætlun fyrir árið 2016.

    Eva Margrét Kristinsdóttir, Samfylkingu

    Margrét Lind Ólafsdóttir, Samfylkingu

    Árni Einarsson, Neslista

    Bæjarstjórn samþykkir að vísa tillögum minnihlutans til bæjarráðs.
    Bæjarstjórn samþykkir að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2016 og 2017-2019 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 15. Desember 2015 og til frekari vinnslu í bæjarráði.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE, MLÓ

  2. Fundargerð 33. fundar Skipulags- og umferðanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tóku: ÁE, MLÓ, BTÁ

  3. Fundargerð 126. fundar Menningarnefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  4. Fundargerð 356. fundar stjórnar SORPU bs.

    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerðir 228., 229., 230. og 231. fundir stjórnar STRÆTÓ bs.

    Fundargerðirnar lagðar fram.

    Til máls tóku: SEJ

  6. Fundargerð 150. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.

    Fundargerðin lögð fram.
    Tillögur og erindi:

  7. a) Lögð var fram yfirlýsing, dags. 3. nóvember 2015 frá Björgunarsveitinni Ársæli vegna flugeldasölu frá 1. desember 2015 til 10. janúar 2016.

    Samþykkt samhljóða.

Fundi var slitið kl: 17:34

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?