Miðvikudaginn 29. apríl 2015 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri ritaði fundargerð í tölvu.
Forseti bæjarstjórnar, Bjarni Torfi Álfþórsson setti fund og stjórnaði.
-
Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014, síðari umræða.
Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Auðunn Guðjónsson, endurskoðandi Seltjarnarnesbæjar.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri ræddi ársreikning 2014 og gerði grein fyrir niðurstöðum hans.
Forseti gaf orðið laust og fór fram stutt umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
Til máls tóku: ÁE, ÁH
Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2014. Fyrir hönd bæjarstjórnar vil ég þakka öllu starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sérstakar þakkir fyrir að standa vel að rekstri bæjarfélagsins á árinu 2014 og fyrir þá miklu eljusemi og ábyrgð sem sýnd hefur verið.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi, ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011.
Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2014 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfskálamel ehf., Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness, Félagsheimili Seltjarnarness og Gjafasjóð Sigurgeirs Einarssonar.
Gert var fundarhlé til að undirrita ársreikning 2014 frá kl. 17:10
Bókun minnihlutans:
Bæjarstjórnarfundur 29. apríl 2015
Bókun vegna ársreikninga
,,Niðurstaða ársreiknings Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2014 er jákvæð og umtalsvert betri en áætlun gerði ráð fyrir, sem einkum skýrist af meiri útsvarstekjum ársins og hærra framlagi úr Jöfnunarsjóði en gert var ráð fyrir í áætlun, svo og betri innheimtu eldri útsvara. Sé litið til gjaldahliða einstakra málaflokka sést að almennt hefur gengið vel að halda fjárhagsáætlun. Það tekst einungis með aga og ábyrgð. Þessu ber að fagna.
Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 var gert ráð fyrir um 185 milljónum króna til fjárfestinga, þ.e. framkvæmda, að teknu tilliti til samþykktra viðauka. Þegar upp var staðið voru einungis nýtt um 78% af þessari fjárhæð. Það væri eðlilegt að nota ónotað svigrúm af þessari stærð innan fjárhagsáætlunar til þess að huga að og/eða hraða öðrum nauðsynlegum framkvæmdum. Það var ekki gert, sem m.a. helgast af því að ekki er unnið eftir langtíma viðhalds- og framkvæmdaáætlun og við höfum ítrekað bent á.
Seltjarnarnes býr að því að útsvarstekjur á hvern íbúa eru með því sem hæst gerist í landinu án þess að heimild til útsvars sé fullnýtt. Þá stöðu þarf að nýta til þess að bjóða íbúum og starfsfólki bæjarins upp á framúrskarandi þjónustu, umhverfi og aðstæður og taka sérstakt tillit til barnafjölskyldna, eldri borgara og þeirra sem standa höllustum fæti.
Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar
Bókun meirihlutans:
Samkvæmt sveitarstjórnarlögum nr. 138/2011 sem tóku gildi í ársbyrjun 2012 ber sveitarstjórn að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að sveitarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum samkvæmt 64. grein. Framangreindri skyldu skulu sveitarstjórnir m.a. fullnægja með því að samanlögð heildarútgjöld til rekstrar vegna A og B hluta séu á hverju ári ekki hærri en nemur samanlögðum reglulegum tekjum.
Bæjarráð leggur samkvæmt 1. mgr. 62. gr. sveitarstjórnarlaga tillögu um fjárhagsáætlun fyrir bæjarstjórn, eigi síðar en 1. nóvember ár hvert. Bæjarstjórn afgreiðir síðan fjárhagsáætlun fyrir komandi ár. Ákvörðun sem bæjarstjórn tekur skv. 62. gr. sveitarstjórnarlaga um fjárhagsáætlun næstkomandi árs er bindandi regla um allar fjárhagslegar ráðstafanir af hálfu bæjarfélagsins.
Samþykkt fjárhagsáætlun á hverju ári er stýritæki til að fylgjast með og bera saman við rauntölur. Verksviði stjórnenda einstakra sviða og stofnana er að fylgjast með því að fjárhagsáætlunum sé framfylgt og að bregðast við ef út af bregður, hvort sem frávik varða rekstur eða framkvæmdir. Mikilvægt er að lögð sé fram vönduð fjárhagsáætlunargerð og eftirlit með þróun raunkostnaðar sé mjög virkt, en það er eitt áhrifamesta stjórntæki í rekstri hvers bæjarfélags.
Óhjákvæmilegt getur verið að gera viðauka við fjárhagsáætlun innan ársins. Slíkir viðaukar á liðnu ári voru 5, samþykktir samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn.
Ársreikningur bæjarins sýnir mjög góða rekstarniðurstöðu A og B hluta á árinu. Fyrir því eru ákveðnar skýringar sem fram hafa komið í ársreikningi bæjarins. Það hefur verið stefna meirihlutans undanfarin ár að leggja fram ábyrga fjárhagsáætlun ár hvert þar sem lögð er fram tillaga að eignabreytingum, viðhaldi og þjónustu, sem gerir ekki ráð fyrir lántöku.
Meirihlutinn er stoltur af niðurstöðu rekstrarreiknings bæjarins fyrir árið 2014, hann sýnir ábyrga fjármálastjórn, gott innra eftirlit sem þakka má starfsmönnum bæjarins.
Ásgerður Halldórsdóttir (sign), Bjarni Torfi Álfþórsson (sign), Sigrún Edda Jónsdóttir (sign), Magnús Örn Guðmundsson (sign). -
Fundargerð 12. fundar Bæjarráðs.
Fundargerðin sem er 12 tl. er samþykkt samhljóða.
-
Fundargerð 23. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: ÁE, BTÁ
-
Fundargerð 268. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundur í stjórn Félagsheimilis Seltjarnarness.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS, ÁH, ÁE
-
Fundargerðir 6. og 7. eigendafundar Strætó bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.
Bókun:
Tengjum Nesið við þjónustuna
Það hefur líklegast ekki farið framhjá neinum Seltirningi að síðastliðin ár hafa flest fyrirtæki og verslanir flust í burtu frá Seltjarnarnesi. Bónus, Landsbankinn, SPRON, Hjólið, Ísbjörninn, Skari, Hlölla Bátar, Gilla Grill, Nesval, Söluturninn Eiðistorgi, Tröllavídeó, Wilsons Pizza, Pizza Höllin, Nesdekk, Aðalskoðun, 10-11, sjoppan á Austurströnd sem gaf manni alltaf svo mikið bland í poka, Málningarbúðin á Austurströnd, Blómakaffihúsið og svona mætti lengi telja.
Það nýjasta er Íslandsbanki sem flytur út á Granda núna á vormánuðum en Grandinn hefur einmitt hægt og rólega verið að þróast út í helsta þjónustusvæði Seltjarnarness enda næsti verslunarkjarninn og mörg þeirra fyrirtækja sem talin voru upp hér að ofan fluttust einmitt út á Granda.
Það er því mjög áhugavert þegar maður athugar hvað það tekur Seltirning langan tíma að taka strætó í bankann og lágvöruverslun en það eru 29-37 mínútur samkvæmt Strætó.is, aðra leiðina.
Þetta er auðvitað eitthvað sem við eigum ekki að sætta okkur við enda veikir núverandi ástand samkeppnisstöðu sveitarfélagsins hjá því unga fólki sem nú elst upp og er meðvitaðra um að nýta sér aðra samgöngumáta en einkabílinn. Þetta fyrirkomulag kemur einnig sérstaklega illa út fyrir þá hópa sem ekki hafa mikið á milli handana til að reka einkabíl og því ekki aðeins risa samgöngumál heldur einnig félagslegt.
Ég skora á fulltrúa Seltirninga í stjórn Strætó BS til að taka þetta mál upp á vettvangi stjórnar og bæta þannig þessa grunnþjónustu íbúa á Seltjarnarnesi.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Til máls tóku: GAS, SEJ, ÁH
-
Fundargerðir 57. og 58. fundar svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerð 414. fundar stjórar SSH.
Fundargerðin lögð fram.
Fundi var slitið kl. 17:28