Fara í efni

Bæjarstjórn

03. desember 2014

Miðvikudaginn 3.desember 2014 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ) og Árni Einarsson (ÁE).

Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Magnússon, setti fund og stjórnaði.

  1. Fjárhagsáætlun 2015-2018.

    Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2015-2018.

    Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2015-2018.

    ,,Fjárhagsáætlun 2015 var unnin með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Vil ég þakka gott samstarf í bæjarstjórn á liðnu ári og starfsmönnum bæjarins fyrir að gæta skilvirkni í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2016-2018.

    Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 3% frá upphafi til loka ársins 2015. Spár gera ráð fyrir 6,0% til 8% atvinnuleysi í landinu. „


    Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2015.


    1. Álagningarhlutfall útsvars verður 13,70% með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga að hafa álagningarhlutfall útsvars 13,70% á tekjur manna á árinu 2015.
    2. Fasteignagjöld:
    a. Fasteignaskattur:
    A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,20% af fasteignamati.
    B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati.
    C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati.
    b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati.
    c. Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,10% af fasteignamati húsa ásamt lóðarréttindum, sbr. heimild í reglugerð um vatnsveitur..
    d. Sorpgjald á hverja eign: Urðunargjald kr. 14.900,- Sorphreinsigjald kr. 6.900,-.
    e. Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,14% af fasteignamati.

    Gjalddagar fasteignagjalda á árinu 2015 verða óbreyttir frá fyrra ári.

    Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.

    Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.

    Ekki er gert ráð fyrir breytingum á íbúafjölda á árinu 2015

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri (sign)

    Til máls tóku: ÁE, MLÓ, ÁH, GM

    Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir starfsárið 2015 - 2018, ásamt gjaldskrá og greinargerð, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni.

    Bæjarstjórn samþykkir fjárhagsáætlun 2015-2018 með fjórum atkvæðum og þrír sátu hjá.

    Bókun Neslista:

    Bæjarfulltrúi Neslista situr hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar Seltjarnarness fyrir árið 2015. Fyrir því eru einkum tvær ástæður:

    Það er stefna Neslistans að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Hátt fasteignaverð á Seltjarnarnesi gerir ungu fjölskyldufólki erfitt um vik að setjast að í sveitarfélaginu. Því þarf að koma með afgerandi og markvissum hætti til móts við þennan hóp og auðvelda honum búsetu í bænum, m.a. með lágum leikskólagjöldum og öðrum þjónustugjöldum vegna barna og ungmenna.

    Bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu til við lokagerð fjárhagsáætlunarinnar að leikskólagjöld yrðu lækkuð um 15% frá því sem nú er. Það eru mér mikil vonbrigði að sú tillaga náði ekki fram að ganga. Ekki síst í ljósi kosningaloforðs meirihlutans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar fyrr á árinu um að lækka leikskólagjöld um 25%. Það er raunalegt að hefja kjörtímabilið á því að svíkja það loforð.

    Við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2013 var samstaða innan bæjarstjórnar um að fresta endurbótum og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina til næsta árs og nota tímann til þess að undirbúa þá framkvæmd enn betur. Það var gert. Í fjárhagsáætlun fyrir árið 2014 var, þrátt fyrir það, heldur ekki gert ráð fyrir neinum kostnaði vegna verkefnisins. Sama staða er enn í fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árið 2015 og framkvæmdir við íþróttamiðstöðina ekki á dagskrá næstu ár ef marka má þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins.

    Bæjarfulltrúi Neslista hefur lagt til með formlegum tillögum bæði í bæjarráði og bæjarstjórn að sölutekjum bæjarsjóðs vegna sölu lóðarinnar að Hrólfsskálamel 1-7 verði varið til þessa verkefnis í samræmi við tillögur sem settar eru fram í skýrslu sem lögð var fram á fundi bæjarstjórnar þann 25. september 2013. Það er miður að þessu brýna verkefni skuli enn á ný skotið á frest og neikvæð skilaboð til þess mikla fjölda sjálfboðaliða sem heldur uppi íþróttastarfinu í bænum.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Bókun Samfylkingar:

    Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar fyrir árið 2015.

    Við fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2015 var lögð fram tillaga að hálfu meirihlutans um lækkun leikskólagjalda. Það var hins vegar í engu samræmi við þau kosningaloforð sem þau gáfu sl. vor.

    Bæjarfulltrúar minnihlutans lögðu því fram tillögur við lokagerð fjárhagsáætlunar að leikskólagjöld yrðu lækkuð um 15% fyrir fjárhagsáætlun 2015. Samfylkingin leggur áherslu á að hlúð sé að barnafjölskyldum og er lækkun leikskólagjalda einn mikilvægur liður í því, en hann reynist oft stór gjaldaliður fyrir fjölskyldur og í ljósi aðstæðna á Seltjarnarnesi þar sem fastageignaverð er með því hæsta og íbúðir fyrir ungar fjölskyldur af skornum skammti þarf að að koma til móts við þennan mikilvæga hóp með lágum leikskólagjöldum og þjónstugjöldum.

    Það kom því bæjarfulltrúum Samfylkingarinnar mjög á óvart að tillaga þessi náði ekki fram að ganga ekki síst í ljósi þess að kosningaloforð meirihlutans fyrir sveitarstjórnarkosningarnar voru að lækka leikskólagjöld um 25% og koma þannig til móts við barnafjölskyldur.

    Þá er ekki gert ráð fyrir kostnaði á endurbótum og viðbyggingu við íþróttamiðstöðina í fjárhagsáætlun fyrir árið 2015 líkt og í fjárhagsáætlun síðasta árs. Þá er það heldur ekki á dagskrá á þriggja ára áætlun bæjarins og ljóst að ekkert liggur fyrir um framkvæmdir eða langtímaáætlun varðandi þetta verkefni og ekki í neinum farvegi.

    Þá hafa bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar miklar áhyggjur af uppsafnaðri viðhalds- og framkvæmdaþörf og vilja m.a. benda á að t.d. hefur enn hefur ekki verið ráðist í að ljúka við dælustöðina við Elliða sem hefur verið á fjárhagsáætlun í mörg ár svo dæmi séu tekinn og átti að ljúka árið 2013.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, Samfylking

    Margrét Lind Ólafsdóttir, Samylking

    Bókun minnihluta:

    Bókun vegna 3ja ára fjárhagsáætlunar

    Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu.

    Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er eingöngu verið að uppfylla lagskyldu og engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára.

    Bæjarfulltrúar Samfylkingar og Neslista sitja hjá við afgreiðslu þriggja ára fjárhagsáætlunar Seltjarnarness.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

    Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Bókun meirihluta:

    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2015 hefur nú verið samþykkt. Fjárhagsáætlun var unnin á samráðsfundum meiri- og minnihluta og eru það vinnubrögð sem við Sjálfstæðismenn teljum farsæl fyrir bæjarfélagið. Við teljum að markmið og áherslur um forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna hafi náð fram að ganga í fjárhagsætluninni.

    Fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar er traust og reksturinn ábyrgur. Skuldastaða sveitarfélagsins er með því lægsta er gerist á landinu. Seltjarnarnesbær hefur staðið fyrir miklum framkvæmdum í bænum, framkvæmt hefur verið fyrir rúman milljarð á liðnum fjórum árum. Mikil og ötul vinna hefur verið lögð í að koma þessari áætlun saman og hefur það verið krefjandi verkefni. Bæjarfulltrúar D-lista vilja þakka öllu því góða starfsfólki bæði á bæjarskrifstofunum sem og í stofnunum fyrir afar óeigingjarnt starf við að koma þessari áætlun saman.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Guðmundur Magnússon (sign)

    Bjarni Torfi Álfþórsson (sign) Sigrún Edda Jónsdóttir (sign)

  2. Fundargerð 7. fundar Bæjarráðs.

    Fundargerðin sem er 5 tl. er samþykkt samhljóða.
    Til máls tóku: MLÓ, ÁE
    Bókun samfylkingar:

    Bæjarfulltrúar Samfylkingarinnar lýsa yfir undrun sinni á þeirri afgreiðslu meirihlutans er varðar endurnýjun lóðarsamnings við Suðurströnd 10 án þess að gefa viðhlítandi skýringar eða haldbær rök á þessari ákvörðun sinni. Meirihlutinn hefur nú hafnað bæði í bæjarráði og bæjastjórn þá tillögu sem bæjarfulltrúi Neslista lagði fram og bæjarfulltrúar Samfylkingar studdu um að samþykkja endurnýjun undrædds lóðarleigusamnings til þriggja ára með skilyrði um óbreyttan rekstur frá því sem nú er og fyrirvara um breyttar þarfir á samningstímanum.
    Með þessari frumkvöðlastarfsemi sem Systrasamlagið stendur fyrir þar sem heilsa og vellíðan er höfð að leiðarljósi hefur verið einstök viðbót í flóru Seltjarnarness og ætti að styðja við og hlúa að. Hróður þeirra berst víða og við ættum að vera stolt af því að hafa þær í okkar nærumhverfi og styðja við þeirra starfsemi.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, Samfylking
    Margrét Lind Ólafsdóttir, Samfylking

    Bókun Neslista:
    Meirihlutinn hefur hafnað bæði í bæjarráði og bæjastjórn tillögu Neslista um að samþykkja endurnýjun undrædds lóðarleigusamnings til þriggja ára með skilyrði um óbreyttan rekstur frá því sem nú er og fyrirvara um breyttar þarfir á samningstímanum án þess að haldbær rök séu lögð fram til réttlætingar eða skýringar. Bæjarfulltrúi Neslista bendir enn á ný á að frumkvæði að nýrri atvinnustarfsemi á Seltjarnarnesi ætti að vera fagnaðarefni sem nyti fyllsta stuðnings bæjaryfirvalda og svigrúms til þess að festa sig í sessi.

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista

  3. Fundargerð 15. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.

    Málsnúmer 2013100050 Deiliskipulag Strandir.

    Bæjarstjórn samþykkir að auglýsa tillögu að deiliskipulagi sbr. 41. gr. skipulagslaga 123/2010. Auglýsa þarf lýsingu með áberandi hætti, lýsing þarf að vera til sýnis á heimasíðu sveitarfélagsins, gefa þarf kost á að koma með ábendingar til skipulagsnefndar.

    Bæjarstjórn samþykkir þessa tillögu með 5 atkvæðum gegn 2.

    Til máls tóku: ÁH, GAS, BTÁ

    Bókun Samfylkingar:

    Við leggjum til að fresta samþykkt deiluskipulags fyrir Strandir þangað til að nýtt aðalskipulag liggur fyrir.

    Deiluskipulagið sem nú liggur fyrir á að byggja á gamla aðalskipulaginu sem brátt verður úrelt. Nú stendur yfir opið og lýðræðislegt ferli við gerð nýs aðalskipulags og eru allskyns hugmyndir og tillögur á lofti. Ef ráðast þarf í endurskoðun á deiluskipulaginu eftir samþykkt nýs aðalskipulags kallar það á mikla tvívinnu og óþarfa eyðslu á almannafé.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar

    Tillaga um að tillögu Samfylkingar sé vísað frá er samþykkt með 5 atkvæðum gegn 2

    Málsnúmer 2014050020 Miðbraut 28.

    Bæjarstjórn staðfestir afgreiðslu byggingarfulltrúa.

    Fundargerðin lögð fram.

  4. Fundargerð vinnufundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerð 265. fundar Skólanefndar.

    Fundargerðin lögð fram.

  6. Fundargerð 13. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.

    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerðir 202., 203., 204. og 205. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðirnar lagðar fram.

  8. Fundargerð 141. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
    Fundargerðin lögð fram.
  9. Fundargerð 822. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.
  10. Tillögur og erindi:

    1. Lögð var fram tillaga um breytingar á reglum um fjárhagsaðstoð.
      Bæjarstjórn samþykkir samhljóða breyttar reglur um fjárhagsaðstoð sem taka gildi frá 1. janúar 2015.
      Vísað til fjölskyldunefndar.
      Til máls tóku: ÁE, ÁH

    2. Lagt var fram deiliskipulag Bollagarðar / Hofgarðar.
      Bæjarstjóri bað um að þessum lið yrði frestað til næsta fundar 17. desember nk. Þar sem villa var í gögnum.
      Bæjarstjórn samþykkir að fresta til næsta fundar 17. desember.
      Til máls tóku: ÁH, BTÁ, ÁE

    3. Lagðar voru fram athugasemdir við auglýsingu Mýrardeiliskipulags.

    4. Lögð var fram drög að þjónustustefnu bæjarins.
      Bæjarstjórn samþykkir greinargerð um þjónustu- mannlíf og umhverfi. Um leið felur úr gildi fyrri samþykkt Seltjarnarnesbæjar um fjölskyldustefnu, samþykkt samhljóða.
      Til máls tóku: ÁH, ÁE, MLÓ, GM

    5. Stefnumörkun Sambands íslenskra sveitarfélaga árin 2014 – 2018 lögð fram.

Fundi var slitið kl. 17:54

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?