Fara í efni

Bæjarstjórn

24. maí 2011

Þriðjudaginn 24. maí 2011 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM) Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus Brynjar Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Árni Einarsson (ÁE) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Ritari bæjarstjórnar, Stefán Bjarnason, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Magnússon, setti fund og stjórnaði.

Undir 1. lið fundarins mættu Auðunn Guðjónssson endurskoðandi og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri Seltjarnarnesbæjar.

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2010, seinni umræða.
    Bæjarstjóri lagði áherslu á að við framlagningu ársreikningsins til fyrri umræðu hafi endurskoðandi bæjarins einnig lagt fram og kynnt skýrslu til bæjarstjórnar um helstu þætti ársreiknings og vinnu við endurskoðun.
    Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn.
    Til máls tóku: ÁH, ÁE og SB.

    Ársreikngur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2010 var samþykktur samhljóða og undirritaður af bæjarstjórn.

    Fulltrúi Neslistans lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Ársreikningar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2010 sýna að jákvæður viðsnúningur hefur orðið frá hallarekstri bæjarins síðustu ár og komið meira jafnvægi á milli tekna og gjalda. Rekstrarniðurstaða Aðalsjóðs er þó ennþá neikvæð samkvæmt rekstrarreikningi, sem nemur 50,8 milljónum króna árið 2010 samanborið við tæplega 120 milljóna króna halla árið 2009. Framkvæmdir og fjárfestingar sem falla undir A hluta hafa verið sáralitlar, en ýmsum mikilvægum framkvæmda- og viðhaldsverkefnum sem skotið hefur verið á frest þarf að sinna á komandi árum.

    Það er því ljóst að betur má ef duga skal og gæta þarf mikils aðhalds í rekstrinum, vanda gerð fjárhagsáætlana og leggja áherslu á eftirfylgd þeirra. Um leið þarf að gæta þess að ganga ekki of nærri grunnþjónustu, s.s. í skólastarfi, æskulýðs- og íþróttastarfi og félagslegri þjónustu.“

    Árni Einarsson
    sign

    Fulltrúi Samfylkingarinnar lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar fagnar því að rekstrarniðurstaða bæjarins árið 2010 sé betri en áætlun gerði ráð fyrir. Sú niðurstaða kemur fyrst og fremst til vegna þess að skatttekjur eru hærri en áætlun gerði ráð fyrir auk þess sem bæjarsjóður fékk hærri framlög úr jöfnunarsjóði.

    Hins vegar er áhyggjuefni að þriðja árið í röð sé rekstrarniðurstaða aðalsjóðs neikvæð, að þessu sinni um tæpa 51 milljón króna.“

    Sigurþóra Bergsdóttir
    sign.

    Bæjarstjóri vill þakka samstarfið við minnihlutann á liðnu ári og óskar eftir áframhaldandi samstarfi við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2012.

    Lagðir voru fram ársreikningar ársins 2010 fyrir Hitaveitu Seltjarnarness, Vatnsveitu Seltjarnarness, Fráveitu Seltjarnarness, Hrólfsskálamel ehf, Félagslegt íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi, Dvalar- og hjúkrunarheimili Seltjarnarness, Lækningaminjasafns Íslands, Félagsheimili Seltjarnarness og Gjafasjóðs Sigurgeirs Einarssonar.

    Allir ársreikningarnir voru bornir upp og samþykktir samhljóða.

    Gunnar og Auðunn véku af fundi kl. 17:10
  2. Lagðar voru fram fundargerðir fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, 438. fundar dagsett 29. apríl 2011 sem var í einum lið og 439. fundar sem var í 10 liðum.
    Fundargerðirnar voru samþykktar samhljóða.
  3. Lögð var fram fundargerð 158. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 17. maí 2011 og var hún í 11 liðum.
    Til máls tóku: ÁE og BTÁ.
    Fundargerðin var afgreidd með eftirfarandi hætti:
    Mál 2010100031 Unnarbraut 9 – Stækkun húss samþykkt.
    Mál 2011020070 Hrólfsskálavör 2 – Reyndar teikningar samþykktar.
    Mál 2011050019 Sæbraut 4 – Stækkun á kvisti. Samþykkt að vísa í grenndarkynningu.
    Mál 2011030035 Tjarnarstígur 10 – Stækkun á jarðhæð samþykkt.
    Mál 2011050018 Melabraut 40 – Stækkun svala. Samþykkt að vísa í grenndarkynningu.
    Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
  4. Lagðar voru fram fundargerðir Skólanefndar Seltjarnarness, 239. (62.) fundar dagsett 13. apríl 2011 sem var í 6 liðum og 240. (63.) fundar dagsett 18. maí 2011 sem var í 7 liðum.
    Til máls tók: ÁH.
    Bæjarstjóri lagði fram viðmið Fræðslusviðs, til leiðbeiningar v. niðurlagningar starfa við stofnanir fræðslusviðs.
    Vísað til Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarnesbæjar.
    Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.
  5. Lagðar voru fram fundargerðir stjórnar Lækningaminjasafns Íslands, 26. fundar dagsett 14. apríl 2011 sem var í 12 liðum og 27. fundar dagsett 17. maí 2011 sem var í 8 liðum.
    Til máls tóku: SB og ÁH.
    Bæjarstjóri lagði fram minnisblað Lögmannastofu ÁÁÁ dagsett 12. apríl 2011, v/málefna tengdum Neströð 7
    Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.
  6. Lögð var fram fundargerð fundar hjá samráðshópi um áfengis- og vímuvarnir, dagsett 5. maí 2011 og var hún í 5 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  7. Lögð var fram fundargerð 362. fundar stjórnar SSH bs, dagsett 2. maí 2011 og var hún í 5 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  8. Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs, dagsett 27. apríl 2011 og var hún í 8 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  9. Erindi og tillögur:
  1. Lagt var fram samkomulag Mennta- og menningarmálaráðuneytis og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms, dagsett 13. maí 2011.

    Til máls tóku: ÁE og SEJ.

  2. Lagt var fram bréf Læknafélags Íslands, dagsett 13. maí 2011, þar sem Elínborg Guðmundsdóttir er tilnefnd í stjórn Lækningaminjasafns Íslands í stað Sigurbjörns Sveinssonar.
    Samþykkt samhljóða.

    Fundi var slitið kl. 17:24

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?