Fara í efni

Bæjarstjórn

06. desember 2010

Mánudaginn 6. desember 2010 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Guðmundur Magnússon (GM), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Lárus Brynjar Lárusson (LBL), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Árni Einarsson (ÁE) og Margrét Lind Ólafsdóttir (MLÓ).

Ritari bæjarstjórnar, Stefán Bjarnason, ritaði fundargerð í tölvu.

Forseti bæjarstjórnar, Guðmundur Magnússon, setti fund og stjórnaði.

  1. Lögð var fram til seinni umræðu Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011.
    Til máls tóku: Allir bæjarfulltrúar.
    GM lagði fram eftirfarandi breytingatillögu:

    Undirritaður leggur hér með fram neðangreindar breytingatillögur við fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar:
    a. Álagningarprósenta útsvars á Seltjarnarnesi fyrir árið 2011 verði óbreytt eða 12,10%.
    b. Nauðsynlegri hagræðingu vegna þessa verði mætt með lækkun áætlaðra útgjalda í eftirfarandi rekstrarliðum og mun ásamt lækkun á áætluðum rekstarafgangi úr 80.117.811,- kr í 63.000.000 kr. til að skapa jafnvægi í rekstri bæjarsjóðs.
    Flokkur Málaflokkur Raunl. frá áætlun 2011.
    04-1010 Fræðslumál ( launamál strax áhrif 2011 ). 16.000.000 kr.
    Íþrótta og tómstundasvið. 8.000.000 kr.
    09-240 Skipulagsmál / deiliskipulag -50% 2.500.000 kr.
    09-4000 Skipulagsv. aðkeypt þjónusta. -40% 4.000.000 kr.
    21 Endurskoðun / Útboð 1.000.000 kr.
    61-210-1110 Safnstjóri 50% starfshlutfall 4.100.000 kr.
    21-420 Rekstur Upplýsingakerfa. 4.000.000 kr.
    06 Tölvubúnaður / endurnýjun -40% 4.480.000 kr.
    Sumarstörf 6-8% Lækkun kostnaðar 4.000.000 kr.
    11-4390 Aðkeypt sérfræðiþjónusta ? 3,5 1.000.000 kr.
    Eignabreyt. Eignabreytingar ( sjá skýringar A ). 43.000.000 kr.
    Eignabreyt. Gatnagerð Lækningaminjasafn sjá B. 21.000.000 kr.
    05-320 Bæjarlistamaður -50% 400.000 kr.
    Samtals. 113.480.000 kr.

    Guðmundur Magnússon
    (sign)

    BTÁ lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Síðustu fimm vikur hef ég sem bæjarfulltrúi setið á annan tug funda með öðrum bæjarfulltrúum og forstöðumönnum bæjarfélagsins og verið í daglegu sambandi við bæjarstjóra og fjármálastjóra bæjarins vegna vinnu við fjárhagsáætlun næsta árs.

    Formaður fjárhags- og launanefndar hefur á þessum tíma aldrei lýst andstöðu sinni við hækkun útsvars, heldur vann hann líkt og aðrir bæjarfulltrúar að hugmyndum um hagræðingu í rekstri eins og kostur var og átti fulla aðild að lokafrágangi þeirra tillagna til gjaldalækkana sem kynntar eru í fjárhagsáætluninni. Á fundi fjárhags- og launanefndar að morgni 29. nóvember samþykkti nefndin, undir forystu Guðmundar Magnússonar, hækkun útsvars fyrir næsta ár í 12,98%. Fullkomin sátt var um þetta á fundinum og rituðu allir fundarmenn nafn sitt undir fundargerð því til staðfestingar.

    Sá viðsnúningur sem Guðmundur Magnússon sýnir á fundi bæjarstjórnar þann 1. desember er því að mínu mati ekki annað en lýðskrum af verstu gerð og fáheyrð óheilindi gagnvart samstarfsmönnum í bæjarstjórn.“

    Bjarni Torfi Álfþórsson, nefndarmaður í fjárhags- og launanefnd
    sign

    SEJ lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Mig langar til að þakka þá góðu vinnu sem unnin hefur verið við gerð þessarar fjárhagsáætlunar og því ágæta samstarfi sem hefur verið við forstöðumenn stofnana okkar og fulltrúa í bæjarstjórn sem hafa unnið saman að gerð þessara tillagna. Sá rammi frá fjárhags- og launanefnd sem lagt var upp með gagnvart fræðslusviði gerði ráð fyrir 6-8 % niðurskurði fyrir árið 2011 og hafa forstöðumenn og starfsfólk stofnana ásamt skólanefnd legið yfir öllum liðum í þeirri vinnu við að draga úr útgjöldum, bæði í fyrra, og nú á þessu ári eins og við mögulega höfum getað án þess að skerða þá grunnþjónustu sem við viljum halda hér á Seltjarnarnesi. Í fræðslumálunum er gert ráð fyrir 100 milljón króna niðurskurði eða um 9% niðurskurði milli ára sem er umfram þær kröfur sem því sviði voru settar. Ég tel sem formaður skólanefndar að við höfum skorið þar eins nærri og við frekast getum fyrir næsta ár og erum með áætlanir um frekari niðurskurð á næstu árum til að mæta þeirri fækkun nemenda sem verður í skólanum þó þannig að við höldum þeirri þjónustu sem okkur ber skv. lögum að sinna í skólunum okkar. Við erum komin að þeim tímapunkti að spyrja hvort við getum gengið lengra að sinni án þessa að grípa til róttækra aðgerða í þjónustuskerðingu.

    Þær viðbótartillögur um niðurskurð á sviðinu sem formaður fjárhags- og launanefndar lagði fram á fimmtudag eftir síðasta bæjarstjórnarfund og aftur núna voru að miklu leyti byggðar á hugmyndum sem þegar höfðu verið teknar inn í áætlunarvinnuna og voru því miður ekki raunhæfar að mínu mati.

    Það væri óábyrgt að leggja fram fjárhagsáætlun sem ekki gæti staðist og því miður var þetta síðasti kosturinn að leggja til þessa hækkun útsvars og þó mér sé mein illa við að leggja til skattahækkanir, þá erum við enn með fjárhagsáætlun sem er á tæpasta þrátt fyrir þessa hækkun á útsvari og við munum svo sannarlega halda áfram að vinna að hagræðingu í bæjarfélaginu sem frekast er kostur, þeirri vinnu er ekki lokið.“

    Sigrún Edda Jónsdóttir, formaður skólanefndar
    sign

    LBL lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Undirritaður vill þakka starfsmönnum íþrótta-, tómstunda- og æskulýðssviðs
    fyrir þeirra framlag í fjárhagsáætlunargerð 2011 sem hefur af þrautseigju og
    krafti unnið að því að ná fram raunhæfum sparnaði og hagræðingu á sviðinu.
    Mikil vinna hefur verið lögð við að fara í gegnum alla rekstrarliði
    sviðsins og lækka þá annað árið í röð og reynt hefur verið að hagræða og
    spara án þess að það komi mikið niður á þjónustu við íbúa. Jafnframt hefur
    verið dregið úr launakostnaði jafnt og þétt með fækkun á starfsfólki á öllu
    sviðinu ásamt því stytta opnuartíma sundlaugar og draga úr styrkjum svo
    eitthvað sé nefnt. Sviðið mun að sjálfsögðu halda áfram að vinna að
    áframhaldandi hagræðingu og sparnaði þar sem hægt er að koma því við á komandi ári, enda næsta víst að fjárhagsáætlunin verði endruskoðuð að hluta til eða í heild á komandi ári.“

    Lárus B. Lárusson, formaður íþrótta- og tómstundaráðs.
    sign

    Breytingatillagan var felld með 6 atkvæðum gegn 1 atkvæði GM.

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi áætlunni úr hlaði með eftirfarandi greinargerð.

    „Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar líkt og gert var fyrir árið 2010.

    Gert er ráð fyrir að rekstrarafgangur samantekins ársreiknings 2011 er áætlaður 50 milljónir króna. Útsvarsprósenta á árinu 2011 verður 12,98%, sem er undir leyfilegu hámarksútsvari sem er 13,28%. Útsvarstekjur eru áætlaðar 1.620 mkr. Tekjur af fasteignasköttum eru áætlaðar 190 mkr. sem er sama álagning í krónum talið og árið 2010.

    Alvarlegum samdrætti mætt
    Við gerð áætlunarinnar var leitað allra leiða til þess að mæta alvarlegum samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum með áframhaldandi hagræðingu í rekstri að leiðarljósi. Þrátt fyrir verulegan niðurskurð útgjalda á sl. tveimur árum lá fyrir að að brúa þyrfti bil sem nemur um 10- 15% af skatttekjum bæjarins á yfirstandandi ári. Vandlega var farið yfir einstök rekstrarsvið og útgjaldaþætti í þeim tilgangi að ná fram enn meiri rekstrarhagræðingu, draga úr kostnaði og takast á við áleitnar spurningar um eðli, tilgang og réttmæti þeirra.

    Launalækkun framlengd
    Bæjarfélagið hefur undanfarið reynt að halda uppi sama þjónustustigi með minna fé til ráðstöfunar. Dregið hefur verið úr yfirbyggingu rekstrarins og mannaafl samrýmt á ýmsa vegu. Ströng hagræðingarkrafa er gerð til yfirstjórnar, sem og stjórnunardeilda stofnana sveitarfélagsins. Samþykkt er að framlengja lækkun launa stjórnenda bæjarins fyrir árið 2011, einnig verður framlengt að bæjarfulltrúar fái ekki greidd nefndarlaun fyrir árið 2011. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar tekur að sér aukin verkefni auk þess sem áhersla er lögð á enn frekara samstarf milli stofnana og deilda í því skyni að ná sem mestri rekstrarhagræðingu. Hagrætt verður í viðhaldsverkefnum og þeim forgangsraðað af brýnni þörf og öryggissjónarmiðum.

    Erfið gerð fjárhagsáætlunar
    Fjárhagsáætlunin er unnin á erfiðum tímum. Þjóðin tekst nú á við afleiðingar bankahruns og fjármálakreppu sem setja mark sitt á fjármál og rekstur sveitarfélaga, rétt eins og ríkissjóðs, fyrirtækja og heimilanna í landinu. Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 2% frá upphafi til loka ársins 2011. Óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni gerir forsendur hennar samt ótraustar svo og niðurskurður í ríkisútgjöldum og almenn hækkun skatta. Boðuð hækkun óbeinna skatta strax á næsta ári mun stuðla að hækkun verðlags og kostnaðarauka fyrir sveitarfélagið. Spár gera ráð fyrir 9,5% til 11,5% atvinnuleysi í landinu. Svo mikið atvinnuleysi kemur illa við helsta tekjustofn sveitarfélaga, útsvarið. Þá má bæta við að kjarasamningar við flest stéttarfélög eru nú lausir en áætlunin gerir ekki ráð fyrir launahækkunum á næsta ári umfram gildandi samninga.

    Grunnþjónusta verður varin
    Við gerð fjárhagsáætlunarinnar var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi, æskulýðs- og íþróttastarf og félagslega þjónustu. Með því er tekið mið af þeim áherslum sem fram komu á íbúafundi haustið 2009. Stefnt er að áframhaldandi samstarfi við íþróttafélagið um þróun íþrótta- og tómstundstarfs fyrir yngstu grunnskólanemendur, sem hefur stuðlað að þróun heildstæðs skóladags fyrir börn og fjölskyldur sem hefur verið markmið Seltjarnarnesbæjar í mörg ár. Einnig er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra. Almennt er því gert ráð fyrir að gjaldskrár í þessum málaflokkum hækki einungis sem nemur verðlagshækkunum og taka flestar þeirra gildi 1. júlí á næsta ári.“

    Forsendur tekjuliða eru eftirfarandi:
    1. Álagningarhlutfall útsvars verður 12,98%.
    2. Fasteignagjöld:
    a. Álagningarprósenta fasteignaskatts verður sama álagning í krónum talið og árið 2010.
    -Gjaldflokkur A, íbúðarhúsnæði 0,209% af fasteignamati.
    -Gjaldflokkur B, opinbert húsnæði 1,32% af fasteignamati.
    -Gjaldflokkur C, aðrar fasteignir 1,25% af fasteignamati.
    b. Lóðarleiga verður af A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati.
    3. Vatnsskattur verður 0,120% af fasteignamati fullbúinnar eignar.
    4. Urðunargjald sorps verður kr. 10.950 á hverja eign.
    5. Sorphreinsigjald verður kr. 5.100 á hverja eign.
    6. Fráveitugjald verður 0,110% af fasteignamati.

    Fasteignaskattur og holræsagjald sem tekjulágum elli- og örorkulífeyrisþegum er gert að greiða skal lækka að teknu tilliti til viðmiðunartekna. Bæjarstjórn samþykkir að fela fjárhags- og launanefnd að ákvarða viðmiðunartekjur samkvæmt reglum um lækkun fasteignaskatts elli- og örorkulífeyrisþega.
    Gert er ráð fyrir 10 gjalddögum eins og árið 2010.

    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 borin undir atkvæði bæjarstjórnar og samþykkt með 6 atkvæðum gegn 1 atkvæði GM.

    GM lagði fram eftirfarandi bókun:

    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 hefur verið unnin í góðri samvinnu meirihluta og minnihluta bæjarstjórnar ásamt starfsmönnum bæjarins. Í þeirri vinnu hefur þó verið ljóst að undirritaður hefur talið höfuðverkefni bæjarstjórnar að hagræða í rekstri til að ná jafnvægi á milli núverandi tekna og gjalda. Ljóst er að hækkun útsvars um nær 7,3% eða í 12,98% mun hafa verulega auknar byrðar á Seltirninga í för með sér, sem eins og aðrir landsmenn hafa tekið á sig skattahækkanir ríkisstjórnarinnar og kjararýrnun samfara tekjumissi og lækkandi kaupmætti. Við slíkar aðstæður er það beinlínis skylda bæjarstjórnar og ekki síst meirihluta Sjálfstæðisflokks, sem fyrir kosningar lofaði að skattar yrðu ekki hækkaðir, að leita allra leiða til að hlífa skattgreiðendum við frekari álögum. Hækkun útsvars í 12,98% leggur að meðaltali allt að 110 þúsund króna aukna skattbyrði á hverja fjölskyldu á Seltjarnarnesi sem í einhverjum tilfellum kann að reynast fólki ofraun við núverandi aðstæður.

    Undirritaður hefur allt frá því í haust bent mikilvægi þess að hagræða í rekstri og lækkun útgjalda til að komast megi hjá hækkun útsvars. Þær tillögur sem ég hef lagt hér fram eru hógværar og raunhæfar og hafa í för með sér óverulega skerðingu á þjónustu við íbúa. Í ljósi þess að þeim tillögum hefur verið hafnað hér fyrr á fundinum án efnislegrar umræðu getur undirritaður ekki greitt atkvæði með fjárhagsáætluninni. Hækkun útsvars úr 12,1% uppí 12.98 eins og fjárhagsáætlunin gerir ráð fyrir. Er að mínu mati óþörf og íþyngjandi fyrir íbúa.

    Guðmundur Magnússon
    sign

    MLÓ lagði fram eftirfarandi bókun:
    „Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 liggur nú fyrir, en hún var gerð við erfiðar aðstæður. Minnkandi tekjur bæjarins og taprekstur í þrjú ár hafa gert það að verkum að endurskoða hefur þurft ýmsa þætti þjónustunnar og leita leiða til sparnaðar. Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar tók þátt í samstarfi við gerð fjárhagsáætlunar af heilum hug og styður þá niðurstöðu sem hér liggur fyrir. Hækkun útsvars er óhjákvæmileg, en um leið sanngjörn og ábyrg leið til að mæta samdrætti í tekjum. Hækkun þjónustugjalda umfram verðlagshækkanir eða frekari skerðing á þjónustu myndi fyrst og fremst bitna á barnafjölskyldum, en það er ekki réttlætanlegt við núverandi aðstæður í samfélaginu. Þjónustugjöld á Seltjarnarnesi eru nú þegar með þeim hæstu í samanburði við önnur sveitarfélög.

    Samfylkingin leggur áherslu á að ítrasta sparnaðar verði gætt í rekstri bæjarfélagsins og að íbúar Seltjarnarness verði upplýstir tímanlega um allar þær breytingar sem koma til framkvæmda á næsta ári.“

    Margrét Lind Ólafsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar
    sign

    ÁE lagði fram eftirfarandi bókun:

    „Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 er gerð við erfiðar aðstæður. Tekjur bæjarsjóðs fara minnkandi og erfiðleikar steðja að í efnahagsmálum þjóðarinnar og atvinnuleysi kemur illa við bæjarfélagið, fjölskyldur og einstaklinga. Við gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 er kappkostað að mæta samdrætti í tekjum bæjarins og kostnaðarhækkunum með hagræðingu í rekstri svo komast megi hjá skerðingu á grunnþjónustu, s.s. í skólastarfi, æskulýðs- og íþróttastarfi og félagslegri þjónustu. Gjaldskrár í þessum málaflokkum hækka einungis sem nemur verðlagshækkunum og taka flestar þeirra ekki gildi fyrr en 1. júlí á næsta ári. Einnig er gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra.

    Bæjarfulltrúar komu allir að vinnslu og gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2011 og bæjarstjórn hefur setið fjölmarga vinnufundi síðastliðnar vikur þar sem farið hefur verið yfir gögn og forsendur. Á þessa fundi hafa einnig komið forstöðumenn sviða og farið yfir og skýrt einstaka rekstrarliði eftir því sem óskað hefur verið eftir. Þetta er vinnulag sem ég tel til fyrirmyndar og jákvæð tilraun til þess að komast upp úr gamaldags hjólförum í samskiptum meiri- og minnihluta í bæjarstjórn.“

    Árni Einarsson, bæjarfulltrúi Neslista
    sign

    Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:

    „ Fjárhagsáætlun 2011var unnin sameiginlega af öllum bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokks, Neslista og Samfylkingar líkt og gert var fyrir árið 2010. Guðmundur Magnússon hefur gert grein fyrir afstöðu sinni.Vil ég þakka starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra framlag í allri þessari vinnu og þeirra samstarf á þessu ári að gæta ýtrasta hagræðis í rekstri bæjarins. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árin 2012-2014. Ég vil þakka öllum þeim sem komu að þessari vinnu fyrir vel unnin störf við erfiðar aðstæður.“

    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.
    sign
  2. Lögð var fram fundargerð 93. fundar Veitustofnana Seltjarnarness, dagsett 11. nóvember 2010 og var hún í 2 liðum.
    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  3. Lögð var fram fundargerð 434. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 30. nóvember 2010 og var hún í 17 liðum.
    Til máls tóku: SEJ, GM, ÁE og ÁH.
    Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
  4. Lögð var fram fundargerð 153. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 2. desember 2010.
    Til máls tók: ÁH
    Fundargerðin var afgreidd með eftirfarandi hætti:
    Mál 2010030096 Tjarnarmýri 2 – Samþykkt.
    Mál 2010110046 Selbraut 80 – Samþykkt.
    Mál 2010110051 Bollagarðar 113-121 – Samþykkt.
    Mál 2010110053 Gjaldskráhækkun Skipulags- og byggingafulltrúa – Tillaga að gjaldskráhækkun á byggingarleyfum samþykkt.
    Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
  5. Erindi og tillögur:
    a.   Lögð var fram áætlun bæjarstjórnarfunda fyrir árið 2011.
    Bæjarstjórnarfundir á árinu 2011 verða á eftirfarandi dögum:
    19. janúar, 9. febrúar, 23. febrúar, 9. mars, 23. mars, 13. apríl, 27. apríl, 11. maí, 25. maí, 8. júní, 22. júní, 20. júlí, 24. ágúst, 14. september, 28. september, 12. október, 26. október, 9. nóvember, 23. nóvember og 14. desember.
  6. b.  Lögð var fram fjárhagsáætlun Heilbrigiðseftirlits Kjósarsvæðis fyrir árið 2011.
    Bæjarstjórn samþykkir að beina því til stjórnar heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis að endurskoða framlagða fjárhagsáætlun fyrir árið 2011 með þrennt í huga.
    Í fyrsta lagi að skoðaður verði kostnaður annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu við heilbrigðiseftirlit og hann borinn saman við kostnað vegna heilbrigðiseftirlits Kjósarsvæðis. Í öðru lagi að horft verði til lækkunar kostnaðar vegna reksturs byggðasamlaga innan SSH þar sem gert er ráð fyrir að framlög eigenda lækki um 5% á árinu 2011. Í þriðja lagi að endurskoða kostnað sem tengist ferðalögum erlendis á vegum eftirlitsins, til að gæta samræmis við aðra starfsmenn sveitarfélaganna.

Fundi var slitið kl. 18:06

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?