Fara í efni

Bæjarstjórn

666. fundur 06. desember 2007

Miðvikudaginn 28. nóvember 2007 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.  

Forseti bæjarstjórnar Ásgerður Halldórsdóttir setti fund og stjórnaði.

Ritari bæjarstjórnar Stefán Bjarnason ritaði fundargerð.

 

Fyrir var tekin fundargerð síðasta fundar, samþykkt samhljóða og undirrituð.

  1. Lögð var fram til seinni umræðu Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2008.

    Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, lagði fram lista með tillögum að 6 breytingum milli umræðna.

    Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

    Niðurstöður breytinga eru eftirfarandi:
    Eignabreytignar A-hluta hækka um 10 milljónir.
    Eignabreytingar B-hluta hækka um 1 milljón.
    Rekstrargjöld A-hluta hækka um 22 milljónir.
    Breytingartillögurnar voru bornar undir atkvæði í einu lagi og samþykktar samhljóða.
    Niðurstöður gjalda A-hluta aðalsjóðs og stofnana eru því áætlaðar kr. 1.684.157.000.- og tekna kr. 1.918.000.000.-
    Rekstrarkostnaður aðalsjóðs er kr. 1.656.125.000.- sem er 86.3% af skatttekjum.
    Rekstarhagnaður A- og B-hluta er kr. 235.305.821.-

    Til eignabreytinga, arðgreiðslna og afborgana lána eru kr. 467.380.000.- auk eignabreytinga í B-hluta kr. 41.000.000.-, á móti rekstri, afskriftum, reiknuðum lífeyrisskuldbindingum og reiknuðum verðbótum kr. 375.998.821.- Ráðstöfun af fyrra árs hagnaði er því í A-hluta kr. 91.381.179.- og B-hluta kr. 41.000.000.-

    Forsendur tekju og gjaldaliða eru eftirfarandi:

    Álagningarhlutfall útsvars verður 12,10% og lækkar úr 12,35%.
    Álagningarprósenta fasteignaskatts verður:
     -Gjaldflokkur A, íbúðarhúsnæði  0,20% af fasteignamati, lækkar úr 0,24%.
    -Gjaldflokkur B, opinbert húsnæði 1,32% af fasteignamati.
    -Gjaldflokkur C, aðrar fasteignir 1,12% af fasteignamati.
    Lóðarleiga verður af A-hluta 0,35% og B-hluta 1,5% af lóðarhlutamati.
    Vatnsskattur verður 0,10% af fasteignamati fullbúinnar eignar, lækkar úr 0,115%.
    Urðunargjald sorps verður kr. 9.500 á hverja eign.
    Sorphreinsigjald verður kr. 4.500 á hverja eign.
    Fráveitugjald verður 0,097% af fasteignamati.
    Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
    Helstu gjaldskrár hækka um 4 % á milli ára.
    Gjaldaliðir hækka almennt um 3 % á milli ára.

    Fjárhagsáætlun fyrir árið 2008 með ofangreindum breytingum og niðurstöðum var þannig borin undir atkvæði bæjarstjórnar og samþykkt samhljóða.

    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

    “Bæjarfulltrúar Neslistans fagna því að nú er loksins gert grein fyrir kostnaði bæjarfélagsins við rekstur á fráveitu bæjarins en nú er í fyrsta sinn lagt á s.k. fráveitugjald. Fram að þessu hefur meirihluti sjálfstæðismanna hampað því á hverju ári að slíkt gjald hafi ekki verið lagt á og það sé einsdæmi. Ekki eru þó áhöld um að þessari grunnþjónustu hefur verið haldið úti.

    Álagningarstuðull fasteignaskatts lækkar úr 0,24% í 0,20% en benda má á að fasteignamat hefur enn hækkað nú sennilega um 9-10% milli ára. Þessi lækkun dugir því ekki til að halda fasteignasköttunum í svipuðu horfi sérstaklega þegar nú kemur til 0,97% fráveitugjald. Er því um nokkra hækkun að ræða. Á móti kemur að útsvar er lækkað úr 12,35% í 12,10%. Fulltrúar Neslistans hafa áður bent á að heppilegra sé að hækka ekki fasteignaskattana en að lækka útsvarið þar sem sú aukna skattheimta byggir ekki á auknum tekjum. Skatttekjur eru með þeim hæstu pr. íbúa á landinu og bæjarsjóður selt eignir sínar og býr því við góðan efnahag. Við fögnum að hægt sé að styðja myndarlega við ýmsa starfsemi innan bæjarfélagsins.”

    Guðrún Helga Brynleifsdóttir               Sunneva Hafsteinsdótti

                       (sign)                                             (sign)

    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

    “Meirihluti Sjálfstæðisflokks fagnar því sérstaklega að full samstaða sé nú á milli meiri- og minnihluta um fjárhagsáætlun komandi árs.

    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2008 undirstrikar þá velgengi sem bæjarssóður hefur notið síðustu ár undir styrkri fjármálastjórn og við hagfelld ytri skilyrði.  Reksturinn hefur um árabil skilað góðum afgangi á sama tíma og þjónusta við íbúa er aukin og ráðist hefur verið í fjölmargar framkvæmdir án lántöku.  Fasteignaeigendur og skattgreiðendur á Seltjarnarnesi munu á næsta ári njóta lægstu álagningarstuðla útsvars, fasteignaskatts, vatnsskatss og holræsagjalds á höfuðborgarsvæðinu.  Álagningarhlutfall útsvars lækkar um 2% um áramót, verður 12,10%, árið. Er nú svo komið að og einungis örfá og fámenn sveitarfélög á landsbyggðinni leggja á íbúa sína lægra útsvar. Lækkun útsvars nú í annað sinn á stuttum tíma er liður í stefnu meirihluta Sjálfstæðisflokks um lækkun skattbyrði á íbúa sveitarfélagsins.  Álagningarhlutföll fasteignagjalda eru einnig hin lægstu á höfuðborgarsvæðinu og þjónustugjöldum er sem fyrr stillt mjög í hóf. Þær gjaldskrár þjónustugjalda sem nú hækka um 4% gera það með hliðsjón af verðlagsbreytingum yfirstandandi árs sem nema um 5,5% og nær hækkunin því ekki hækkun verðlags á tímabilinu. Á sama tíma hefur launavísitala hækkað um tæp 9% og því ljóst að kaupmáttur hefur vaxið á sama tímabili.   Það er sem fyrr staðföst skoðun meirihluta Sjálfstæðisflokks  að samspil lágra opinberra álagna, hóflegra þjónustugjalda og metnaðarfullrar þjónustu eigi virkan þátt  í að gera Seltjarnarnes að jafn eftirsóknarverðu og fjölskylduvænu bæjarfélagi og raun ber vitni.  

    Tekjur ársins 2008 eru varlega áætlaðar og byggja á reynslu síðustu ára og á raunsæju mati á þróun hagkerfisins á komandi misserum.  Ekki er gert ráð fyrir tekjum vegna fjölgunar íbúa þótt búast megi við henni síðla árs í tengslum við framkvæmdir á Hrólfsskálamel og annarsstaðar í bæjarfélaginu.   Þá eru útgjöld til málaflokka aukin verulega, sérstaklega til íþrótta- og æskulýðsmála og fræðslumála, í samræmi við mikilvægi þessara þátta og áherslu á metnaðarfulla þjónustu við börn og fjölskyldur á Seltjarnarnesi.  Styrkjum til íþrótta- og tómstundaiðkunar barna og ungmenna á Seltjarnarnesi 6 til 18 ára verður fram haldið en að auki koma til sérstakar heimgreiðslur til foreldra barna á aldrinum níu til tuttugu og fjögurra mánaða.  Með þessum aðgerðum hafa tvö af mikilvægari stefnumiðum Sjálfstæðisflokksins á Seltjarnarnesi náð fram að ganga í samræmi við stefnuskrá flokksins fyrir síðustu sveitarstjórnarkosningar.  Þegar litið er yfir sviðið er ljóst að afar vel hefur miðað í efndum þeirrar stefnuskrár og málefnastaðan er góð, ekki síst í ljósi þess að kjörtímabilið er enn ekki hálfnað.

    Þrátt fyrir aukin útgjöld verður rekstrarhlutfall aðalsjóðs mjög gott eða um 86% af tekjum.   Um aukningu er að ræða milli ára sem ræðst fyrst og fremst af aukinni þjónustu við íbúa og áætlaðra launabreytinga.  Þegar litið er til rekstrarhlutfalls er rétt að minna á að hin góða niðurstaða fæst án þess að gjaldtökuheimildir séu nýttar að fullu.  Væri um slíkt að tefla væri afkoma bæjarsjóðs enn betri en ella.  Niðurgreiðslu langtímalána bæjarfélagsins verður haldið markvisst áfram á næsta ári og vaxtatekjur af handbæru fé bæjarins, sem nema um 1100 mkr, munu áfram skapa traustan grundvöll fyrir lífsgæðaverkefni fyrir bæjarbúa á komandi árum.   Langtímaskuldir bæjarins, sem telja má óverulegar í samanburði við önnur sveitarfélög og fjárhagslegrar stöðu bæjarins, halda áfram að lækka samtímis því sem veltufé frá rekstri eykst verulega og með því greiðslugeta og bolmagn til framkvæmda.   Fjárfestingageta vex verulega á milli ára en árið 2008 verður ríflega 450 mkr. varið til nýframkvæmda, fjárfestinga og niðurgreiðslu langtímaskulda.  Umtalsverðum fjármunum einnig varið til endurbóta og almenns viðhalds fasteigna bæjarins.

    Framkvæmdir verða eins og undanfarin ár miklar á árinu 2008. Má þar helst nefna byggingu stúku og vallarhúss við gervigrasvöll, nýjan tækjabúnað sundlaugar auk endurnýjunar þaks sundlaugar en einnig verður lokið við búningsaðstöðu fyrir fatlaða og sameiginleg móttaka með nýrri glæsilegri líkamsræktarstöð verður tekin í gagnið.  Ráðist verður í annan áfanga gatnagerðarátaks með áætluðum kostnaði um 90 millj., auk þess sem gengið verður frá landmótun við Suðurströnd.  Hafist verður handa við gagngera endurnýjun skólalóðar Mýrarhúsaskóla.  Byrjað verður á byggingu fjölnota lækningaminjasafns og menningarseturs í samvinnu við menntamálaráðuneyti,  Læknafélag Íslands og Reykjavíkur og Þjóðminjasafni auk ýmissa smærri verkefna.  Fyrirhugað er að koma upp upplýsingabrunnum á nokkrum stöðum í bænum þ.e. snertiskjám með upplýsingum um sögu, menningarminjar, náttúrufar og  staðháttarupplýsingum um Seltjarnarnes, auk ýmissa smærri verkefna.

    Árið 2008 verður því enn eitt ár spennandi framkvæmda- framfara- og farsældar á Seltjarnarnesi. Fjárfestingar og stofnframkvæmdir verða að veruleika án lántöku bæjarfélagsins en  ekki hefur verið tekið framkvæmdalán í hartnær áratug. Í ljósi góðar afkomu og farsælla ákvarðana fyrri ára munu rekstrarafgangur bæjarins og vaxtatekjur af handbæru fé skapa verulegt svigrúm til fjarfestinga og  aukinnar þjónustu við bæjarbúa án þess að efnt sé til skuldbindinga fyrir komandi kynslóðir.”

    Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir

                          (sign)                                        (sign)

                 Sigrún Edda Jónsdóttir               Lárus B. Lárusson

                               (sign)                                         (sign)

                                               Þór Sigurgeirsson
     
                                                           (sign)
  2. Lögð var fram fundargerð 388. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 13. nóvember 2007, og var hún í 8 liðum.

    Fundargerðin var samþykkt samhljóða.  
  3. Lögð var fram fundargerð 336. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 18. október 2007, og var hún í 5 liðum.

    Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Lárus B. Lárusson.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  4. Lögð var fram fundargerð 337. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 15. nóvember 2007, og var hún í 6 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  5. Lögð var fram fundargerð 84. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 13. nóvember 2007, og var hún í 9 liðum.

    Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Þór Sigurgeirsson og Sigrún Edda Jónsdóttir.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  6. Lögð var fram fundargerð 198. (21.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 21. nóvember 2007 sem var vinnufundur.

    Til máls tóku: Sigrún Edda Jónsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  7. Lögð var fram fundargerð 8. fundar Jafnréttisnefndar Seltjarnarness, dagsett 5. nóvember 2007, og var hún í 6 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
  8. Lögð var fram fundargerð 71. fundar stjórnar Veitustofnana á Seltjarnarnesi, dagsett 23. nóvember 2007, og var hún í 3 liðum.

    Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Lárus B. Lárusson og Þór Sigurgeirsson.

    Gjaldskrá samkvæmt 3. lið var samþykkt, en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

  9. Lögð var fram fundargerð 69. fundar stjórnar SHS bs. , dagsett 16. nóvember 2007, og var hún í 4 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  10. Lögð var fram fundargerð 748. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 16. nóvember 2007, og var hún í 24 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  11. Lögð var fram fundargerð 12. fundar stjórnar AHS., dagsett 16. nóvember 2007, og var hún í 9 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  12. Lögð var fram fundargerð 313. fundar stjórnar SSH, dagsett 12. nóvember 2007, og var hún í 4 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  13. Lögð var fram fundargerð 7. fundar ársins 2007 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 20. nóvember 2007, og var hún í 5 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  14. Lagðar voru fram fundargerðir Samvinnunefndar um Svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins; 1. fundar dagsett 10. júlí 2007 í 5 liðum, 2. fundar dagsett 10. ágúst 2007 í 5 liðum, 3. fundar dagsett 24. ágúst 2007 í 3 liðum og 4. fundar dagsett 15. nóvember 2007 í 7 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  15. Lögð var fram fundargerð 279. fundar stjórnar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisns, dagsett 25. október 2007, og var hún í 7 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  16. Lögð var fram fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs, dagsett 8. nóvember 2007, og var hún í 6 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  17. Fundi var slitið kl.  17:45



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?