Fara í efni

Bæjarstjórn

650. fundur 28. febrúar 2007

Miðvikudaginn 28. febrúar 2007 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir, Lárus B. Lárusson, Þór Sigurgeirsson, Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 649. fundar samþykkt.

  1. Lögð var fram til seinni umræðu langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2008-2010.

    Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.

    Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar var samþykkt með 5 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en 2 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

    Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

    “Þriggja ára áætlunin sem nú er til afgreiðslu er stefnuyfirlýsing meirihluta sjálfstæðismanna til næstu ára. Þar sem áætlunin er einungis unnin af fulltrúum meirihlutans og er þeirra stefnumótun, þá munu fulltrúar Neslistans ekki bera fram tillögur til breytinga. Tilgangur 3ja ára áætlunar er að sveitarstjórnarmenn setji skipulega fram stefnu sína og markmið til lengri tíma og jafnvel lengur en áætlunin tekur beinlínis til. Það eru þó nokkur atriði í þessari áætlun sem vert er að vekja sérstaka athygli á.

    Í fyrsta lagi þá vekur það athygli að dælustöð við Tjarnarstíg er nú ekki áætluð fyrr en árið 2009. Bygging þessarar dælustöðvar er mikilvægt umhverfismál og brýnt að koma því máli í höfn. Þessi dælustöð hefur verið á áætlun í mörg ár, en bæjarfulltrúar meirihlutans virðast ekki hafa áhuga á að koma þessu mikilvæga máli í höfn.

    Í öðru lagi vekur það athygli að byggja á bílastæði við íþróttamiðstöðina árið 2010. Þá eru áætlaðar 123 milljónum í það verk. Það hefur lengi legið fyrir að bílastæðamálin þyrftu úrlausnar við íþróttamiðstöðina og bentu fulltrúar Neslistans á það bæði í Æskulýðs- og íþróttaráði, og Skipulags- og mannvirkjanefnd þegar skipulagið var þar til umfjöllunar. Loks hefur runnið upp ljós hjá meirihlutanum og ber að fagna því, en forvitnilegt verður að skoða þær tillögur sem eru að baki þessum 125 milljónir.

    Í þriðja lagi er ekki gert ráð fyrir framhaldi á framkvæmdum við sundlaugina. Framkvæmdirnar síðasta vetur voru fyrsti hluti af þremur áföngum. Það á ekkert að bæta við sundlaugina næstu þrjú árin.

    Í fjórða lagi virðist það ekki vera áætlun meirihlutans að fara að ítrekuðum ráðleggingum endurskoðenda Seltjarnarnesbæjar varðandi rekstur og framsetningu á reikningshaldi á fráveitukerfi bæjarins.

    Þessi langtímaáætlun er alfarið á ábyrgð sjálfstæðismanna og munu fulltrúar Neslistans því sitja hjá við afgreiðslu hennar.”

                    Sunneva Hafsteinsdóttir             Árni Einarsson

                               (sign)                                (sign)


    Fulltrúar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:

    “Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2008 til 2010 ber með sér að fjárhagur bæjarsjóðs er í traustum skorðum.  Bæjarfélagið býr við fjárhagslegan styrk og velgengni sem hefur farið vaxandi ár frá ári og mun gera áfram miðað við forsendur langtímaáætlunar. Samkvæmt henni verður öflug fjárhagsleg staða nýtt til að veita íbúum bæjarfélagsins, ungum sem öldnum, góða þjónustu án þess að bærinn fullnýti gjaldtökuheimildir sínar.  Lætur nærri að skattgreiðendum á Seltjarnarnesi sé hlíft við á þriðja hundruð milljónir króna árlega í álögum og hverju heimili sparast hundruð þúsunda í opinberum gjöldum á við það sem gerist annarsstaðar á höfuðborgarsvæðinu.  Slíkt kemur öllum til góða og á drjúgan þátt í að gera Seltjarnarnes að eftirsóknarverðu og fjölskylduvænu bæjarfélagi.  Langtímaáætlunin endurspeglar því vel stefnu meirihlutans um að Seltjarnarnesbær veiti íbúum öfluga þjónustu en láti skattgreiðendur um leið njóta traustrar fjármálastjórnar og ráðdeildar í rekstri bæjarsjóðs.

    Niðurgreiðslu langtímalána bæjarfélagsins verður haldið markvisst áfram. Langtímaskuldir bæjarins - sem telja má óverulegar í samanburði við önnur sveitarfélög - halda áfram að lækka á sama tíma og veltufé frá rekstri eykst verulega. Áætlunin gerir ráð fyrir hóflegri íbúafjölgun á Seltjarnarnesi í tengslum við framkvæmdir á Hrólfsskálamel og við Bygggarða en tekjur af ávöxtun fjár vegna sölu byggingaréttar á Hrólfsskálamel og lands í Bygggörðum eflir getu bæjarfélagsins til að ráðast í framkvæmdir og ýmis lífsgæðaverkefni án aukinnar skattheimtu eða skuldsetningar bæjarsjóðs.

    Gert er ráð fyrir stofnframlagi til byggingar hjúkrunarheimilis á Lýsislóð við Grandaveg í vesturbæ Reykjavíkur á grundvelli samstarfs Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar en fyrirhugað er að hjúkrunarheimilið verði tekið í notkun á árinu 2009.  Umfangsmiklu átaki við endurnýjun gatna og gangstétta verður framhaldið og er gert ráð fyrir að því átaki ljúki árið 2010. Umbótaáætlunum við Grunnskóla Seltjarnarness lýkur á árinu 2008.  Lokið verður við húsgagnakaup og endurbætur nemendaeldhúss Valhúsaskóla ásamt endurnýjun á lóð Mýrarhúsaskóla. Lokið verður við að endurnýja Sundlaug Seltjarnarness og ný líkamsræktarstöð tekin í notkun í samstarfi með Laugum ehf.  Að auki er fjármagni varið til endurbóta á íþróttahúsi, bílastæðum og byggingar nýs fimleikahúss. Ný dælustöð verður reist á sunnanverðu Seltjarnarnesi og þar með lokið að fullu við hreinsun á strandlengju Seltjarnarness. Loks er gert ráð fyrir að ráðstafanir verði gerðar árið 2010 varðandi áhaldahús bæjarins.

    Áætlunin ber vitni um þá einbeittu stefnu meirihluta sjálfstæðisflokks að tryggja áframhaldandi skilvirkni í rekstri, markvissa niðurgreiðslu langtímalána og metnaðarfulla þjónustu við íbúa á hagkvæmum skattkjörum en sú stefna hefur skilað Seltirningum lífsgæðum og framsæknu bæjarfélagi sem hvarvetna er litið til.”

    Jónmundur Guðmarsson           Ásgerður Halldórsdóttir

                   
    (sign)                                        (sign)

    Sigrún Edda Jónsdóttir                  Lárus B. Lárusson

                     (sign)                                        (sign)

    Þór Sigurgeirsson

                     (sign)

  2. Lögð var fram fundargerð 377. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 20. febrúar 2007 og var hún í 14 liðum.

    Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Sigrún Edda Jónsdóttir.

    4. liður samþykktur samhljóða og tekur gjaldskráin gildi 01. apríl nk.

    Fulltrúar Neslista lögðu fram eftirfarandi bókun:

    “Fulltrúar Neslistans fagna tillögu um lækkun á leikskólagjöldum og auknum systkinaafslætti. Þetta er tvímælalaust skref í rétta átt og samkvæmt stefnuskrá Neslistans. En stefna Neslistans er:

    1.     Að leikskólar á Seltjarnarnesi verði opnir börnum frá eins árs aldri.

    2.     Að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi verði ávallt með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu.

    3.     Að skólamáltíðir verði í boði án endurgjalds fyrir öll börn í leikskóla og grunnskóla og að nemendum standi til boða fjölbreytt og hollt fæði samkvæmt markmiðum Manneldisráðs Íslands.”

                        Sunneva Hafsteinsdóttir                  Árni Einarsson

                                   (sign)                                         (sign)


    Fulltúrar Sjálfstæðisflokks lögðu fram eftirfarandi bókun:


    “Bæjarfulltrúar meirihluta Sjálfstæðisflokks fagna afstöðu Neslistans til tillögu meirihlutans um lækkun leikskólagjalda. Það hefur verið stefna sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi árum saman að bjóða bæjarbúum upp á hagfelld skattakjör og samkeppnisfærar gjaldskrár þjónustugjalda.”

                    Jónmundur Guðmarsson            Ásgerður Halldórsdóttir

                                (sign)                                               (sign)

                        Sigrún Edda Jónsdóttir               Lárus B. Lárusson

                                        (sign)                                               (sign)

                                                             Þór Sigurgeirsson

                                                                        (sign)

    Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykkis.

  3. Lögð var fram fundargerð 328. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 15. febrúar 2007 og var hún í 3 liðum, ásamt gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu á Seltjarnarnesi.        

    Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

    Gjaldskrá fyrir félagslega heimaþjónustu á Seltjarnarnesi, samkvæmt 3. lið,  samþykkt samhljóða.

    Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykkis.

  4. Lögð var fram fundargerð 317. (11.) fundar Íþrótta- og tómstundaráðs Seltjarnarness, dagsett 15. febrúar 2007 og var hún í 4 liðum, ásamt reglum og skilyrðum um greiðslu tómstundastyrkja.

    Til máls tóku: Lárus B. Lárusson, Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson og Þór Sigurgeirsson.

    Reglur og skilyrði um greiðslu tómstundastyrkja, samkvæmt 1. lið, samþykktar samhljóða.

    Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykkis. 

  5. Lögð var fram fundargerð 187. (10.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 12. febrúar 2007 og var hún í 11 liðum.

    Til máls tóku: Sigrún Edda Jónsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson og Jónmndur Guðmarsson.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  6. Lögð var fram fundargerð 78. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 13. febrúar 2007 og var hún í 6 liðum.

    Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykkis.

  7. Lögð var fram fundargerð 300. fundar SSH, stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu,  dagsett 2. febrúar 2007 og var hún í 5 liðum.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  8. Lögð var fram fundargerð 13. fundar Svæðisskipulagsráðs SSH, dagsett 5. febrúar 2007 og var hún í 2 liðum.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  9. Lögð var fram fundargerð 63. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dagsett 16. febrúar 2007 og var hún í 5 liðum.

    Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  10. Lögð var fram fundargerð 9. fundar AHS, Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, dagsett 16. febrúar 2007 og var hún í 5 liðum.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  11. Lögð var fram fundargerð 1. fundar ársins 2007 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 13. febrúar 2007 og var hún í 8 liðum.

    Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  12. Lögð var fram fundargerð 268. fundar stjórnar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, dagsett 8. febrúar 2007 og var hún í 4 liðum.

    Fundargerðin gaf  ekki tilefni til samþykktar. 

  13. Tillögur og erindi:
    • Lagt var fram bréf frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, dagsett 8. febrúar 2007, vegna boðunar fulltrúa á 21. landsþing sambandsins þann 23. mars nk.

      Fulltrúar Seltjarnarnesbæjar voru kjörnir á 638. fundi bæjarstjórnar, í 4. lið 15. og eru eftirfarandi:

      D - Jónmundur Guðmarsson, Nesbala 12.

      D - Ásgerður Halldórsdóttir, Bollagörðum 1.

      N - Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Bollagörðum 61.

      Varamenn:

      D - Sigrún Edda Jónsdóttir, Selbraut 84.

      D - Lárus B. Lárusson, Lindarbraut 8.

      N - Sunneva Hafsteinsdóttir, Bollagörðum 16.

    • Lagt var fram bréf frá Dóms- og kirkjumálaráðuneytinu dagsett 6. febrúar 2007 vegna reglugerðar um stjórnsýsluumdæmi sýslumanna og lögregluumdæma lögreglustjóra, nr. 66/2007.

    • Tekin var til afgreiðslu tillaga Neslistans frá 649. fundi bæjarstjórnar lið 4, um að bæjarstjórn feli Umhverfisnefnd að skoða leiðir til að stemma stigu við þeirri þróun sem aukning heimilissorps hefur í för með sér.

      Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

      Tillagan samþykkt samhljóða.

    • Sunneva Hafsteinsdóttir spurðist fyrir um starfslýsingu á nýju starfi menningar- og fræðslufulltrúa og breytingar á skipuriti bæjarins vegna starfsins.

      Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.

        

Fundi var slitið kl.  17:40



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?