626. (1552.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 23. nóvember 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.
Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.
Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.
Fundargerð 625. fundar var samþykkt.
1. Lögð var fram til fyrri umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2006, ásamt tillögu um álagningarprósentu útsvars fyrir árið 2006.
Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, lagði fram greinargerð með fjárhagsáætluninni og gerði grein fyrir henni.
Helstu niðurstöður áætlunarinnar eru eftirfarandi:
Tekjur A-hluta aðalsjóðs og stofnana er áætlaður kr. 1.562.000.000.- og gjöld kr. 1.388.028.000.-.
Rekstrarhagnaður af rekstri A-hluta aðalsjóðs og stofnana er áætlaður kr. 173.972.000.-
Rekstrarhalli B-hluta fyrirtækja og stofnana er áætlaður kr. 57.776.000.-
Rekstrarhlutfall A-hluta aðalsjóðs af skatttekjum er 85.406%.
Til eignabreytinga, arðgreiðslna og afborgana lána á móti rekstri, afskriftum, reiknuðum lífeyrisskuldbindingum, reiknuðum verðbótum og sölu lands, eru kr. 485.735.000.-
Forsendur tekju og gjaldaliða eru eftirfarandi:
Álagningarhlutfall útsvars verður 12.35%
Álagningaprósenta fasteignaskatts verður:
-Gjaldflokkur A, íbúðahúsnæði 0.30% af fasteignamati.
-Gjaldflokkur B, aðrar fasteignir 1.12% af fasteignamati.
Lóðarleiga verður af A-hluta 0,75% og B-hluta 1,5% af lóðarhlutamati.
Vatnsskattur verður 0.115% af fasteignamati fullbúinnar eignar.
Urðunargjald sorps verður kr. 6.000 á hverja eign.
Sorphreinsigjald verður kr. 1.200 á hverja eign.
Holræsagjald verður ekki lagt á.
Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota.
Ekki er reiknað með hækkun á gjaldskrám vegna þjónustugjalda.
Gjaldaliðir hækka almennt um 3% á milli ára.
Gert er ráð fyrir að tekjur vegna sölu byggingalands á Hrólfskálamel nemi tæpum 260 milljónum króna.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Bjarni Torfi Álfþórsson og Árni Einarsson.
Samþykkt samhljóða að vísa fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2006 til síðari umræðu.
Fulltrúar meirihluta D-lista lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Í samræmi við lög um tekjustofna sveitarfélaga nr 4/1995 leggja fulltrúar meirihluta í bæjarstjórn Seltjarnarness til að álagningarstuðull útsvars árið 2006 verði 12.35%.
Jónmundur Guðmarsson Ásgerður Halldórsdóttir
(sign) (sign)
Ingimar Sigurðsson Bjarni Torfi Álfþórsson
(sign) (sign)
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi breytingatillögu:
Bæjarfulltrúar Neslistans leggja til að áætlað svigrúm til lækkunar álagningarhlutfalls vegna aukinna tekna bæjarbúa og hækkunar á fasteignamati (um 12.000.000.-) verði alfarið nýtt til að lækka álagningarprósentu af íbúðarhúsnæði þannig að áætlaðar tekjur af fasteignasköttum verði 158.000.000.- í stað 170.000.000.-
Greinargerð:
Meirihlutinn áætlar að tekjur bæjarsjóðs vegna fasteignagjalda muni á næsta ári aukast um 18% frá endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2005, úr 145 milljónum í 170 milljónir. Þessi aukna skattheimta byggist einvörðungu á hækkandi fasteignamati, leiðir að óbreyttu til aukinnar skattheimtu á íbúðareigendur í bæjarfélaginu og eykur greiðslubyrði heimila til muna sem kemur barnafólki og mörgum eldriborgurum afar illa.
Lækkun útsvarsprósentu úr 12.46% í 12,35%, sem meirihlutinn leggur til, skilar hverjum skattgreiðanda að meðaltali um “heilum” 3.000 krónum. Þrátt fyrir þessa lækkun er áætlað að skattgreiðendur skili bæjarsjóði 72 milljónum hærri útsvarstekjum en í fyrra.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson (sign) (sign) (sign)
Tillaga Neslistans var felld með 4 atkvæðum D-listans gegn 3 atkvæðum Neslistans.
Fulltrúar D-lista lögðu fram eftirfarandi bókun:
Meirihluti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn Seltjarnarness hefur lagt fram tillögu að nýrri fjárhagsáætlun sem gerir ráð fyrir umtalsverðri lækkun útsvars og fasteignagjalda í tengslum við fjárhagsáætlun næsta árs. Þannig gerir fjárhagsáætlun ráð fyrir því að íbúar njóti góðs árangurs í fjármálastjórn bæjarins undanfarin ár.
Útsvar á Seltjarnarnesi hefur um langt skeið verið með því lægsta sem gerist á meðal sveitarfélaga í landinu og samkvæmt fyrirliggjandi tillögu verður útsvar lægst á Seltjarnarnesi á höfuðborgarsvæðinu. Samkvæmt tillögunni lækkar útsvarið úr 12,46 í 12.35% og verður því allt að 5% lægra en í öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu.
Álögur á fasteignir lækka einnig annað árið í röð. Fasteignaskattur af íbúðarhúsnæði var lækkaður í janúar síðastliðnum úr 0,365 í 0.32%, vatnsgjald lækkaði úr 0,15 í 0,14% og lóðaleiga íbúðarhúsnæðis var lækkuð úr 0.75 í 0.35% af lóðarmati. Samkvæmt tillögu að fjárhagsáætlun bæjarsjóðs fyrir árið 2006 lækkar fasteignaskattur enn, fer úr 0.32% í 0,30% og vatnsgjald lækkar úr 0,13% í 0.115%. Mikil eftirspurn eftir húsnæði á Seltjarnarnesi og á grundvelli traustrar fjárhagsstöðu bæjarins og ráðdeildar í rekstri bæjarsjóðs telur meirihluti bæjarstjórnar fært að deila þeim ávinningi með skattgreiðendum á Seltjarnarnesi. Lækkun fasteignagjalda eru einnig viðbrögð við þeirri hækkun á fasteignamarkaði sem orðið hefur undanfarið. Frá 1999 hefur fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði á Seltjarnarnesi þannig lækkað úr 0.375% af fasteigna- og lóðarmati í 0.30% og lóðarleiga úr 3% af lóðarmati í 0.35%. Fasteignatengdar álögur á Seltjarnarnesi hafa um langt skeið verið með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu og leggur Seltjarnarnesbær t.d. ekki á holræsagjald, eitt sveitarfélaga á landinu en útgjöld vegna holræsagjalds nema víðast hvar tugum þúsunda á ári fyrir hvert heimili.
Engar hækkanir eru ráðgerðar á gjaldskrám sveitarfélagsins á næsta ári þrátt fyrir verðlagsbreytingar en engin skerðing verður þó á þjónustustigi. Seltjarnarnes hefur um langt skeið lagt sig fram um að veita samkeppnisfæra þjónustu og er meðal þeirra sveitarfélaga á landinu sem hvað mestu verja til þjónustu við íbúa, m.a. vegna skólamála, íþrótta- og æskulýðsstarfs. Þannig munu leikskólagjöld, gjaldskrá skólamötuneyta og önnur þjónustugjöld haldast óbreytt en ekki hækka í takt við verðbólgu. Sem kunnugt er hafa þjónustugjöld opinberra aðila bein áhrif á vísitölu neysluverðs. Tillaga að nýrri fjárhagsáætlun bæjarins um óbreytt þjónustugjöld og lækkun opinberra gjalda mun þannig stuðla að umtalsverðum auknum kaupmætti heimilanna á Seltjarnarnesi.
Samkvæmt árlegri greinargerð Grant Thornton endurskoðunar um fjármál Seltjarnarnesbæjar er fjárhagsstaða Seltjarnarnesbæjar sterk og hefur styrkst jafnt og þétt síðustu ár, hvort sem litið er til afkomu bæjarsjóðs, veltufjár frá rekstri, veltufjárhlutfalls eða skuldastöðu.
Ásgerður Halldórsdóttir Jónmundur Guðmarsson
(sign) (sign)
Bjarni Torfi Álfþórsson Ingimar Sigurðsson
(sign) (sign)
Tillaga fulltrúa D-listans var samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Lækkun útsvarsprósentu úr 12,46% í 12,35%, skilar um 12.000.000,- minna í útsvarstekjur í bæjarsjóð og lækkar skattbyrði hjá hverjum skattgreiðenda um “heilar” 3.000.-. Lækkun útsvars hjá meirihluta sjálfstæðismanna er ekki annað en sjónhverfingar. Þessi lækkun er vitaskuld ekki gerð í neinum öðrum tilgangi en þeim að geta slegið um sig gagnvart öðrum bæjarfélögum á kosningarári. Hver einasti fasteignareigandi á Seltjarnarnesi mun finna áþreifanlega fyrir því að fasteignaskattar hækka um 18% á milli ára þrátt fyrir að álagningarhlutfallið lækkar úr 0,32% í 0,30%.
Að mati fulltrúa Neslistans er mun réttlátara að lækka fasteignaskattana. Fasteignamat eigna er að hækka á milli ára um 30-40%. Hér er um aukna skattheimtu að ræða sem byggir ekki á auknum tekjum. Fasteignagjöldin eru því mjög óréttlát skattlagning, sem bæjarbúar eiga enga möguleika á að verjast. Meirihlutinn hefur fellt þá breytingartillögu Neslistans að fasteignaskattar verði lækkaðir. Álögur á bæjarbúa eru að hækka um 100 milljónir á milli ára. Verður því seint hægt að tala um að álögur séu að lækka á íbúa Seltjarnarnes undir stjórn meirihluta sjálfstæðismanna.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fulltrúar D-listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Líta verður á tillögur meirihlutans í samhengi en þær ná bæði til útsvars og fasteignagjalda. Þannig mun útsvar lækka um 1% og fasteignaskattar og vatnsskattar lækka verulega í annað sinn á innan við ári. Með engu móti er unnt að líta á þessar jákvæðu aðgerðir í neikvæðu ljósi.
Jónmundur Guðmarsson Bjarni Torfi Álfþórsson
(sign) (sign)
Ingimar Sigurðsson Ásgerður Halldórsdóttir
(sign) (sign)
2. Lögð var fram fundargerð 361. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 15. nóvember 2005 og var hún í 6 liðum.
2. liður samþykktur samhljóða.
3. liður samþykktur samhljóða.
5. liður samþykktur samhljóða.
Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
3. Lögð var fram fundargerð 169. (64.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 14. nóvember 2005 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram fundargerð 80. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 10. nóvember 2005 og var hún í 9 liðum.
2. liður samþykktur samhljóða.
4. liður samþykktur samhljóða.
6. liður samþykktur samhljóða.
Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram fundargerð 62. fundar stjórnar Veitustofnana Seltjarnarness, dagsett 14. nóvember 2005 og var hún í 2 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram fundargerð stjórnar SSH, Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 7. nóvember 2005 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram fundargerð 65. fundar stjórnar Strætó bs. dagsett 4. nóvember 2005 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Lögð var fram fundargerð 5. fundar stjórnar Almannavarnanefndar höfuðborgarsvæðisins, dagsett 4. nóvember 2005 og var hún í 6 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram fundargerð 209. fundar Launanefndar sveitarfélaga, dagsett 16. nóvember 2005 og var hún í 14 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
Fundi var slitið kl. 18:00