624. (1550.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 26. október 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.
Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Árni Einarsson.
Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.
Fundargerð 623. fundar var samþykkt, til máls tóku Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.
1. Lögð var fram fundargerð 79. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 21. október 2005 og var hún í 7 liðum. Einnig voru tekin til fyrrri umræðu drög að Aðalskipulagi Seltjarnarness fyrir árin 2006 til 2024.
Á fundinn mætti Hlín Sverrisdóttir frá Alta ehf og kynnti bæjarfulltrúum tillöguna að Aðalskipulagi Seltjarnarness 2006 til 2024, þætti í gerð aðalskipulagsins auk þess að svara fyrirspurnum. Eftir umræðu og kynningu vék Hlín af fundi.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Árni Einarsson.
Bæjarstjórn gerði eftirfarandi samhljóða samþykkt:
“Í samræmi við 17. gr. skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 samþykkir Bæjarstjórn Seltjarnarness að senda Skipulagsstofnun fyrirliggjandi tillögu að nýju aðalskipulagi fyrir Seltjarnarnes 2006-2024 til athugunar”.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans fagna því að drög að nýju aðalskipulagi fyrir 2006-2024 sjái nú loksins dagsins ljós, en vinna við gerð þess hófst fyrir tæpum þremur árum eða í byrjun árs 2003. Fulltrúar Neslistans hafa margoft bent á og bókað um mikilvægi þess að vinna við aðalskipulag og þar með landnýtingaráætlun skuli vinna áður en hafist er handa við að deiliskipuleggja einstök svæði. Á það hefur ekki verið hlustað fyrr en nú. Þetta verklag meirihlutans hefur kostað bæjarfélagið óheyrilega fjármuni og tafið alla skipulagsvinnu á Seltjarnarnesi.
Að okkar mati er stefnumörkunin þó of opin í sumum tilvikum sem getur kallað á erfiðleika síðar þegar farið er í deiliskipulagsvinnuna. Umhverfismat á Vestursvæði og Miðsvæði er veikt og leiðsögnin ekki nægilega skýr í þessum drögum að Aðalskipulagi. Skulu tvö dæmi tekin: Á vestursvæðinu er því ekki hafnað að reistar verði stærri byggingar vestan sjónlínu frá Nesstofu að Ráðagerði. Slíkt myndi skerða svæðið til muna og auka bílaumferð inn á svæðið. Í umhverfismati kemur þetta vel fram, það sem fram kemur að óljóst er hversu vel Vestursvæðin geti þjónað þeim markmiðum sem sett eru í aðalskipulaginu. Vestursvæðið er skilgreint sem opið svæði og innan þeirra skilgreiningar rúmast nokkuð umfangsmiklar framkvæmdir.
Stefnumörkun fyrir miðsvæði er einnig of opin. Í umhverfismati kemur vel fram hve óljós stefnumörkunin er þar sem ekki er hægt að leggja mat á hve vel miðsvæðið þjónar markmiðum aðalskipulagsins.
Þá er vert að benda á að fyrirhuguð er 6 hæða bygging á horni Suðurstrandar og Nesvegar. Telja verður það nokkuð mikið í lagt þegar horft er til afstöðu meginþorra Seltirninga við háreistri byggð.
Fulltrúar Neslistans hafa lagt það til að skipaðir yrðu samráðshópar um Vestursvæði og Miðsvæði, en meirihlutinn hefur ekki enn tekið þá beiðni fyrir í Skipulags- og mannvirkjanefnd. Brýnt er að farið sé í þá vinnu nú þegar.
Fulltrúar Neslistans munu að öðru leyti koma athugasemdum sínum á framfæri með formlegum hætti.”
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fulltrúar D- listans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Aðalskipulagið hefur verið unnið faglega og með samráði við íbúa á öllum stigum allt frá íbúaþingi sem haldið var 8. nóvember 2002 og fram til útgáfu tillögunnar. Má þar nefna að forsenduskýrsla var send í hvert hús, stofnaður var rýnihópur íbúa í tengslum við hluta aðalskipulagsins og sú vinna kynnt jafnóðum á heimasíðu bæjarins, allar nefndir bæjarins hafa fjallað um tillöguna, samráðsfundir hafa verið haldnir með íbúum og hagsmunaaðilum og að lokum hefur tillagan verið kynnt á netinu, sem og á skipulagsviku og opnum skipulagsdegi á Eiðistorgi.
Tekið hefur verið við athugasemdum íbúa og þær ræddar og þær afgreiddar með umsögn. Íbúum mun einnig gefast tækifæri til að koma á framfæri ábendingum í hinu formlega kynningarferli eftir auglýsingu tillögunnar. Komi upp veruleg álitamál í kynningarferlinu mun Skipulagsnefnd ávallt hafa tök á að efna til enn frekara samráðs við íbúa.
Einhugur hefur verið í Skipulagsnefndinni um framgang málsins bæði efnislega og varðandi vinnulag sbr. verkáætlun ALTA sem var samþykkt á sínum tíma og tillagan var afgreidd úr nefndinni til bæjarstjórnar og þar með til auglýsingar með öllum greiddum atkvæðum eins og fyrr segir.”
Jónmundur Guðmarsson Inga Hersteinsdóttir
(sign) (sign)
Ásgerður Halldórsdóttir Bjarni Torfi Álfþórsson
(sign) (sign)
Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
2. Lögð var fram fundargerð 78. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 7. október 2005 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
3. Lögð var fram fundargerð 359. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 13. október 2005 og var hún í 1 lið.
Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram fundargerð 183. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 12. september 2005 og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram fundargerð 184. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 6. október 2005 og var hún í 7 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram fundargerð 299. (38.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, dagsett 25. október 2005 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku: Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.
1. liður fundargerðarinnar var samþykktur samhljóða en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram fundargerð starfshóps um byggingu og rekstur heilsuræktar í tengslum við Sundlaug Seltjarnarness, dagsett 13. október 2005.
Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að fela bæjarstjóra að leita eftir samningum við Þrek ehf. um byggingu og rekstur líkamsræktarstöðvar í tengslum við Sundlaug Seltjarnarness.
8. Lögð var fram fundargerð 284. fundar stjórnar SSH, dagsett 3. október 2005 og var hún í 6 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram fundargerð 9. fundar ársins 2005 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 18. október 2005 og var hún í 6 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson
Bæjarstjórn telur nauðsynlegt að bregðast skjótt við vegna skýrslu um skolpmengun samkvæmt 3. lið fundargerðarinnar, og felur bæjarstjóra að leita skýringa og að orsakaþáttum mengunarinnar.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
10. Lögð var fram fundargerð 728. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 23. september 2005 og var hún í 12 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
11. Erindi:
a) Tekið var til afgreiðslu bréf frá SORPU v/svæðisáætlunar um meðhöndlun úrgangs, dagsett 13. júní 2005, sem lagt var fram á 620. fundi bæjarstjórnar undir lið 10a.
Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.
Samþykkt að vísa tillögunni til umsagnar Umhverfisnefndar Seltjarnarness.
Fundi var slitið kl. 18:25