Fara í efni

Bæjarstjórn

525. fundur 13. desember 2000

Miðvikudaginn 13. desember 2000 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru:  Sigurgeir Sigurðsson,  Inga Hersteinsdóttir, Erna Nielsen, Jens Pétur Hjaltested, Sigrún Edda Jónsdóttir, Högni Óskarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.

Fundi stýrði Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

 

1. Tekin var til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2001.  Einnig var lögð fram fundargerð 294. fundar fjárhags- og launanefndar dagsett 8. desember 2000 og var hún í 3 liðum.
Bæjarstjóri skýrði frá mistökum í vinnslu fjárhagsáætlunar þar sem í málaflokk 06, æskulýðs- og íþróttamál, útivist, hefði fallið niður 2.6 milljónir.  Samþykkt að leiðrétta þetta við endurskoðaða áætlun 2001.
Til máls tóku:   Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Högni Óskarsson, Erna Nielsen, Inga Hersteinsdóttir og Sigrún Edda Jónsdóttir.
Fundargerð fjárhags- og launanefndar var samþykkt með 6 atkvæðum, en 1 fulltrúi sat hjá.
Fjárhagsáætlun fyrir árið 2001 var samþykkt með 5 atkvæðum, en 2 fulltrúar sátu hjá.
Fulltrúar Neslistans leggja fram eftirfarandi bókun við afgreiðslu fjárhagsáætlunartillögu Seltjarnarness árið 2001.
“Við skoðun fjárhagsáætlunar fyrir árið 2001 kemur í ljós að Seltjarnarnes hefur aldrei áður haft úr jafn miklu skattfé úr að spila og nú.  Ræðst þetta af því almenna góðæri sem ríkir og af því að þorri Seltirninga er með tekjur vel yfir landsmeðaltali”.
Skattastefna meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi tók nýja stefnu nú í haust í formi hækkunar útsvars.  Seltirningar hafa í mörg ár borgað mjög há þjónustugjöld á ýmsum sviðum, nú síðast var 20% hækkun á leikskólagjöldum fyrir rúmu ári.  Hefur landsstjórnin undir forystu flokkssystkina meirihlutans stuðlað enn frekar að þessu við endurskoðun tekjustofna sveitarfélaga.
Rök meirihluta bæjarstjórnar fyrir útsvarshækkun nú voru að þörf væri á hækkun útsvars vegna fræðslumála.  Það vekur því athygli að í fjárhagsáætlun 2001 er reiknað með að 42.55% af tekjum bæjarins fari til fræðslumála, en í endurskoðaðri áætlun fyrir árið 2000 voru það 46.51%.  Hlutfallsleg lækkun á framlagi til fræðslumála er tæp 4%.
Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn lögðu fram við fyrri umræðu fjárhagsáætlunar Seltjarnarness metnaðarfullar tillögur varðandi fræðslumál og skipulagsmál.  Öllum þessum tillögum er vísað frá af meirihluta fjárhags- og launanefndar.  Rökin fyrir frávísun sem koma fram í bókun meirihlutans eru afskaplega veik og taka í raun ekki á þeim málum sem um er fjallað.
Í einni tillögu Neslistans er gert ráð fyrir að nemendum Mýrarhúsaskóla verði boðin sambærileg þjónusta og öðrum leikskóla og grunnskólanemendum hér á Seltjarnarnesi, þ.e. að komið verði upp aðstöðu til að hafa mötuneyti í skólanum.  Þegar foreldrar voru spurðir í viðhorfakönnun sem Rekstur og ráðgjöf gerði fyrir skólanefnd Seltjarnarness, var það skoðun meirihluta foreldra að börnin ættu að eiga kost á mat í skólanum.  Skólastjórnendur urðu fyrir miklum þrýstingi nú í haust og ákváðu því að reyna þá leið að kaupa matarpakka frá einkafyrirtæki.  Sú leið getur aldrei verið annað en til bráðabirgða og Neslistinn vill leysa þetta mál.  Meirihlutinn hefur ekki áhuga á því. 
Foreldrafélag og foreldraráð Mýrarhúsaskóla kallar eftir stefnumótun bæjarins varðandi tölvu- og upplýsingatækni.  Tillaga Neslistans varðandi skoðun á þessum málum vakti ekki áhuga meirihlutans og henni var vísað frá.
Allt tal meirihluta bæjarstjórnar um að vel sé gert við skólana á Seltjarnarnesi er í raun orðin tóm.
Svona mætti lengi telja og vísa fulltrúar Neslistans í fundargerð bæjarstjórnar frá 22. nóvember 2000 og afgreiðslu meirihluta fjárhags- og launanefndar frá 8. desember 2000.  Það er ekkert sem Seltjarnarnesbær getur bent á sem dregur fram jákvæð sérkenni umfram sambærileg bæjarfélög, hvorki í formi mannvirkja né þjónustu.  Eina tilraun til nýsköpunar er fjárveiting til undirbúnings endurgerðar knattspyrnuvallar og því ber að fagna.  En þær hugmyndir byggja alfarið á stefnu Neslistans, eins og hún var lögð fram við síðustu kosningar.  Annað mál er fjárveiting til undirbúnings byggingu hjúkrunarheimilis.  Hér er kosningarbrella sett inn í fjárhagsáætlun milli umræðna.  Grundvöllur tillögunnar er byggður á hugmyndum Reykjavíkurlistans um fyllingar við Eiðisgranda, sem ennþá eru fjarri því að verða að veruleika.  Svífur því tillaga meirihlutans um hjúkrunarheimili í lausu lofti, rétt ofan sjávarmáls, skammt undan landi, en þó væntanlega innan landhelgi Seltjarnarness.
Undirstrikar þetta metnaðarleysi og hugmyndarskort Sjálfstæðisflokksins.  Fulltrúar Neslistans sitja því hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2001”.

   Högni Óskarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir
    (sign)    (sign)

 Fulltrúar meirihlutans í bæjarstjórn lögðu fram eftirfarandi bókun;
“Athygli er vakin á að tillögur Neslistans gerðu ráð fyrir útgjaldahækkun að upphæð 25 m.kr., án þess að tilgreina tekjur eða niðurskurð annarra framkvæmda, sem ekki var ásættanlegt að mati meirihlutans”.


2. Lagðar voru fram fundargerðir 38. fundar Starfsmenntunarsjóðs Seltjarnarness dagsett 12. desember 2000 og 52. fundar Starfskjaranefndar Seltjarnarness dagsett 12. desember 2000.
Fundargerðirnar voru samþykktar samhljóða.


3. Lögð var fram fundargerð 761. fundar Byggingarnefndar Seltjarnarness dagsett 6. desember 2000 og var hún í 2 liðum.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

 

4. Lögð var fram fundargerð 79. fundar Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 29. nóvember 2000 og var hún í 6 liðum.
Til máls tóku; Högni Óskarsson, Inga Hersteinsdóttir, Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jens Pétur Hjaltested.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


5. Lögð var fram fundargerð 23. fundar Húsnæðisnefndar Seltjarnarness dagsett 30. nóvember 2000, og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 

6. Lögð var fram fundargerð 262. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 4. desember 2000 og var hún í 10 liðum.  Jafnframt var lögð fram jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar.
Til máls tóku; Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Sigrún Edda Jónsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar var samþykkt samhljóða.


7. Lögð var fram fundargerð 26. fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsett 19. október 2000 og var hún í 2 liðum.
Til máls tók Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


8. Lagðar voru fram fundargerðir 58. fundar framkvæmdanefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 15. nóvember 2000 og var hún í 5 liðum og fundargerð 49. fundar samvinnunefndar um svæðaskipulag höfuðborgarsvæðisins, dagsett 17. nóvember 2000 og var hún í 4 liðum.
Til máls tóku; Högni Óskarsson og Erna Nielsen.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.


9. Lögð var fram fundargerð 8. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins dagsett 1. desember 2000 og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


10. Lögð var fram fundargerð 10. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis dagsett 27. nóvember 2000 og var hún í 6 liðum.

Til máls tóku; Erna Nielsen og Sigurgeir Sigurðsson.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


11. Erindi:
Lagt var fram erindi frá Vélhjólaíþróttaklúbbi V.Í.K. ásamt fylgiskjölum, um framtíðarsvæði félagsmanna á höfuðborgarsvæðinu.


12. Bæjarstjóri lagði fram fyrstu drög að starfsmannastefnu Seltjarnarness.

Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.


13. Sunneva Hafsteinsdóttir bar fram fyrirspurnir til formanns umhverfisnefndar um hverju liði gerð leigusamnings við Golfklúbb Ness samkvæmt samþykkt í lið 8 á bæjarstjórnarfundi 22. nóvember 2000, og hvaða afgreiðslu tillögur Neslistans vegna framkvæmda á golfvellinum hefðu fengið.

Formaður umhverfisnefndar svaraði að nefndin hafi þegar fyrir bæjarstjórnarfundinn 22. nóvember ályktað í málinu og sent þá ályktun til stjórnar Golfklúbbs Ness, en nefndin mun koma saman eftir áramót þar sem þessi mál verða tekin fyrir.


14. Bæjarstjórn tók til skoðunar og umræðu samkeppnistillögur á Hrólfskálalandi.

 

Forseti óskaði fundarmönnum og fjölskyldum þeirra gleðilegra jóla og farsæls nýs árs, og þakkaði fyrir gott og ánægjulegt samstarf á árinu.

 

Fundi var slitið kl. 18.50.           Stefán Bjarnason (sign)

Sigurgeir Sigurðsson  (sign) Inga Hersteinsdóttir  (sign)
Erna Nielsen (sign)           Jens Pétur Hjaltested (sign)
Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Högni Óskarsson (sign)
Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?