617. (1543.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 25. maí 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:10.
Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Ingimar Sigurðsson.
Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.
Fundargerð 616. fundar samþykkt.
1. Lagður var fram ársreikningur Gjafasjóðs Sigurgeirs Einarssonar fyrir árið 2004.
2. Lögð var fram fundargerð 354. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 12. maí 2005 og var hún í 14 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.
1. liður fundargerðarinnar var samþykktur samhljóða en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
3. Lögð var fram fundargerð 64. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 13. maí 2005 og var hún í 13 liðum.
Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson, Ingimar Sigurðsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Árni Einarsson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Vegna 2. liðs fundargerðarinnar sér bæjarstjórn sér ekki fært að verða við erindi Golfklúbbsins á grundvelli umsagnar Skipulags- og mannvirkjanefndar.
Liðir 8, 10 og 12c,d og e voru samþykktir samhljóða.
Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram fundargerð 65. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 20. maí 2005 og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram fundargerð 66. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness, dagsett 23. maí 2005 og var hún í 4 liðum.
Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Ingimar Sigurðsson, Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Ásgerður Halldórsdóttir og Jónmundur Guðmarsson.
Tekin var til umræðu eftirfarandi tillaga Skipulags- og mannvirkjanefndar bæjarins um skipulagsmál samkvæmt 2. lið fundargerðarinnar:
"Skipulags- og mannvirkjanefnd hefur fengið til umfjöllunar Niðurstöður og tillögur rýnihóps um skipulagsmál á Seltjarnarnesi, sem nefndin samþykkti að setja á fót þann 13. janúar s.l. Nefndin telur að rýnihópurinn hafi unnið mjög gott verk og vill nýta þetta tækifæri og færa rýnihópsmeðlimum og ráðgjöfum þakkir fyrir vel unnin störf í þágu bæjarbúa.
Nefndin telur að niðurstöðurnar og tillögur hópsins endurspegli hvor um sig þá umræðu sem fram hefur farið um skipulag á þessum svæðum og nýtist ásamt öðrum ábendingum hópsins við gerð nýs aðalskipulags fyrir Seltjarnarnes. Er það mat nefndarinnar að þorri Seltirninga ætti að geta metið og tekið afstöðu á grundvelli þeirra, hvor tillagnanna sé betur fallin sem grunnur að deiliskipulagi Hrólfsskálamels og Suðurstrandar.
Skipulags- og mannvirkjanefnd samþykkir jafnframt að leggja til við bæjarstjórn að tillögurnar verði unnar frekar í samráði við Hornsteina og VSÓ ráðgjöf og síðan kynntar bæjarbúum. Jafnframt telur nefndin mikilvægt að íbúum gefist kostur á að taka afstöðu til þess hvor skipulagstillagan fyrir Hrólfsskálamel og Suðurströnd verði grunnur að formlegu deiliskipulagi fyrir umrætt svæði í anda samráðs og íbúalýðræðis. Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur því til við bæjarstjórn að hún gangist fyrir kosningu um ofangreindar tvær tillögur meðal allra Seltirninga á kosningaaldri. Kosningin, sem verði bindandi niðurstaða um skipulag Hrólfsskálamels og Suðurstrandar, fari fram fyrir lok júní 2005."
Bæjarstjórn samþykkir tillögur Skipulags- og mannvirkjanefndar og felur nefndinni að undirbúa kynningargögn kosninganna 25. júní n.k., og bæjarstjóra að fela kjörstjórn sveitarfélagsins að annast framkvæmd kosninganna.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Samráð við íbúa með skipan rýnihópsins hefur nú leyst vinnu við gerð skipulagsáætlunar úr þeirri sjálfheldu sem fyrri vinnubrögð meirihlutans leiddu til. Niðurstaða rýnihópsins og samstaða um málsmeðferðina á fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar 23. maí sl. er mikilvægur áfangi að áframhaldandi vinnu við deiliskipulag Hrólfsskálamelar og gamla vallarsvæðisins við Suðurströnd.
Bæjarfulltrúar Neslista kölluðu eftir samstarfi við íbúa strax á fyrstu stigum skipulagsvinnunnar með tillögu á fundi bæjarstjórnar 27. nóvember 2002 um að stofna sjö manna faglegan starfshóp til að vinna sérstaklega að málinu í samvinnu við Skipulags- og mannvirkjanefnd. Tillögunni var vísað til Skipulags- og mannvirkjanefndar þar sem fulltrúar Sjálfstæðismanna felldu hana á fundi nefndarinnar 6. febrúar 2003 og töldu enga þörf á slíkri samráðsnefnd.
Enn er ólokið útfærslu þeirra tveggja skipulagskosta sem Skipulags- og mannvirkjanefnd leggur til að valið verði á milli Hrólfsskálamels og við Suðurströnd og hugmyndir að hugsanlegri endurhönnun Eiðistorgs eru á frumstigi. Þá er ólokið vinnu við gerð aðalskipulags. Mikilvægt er að þessir þættir séu unnir sem heild.”
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Meirihluti sjálfstæðisflokks fagnar sinnaskiptum Neslistans um skipun og tilvist rýnihóps bæjarbúa. Eins og kunnugt er var stofnun hópsins byggð á tillögu meirihlutans í Skipulags- og mannvirkjanefnd í janúar sl. en minnihlutinn greiddi atkvæði gegn skipun hópsins í Skipulags- og mannvirkjanefnd svo sem lesa má í fundargerðum nefndarinnar frá 13. og 20 janúar sl. og mótmæltu í bæjarstjórn.
Í sömu tillögu frá janúar sl. var þess jafnframt getið að niðurstöður hópsins yrðu bornar undir vilja bæjarbúa og því lengi legið fyrir að meirihlutinn hyggðist stíga til fulls skref samráðs og íbúalýðræðis sem hófst með opnu íbúaþingi haustið 2002.
Meirihlutinn fagnar því samstöðu bæjarstjórnar um að íbúar fái að taka afstöðu til þessa mikilvæga máls og treystir því að málflutningur minnihlutans taki í framhaldinu á sig uppbyggilegri og heilstæðari mynd. “
Jónmundur Guðmarsson Ásgerður Halldórsdóttir
(sign) (sign)
Bjarni Torfi Álfþórsson Ingimar Sigurðsson
(sign) (sign)
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans greiddu upphaflega atkvæði gegn tillögu Sjálfstæðismanna um stofnun rýnihóps vegna óvissu um hlutverk hans og höfðu á þeim sama fundi lagt fram breytingartillögu til að skilgreina hlutverk hans. Sú breytingartillaga var felld af sjálfstæðismönnum. Á 59. fundi var lagt fram erindisbréf um rýnihóp sem fulltrúar Neslistans samþykktu enda þá búið að skilgreina hlutverk hópsins. Á 60. fundi Skipulags- og mannvirkjanefndar fagna fulltrúar Neslistans viðsnúningi meirihlutans í þessu máli.
Meirihluti Sjálfstæðisflokks getur ekki hlaupið frá þeirri staðreynd að þeir felldu tillögu Neslistans um samráðshóp í febrúar 2003.”
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Undansláttur minnihlutans breytir því ekki að fulltrúar hans í Skipulags- og mannvirkjanefnd greiddu atkvæði gegn tillögu meirihlutans um stofnun rýnihóps sem kom sem kunnugt er fram nokkru áður en minnihlutinn fann sjálfur upp á því leggja fram tillögu um samráðshóps.”
Jónmundur Guðmarsson Ásgerður Halldórsdóttir
(sign) (sign)
Bjarni Torfi Álfþórsson Ingimar Sigurðsson
(sign) (sign)
Fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram fundargerð 294. (33.) fundar Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness, dagsett 10. maí 2005 og var hún í 4 liðum.
Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram fundargerð 310. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness, dagsett 19. maí 2005 og var hún í 4 liðum.
Til máls tóku: Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Bæjarstjórn fagnar þessari tillögu en bendir á að fulltrúi aldraðra þarf að vera með í hópnum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Lagðar voru fram fundargerðir undirnefndar um jafnréttismál, dagsettar 17. mars 2005 sem var í 1 lið og 11. maí 2005 sem var einnig í 1 lið. Einnig voru lögð fram drög að endurskoðaðri Jafnréttisáætlun Seltjarnarnesbæjar.
Til máls tóku: Árni Einarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Jafnréttisáætlunin var samþykkt samhljóða.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn leggja til að bæjarstjórn Seltjarnarness skipi sérstaka 3ja manna jafnréttisnefnd sbr. lög um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla nr. 96/2000 í upphafi næsta kjörtímabils þ.e. 2006 til 2010.
Jafnréttisnefndin skal vera ráðgefandi fyrir bæjarstjórn Seljarnarness í málefnum er varða jafnrétti kvenna og karla ásamt því að fylgjast með og hafa frumkvæði að sérstökum aðgerðum til að tryggja jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna”.
Sunneva Hafsteinsdóttir Guðrún Helga Brynleifsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram fundargerð 16. fundar Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness, dagsett 2. maí 2005.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
10. Lögð var fram fundargerð 213. fundar stjórnar SORPU bs, dagsett 9. maí 2005 og var hún í 2 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
11. Lögð var fram fundargerð 55. fundar stjórnar STRÆTÓ bs, dagsett 13. maí 2005 og var hún í 8 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
12. Erindi:
a) Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
Við leggjum til að haldið verði áfram formlegu samráðsferli við íbúa Seltjarnarness í skipulagsmálunum. Reynslan af starfi rýnihópsins hefur sýnt það sem við höfum áður bent á að farsælast er að vinna að gerð skipulags með þátttöku íbúa og í sem mestri sátt. Við leggjum því til að starfi rýnihópsins verði haldið áfram þar til nýtt aðal- og deiliskipulag liggur fyrir, hugsanlega í breyttri mynd og með aðkomu nýrra einstaklinga sem gætu gefið enn fjölbreyttari sýn á hugmyndir bæjarbúa. Bendum við þar m.a. á hlut kvenna. Í rýnihópnum sem nú hefur lokið störfum, voru einu konurnar sem þar voru úr röðum Neslista, sem gætti þess að bæði kynin ættu fulltrúa í honum.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir Sunneva Hafsteinsdóttir Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Fulltrúar Sjálfstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Meirihlutinn bendir á að framgangur skipulagsmálanna hefur farið fram að frumkvæði meirihlutans á grundvelli opins og víðtæks samráðs við íbúa.”
Jónmundur Guðmarsson Ásgerður Halldórsdóttir
(sign) (sign)
Bjarni Torfi Álfþórsson Ingimar Sigurðsson
(sign) (sign)
Fundi var slitið kl. 18:42