Miðvikudaginn 10. apríl 2002 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.
Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Jónmundur Guðmarsson, Sigrún Benediktsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Jens Pétur Hjaltested.
Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.
1. Lögð var fram 102. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 3. apríl 2002 og var hún í 10 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir, Erna Nielsen, Sigurgeir Sigurðsson og Sigrún Benediktsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
2. Lagðir voru fram til fyrri umræðu ársreikningar Seltjarnarnesbæjar og fyrirtækja fyrir árið 2001.
Tekjur bæjarsjóðs voru kr. 1.095.031.374.-
Gjöld bæjarsjóðs voru kr. 949.621.853.-
Gjaldfærð fjárfesting var kr. 33.385.110.-
Sigurgeir Sigurðsson bæjarstjóri gerði grein fyrir reikningunum.
Til máls tók Sigrún Benediktsdóttir.
Samþykkt var samhljóða að vísa reikningunum til síðari umræðu á næsta bæjarstjórnarfundi.
3. Lagðar voru fram ályktanir 62. fundar fulltrúaráðs sambands ísl. sveitarfélaga ásamt stefnumörkun sambandsins í byggðamálum.
4. Lagt var fram bréf félagsmálaráðuneytisins dagsett 26. mars 2002 ásamt fylgigögnum varðandi sveitarstjórnarkosningar 25. maí n.k.
5. Lagt var fram bréf umhverfisráðuneytisins dagsett 26. mars 2002 varðandi dag umhverfisins 25. apríl n.k.
6. Lagt var fram bréf menntamálaráðuneytisins dagsett 27. mars 2002 um fyrirhugaða breytingu á lögum um Sinfóníuhljómsveit Íslands.
7. Lagt var fram afrit af bréfi frá Reykjavíkurborg, umhverfis- og tæknisviðs dagsett 27. mars 2002 til Mosfellsbæjar varðandi samþykkt umhverfisnefndar Mosfellsbæjar um samstarf um sorphirðustefnu.
8. Lagt var fram eftirfarandi bréf frá Snorra Aðalsteinssyni, félagsmálastjóra.
Hr. bæjarstjóri, Sigurgeir Sigurðsson,
Austurströnd 2,
Seltjarnarnesi.
Seltjarnarnesi, 8. apríl 2002.
Varðar fyrirspurn á bæjarstjórnarfundi.
Vegna 13. liðar í fundargerð bæjarstjórnar Seltjarnarness þann 27. mars s.l., fyrirspurn til félagsmálaráðs/jafnréttisnefndar Seltjarnarness, þá verður að segjast eins og er að umrædd bókun fyrir rúmu ári síðan hefur algjörlega farið fram hjá undirrituðum og aldrei borið á góma hjá fulltrúum félagsmálaráðs og jafnréttisnefndar. Þar af leiðandi hefur ekki verið um hana fjallað, né bókað og er það harmað.
Verkefnið “Auður í krafti kvenna” er ekki verkefni sveitarfélaga. Að verkefninu standa Nýsköpunarsjóður atvinnulífsins og Íslandsbanki auk Morgunblaðsins og Deloitte & Touche. Háskólinn í Reykjavík annast framkvæmd AUÐAR og er Halla Tómasdóttir framkvæmdastjóri þess. Í átakinu “Dæturnar með í vinnuna” voru fyrirtæki um allt land hvött til þess að taka þátt í með auglýsingum. Jafnréttisnefnd hér hefði vitaskuld geta tekið þátt í verkefninu með þeim hætti að hvetja vinnustaði bæjarins til þess að opna þá fyrir og taka á móti dætrum starfsmanna þennan dag.
Fyrirmyndin að þessu átaki mun komin frá Bandaríkjunum og nefnist þar “daughter´s day”. Hér á landi hefur þetta sætt nokkurri gagnrýni vegna þess að atvinnuþátttaka kvenna er mun meiri hér en vestra og því e.t.v. ekki brýn þörf fyrir þennan dag hérlendis. Þá hefur og verið á það bent að drengir þurfi eins að kynnast vinnustöðum foreldra og Landsbankinn var svo dæmi sé nefnt með “drengjadag” daginn eftir “dætradaginn” í ár.
Virðingarfyllst,
Félagsmálastjóri
Seltjarnarnesbæjar.
Snorri Aðalsteinsson (sign)
Samrit: félagsmálaráð
Fundi var slitið kl. 18:13 Álfþór B. Jóhannsson (sign)