552. (1478) Bæjarstjórnarfundur.
Miðvikudaginn 24. apríl 2002 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.
Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Jens Pétur Hjaltested, Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Högni Óskarsson.
Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.
1. Lagðir voru fram ársreikningar Seltjarnarnesbæjar og fyrirtækja fyrir árið 2001 og síðan umræður.
Jafnframt voru lögð fram bréf kjörinna endurskoðenda bæjarreikninga Harðar Felixsonar og Guðmundar Einarssonar.
Fulltrúar Neslistans samþykktu að ársreikningarnir voru rétt færðir en lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Ársreikningur fyrir árið 2001 hefur nú verið lagður fram. Endurskoðendur hafa staðfest með áritun sinni að ársreikningur gefi glögga mynd af afkomu bæjarsjóðs. En bent er á að annar skoðunarmaður bæjarreikninga Guðmundur Einarsson og endurskoðendur vekja athygli á að frávik eru heldur meiri frá fjárhagsáætlun árið 2001 en verið hefur og er þetta annað árið í röð sem bæði endurskoðendur og skoðunarmaður benda sérstaklega á þetta.
Hitaveitan hefur verið rekin með tapi en er samt að greiða arð í bæjarsjóð. Þetta framkvæmir meirihluti Sjálfstæðismanna þrátt fyrir það að hver einstakur Seltirningur greiðir meira til síns bæjarfélags en gerist í nokkru öðru sambærilegu bæjarfélagi á Íslandi. Hinar háu tekjur bæjarfélagsins koma alls ekki fram í hærra þjónustustigi. Rétt er einnig að benda á að skuldahöfuðstóll hefur vaxið um 27% á kjörtímabilinu, þó svo að formaður fjárhags- og launanefndar hafi lýst því yfir tvisvar á opinberum vettvangi undanfarið að skuldahöfuðstóll hafi einungis vaxið um rúm 5%.
Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn geta fyrir sitt leyti samþykkt að ársreikningar séu rétt færðir, en eru ósammála þeim pólitísku áherslum sem endurspeglast þar.”
Sunneva Hafsteinsdóttir Högni Óskarsson
(sign) (sign)
Til máls um bókunina tóku Högni Óskarsson og Jónmundur Guðmarsson.
Fulltrúar meirihluta bæjarstjórnar lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Ársreikningar sýna sterka stöðu bæjarsjóðs, lækkandi skuldir og aukna þjónustu við bæjarbúa.
Hitaveitan er sterkt fyrirtæki sem þjónar íbúunum vel.”
Ársreikningarnir voru samþykktir samhljóða.
2. Lögð var fram 311. fundargerð Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 23. apríl 2002 og var hún í 7 liðum.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir og Sigurgeir Sigurðsson.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
3. Lögð var fram 103. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 17.apríl 2002 og var hún í 8 liðum.
Til máls tóku Jónmundur Guðmarsson, Inga Hersteinsdóttir og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram 50. fundargerð Veitustofnana Seltjarnarness dagsett 11.apríl 2002 og var hún í 5 liðum.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Erna Nielsen og Högni Óskarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram 276. fundargerð Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 9.apríl 2002 og var hún í 9 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram 30. fundargerð Húsnæðisnefndar Seltjarnarness dagsett 11.apríl 2002 og var hún í 6 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram 33. fundargerð Menningarnefndar Seltjarnarness dagsett 16. apríl 2002 og var hún í 4 liðum.
Til máls tók Högni Óskarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Samþykkt var að leggja fram á fundinum 774. fundargerð Byggingarnefndar Seltjarnarness, dagsett 24.apríl 2002 og var hún í 6 liðum.
Til máls tók Erna Nielsen.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.
9. Lögð var fram 243. fundargerð Stjórnar samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 8. apríl 2002 og var hún í 7 liðum.
Til máls tók Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
10. Lögð var fram 23. fundargerð stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins, dagsett 5.apríl 2002 og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
11. Lögð var fram 179. fundargerð stjórnar SORPU dagsett 11. apríl 2002 og var hún í 4 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
12. Lagðar voru fram eftirfarandi fundargerðir Launanefndar sveitarfélaga:
a. Fundargerðir fundar nr. 11.og 12. með Stéttarfélagi íslenskra félagsráðgjafa.
b. Fundargerðir funda nr. 11.og 12. með Stéttarfélagi sálfræðinga á Íslandi.
13. Erindi:
a. Lagt var fram bréf Sambands ísl. sveitarfélaga dagsett 2.apríl 2002 um tölvufræðslu B.S.R.B.
b. Lagt var fram bréf Málræktarsjóðs dagsett 4. apríl 2002, varðandi aðalfund fulltrúaráðs Málræktarsjóðs 2002 og tilnefningar fulltrúa Seltjarnarness í fulltrúaráðið.
Samþykkt var samhljóða að tilnefna Jón Jónsson, Melabraut 28, fulltrúa Seltjarnarness í ráðið.
c. Lagt var fram bréf samtaka herstöðvaandstæðinga dagsett 15.apríl 2002.
Samþykkt var samhljóða að undirrita yfirlýsingu um kjarnorkuvopnalaust sveitarfélag.
Til máls tóku Jónmundur Guðmarsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
14. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi fyrirspurn:
a. “Eftirfarandi tillaga var samþykkt af meirihluta bæjarstjórnar Seltjarnarness 15. ágúst 2001.
“Í framhaldi af kynningu á hugmyndum um hjúkrunarheimili á lóð er ætluð var undir lækningaminjasafn norðan Nesstofu en byggingarnefnd Nesstofusafns afsalaði sér lóðinni með bréfi formanns dags. 3.7.2000 samþykkir bæjarstjórn að úthluta væntanlegu hjúkrunarheimili nefndri lóð undir 60 rúma heimili. Tæknideild ásamt arkitekt verði falið að gera tillögu um lóðarstærð, nákvæmari staðsetningu svo og aðkomu. Fjárhagsnefnd ásamt bæjarstjóra er falið að ganga nú þegar til samninga við Hjúkrunarheimilið Eir um fjármögnun, byggingu og rekstur hjúkrunarheimilisins eftir þeim hugmyndum er kynntar voru bæjarstjórn.”
1. Hvað hefur verið unnið í þessu máli frá því að ofangreind samþykkt var gerð?
2. Hafa tæknideild og arkitekt unnið að og gengið frá tillögu um lóðarstærð og nánari staðsetningu?
3. Hvaða kostnaður hefur fallið á bæjarsjóð vegna þessa máls fram til þessa dags?
Skriflegt svar óskast á næsta fundi 08.05.2002.
Sunneva Hafsteinsdóttir Högni Óskarsson
(sign) (sign)
b. Efni: Smábátahöfn á Seltjarnarnesi.
Hver hefur kostnaður af byggingu hafnarinnar verið á ári síðustu 12 ár þ.e. síðan byrjað var á verkinu?
Hver er kostnaðurinn framreiknaður?
Hverjar eru tekjur af leguplássum á sama tíma?
Hver er fjöldi leigðra leguplássa á þessu ári og hverjar eru tekjurnar?
Svör óskast á næsta bæjarstjórnarfundi 8. maí 2002.
Sunneva Hafsteinsdóttir Högni Óskarsson
(sign) (sign)
15. Lögð var fram ársskýrsla ársins 2001.
Til máls tók Högni Óskarsson.
Fundi var slitið kl. 18:13 Álfþór B. Jóhannsson (sign)