Fara í efni

Bæjarstjórn

554. fundur 22. maí 2002


Miðvikudaginn 22. maí 2002 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl.17:00.

Mættir voru: Sigurgeir Sigurðsson, Erna Nielsen, Sunneva Hafsteinsdóttir, Inga Hersteinsdóttir, Jónmundur Guðmarsson,  Jens Pétur Hjaltested og Högni Óskarsson.
 
Fundi stýrði Jónmundur Guðmarsson.
Fundargerð ritaði Álfþór B. Jóhannsson.


1. Lögð var fram 104. fundargerð Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 15. maí 2002 og var hún í 2 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

2. Lögð var fram 277. fundargerð Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 16. maí 2002 og var hún í 12 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


3. Lagðar voru fram 42., 43. og 44. fundargerðir Æskulýðs- og íþróttaráðs Seltjarnarness dagsettar 18. apríl og 8. og 16. maí 2002 og voru þær í 1, 1 og 4 liðum.
Til máls tóku Högni Óskarsson og Sigurgeir Sigurðsson.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykkta.

4. Samþykkt var að taka til afgreiðslu 775. fundargerð byggingarnefndar Seltjarnarness dagsett 22. maí 2002 og var hún í 5 liðum.
Til máls tóku Erna Nielsen, Högni Óskarsson og Sigurgeir Sigurðsson.
Fundargerðin var samþykkt samhljóða.

5. Lögð var fram 4. fundargerð Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis árið 2002 og var hún dagsett 17. apríl og í 5 liðum.
Til máls tók Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6. Lögð var fram 66. fundargerð samvinnunefndar um svæðisskipulag höfuðborgarsvæðisins dagsett 17. apríl 2002 og var hún í 5 liðum.
Til máls tóku Högni Óskarsson og Erna Nielsen.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.


7. Lögð var fram 244. fundargerð stjórnar S.S.H. dagsett 6. maí 2002 og var hún í 9 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

 
8. Lagðar voru fram 1. fundargerð Iðjuþjálfafélags Íslands dagsett 2. maí 2002 og Launanefndar sveitarfélaga og 53. fundargerð samstarfsnefndar leikskólakennara dagsett 3. maí 2002 og Launanefndar sveitarfélaga og voru þær í 2 og 5 liðum.
Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.


9. Erindi:
a. Lagt var fram bréf Starfsmannafélags Seltjarnarness dagsett 10.maí 2002 þar sem óskað er eftir styrk að upphæð kr.900.000 til viðgerða og endurbóta á sumarbústað félagsins í Skyggnisskógi.
Samþykkt var samhljóða að vísa erindinu til Fjárhags- og launadeildar.
 
b. Lagt var fram bréf Starfsmannafélags Seltjarnarness ódagsett þar sem gerð er grein fyrir kjöri í stjórn félagsins og nefndir sem starfa innan bæjarkerfisins.


Stjórn Starfsmannafélags Seltjarnarness skipa:
Ingunn H. Þorláksdóttir, formaður.
Margrét Sigurðardóttir, varaformaður.
Grétar Vilmundarson, ritari.
Ágúst Ingi Ágústsson, gjaldkeri.
Beata Tarasiuk, meðstjórnandi.
Fulltúar félagsins í Starfskjara- og Starfsmatsnefnd eru:
Ingunn H. Þorláksdóttir.
Margrét Sigurðardóttir.
og til vara:
Beata Tarasiuk.
Fulltrúar félagsins í Starfsmenntasjóði eru:
Grétar Vilmundarson, formaður sjóðsins.
Brynja Guðmundsdóttir.
og til vara:
Margrét Sigurðardóttir.
Ingunn H. Þorláksdóttir.
c. Lagt var fram bréf Björgunarsveitarinnar Ársæls dagsett 4. maí 2002 þar sem óskað er eftir styrk fyrir fasteignagjöldum og hitaveitukostnaði vegna húsnæðis að Suðurströnd 7.
Samþykkt var samhljóða að fella niður fasteignagjöld ársins en beiðni um styrk v. hitaveitukostnaði var vísað til Veitustofnana Seltjarnarness.

10. Lögð var fram umsögn garðyrkjustjóra Kópavogs dagsett 17. apríl 2002 um erindi samtakanna Gróður fyrir fólk í Landnámi Ingólfs um uppgræðslu í landi Seltj./Kópav. við Bolaöldu og Sandskeið.
Samþykkt var samhljóða að veita kr. 400.000 til verkefnisins og er framlagið háð þátttöku Kópavogs í verkefninu.
Umhverfisnefnd Seltjarnarness hefur þegar samþykkt styrk til verkefnisins, kr. 100.000.

11. Lögð voru fram til fyrri umræðu drög að endurskoðaðri bæjarmálasamþykkt Seltjarnarness.
Til máls tóku Sigurgeir Sigurðsson, Högni Óskarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Jens Pétur Hjaltested.
Drögunum var vísað samhljóða til síðari umræðu á næsta fundi.
12. Tekið var fyrir erindi Sigurlaugar Bjarnadóttur.
Til máls tóku Sunneva Hafsteinsdóttir, Högni Óskarsson og Sigurgeir Sigurðsson.
Samþykkt var samhljóða að veita Sigurlaugu 25% afslátt af vinnuframlagi án skerðingar launa í 12 mánuði í stað 9 vegna fjarnáms þau 2 ár er eftir eru af námi með hliðsjón af löngum starfsaldri.
Þessi afgreiðsla er ekki fordæmisgefandi.

 
13. Lagður var fram endurgerður inngangur að ársskýrslu Seltjarnarness fyrir árið 2001 sbr. 7. lið síðustu bæjarstjórnarfundargerðar.
Til máls tók Högni Óskarsson.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Fulltrúar Neslistans þakka bæjarstjóra fyrir endurbættan inngang að ársskýrslu en þar er loks greint frá afdrifum undirbúnings uppbyggingu Hrólfskálamels og afdrifum ákvörðunar meirihlutans um staðsetningu hjúkrunarheimilis.
Ástæða er til þess að taka fram að ágreiningur er um þann skilning sem bæjarstjóri leggur í stöðu lóðar undir lækningaminjasafn og má minna á bréf þáverandi menntamálaráðherra frá síðasta hausti, bréfaskrifta, þjóðminjavarðar og stjórnar Læknafélags Íslands.
Allir þessir aðilar telja að fyrirætlanir um að reisa lækningaminjasafn við Nesstofu séu enn í fullu gildi.”

  Högni Óskarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir
  (sign)    (sign)


14. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi tillögu:
“Fulltrúar Neslistans leggja til að bæjarsjóður veiti allt að 2-5 milljónum króna til atvinnuskapandi verkefna fyrir þann hóp skólafólks frá 17 ára sem horfir fram á atvinnuleysi í sumar.  Vísast til skýrslu garðyrkjustjóra um mál þetta.”
                                22. maí 2002.

 Högni Óskarsson  Sunneva Hafsteinsdóttir
 (sign)    (sign)


Til máls tóku Högni Óskarsson, Sigurgeir Sigurðsson, Sunneva Hafssteinsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.
Tillögunni var vísað samhljóða til næsta fundar.

15. Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
“Það vísast til svara bæjarstjóra við spurningum fulltrúa Neslistans í fundargerðum 553. og 554. funda bæjarstjórnar um hvað hafi verið aðhafst í málum hjúkrunarheimilis frá því að meirihlutinn samþykkti staðsetningu slíks heimilis við hlið Nesstofu.
Svör bæjarstjóra bera það eitt með sér að kosningar eru í aðsigi og að honum er ljóst að ákvörðun meirihlutans hefur beðið skipbrot.  Vitað er að lóð sú sem fjallað var um í ágústsamþykktinni og reyndar að liggjandi svæði hafa verið í skoðun en án þess að tæknideild eða skipulagsnefnd hafi skilað inn formlegu áliti eða tillögu.
Óskírleiki svars bæjarstjóra verður því einungis skilinn þannig að firra eigi frambjóðendur D listans frekari tilvistarvanda á síðustu dögum kosningarbaráttunnar með því að neyða þá til að verja fyrri ákvörðun. Það hefði verið hreinlegra að leggja spilin á borðið og játa ósigur í málinu.”
                               22. maí 2002.

  Sunneva Hafsteinsdóttir  Högni Óskarsson
  (sign)     (sign)


16. Fulltrúar Neslistans tilkynntu að þeir hefðu valið eftirtalda til að taka sæti í undirkjörstjórn.
1. Ragnhildi Helgadóttur, Eiðismýri 30.
2. Valgerði Janusardóttur, Miðbraut 1.
3. Eygló Árnadóttur, Skólabraut 8.
4. Hönnu Guðmundsdóttur, Hofgörðum 25.

17. Sigurgeir Sigurðsson lagði fram eftirfarandi bókun:
“Nú þegar ég sit minn síðasta fund í sveitarstjórn Seltjarnarness sem kjörinn fulltrúi vil ég nota tækifærið og þakka þeim mörgu sem ég hef starfað með á þessum 40 árum.  Ekki er ólíklegt að ég hafi setið um 700 fundi í sveitarstjórn á þessum árum og óteljandi nefndarfundi.

Starf í sveitarstjórn er mjög gefandi en um leið krefjandi og tímafrekt.  Nýrri bæjarstjórn sem tekur við 12. júní n.k. óska ég velfarnaðar.

    Sigurgeir Sigurðsson (sign)


18. Erna Nielsen lagði fram eftirfarandi bókun:
“Kæru bæjarfulltrúar.  Nú þegar ég læt af störfum eftir 12 ára setu sem bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins vil ég þakka ykkur öllum kærlega fyrir ánægjulegt samstarf og vináttu þau ár sem við höfum unnið saman að velferð okkar bæjarfélags.  Það er viss lífsreynsla að taka að sér það vandasama verk að stjórna bæjarfélagi og alls ekki sjálfgefið að ganga þann veg án þess að verða fyrir einhverju mótlæti.  Ég veit að þegar við tökum þá ákvörðun að gefa kost á okkur til starfa fyrir bæjarfélagið þá hafi það verið með því hugarfari að vinna að heilindum og metnaði að góðri uppbyggingu bæjarfélagsins, góðu mannlífi, og umfram allt að sjá til þess að hagur íbúa bæjarfélagsins sé ávallt hafður að öndvegi.  Ég vona að okkur hafi tekist það þó svo að einhver áherslumunur hafi verið í einstökum málum.
Ég vil þakka bæjarritara fyrir mjög ánægjulegt samstarf og góða vináttu.   Einnig vil ég þakka sérstaklega öllum starfsmönnum bæjarskrifstofu, tæknideild og áhaldahúsi fyrir samstarfið og góða vináttu.  Öllum öðrum starfsmönnum bæjarins sem ég hef kynnst í starfi mínu sem bæjarfulltrúi þakka ég ánægjulegt samstarf.  Ég hef eignast marga góða vini í hópi starfsmanna bæjarins og vona að sú vinátta haldi áfram þó ég hverfi nú af vettvangi bæjarmála.
Ég þakka bæjarbúum fyrir samfylgdina og traustið sem þeir hafa sýnt mér í störfum mínum, einnig óska ég nýrri bæjarstjórn sem hér tekur við stjórn bæjarfélagsins farsældar í störfum sínum.”

    Erna Nielsen (sign)
    bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins


19. Högni Óskarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
“Nú er að ljúka síðasta fundi bæjarstjórnar á þessu kjörtímabili sem um leið er síðasti fundur sem undirritaður situr.
Vil ég í því tilefni þakka þeim fjölmörgu sem unnið hafa með bæjarstjórn á kjörtímabilinu.
Rétt er að flytja bæjarstjóra sem nú lætur af störfum eftir rúmlega 40 ára þjónustu fyrir bæjarfélagið sérstakar þakkir og árnaðaróskir á þeirri nýju leið sem hann mótar sér ásamt eiginkonu sinni og fjölskyldu.”

    Högni Óskarsson (sign)

20. Jens Pétur Hjaltested lagði fram eftirfarandi bókun:
“Er komið er að lokum kjörtímabilsins vil ég nota tækifærið og þakka samferðarfólki mínu í bæjarstjórn fyrir samstarfið síðustu fjögur árin.
Auk þess vil ég nota tækifærið og þakka bæjarstjóra, tæknideild bæjarins og öðru starfsfólki bæjarins sérstaklega fyrir góða viðkynningu og skemmtilegt samstarf.
Það að fá tækifæri til að starfa í bæjarstjórn og nefndum Seltjarnarnesbæjar þar sem ég hef fengið tækifæri til að sjá mörg af hugarefnum mínum rætast er vissulega gefandi og skemmtileg reynsla sem ég hefði ekki viljað vera án.
Því hverf ég afar sáttur frá störfum mínum í bæjarstjórn og nefndum bæjarins og óska nýrri bæjarstjórn Seltjarnarness og starfsmönnum bæjarins velfarnaðar.”

    Jens Pétur Hjaltested (sign)
    Nú óbreyttur borgari á Seltjarnarnesi.

21. Sunneva Hafsteinsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
“Tímamót eru að verða í stjórn Seltjarnarnesbæjar.  Bæjarstjórinn Sigurgeir Sigurðsson kveður nú bæjarstjórn eftir 40 ára setu.  Á þessum fjörutíu árum hefur margt breyst.  Undirrituð er fædd og uppalin hér á Seltjarnarnesi og er trúlega sú eina hér á fundinum sem hefur búið lengur hér á Nesinu en fráfarandi bæjarstjóri.  Ég vil þakka Sigurgeiri góð störf í þágu bæjarfélagsins á sínum langa starfsferli.  Einnig vil ég þakka Ernu Nielsen og Jens Pétri Hjaltested fyrir ágætt samstarf og Ernu sérstaklega fyrir mikið starf hennar undanfarin ár við gerð Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins.  Breytingar verða líka hjá Neslistanum því nú kveður bæjarstjórn Högna Óskarsson og vil ég sérstaklega þakka honum ánægjulegt samstarf.  Álfþóri Jóhannssyni bæjarritara er þakkað fyrir sérlega gott samstarf og mikla þolinmæði.”   
    Sunneva Hafsteinsdóttir (sign)

22. Jónmundur Guðmarsson lagði fram eftirfarandi bókun:
“Ég vil sem forseti bæjarstjórnar færa bæjarfulltrúum bestu þakkir fyrir samstarfið og vel unnin störf í þágu Seltirninga á kjörtímabilinu sem nú er að líða.  Sérstakar þakkir færi ég þeim bæjarfulltrúum sem nú láta af störfum, þeim Ernu Nielsen, Jens P. Hjaltested og Högna Óskarssyni.  Óska ég þeim alls hins besta í framtíðinni.  Sigurgeir Sigurðsson sem brátt lætur af störfum sem bæjarfulltrúi og bæjarstjóri hefur átt einstaklega farsælan feril í starfi.  Þáttaskil verða nú í sögu bæjarfélagsins.  Þegar núverandi kjörtímabil kveður sjáum við Seltirningar á bak einstökum forystumanni sem við getum seint þakkað til fulls fyrir alúð við hagsmuni bæjarins og þá óeigingirni og fórnarlund sem endurspeglast í heilli starfsævi í þágu okkar, sem hér búum.  Færi ég Sigurgeiri innilegar þakkir fyrir hönd Seltirninga allra.”

   Jónmundur Guðmarsson (sign)

 

 

Fundi var slitið kl. 18:10   Álfþór B. Jóhannsson (sign)



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?