Fara í efni

Bæjarstjórn

612. fundur 09. mars 2005

612. (1538.) Bæjarstjórnarfundur. Miðvikudaginn 9. mars 2005 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 611. fundar samþykkt.

1.         Lögð var fram til seinni umræðu langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2006-2008.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.

Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar var samþykkt með 4 atkvæðum meirihlutans en 3 fulltrúar minnihlutans sátu hjá.

 

Fulltrúar minnihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn sitja hjá við afgreiðslu langtímafjárhagsáætlunar meirihluta sjálfstæðismanna, 2006-2008. Langtímafjárhagsáætlun er ómarkviss stefnuyfirlýsing meirihlutans, sem fulltrúar Neslistans hafa ekki haft neina aðkomu að.

Í fyrsta lagi er vert að benda á að kostnaður vegna viðhalds við Mýrarhúsaskóla er stórlega vanáætlaður. Áætlaður kostnaður vegna brýnna viðhaldsverkefna og lausabúnaðar eru fram til ársins 2008 um 160 milljónir kr. Á þessu ári á að verja 30 millj. kr. í Mýrarhúsaskóla  og á næstu þremur árum samtals 80 millj. kr. Kostnaður vegna viðhalds í Mýrarhúsaskóla er því trúlega vanáætlaður um 50-60 milljónir kr. Þá er ekki ráðgert að verja neinu fé til viðhalds á Valhúsaskóla en mörg brýn verkefni bíða þar úrlausnar.

Þá er ráðgert að verja 100 milljónum kr. á árinu 2008 vegna byggingar hjúkrunarheimilis á Lýsislóðinni. Ekki er annað í hendi nú en viljayfirlýsing frá heilbrigðisráðuneytinu um að byggt skuli hjúkrunarheimili á árinu 2008, viljayfirlýsing sem hefur mjög takmarkað skuldbindingargildi. Réttara væri að setja þetta verkefni í forgang og vinna ötullega að framgangi þess með þvi að beita yfirvöld heilbrigðismála þrýstingi og geta þá vitnað í stefnumörkun bæjarstjórnar sem á að birtast í 3ja ára áætun.

Ekki er áætlað nema 15 millj. kr. á næstu þremur árum til að ráða bót á lekavandamálunum á þaki Eiðistorgs, sem valdið hefur vandræðum um langt skeið.

Fulltrúar Neslistans í bæjarstjórn telja umrædda langtímafjárhagsáætlun endurspegla metnaðarleysi og óraunsæi meirihlutans þegar kemur að því að meta þá fjármuni sem verður að verja í fasteignir og rekstur sveitarfélagisins, á sama tíma og meirihlutinn hampar því að Seltjarnarnesið sé best rekna sveitarfélagið á landinu undir þeirra stjórn samkvæmt “áliti sérfræðinga” sem svo gjarnan er vísað til.

Guðrún Helga Brynleifsdóttir  Sunneva Hafsteinsdóttir  Árni Einarsson

            (sign)                                        (sign)                    (sign)

 

Fulltrúar meirihlutans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Langtímafjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar 2006 til 2008 undirstrikar það mat óháðra aðila að fjárhagsstaða bæjarsjóðs sé traust.  Í reynd hefur rekstur bæjarsjóðs farið batnandi milli ára sem er nær einsdæmi á meðal sveitarfélaga. Sjálfstæðisflokkurinn hefur frá upphafi verið einbeittur í að lágmarka álögur á skattgreiðendur en veita um leið samkeppnisfæra þjónustu.  Útsvar er það lægsta á höfuðborgarsvæðinu, fasteignagjöldum er stillt í hóf, álagningastuðlar hafa verið lækkaðir og Seltjarnarnes er eina sveitarfélag landsins sem ekki leggur á holræsagjald svo dæmi séu tekin.   Þrátt fyrir þessa stefnu hefur rekstur bæjarins skilað ágætum afgangi og skuldir bæjarsjóðs eru afar litlar í samanburði við önnur sambærileg sveitarfélög.  Þessar áherslur skapa aðhald fyrir kjörna fulltrúa við gerð fjárhagsáætlana, leiða til aga stjórnenda í daglegum rekstri en hefur ekki komið í veg fyrir að þjónusta bæjarins við íbúa sé öflug og vel samkeppnisfær.

Áætlun áranna 2006-2008 ber sem fyrr vitni um öfluga viðleitni í þjónustu við íbúa og framkvæmdum á næstu árum.   Samkvæmt henni verður á næstu þremur árum varið um 450 mkr. til nýframkvæmda á sviði fræðslumála, íþrótta-,  heilsueflingar og öldrunarþjónustu. Þannig er gert er ráð fyrir umfangsmiklu viðhaldsátaki við grunnskóla bæjarins. Áhersla næstu ára er að eldri álma Mýrarhúsaskóla verði tekin til gagngerrar endurnýjunar. Hafið er umfangsmikið endurbóta- og nýframkvæmdarátak við Sundlaug Seltjarnarness sem ætlunin er að ljúka á tímabilinu með byggingu heilsuræktar og innisundlaugar á grundvelli fyrirliggjandi teikninga. Þá er gert ráð fyrir stofnframlagi til byggingar hjúkrunarheimilis á Lýsislóð við Grandaveg árið 2008 á grundvelli samstarfs Seltjarnarnesbæjar og Reykjavíkurborgar þar að lútandi og vilyrði heilbrigðisráðuneytisins fyrir þátttöku í stofnkostnaði og rekstri hjúkrunarheimilis á lóðinni.   Til viðbótar mun eignasjóður verja umtalsverðum fjármunum eða  rúmum 110 mkr. til almenns viðhalds á fasteignum og búnaði bæjarins.

Langtímaáætlunin undirstrikar einnig áframhaldandi skilvirkni í rekstri, markvissa niðurgreiðslu langtímalána og metnaðarfulla þjónustu við íbúa á hagkvæmum skattkjörum.  Skuldir verða greiddar niður um 150 mkr. og rekstrarhlutfall bæjarsjóðs verður áfram með því besta sem gerist.  Hvorki er gert ráð fyrir hækkun á álagningarstuðli opinberra gjalda á tímabilinu né töku nýrra langtímalána.  Þvert á móti er stefnt að því að Seltjarnarnes verði áfram í fararbroddi sveitarfélaga hvað snertir lágar álögur á íbúa en veiti samkeppnisfæra þjónustu við bæjarbúa og sterka fjárhagsstöðu.

Jónmundur Guðmarsson                       Ásgerður Halldórsdóttir

(sign)                                                  (sign)

Inga Hersteinsdóttir                               Bjarni Torfi Álfþórsson

(sign)                                                  (sign)

 

2.           Lögð var fram fundargerð 60. fundar Skipulags- og mannvirkjanefnd Seltjarnarness, dagsett 25. febrúar 2005 og var hún í 7 liðum.

Til máls tók: Sunneva Hafsteinsdóttir.

Liðir 6 og 7 í fundargerðinni voru samþykktir samhljóða en fundargerðin gaf að öðru leyti ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 176. fundar Umhverfisnefndar Seltjarnarness, dagsett 3. mars 2005 og var hún í 6 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

4.           Lögð var fram fundargerð 307. fundar Félagsmálaráðs   Seltjarnarness, dagsett 17. febrúar 2005 og var hún í 5 liðum. Einnig var lögð fram fundargerð undirnefndar um jafnréttismál dagsett 19. janúar 2005 og var hún í 2 liðum.

Fundargerðirnar gáfu ekki tilefni til samþykktar.

5.           Lögð var fram fundargerð 62. fundar Menningarnefndar Seltjarnarness, dagsett 15. febrúar 2005 og var hún í 5 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6.           Lögð var fram fundargerð 157. (52.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness, dagsett 28. febrúar 2005 sem var vinnufundur í 1 lið um málefni grunnskóla.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7.           Lögð var fram fundargerð 722. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga, dagsett 18. febrúar 2005 og var hún í 21 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8.           Lögð var fram fundargerð 47. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs., dagsett 18. febrúar 2005 og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

9.           Tillögur, erindi og fyrirspurnir:

a)       Lögð var fram umsókn Neslindar um endurnýjun á almennu leyfi til áfengisveitinga fyrir Rauða ljónið Eiðistorgi 13-15.

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.

    Bæjarstjórn samþykkir að framlengja leyfið um 2 mánuði á meðan kannað verður nánar um hvernig staðið er að framkvæmd áður settra skilyrða um veitingu leyfisins.

    Að uppfylltum lögboðnum umsögnum gerir bæjarstjórn að öðru leyti ekki athugasemd við útgáfu leyfis til 12. maí 2005.

b)      Samþykkt var að taka á dagskrá eftirfarandi fyrirspurnir frá fulltrúum Neslistans í bæjarstjórn Seltjarnarness, þar sem óskað er eftir skriflegum svörum á næsta fundi bæjarstjórnar 30. mars 2005.

I.                  Gallup- könnun.

1)     Hver stendur fyrir Gallup- könnun um málefni bæjarfélagsins sem fram fór um helgina?

2)     Hver greiðir könnunina og hvað kostar hún?

3)     Hver samdi spurningarnar?

4)     Hve stórt er úrtakið?

5)     Af hverju eru bæjarfulltrúar ekki með í ráðum við gerð slíkrar könnunar?

II.               Skipulagsmál.

1)     Hvað er búið að verja miklum fjármunum í undirbúning aðalskipulags- og deiliskipulags á kjörtímabilinu. Óskað er eftir sundurliðun á öllum þáttum s.s. aðkeyptri þjónustu sérfræðinga, auglýsingakostnaði, kostnaði við gerð bæklinga, dreifingu o.fl. frá upphafi kjörtímabilsins.

2)     Hvað er áætlaður kostnaður vegna sérfræðinga í þeirri vinnu sem eftir er í skipulagsmálunum. Óskað er eftir sundurliðun á kostnaði.

III.            Annað.

1)     Hvað veldur því að bæjarstjóri hefur ekki lagt fram athugun sem gerð var af verkefnastjóra á því að útvarpa bæjarstjórnarfundum, eins og samþykkt var samhljóð að gera hinn 26. maí 2004.  Ítrekað hefur verið spurt um afdrif þessarar athugunar á bæjarstjórnarfundum en engin svör borist. Fullyrt var sl. haust af bæjarstjóra að könnun væri nánast tilbúin.

2)     Óskað er eftir sundurliðun á kostnaði vegna auglýsingabæklinga sem sendir hafa verið í hús á Seltjarnarnesinu á kjörtímabilinu, aðra en greinir undir II.1.

    Guðrún Helga Brynleifsdóttir  Sunneva Hafsteinsdóttir  Árni Einarsson  

               (sign)                                        (sign)                      (sign)

 

Fundi var slitið kl.  18:40



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?