1003. Bæjarstjórnarfundur var haldinn fimmtudaginn 2. apríl 2025, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.
Fundinn sátu: Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Sigurþóra Bergsdóttir (SB), Karen María Jónsdóttir (KMJ) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).
Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Fundargerð 174. fundar bæjarráðs
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 3 töluliðum, samhljóða.
Til máls tóku: SB, BTÁ, SHB og ÞS
2. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana árið 2024 – fyrri umræða
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2024. Gerði bæjarstjóri grein fyrir helstu niðurstöðum.
Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar og stofnana 2024 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem er 9. apríl 2025.
Bókun meirihluta:
Meirihluti bæjarstjórnar Seltjarnarness leggur til að ársreikningi bæjarins og stofnana fyrir árið 2024 verði vísað til síðari umræðu í bæjarstjórn, þann 9. apríl næstkomandi.
Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024 sýnir jákvæðan viðsnúning í rekstri bæjarins. Skýrist sá viðsnúningur af auknu aðhaldi í rekstrinum eftir þungt rekstrarár árið 2023. Enn fremur höfðu mótvægisaðgerðir sem gripið var til, m.a. sala á húsnæði hjúkrunarheimilisins, góð áhrif á sjóðsstöðu bæjarins. Með því var unnt að greiða upp skammtímaskuldir þannig að það létti verulega á fjármagnskostnaði.
Halli á samstæðu nemur 107 m.kr. á árinu 2024, samanborið við 798 m.kr. árið áður, sem er viðsnúningur upp á 691 m.kr. Gjaldfærsla lífeyrisskuldbindinga nemur 227 m.kr. á árinu, sem er töluverð lækkun milli ára. Viðsnúningurinn er þó verulegur að teknu tilliti til þessarar lækkunar, ekki síst þar sem enn er að skapast kostnaður vegna framkvæmda í grunnskólahúsnæði bæjarins, þótt þær framkvæmdir hafi að miklu leyti einkennst af uppbyggingu. Fjármagnskostnaður á árinu nam 277 m.kr., en vextir og verðbólga eru nú á niðurleið sem er jákvæð þróun. Halli á A-hluta nemur tæpum 464 m.kr. á árinu 2024 samanborið við 867 m.kr. halla árið 2023. Er það viðsnúningur upp á nær 404 m.kr., sem má teljast gott.
Skatttekjur bæjarfélagsins aukast um 8,5% milli ára og framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga aukast um 28,1%. Útlit er fyrir að tekjustofn bæjarins muni styrkjast enn frekar með fjölgun íbúa þegar fólk flyst í Gróttubyggð. Það mun renna enn styrkari stoðum undir grunnrekstur bæjarins. Áfram verður lögð áhersla á aðhald og ábyrgð í rekstri. Það er forsenda þess að áfram sé hægt að halda úti framúrskarandi grunnskólum og leikskólum, auk þess að veita bæjarbúum aðra þjónustu á sem bestan hátt.
Kennitölur endurspegla styrkari rekstur bæjarins:
Uppskipting Grunnskóla Seltjarnarness í tvær sjálfstæðar einingar, Mýrarhúsaskóla og Valhúsaskóla, gekk í gegn fyrir yfirstandandi skólaári og var skiptingin byggð á faglegum sem og á fjárhagslegum grunni.
Málaflokkur fatlaðs fólks hefur verið bænum fjárhagslega þungur, en þjónustuþörf hefur vaxið töluvert undanfarið ár og hefur Seltjarnarnesbær reynt að mæta þeirri aukningu eins vel og kostur er. Samlegðaráhrif vegna breytinga á rekstri í þessum málaflokki, svo sem með tilkomu búsetukjarna fyrir fatlað fólk, koma til með að skila sér til baka á komandi misserum. Síðan málaflokkurinn var færður yfir til bæjarfélagsins hefur kostnaður vaxið mun hraðar en tekjurnar, enda var kostnaður verulega vanáætlaður við tilfærsluna, auk þess sem kröfur um þjónustu hafa aukist síðustu ár.
Mesti þungi framkvæmda ársins 2024 var við kostnaðarsama endurbyggingu Mýrarhúsa- og Valhúsaskóla, en báðar byggingar hafa verið endurnýjaðar að miklu leyti. Þær endurbætur hafa gengið vonum framar og er almenn ánægja með afraksturinn og óhætt er að segja að við búum að því að eiga gott skólahúsnæði eftir þessar breytingar.
Við höldum áfram hagræðingaraðgerðum sem eru þegar komnar til framkvæmda. Engin lán voru tekin á árinu 2024. Skammtímaskuldir hafa verið greiddar upp sem lækkar vaxtabyrði bæjarins umtalsvert. Miklar fjárfestingar í skólahúsnæði bæjarins hafa hins vegar gengið verulega á sjóði bæjarins en ekki er stefnt að frekari lántökum fyrst um sinn. Yfirstandandi mygluviðgerðir hafa nú kostað bæjarsjóð um 1.200 m.kr. Rétt er að hafa hugfast að útgjöld eru að aukast með nýjum kjarasamningi kennara og óvæntu áfalli vegna sjógangs. Við þessu er nauðsynlegt að bregðast. Eins og alltaf eru til skoðunar leiðir til lækkunar kostnaðar við þjónustu og vörukaup.
Við bæjarfulltrúar meirihlutans horfum björtum augum til líðandi árs með augun á því sem öllu máli skiptir, sem er velferð og ánægja íbúa Seltjarnarnesbæjar.
Til máls tóku: ÞS, SB, MÖG, SHB og KMJ
Fundi slitið kl. 17:35