Fara í efni

Bæjarstjórn

996. fundur 27. nóvember 2024 kl. 17:00 - 17:46

996. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 27. nóvember, 2024, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.

Fundinn sátu: Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir (DSO), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).

Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Magnús Örn Guðmundsson forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Fjárhagsáætlun 2025– fyrri umræða

Fjárhagsáætlun fyrir árið 2025 – fyrri umræða – lögð fram.

Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2025-2028. Bæjarstjóri lagði fram greinargerð þar sem helstu markmið og niðurstöður eru raktar nánar.

Ég vil hér fylgja úr hlaði frumvarpi að fjárhagsáætlun ársins 2025 sem er í dag lagt fram til fyrri umræðu í Bæjarstjórn Seltjarnarness. Frumvarpið inniheldur einnig fjárfestingaáætlun sem og þriggja ára áætlun. Ástæða er til að taka það fram frumvarpið getur tekið breytingum á milli umræðna, en síðari umræða verður á bæjarstjórnarfund þann 11. desember næstkomandi.

Ég vil byrja á að þakka sérstaklega Svövu G. Sverrisdóttur sviðsstjóra fjármálsviðs, en hún stýrði gerð þessa frumvarps, með öðrum sviðsstjórum, auk þeirra Guðrúnar Torfhildar aðalbókara bæjarins og Öldu Gunnarsdóttur launafulltrúa. Þeim eru færðar sérstakar þakkir fyrir gerð þessarar áætlunar.

Sviðsstjórar, forstöðumenn og starfsmenn allir eiga einning þakkir skyldar fyrir ráðdeild, útsjónarsemi og skilning í sínum störfum á yfirstandandi ári. Þeim eru hér með færðar góðar þakkir mínar.

Verðbólga mælist í dag um 5,1% og vaxtastig hefur sömuleiðis verið hátt sem hefur áhrif á vaxtaberandi lán bæjarins og fjármagnsliðir bæjarsjóði því ansi þungir í skauti. Blessunarlega fer nú verðbólga lækkandi auk þess sem vaxtalækkunarferli er nú hafið sem vonandi verður framhald á. Með lækkandi vaxtabyrði styrkist grunnrekstur okkar enn frekar.

Við höfum létt á fjárhagsskuldbindingum bæjarsjóðs með eignasölu upp á rúmlega 2 ma kr sem hafa leitt til uppgreiðslu íþyngjandi skammtímaskulda. Eins hafa vel heppnaðar aðgerðir okkar við uppskiptingu Grunnskólans skilað okkur mjög mikilli hagræðingu.

Það er sérstakt ánægjuefni að sjá viðsnúning í rekstri bæjarsjóðs upp á um 850 m kr. á milli ára. Jákvæð afkoma A hluta og samstæðunnar allrar er mikið ánægjuefni og gefur okkur byr í seglinn við að styrkja afkomuna enn frekar. Það sýnir okkur enn fremur að við erum á réttri leið.

Fram undan eru kjarasamningar sem töluverð óvissa ríkir enn um og má þess geta að við förum alls ekki varhluta af langvinnum verkfallsaðgerðum hér í bæ. Ég vona sannarlega að samingsaðilar nái saman sem allra fyrst.

Áætlun þessi er eins og alltaf mótuð af vörn og stuðningi við grunnþjónustu bæjarins sem eru skólar, félagsþjónusta, íþrótta- og tómstundastarf, auk öldrunarþjónustu.

Á líðandi ári hefur langstærsta verkefni bæjarins verið viðgerðir á skólahúsnæði. Þar hefur reynt á þol bæjarsjóðs og ekki síður nemenda, starfsfólks og foreldra. Blessunarlega hefur það samstarf verið gott og mestu neyðarviðgerðinar að baki, en árið hefur vissulega verið ansi krefjandi á stundum.

Ég fer nú yfir helstu forsendur við gerð fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2025.

Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2025

 

Verðbólga:

Meðaltal birtra verðbólguspáa sem Sambandið gefur út, með 1% varúðarálagi ofan á eða 5,1%.

Tekjur:

Útsvar: Álagningarhlutfall er óbreytt í 14,54%

Gert er ráð fyrir 7% hækkun á útsvari milli ára, 5% vegna áætlaðrar hækkunar launa og 2% vegna fólksfjölgunar

Fasteignagjöld eru óbreytt milli ára:

- Fasteignaskattur, A-hluti – íbúðarhúsnæði: álagningarhlutfall 0,166%, af fasteignamati

- Fasteignaskattur, B-hluti – opinbert húsnæði: álagningarhlutfall 1,32% af fasteignamati

- Fasteignaskattur, C-hluti – atvinnuhúsn. og óbyggt land: álagningarhl.1,154% af fasteignamati

- Lóðarleiga: A-hluta: verður 0,40% og B-hluta 1,75% af fasteignamati lóðar

- Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,0855% af fasteignamati

- Sorphirða: Kr. 75.000,- á hverja eign

- Fráveitugjald: 0,1425% af fasteignamati

Gjalddagar fasteignagjalda: 10

Elli- og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignagjöldum íbúðarhúsnæðis til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um

Íbúafjöldi: Gert er ráð fyrir 2% fjölgun íbúa eða ca. 100 íbúum á árinu

Gjaldskrár: Gjaldskrár hækka um 6% með frávikum

Gjöld:

Gert er ráð fyrir 4,0% - á rekstrarliðum einstakra deilda frá fjárhagsáætlun 2024

Gert er ráð fyrir launahækkunum á bilinu 3,5% - 5% og tekur það mið af þeim samningum sem nú þegar er búið að ljúka

Fundarfjöldi nefnda óbreytt frá fjárhagsáætlun 2024

Ekki er gert ráð fyrir lántöku á árinu 2025

Bæjarstjóri lagði til að vísa frumvarpinu til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 11. desember n.k.

Bókun meirihluta:

Sterkar tekjur og aðhald leggja grunn að bættum rekstri

Nú liggur fyrir fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2025, ásamt þriggja ára áætlun. Áætlunin ber skýr merki um þann mikla viðsnúning sem er að eiga sér stað í grunnrekstri bæjarins. Aðhald hefur verið haft að leiðarljósi á öllum sviðum og brátt munu þungar gjaldfærslur vegna myglu í grunnskólanum heyra sögunni til. Skatttekjur aukast um 10% og framlög úr Jöfnunarsjóði hækka um rúmlega 290 m.kr. Jákvæð áhrif aðgerða bæjaryfirvalda við að skipta Grunnskóla Seltjarnarness í tvo sjálfstæða skóla vega þar þungt, auk hækkunar á framlögum til málaflokks fatlaðra, sem bæjarstjórn hefur lengi barist fyrir.

Álagning skatta helst óbreytt, en taka ber fram að skatttekjur Seltjarnarnesbæjar eru hvað hæstar á landsvísu miðað við höfðatölu. Góður viðsnúningur er því að nást í krefjandi umhverfi án þess að grípa þurfi til skattahækkana. Gjaldskrár bæjarfélagsins hækka flestar um 6% með undantekningum. Þessar hækkanir eru nauðsynlegar til að mæta verðlagsþróun og kjarasamningsbundnum launahækkunum, sem eru umtalsverðar. Afar jákvætt er að sjá að rekstrarafgangur er bæði í A hluta og samstæðu, tæpar 11 m.kr. í A hluta og 154 m.kr. í samstæðu. Það er skýrt merki um jákvæðan og þýðingarmikinn viðsnúning. Veltufé frá rekstri samstæðu, sem er lykiltala í rekstri bæjarfélaga, styrkist umtalsvert á milli ára og fer úr 211 m.kr. í 764 m.kr. á næsta ári. Veltufé frá rekstri í lok árs nemur um 11% og eykst hlutfallið á næstu árum. Framlegðarhlutfall af rekstri er 8,8% og er vel yfir viðmiðum.

Eignir hafa verið seldar og munar þar mestu um fasteignina að Safnatröð 1. Markvisst hefur verið leitað leiða til hagræðingar og til að styrkja efnahag, t.d. með nýju skipulagi á þróunarreitum í eigu bæjarins. Með lækkandi verðbólgu og vaxtastigi má gera ráð fyrir frekari styrkingu grunnrekstrar, en verðbólga hefur leikið sveitarfélög landsins grátt á síðustu árum. Á sama tíma hefur fjármálastjórn, áætlanagerð, eftirfylgni og aðhald verði stórbætt. Fjármálastjóra eru færðar sérstakar þakkir fyrir gott starf.

Engin lán voru tekin á árinu 2024 og íþyngjandi skammtímaskuldir voru greiddar upp. Skuldahlutfall er nú 108% og fer hratt lækkandi næstu ár. Skuldaviðmið verður 88% í lok árs 2025 en það má hæst vera 150%. Lýsir það sterkri fjárhagsstöðu bæjarfélagsins. Rekstur Veitna bæjarins hefur einnig gjörbreyst og þær eru nú sjálfstæðari og búa yfir mun betri tækjum en áður. Nýja borholan hefur reynst afar vel og styrkt okkar góða fyrirtæki til lengri tíma.

Bærinn hefur staðið í kostnaðarsömum stórframkvæmdum vegna viðgerða skólahúsa sökum myglu. Framkvæmdir hafa gengið framar vonum á því rúma ári sem þær hafa staðið yfir. Neyðarviðgerðum húsanna er að mestu lokið, þó að stór verkefni séu fram undan, svo sem utanhússklæðning á Valhúsaskóla og þakviðgerð á Mýrarhúsaskóla, sem hægt er að framkvæma í áföngum. Sérstakar þakkir eru færðar nemendum, foreldrum og starfsfólki fyrir jákvætt samstarf í þessu krefjandi verkefni.

Á árinu 2025 verður hafist handa við byggingu nýs leikskóla, þar sem fyllsta aðhalds verður gætt í þessu stóra verkefni.

Hlutverk kjörinna fulltrúa er að gæta bæjarsjóðs, og við höfum lagt áherslu á að forgangsraða framkvæmdum og tryggja grunnþjónustu með hagsmuni bæjarbúa að leiðarljósi. Fjárhagsáætlun ársins 2025 endurspeglar ábyrgð, elju og þann árangur sem náðst hefur í að koma jafnvægi á grunnrekstur bæjarins.

27.11.2024

Bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóðja að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Selttjarnarnesbæjar fyrir árið 2025 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 11. desember nk. og til frekari vinnu í bæjarráði.

Til máls tóku: ÞS, GAS, MÖG, SB, BTÁ, SHB og DSO

Þriggja ára áætlun árin 2026 – 2028 lögð fram – fyrri umræða

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa frumvarpi að fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2026-2028 til síðari umræðu í bæjarstjórn þann 11. desember nk. og til frekari vinnslu í bæjarráði.

2. Fundargerð 163. fundar Veitustjórnar

Fundargerðin lögð fram til samþykkar.

Eftirfarandi liður í fundargerðinni er borinn upp til staðfestingar: Fundargerðin lögð fram til samþykktar.

1. 2024110157 - Fjárhagsáætlun veitustofnana 2025 og breytingar á verðskrá

Arnar Óli og Svava kynntu gerð fjárhagsáætlunar veitustofnana 2025 og fóru yfir breytingatillögur á verðskrá. Fjárhagsáætlun og hækkunarþörf veitustofnana voru ræddar.

Afgreiðsla: Samþykkt var að hækka gjaldskrá hitaveitu um 10% frá og með janúar 2025. Einnig var samþykkt að endurskoða gjaldskrá um mitt ár 2025.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu veitustjórnar á lið 1. samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 4 liðum, samhljóða.

Til máls tóku: SHB og BTÁ

3. Fundargerð 475. fundar Fjölskyldunefndar

Fundargerðin lögð fram.

Til máls tók: BTÁ

4. Fundargerð 955. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 590. fundar stjórnar SSH

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 52. eigendafundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram til samþykkar.

Eftirfarandi liður í fundargerðinni er borinn upp til staðfestingar:

SORPA bs. Endurvinnslustöðvar - 1606003

Á 508. fundi stjórnar Sorpu bs. sem haldinn var 6. nóvember sl. var eftirfarandi bókað vegna umræðu um stöðu uppbyggingar nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg:

„Í ljósi undangenginnar kynningar hóps um framtíðarskipulag endurvinnslustöðva á höfuðborgarsvæðinu samþykkir stjórn, með vísan til gr. 4.3 í eigendastefnu byggðasamlagsins, að leita heimildar eigendafundar Sorpu bs. fyrir því að uppbygging nýrrar endurvinnslustöðvar við Lambhagaveg verði á grundvelli sviðmyndar 1, með yfirbyggingu að hluta. Framkvæmdastjóra er falið að leggja ákvörðun stjórnar fyrir eigendafund til staðfestingar ásamt fyrirliggjandi áhættumati ráðgjafa og áhættumati áhættunefndar.“

Jón Viggó Gunnarsson framkvæmdastjóri Sorpu kynnir framangreint og tillögur um fjármögnun uppbyggingar nýrrar endurvinnslustöðvar en gert er ráð fyrir að hún verði fjármögnuð með töku verðtryggðs láns til 30 ára að fjárhæð 1,332 ma.kr.

Óskað er eftir staðfestingu eigendavettvangs á fyrrgreindri bókun, þ.e. heimild til að halda áfram með framkvæmdina og heimild til lántöku samkvæmt

framansögðu.

Gestir

Gunnar Dofri Ólafsson samskipta- og viðskiptaþróunarstjóri Sorpu bs.

Þórhallur Hákonarson fjármálastjóri Sorpu bs.

Niðurstaða:

Eigendavettvangur staðfestir fyrir sitt leyti bókun stjórnar Sorpu bs. frá 6. nóvember sl. og að málið verði unnið áfram á grundvelli fyrirliggjandi tillögu, en

endanlegri ákvörðun er vísað til umræðu og afgreiðslu sveitarfélaganna. Stjórn og framkvæmdastjóra Sorpu bs. er falið að fylgja málinu eftir gagnvart

sveitarfélögunum. Jafnframt er stjórn Sorpu bs. hvött til þess að leita leiða til að lágmarka þá fjárhæð sem taka þarf að láni vegna framkvæmda á vegum

byggðasamlagsins.

Samþykkt

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu eigendafundar á lið 1. samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerð eigendafundar, sem er í 2 liðum, samhljóða.

7. Skipanir í kjördeildir

Listi fyrr starfsmenn í yfirkjörstjórn og undirkjörstjórnum í alþingiskosningum 30. nóvember 2024 lagður fram til samþykktar.

Bæjarstjórn samþykkir listann samhljóða.

 

Fundi slitið kl. 17:46

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?