985. Bæjarstjórnarfundur var haldinn miðvikudaginn 17. apríl, 2024, kl. 17:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.
Fundinn sátu: Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Þór Sigurgeirsson (ÞS), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).
Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana árið 2023 – seinni umræða
Á fundinn undir þessum dagskrárlið er mættur Sturla Jónsson, endurskoðandi frá Grant Thornton. Hann kynnti ársreikning bæjarins og stofnana hans fyrir árið 2023 og endurskoðunarskýrslu 2023.
Forseti gaf orðið laust og fór fram umræða um ársreikninginn eins og hann liggur fyrir eftir fyrri umræðu.
Bæjarstjóri lagði til við bæjarstjórn að samþykkja ársreikninginn fyrir árið 2023.
Forseti bar upp ársreikning bæjarins og stofnana hans í einu lagi. Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2023 er samþykktur samhljóða og afgreiddur skv. 61. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, sbr. 2.tl. 1.mgr. 18.gr. laganna.
Samþykktinni til staðfestingar er ársreikningurinn undirritaður af viðstöddum bæjarfulltrúum.
Bókun meirihluta:
Ársreikningurinn er í dag tekinn til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Rekstur málaflokka gekk ágætlega og að mestu í góðu samræmi við fjárhagsáætlun fyrir utan málaflokka félagsþjónustu sem voru þungir í skauti.
Skatttekjur bæjarins jukust umfram áætlanir eða um 9,3% milli ára og framlög jöfnunarsjóðs jukust um 21,4%.
Á móti vegur að heildarlífeyrisskuldbinding hækkar um 441 m.kr. sem hefur afgerandi áhrif á niðurstöðu ársins. Lífeyrisskuldbinding er uppsöfnuð áunnin réttindi þess fólks sem starfað hefur hjá sveitarfélaginu á undanförnum áratugum. Hún hefur í raun lítil áhrif á fjárstreymi ársins 2023 og kemur til greiðslu á næstu áratugum. Hækkun lífeyrisskuldbindingar er meðal annars til komin vegna breytinga á lífslíkum, launahækkana og verðbólguspá næstu ára. Hækkunin er gjaldfærð í rekstrarreikningi ársins 2023 og gefur því nokkuð villandi mynd af raunverulegri fjárhagsstöðu bæjarins.
Niðurstaða bæjarins litast enn fremur að miklu leyti af kostnaði vegna mygluframkvæmda í skólahúsnæði bæjarins, niðurrifi og leigu á skólahúsnæði, en gjaldfærður kostnaður vegna myglu nemur 241 m.kr. á árinu 2023.
Samanlagt nema þessir tveir liðir 683 m.kr. af 797 m.kr. halla á A og B hluta á árinu eða 86% af halla samstæðunnar. Verðbætur á lánum bæjarins nema enn fremur 341 m.kr. þar sem verðbólga hefur haldist há lengur en spáð var.
Það sem skiptir máli inn í framtíðina og næstu misseri er að tekist hefur í samstarfi við starfsfólk bæjarins að bæta þjónustu enn frekar þrátt fyrir óvæntar og erfiðar áskoranir og þar skiptir samvinna starfsfólks og kjörinna fulltrúa höfuðmáli.
Forseti, nú legg ég fram ársreikning bæjarins og stofnana árið 2023 til samþykktar í bæjarstjórn.
Ég vil enn fremur nota þetta tækifæri og þakka starfsfólki Seltjarnarnesbæjar, kjörnum fulltrúum og nefndarfólki fyrir gott starf á árinu 2023.
Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóri
Bókun minnihluta:
Nú liggur fyrir ársreikningur Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023 og er ljóst að bæjarsjóður skilar 867 milljón króna tapi en það er 115% aukning á halla bæjarins milli ára. Hallarekstur bæjarins nemur 20% af skatttekjum bæjarins og uppsafnað tap síðastliðinna ára nálgast þrjá milljarða.
Tapið skýrist að hluta til af framkvæmdum á skólahúsnæði vegna myglu upp á 241 milljón króna og lífeyrisskuldbindingu en rekstraráhrif vegna hennar jukust um 160 milljónir milli ára. Eftir stendur rekstrarhalli upp á rúmlega 400 milljón krónur sem ef stæði einn og sér væri næst versta rekstrarniðurstaða Seltjarnarnesbæjar í sögunni.
Langtímaskuldir jukust um 18% á árinu, eigið fé lækkaði um 25% og yfirdráttur hækkaði um 20%. Uppsafnaður halli á rekstri bæjarins nálgast nú þrjá milljarða, hallinn er fjármagnaður með lánum og yfirdrætti sem safna vöxtum sem gerir rekstur bæjarins þyngri á hverju ári.
Þótt útlitið sé svart þá er hægt að snúa við rekstri bæjarins en þá þurfum við meirihluta sem er óhræddur að taka ákvarðanir og bregðast við stöðunni af festu. Við í Samfylkingu og óháðum höfum lagt fram á hverju ári breytingartillögu á útsvarsprósentu bæjarins til að fjármagna þá þjónustu sem íbúar kalla eftir. Einnig höfum við síðastliðin ár lagt fram að hefja skipulag á miðbæjarsvæðinu okkar með það fyrir augum að efla miðbæinn og selja lóðir til að fjármagna framkvæmdir.
Ef þessar tillögur hefðu verið samþykktar værum við ekki að glíma við þennan mikla hallarekstur, skuldir sveitarfélagsins væru lægri með tilheyrandi lækkun á vaxtakostnaði og við hefðum meiri burði til að ráðast í framkvæmdir og sinna viðhaldi á stofnunum bæjarins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Til máls tóku: ÞS, SB, GAS, MÖG, SHB, BTÁ, RJ
2. Fundargerð 150. fundar Skipulags- og umferðarnefndar
Fundargerðin lögð fram til samþykktar.
Eftirfarandi liður í fundargerðinni er borinn upp til staðfestingar:
5. 2023070045 – Nesvegur 104 óveruleg breyting á deiliskipulagi vegna sólskála
Sótt er um að breyta deiliskipulagi fyrir Nesveg 104 þannig að unnt verði að stækka svalir og byggja sólskála á jarðhæð en yfirbyggðar svalir á 2. hæð. Jafnframt hækkar nýtingarhlutfall úr 0,38 í 0,39.
Afgreiðsla: Samþykkt. Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að Skipulagsfulltrúa verði falið að grenndarkynna tillöguna í samræmi við 2. málsgrein 43. greinar skipulagslaga nr 123/2010. Tillagan verði grenndarkynnt fyrir húseigendum að Grænumýri 2, Nesvegi 100, 109, 111 og 113.Bæjarráð samþykkir tillöguna.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar á 5. tölulið fundargerðarinnar samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar sem er í 12 liðum, samhljóða.
3. Umsókn um tækifærisleyfi í Fræðasetrinu í Gróttu v. tónleikahalds
Skúlagata ehf. sækir um að leigja Fræðasetrið í Gróttu vegna útgáfutónleika þann 26. apríl n.k. Enn fremur er sótt um tækifærisleyfi til að veita áfengi á viðburðinum. Öll skilyrði fyrir leyfisveitingu, svo sem frá opinberum aðilum hafa verið uppfyllt. Umsækjendur hafa verið upplýstir um umgengni og frágang í Fræðasetrinu, sem og í friðlandinu Gróttu.
Bæjarstjórn samþykkir umsóknina samhljóða, með fyrirvara um jákvæða umsögn Umhverfisnefndar..
Til máls tók: GAS, RJ, MÖG
4. Fundargerð 495. fundar stjórnar Sorpu bs.
Fundargerðin lögð fram.
5. Fundargerð 496. fundar stjórnar Sorpu bs.
Fundargerðin lögð fram.
Fundi slitið kl. 18:09