Fara í efni

Bæjarstjórn

977. fundur 28. desember 2023

977. Bæjarstjórnarfundur var haldinn fimmtudaginn 28. desember, 2023, kl. 11:00 þegar að bæjarstjórn Seltjarnarness kom saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2.

Mættir: Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir (DSO), Örn Viðar Skúlason (ÖVS), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Guðmundur Gunnlaugsson (GG).

Fundargerð ritaði: Svava G. Sverrisdóttir.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

1. Fundargerð 154. fundar bæjarráðs.

Eftirfarandi liðir í fundargerð bæjarráðs nr. 154 voru bornir upp til staðfestingar:

1. 2023120229 – Fjármögnun á málaflokki fatlaðra – breyting útsvarsprósentu

Samkvæmt tilkynningu frá innviðaráðuneytinu var undirritað samkomulag milli ríkis og sveitarfélaga um breytingu á fjármögnun þjónustu við fatlað fólk þann 15. desember, 2023. Þar kemur fram að ríki og sveitarfélög hafa gert samkomulag um breytingu á fjárhagsramma þjónustu sveitarfélaga við fatlað fólk sem felur í sér að hámarksútsvar sveitarfélaga hækkar um 0,23% og fer úr 14,74% í 14,97%. Samsvarandi lækkun verður á tekjuskattprósentu ríkisins.

Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn, með vísan til ákvæða varðandi breytingu á fjármögnun á þjónustu við fatlað fólk í fyrirliggjandi samkomulagi milli ríkis og sveitarfélaga, dags. 15. desember 2023, er byggir á breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga sem samþykkt var á Alþingi þann 15. desember 2023, að samþykkja að álagningahlutfall útsvars fyrir árið 2024 hækki um 0,23% og verði 14,54%. Hækkun útsvars hjá Seltjarnarnesbæ um 0,23 prósentustig felur ekki í sér auknar álögur á íbúa bæjarins þar sem samhliða á sér stað lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutföll í öllum skattþrepum.

Ákvörðun um álagningarhlutfall útsvars skal tilkynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir 30. desember nk.

Bæjarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum meirihluta afgreiðslu bæjarráðs um hækkun útsvars úr 14,31% í 14,54% fyrir árið 2024. Minnihluti sat hjá við afgreiðslu málsins.

Bókun meirihluta bæjarstjórnar:
Fulltrúar Sjálfstæðisflokks í bæjarstjórn samþykkja samhljóða afgreiðslu bæjarráðs um hækkun útsvars um 0,23 prósentustig úr 14,31% í 14,54% fyrir árið 2024, enda feli hækkunin ekki í sér auknar álögur á íbúa bæjarins þar sem samhliða á sér stað lækkun tekjuskatts um samsvarandi hlutföll í öllum skattþrepum.

Ragnhildur Jónsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Svana Helen Björnsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Dagbjört Snjólaug Oddsdóttir, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks
Örn Viðar Skúlason, bæjarfulltrúi Sjálfstæðisflokks

2. 2023090285 – Gjaldskrár Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024

Fjármálastjóri lagði fram gjaldskrár Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2024.

Bæjarráð samþykkir með tveimur atkvæðum meirihluta að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja framlagðar gjaldskrár fyrir árið 2024 en þær eru í samræmi við nýsamþykkta fjárhagsáætlun fyrir 2024. Fulltrúi minnihluta hafnar tillögunni.

Bókun minnihluta:
Hækkun gjaldskráa á þjónustu á Seltjarnarnesi um 9,9% um áramót, auk samþykktar um að hækka gjaldskrár enn frekar á árinu vegna verðbólgu er köld kveðja til íbúa Seltjarnarness. Þessar hækkanir eru ekki aðeins þungbærar fyrir heimili á Seltjarnarnesi sem nú þegar takast á við verðbólgu og vaxtahækkanir. Þær eru líka til þess gerðar að auka verðbólguþrýsting enn frekar. Þannig er Seltjarnarnesbær að leggja sitt af mörkum til að viðhalda og hækka verðbólgu sem er gegn yfirlýstum markmiðum bæjarins, aðila vinnumarkaðarins og alls samfélagsins.

Samfylking og óháðir mótmæla þessari miklu hækkun af krafti og kjósum gegn henni.

Guðmundur Ari Sigurjónsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Guðmundur Gunnarsson, bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra

Bæjarstjórn samþykkir með fjórum atkvæðum meirihluta. Minnihluti hafnar tillögunni.

3. 2023090285 – Viðaukar nr. 5 - 10

Fjármálastjóri gerði grein fyrir viðaukum nr. 5 - 10 við fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2023.

Bæjarráð samþykkir að leggja til við bæjarstjórn að samþykkja viðauka við fjárhagsáætlun 2023 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, kostnað að fjárhæð kr. 348.700.000,- vegna launabreytinga skv. nýjum kjarasamningum, kostnaðaraukningu að fjárhæð kr. 294.000.000,- vegna reksturs á málaflokki fatlaðra og kostnað að fjárhæð kr. 112.000.000,- vegna framkvæmda í skólahúsnæði bæjarins vegna myglu. Viðaukar að fjárhæð kr. 514.200.000,- fjármagnaðir af handbæru fé.

Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu bæjarráðs samhljóða.

Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 4 liðum í heild sinni.

Til máls tóku: GAS, RJ, GG, DSO, SB

2. Fundargerð 160. fundar Menningarnefndar

Fundargerðin lögð fram.

3. Fundargerð 146. fundar Skipulags- og umferðarnefndar

Fundargerðin lögð fram til staðfestingar.

Eftirfarandi liður í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar er borinn upp til staðfestingar:

7. 2023120238 – Lindarbraut 29, garðskáli á lóð

Eigandi spyr hvort heimilað verði að grenndarkynna um 70 fermetra garðskála í samræmi við skissur hans í viðhengi. Nýtingarhlutfall lóðar er 0,33 og verður byggingarmagn á lóð eftir breytinguna innan nýtingarhlutfalls. Nýi garðaskálinn er hins vegar að mestu utan byggingarreits í gildandi deiliskipulagi.

Nefndin beinir því til bæjarstjórnar að tillaga að deiliskipulagsbreytingu verði grenndarkynnt þegar húseigandinn hefur skilað inn uppdráttum sem uppfylla þá staðla sem gilda um uppdrætti til grenndarkynningar. Tillaga verði grenndarkynnt fyrir húseigendum að Lindarbraut 27 og 31 auk Nesbala 3, 5 og 7.

Bæjarstjórn vísar afgreiðslu erindisins aftur til skipulags- og umferðarnefndar.

Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina, sem er í 17 liðum í heild sinni.

4. Fundargerð 488. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

5. Fundargerð 489. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

6. Fundargerð 490. fundar stjórnar Sorpu bs.

Fundargerðin lögð fram.

7. Fundargerð 381. fundar stjórnar Strætó bs.

Fundargerðin lögð fram.

8. Fundargerð 122. fundar Svæðisskipulagsnefndar SSH

Fundargerðin lögð fram.

9. Fundargerð 419. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins

Fundargerðin lögð fram.

10. Fundargerð 570. fundar stjórnar SSH

Fundargerðin lögð fram.

11. Starfs- og fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins 2024

Starfs- og fjárhagsáætlunin lögð fram til staðfestingar.

Bæjarstjórn samþykktir starfs- og fjárhagsáætlun svæðisskipulagsnefndar fyrir árið 2024 samhljóða.

 

Fundi slitið kl. 11:27

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?