953. Bæjarstjórnarfundur miðvikudaginn 26. október 2022 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Fundinn sátu: Þór Sigurgeirsson (ÞS), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Örn Viðar Skúlason (ÖVS), Svana Helen Björnsdóttir (SHB), Karen María Jónsdóttir (KMJ), Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ).
Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Ragnhildur Jónsdóttir forseti bæjarstjórnar setti fund og stjórnaði. Til fundarins var boðað með lögmætum hætti.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
1. Fundargerð 135. fundar Bæjarráðs.
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liður í fundargerð Bæjarráðs nr. 135 var borinn upp til staðfestingar:
Viðauki við fjárhagsáætlun 2022
Fjármálastjóri lagði fram viðauka 4 við fjárhagsáætlun 2022.
Bæjarstjórn samþykkir, 10. tl. fundargerðar 135, viðauka nr. 4 við fjárhagsáætlun 2022 samkvæmt 2. mgr. 63. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, að fjárframlag til Strætó bs. fyrir árið 2022 verði hækkað um kr. 9.599.428. Kostnaðarauka skal mæta með lækkun á handbæru fé um sömu fjárhæð.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 10 í fundargerð, viðauka 4.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 11 liðum.
Til máls tóku: BTÁ, KMJ, SB, ÞS, RJ, SHB.
Bókun:
Á fundi bæjarráðs þann 24. október var kynnt niðurstaða 9 mánaða uppgjörs bæjarsjóðs, en sú staða er neikvæð um 300 milljónir, miðað við áætlun ársins. Þetta er staðan þrátt fyrir hækkun á útsvars prósetnu þessar ár, sem meirihluti sjálfstæðismanna lagðist gegn. Í aðdraganda kosninga síðastliðið vor kynnti sjálfstæðisflokkurinn loforð sín til kjósenda og þar var efst á blaði að útsvar skyldi lækka strax í 13,7%. Þegar þessi loforð voru gefin hafði stríðið í Úkraínu staðið í um tvo mánuði og verðbólga í landinu mældist um 7,4% svo það hefði mátt vera ljóst amk á þeim tíma að ekki væri hægt að lofa lækkun á útsvars prósentunni.
Við hjá Samfylkinguni og óháðum fögnum því að nú sjái meirihlutinn ljósið, þ.e. að ekki sé hægt að halda úti þeirri þjónustu sem lofað hefur verið, án þess að nýta betur þá tekjustofna sem sveitarfélagið hefur í að sækja.
Sigurþóra Bergsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Karen María Jónsdóttir
2. Fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar, 130. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liður í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 130 var borinn upp til staðfestingar:
1. 2020040062 - Stefnumörkun varðandi gististarfsemi og gististaði fyrir íbúðabyggð
Lagt fram minnisblað Alta, dagsett 29. september 2022, varðandi stefnumörkun um gistiþjónustu í Seltjarnarnesbæ.
Skipulags- og umferðarnefnd felur skipulagsfulltrúa að gera eftirfarandi breytingar á áður auglýstri lýsingu þannig að eftirfarandi texti verði einnig hluti af breytingunni:
„Auk heimagistingar er heimil á íbúðarsvæðum rekstrarleyfisskyld gistiþjónusta í minni gistiheimilum og íbúðum, sbr. 4. og 9. gr. reglugerðar nr. 1277/2016, að uppfylltum eftirfarandi skilyrðum:
- Gisting er á lögheimili gistisöluaðila og hann skal hafa þar aðsetur.
- Hámarksfjöldi leigðra herbergja er fimm.
- Hámarskfjöldi gesta er 10 einstaklingar.
- Starfsemin má ekki hafa neikvæð áhrif á næsta nágrenni, t.d. vegna ónæðis eða hávaða.
- Gestir nýti bílastæði innan lóðar.
- Eitt stæði skal vera fyrir hverja fjóra gesti á gistiheimilum.
- Heimilt er að gefa út nýtt leyfi fyrir skammtímaleigu í húsnæði á íbúðarsvæðum til samræmis við áður útgefin leyfi. Er þá miðað við að umfang starfseminnar aukist ekki frá því sem áður var heimilt. Gilda þá lög um fjöleignarhús nr. 26/1994 varðandi samþykki meðeigenda og lög um mannvirki nr. 160/2010 varðandi breytta notkun húss.
Skipulags- og umferðarnefnd Seltjarnarnesbæjar metur hvort umsókn um rekstrarleyfisskylda gististarfsemi samræmist ofangreindum skilyrðum. Einnig metur nefndin hvort gera þurfi breytingu á deiliskipulagi viðkomandi svæðis eða, ef deiliskipulag liggur ekki fyrir, hvort grenndarkynna þurfi umsóknina sbr. ákvæði 44. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.“
Eftir breytingu felur skipulags- og umferðarnefnd skipulagsfulltrúa að kynna tillöguna á vinnslustigi. Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar.
Bæjarstjórn samþykkir með fimm atkvæðum og tveir sitja hjá (RJ, SB) lið 1 í fundargerð.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 5 liðum.
Til máls tóku: KMJ, SHB, RJ, BTÁ
3. Fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar, 131. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liðir í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 131 voru bornir upp til staðfestingar:
3. 2022090054 - Látraströnd 54 - Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis
Lögð fram umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 5. september 2022, um rekstrarleyfi fyrir gististað í flokki II að Látraströnd 54. Málið var áður á dagskrá 129. fundar skipulags- og umferðarnefndar þar sem því var frestað. Í gildandi aðalskipulagi Seltjarnarness er ekki fjallað sérstaklega um gististarfsemi. Í greinargerð aðalskipulags segir í kafla 3.1. um íbúðabyggð;
„Gert er ráð fyrir að í íbúðarhverfum geti verið atvinnustarfsemi svo fremi að hún valdi óverulegum óþægindum, nánar tiltekið innan eftirfarandi marka:
- Starfsemin fari fram innan hefðbundins dagvinnutíma.
- Starfsemi hvers rekstraraðila valdi ekki ónæði, t.d. vegna umferðar, lyktar eða hávaða.
- Bílastæðanotkun gangi ekki verulega á afnot íbúa í nálægum húsum af sameiginlegum bílastæðum.
- Óheimilt er á íbúðarsvæðum að reka áfengisveitingastaði, sbr. flokk II og III. skv. 4. gr. laga nr. 85/2007.“
Landnotkun er oft skilgreind nánar í deiliskipulagi. Í deiliskipulagi stranda er ekki nánari skilgreining að öðru leyti en því að svæðið er skilgreint sem íbúðabyggð (ÍB-9) í aðalskipulagi.
Umsóknin var á sínum tíma kynnt nágrönnum þ.e. eigendum 14 húsa, að húsi nr. 54 með töldu, þ.e. Látraströnd 15, 17, 19, 21, 46, 48, 50, 52, 54, 58, Barðaströnd 45, 47, 49 og 51. Eigendur 7 húsa gerðu athugasemdir þ.e. húsa við Látraströnd nr. 15, 17, 21, 46, 50, 52 og 58.
Um athugasemdir nágranna vísast til þeirra og til umsagnar Landslaga, dags. 8. mars 2021. Efnislegar athugasemdir þeirra sem gerðu athugasemdir sneru því einkum að ónæði vegna starfseminnar á nóttunni og snemma á morgnanna þ.e. vegna umgengni viðskiptamanna gististaðarins við komur og brottfarir þ.e. að hávaða við þau tækifæri.
Þá var kvartað undan notkun á almennum bílastæðum. Í raun má þó líklega segja að ónæði af starfseminni, umfram það sem almennt verður að telja að felist í notkun húsnæðis sem íbúðarhúsnæðis, felist einkum í meiri umgengni á nóttunni og snemma á morgnanna, með tilheyrandi auknu ónæði umfram það sem almennt má gera ráð fyrir frá hefðbundnu íbúðarhúsnæði. Enginn athugasemdaaðila kvartaði þó beint yfir óþægindum frá starfseminni eins og hún var rekin en lýstu áhyggjum af ónæði. Þó kom fram að fyrrverandi eigendur að Látraströnd 15 hafi orðið fyrir óþægindum vegna ónæðis.
Með vísan til athugasemda var talið að starfsemin færi a.m.k. að einhverju leiti fram utan hefðbundins dagvinnutíma þ.e. komur og brottfarir. Af því var talið leiða að slík starfsemi í íbúðarhverfi myndi líklega, almennt séð, valda nágrönnum eitthvað meira ónæði en hefðbundin búseta og væri því í andstöðu við aðalskipulag. Ekki liggur fyrir með beinum hætti að ónæði hafi verið frá fyrri starfsemi nema upplýsingar um að fyrri eigendur að Látraströnd nr. 15 hafi orðið fyrir ónæði.
Í athugasemdum lögmanns umsækjanda, dags. 17. október sl., kemur fyrst fram að starfsemin fari fram á dagvinnutíma og að umsækjandi bjóði ekki upp á næturþjónustu. Það er að segja að ferðamenn verði að innrita sig milli kl. 15.00 og 17.00 og þurfi að fara fyrir kl. 11.00.
Með vísan til þess, þ.e. ef komur og brottfarir eru almennt á dagvinnutíma, þ.e. að starfsemin hafi ekki í för með sér aukna umferð eða ónæði utan dagvinnutíma, telur meirihluti nefndarinnar ekki forsendur til að leggjast gegn umsókninni að svo komnu enda eigi móttaka ferðamanna og brottfarir sér aðallega stað á dagvinnutíma. Framangreint er algjör forsenda þess að meirihluti nefndarinnar leggst ekki gegn umsókninni.
Breytist móttöku- eða brottfarartími ferðamanna miðað við þetta almennt eða verði verulegt ónæði af starfseminni bresta forsendur fyrir jákvæðri afstöðu meirihluta nefndarinnar til starfseminnar. Áskilur nefndin sér rétt til að bregðast við á viðeigandi hátt m.a. með tilkynningu þar um til sýslumanns sem væntanlega tekur þá til skoðunar hvort forsendur fyrir leyfisveitingunni séu brostnar.
Vísað til staðfestingar í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar.
Bæjarstjórn samþykkir með 3 atkvæðum og 3 á móti, 1(RJ) situr hjá lið 3 í fundargerð.
4. 2022100075 - Umsagnarbeiðni - Suðurströnd 2, Hátíðarsalur Gróttu
Lögð fram umsagnarbeiðni frá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, dagsett 10. október 2022, um leyfi til reksturs veitingaleyfis-G og samkomusalar í flokki II í hátíðarsal Gróttu, Suðurströnd 2.
Skipulags- og umferðarnefnd felur sviðsstjóra skipulags- og umhverfissviðs að veita jákvæða umsögn um umsókn um rekstrarleyfi fyrir veitingaleyfi G, samkomusalur í flokki II. Samkvæmt Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 er heimilt að reka veitingastaði í flokki II innan svæðisins.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða lið 4 í fundargerð.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina í heild sinni sem er í 4 liðum.
Til máls tóku: BTÁ
4. Fundargerð 156. fundar Menningarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB
5. Fundargerð Íþrótta- og tómstundanefndar, 436. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: KMJ, ÖVS, ÞS
6. Fundargerð Fjölskyldunefndar, 462. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB
7. Fundargerð Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, 406. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
8. Fundargerð stjórnar Sorpu bs., 470. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SHB, KMJ, BTÁ, ÞS
9. Fundargerð stjórnar Sorpu bs., 471. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
10. Fundargerð stjórnar Sorpu bs., 472. fundur.
Fundargerðin lögð fram. Til máls tóku: SHB
11. Fundargerð stjórnar Strætó bs., 360. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
12. Fundargerð stjórnar Strætó bs., 361. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
13. Fundargerð SSH., 545. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: KMJ, ÞS
14. Fundargerð Svæðisskipulagsnefndar, 110. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: KMJ
15. Fundargerð stjórnar Samb. ísl. sveitarfél., 914. fundur.
Fundargerðin lögð fram.
16. Reglur um tilnefningu bæjarlistamanns Seltjarnarness lagðar fram.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fyrirliggjandi reglur.
17. Fyrirspurnir frá fulltrúum Samfylkingar og óháðra:
Eitt af stóru málum síðustu kosninga var bygging á nýjum leikskóla, leikskóla sem lengi er búið að bíða eftir. Á þeim tíma sem nú er liðinn af kjörtímabilinu hafa fulltrúar Samfylkingar og óháðar ekki orðið var við að mikið sé að gerast í þessum málum, amk hefur okkur ekki verið kynnt hvernig verkefninu miðar. Það var því áhugavert að heyra af fundi foreldrafélags leikskólans, en þar var upplýst að starfandi leikskólastjóri væri búin að sitja marga fundi, í nefnd um málefni hins nýja leikskóla og að málum miðaði vel áfram.
Við þetta vakna nokkrar spurningar sem óskað er svara við.
- Hvað hefur þessi nefnd/starfshópur starfað lengi?
- Hverjir sitja í þessari nefnd og hvernig var valið í nefndina?
- Hversu margir fundir hafa verið haldnir?
- Hvenær verða fundargerðir lagðar fram í bæjarstjórn til kynningar?
- Eru greidd laun fyrir setu í nefndinni?
- Liggur erindisbréf nefndarinnar fyrir?
Svo er spurning hvort þetta stangist ekki á við bæjarmálasamþykkt, þ.e. að skipa í svona nefnd án þess að það fari fyrir bæjarstjórn og án aðkomu fulltrúa minnihlutans. Í 40 gr. bæjarmálasamþykktar segir, í annarri málsgr.:
„Sveitarstjórn getur kosið nefndir til að vinna að einstökum afmörkuðum verkefnum. Umboð slíkra nefnda getur sveitarstjórn afturkallað hvenær sem er og fellur það sjálfkrafa niður við lok kjörtímabils viðkomandi sveitarstjórnar.”
Í bæjarmálasamþykkt kemur einnig fram að kjósa skal í nefndir á vegum bæjarins í samræmi við 44. og 45. grein sveitarstjórnarlaga um hlutfallskosningu sem tryggir aðkomu minnihluta á nefndum og ráðum.
Fulltrúar Samfylkingar og óháðra á Seltjarnarnesi kalla eftir svörum og að farið sé eftir lögum við stjórnun bæjarins.
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Svör:
- Vinnuhópur um byggingu leikskóla tók til starfa í júlí. Undirritaður kallaði hópinn saman.
- Hópinn skipa Örn Viðar Skúlason, Baldur Pálsson, Brynjar Þór Jónasson, Margrét Gísladóttir svo eru undirritaður og Ragnhildur Jónsdóttir hópum til halds og trausts. Ég valdi í hópinn sviðsstjóra málaflokksins auk sviðsstjóra Eignasjóðs, Settan leiksskólastjóra og áhugafólk um hraða uppbyggingu hagkvæms notadrjúgs húss.
- Það hafa verið haldnir um 8 fundir ef mér telst rétt til.
- Það hefur ekki verið ákveðið enda um óformlegan vinnuhóp um þarfagreiningu að ræða.
- Ekkert hefur verið greitt fyrir þátttöku í vinnuhópi þessum.
- Ekki liggur fyrir erindisbréf enda hópurinn ekki formlega skipaður.
Á 945. fundi Bæjarstjórnar Seltjarnarness, sem haldinn var þann 27. apríl síðastliðinn var samþykkt fjárveiting til að ráða æskulýðsfulltrúa á Seltjarnarnesi. Bæjarstjóri hefur sagt á fundi bæjarstjórnar og á fundi með foreldrum að það eigi að standa við þessa ákvörðun.
Samfylking og óháðir leggja fram eftirfarandi fyrirspurn
- Hefur auglýsing fyrir æskulýðsfulltrúa verið unnin?
- Hvenær er gert ráð fyrir að auglýsing verði birt?
- Hvenær er áætlað að nýr æskulýðsfulltrúi hefji störf?
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
- Nei en drög starfslýsingar Verkefnastjóra forvarna og frístundastarf hafa verið unnin af sviðsstjóra eftir samtöl við starfsfólk málaflokksins. Ekki tekur langan tíma að útbúa auglýsingu og almennt ráðningarferli tekur um 1 mánuð.
- Ekki ákveðið
- Er ekki á fjárhagsáætlun líðandi árs. Vonandi á upphafmánuðum næsta árs.
Síðastliðnar vikur hafa verið undirlagðar vinnu við fjárhagsáætlunargerð hjá sveitarstjórnarfulltrúum út um allt land. Það er ljóst að staða sveitarfélaganna er almennt viðkvæm og að taka þarf stórar pólítískar ákvarðanir við gerð fjárhagsáætlunar fyrir árið 2023. Á bæjarstjórnarfundi fyrr í haust buðu fulltrúar Samfylkingar og óháðra fram sína aðstoð og kölluðu eftir því að faglega yrði staðið að gerð fjárhagsáætlunar með virkri aðkomu fagnefnda. Þegar þessi fyrirspurn er rituð, föstudaginn 21. október 2022 þá hafa bæjarfulltrúar minnihlutans á Seltjarnarnesi hins vegar ekki einu sinni fengið forsendur fjárhagsáætlunar 2023 í hendurnar sem venjulega berast um miðjan september. Engin samráðsfundur hefur verið haldinn í fagnefndum eða kynning farið fram þar sem sviðstjórar kynna áherslur sínar líkt og venja hefur verið síðastliðin ár.
Sex mánaða uppgjör Seltjarnarnesbæjar var neikvætt um rúmlega 200 milljónir og því blasir við að málflutningur Sjálfstæðismanna í kosningabaráttunni um sterkan rekstur og tækifæri til lækkunar á útsvari á sér enga stoð í raunveruleikanum. Í kosningabaráttunni og á opinberum vettvangi talar bæjarstjóri mikið um að við séum saman í þessu og að við viljum standa okkur vel. Bæjarfulltrúar Samfylkingar og óháðra kalla eftir því að þessi orð birtist líka í verkum og faglegum vinnubrögðum.
Fyrirspurnir:
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
- Hvenær áætlar meirihlutinn að senda út forsendur fjárhagsáætlunar 2023?
- Er meirihlutinn tilbúinn að falla frá hugmyndum sínum um útsvarslækkun?
- Munu fagnefndir fá aðkomu að fjárhagsáætlunargerðinni áður en tillaga meirihlutans liggur fyrir?
- Ætlar bæjarstjóri að skipuleggja samráðsfundi meiri- og minnihluta með sviðsstjórum?
- Hvenær er áætlað að taka tillögu að fjárhagsáætlun til afgreiðslu bæjarstjórnar?
Bjarni Torfi Álfþórsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
Karen María Jónsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar og óháðra
-
Forsendur áætlunar eru:
- Óbreytt útsvar 14,09 %
- Stuðull fasteignagjalda á heimili verður 0,166% (hækkar um verðbólgu 9,75%)
- Stuðull fasteignagjalda á atv. húsnæði verður 1,154% (hækkar um verðbólgu 9,75%)
- Fráveitugjald verður 0.1425%
- Vatnsgjald verður 0,0855%
- Sorpgjald verður 53.000 kr.
- Gert ráð fyrir 6% verðbólgu 2023
- Hagræðingarkrafa var sett 2-4%
- Já því miður knýja ytri aðstæður okkur til þess. Við áformum eftir sem áður að lækka útsvar síðar á kjörtímabilinu.
- Já fagnefndir hafa aðkomu eftir 31.10.22 og á milli umræðna.
- Já stefnt er að samráðsfundi/fundum meiri- og minnihluta með sviðsstjórum frá 31.10.22 og á milli umræðna.
- Fjárhagsáætlun 2023 verður lögð fram í bæjarráði 31.10.22 – fyrri umræða í bæjarstjórn 23.11.22 og síðari umræða í bæjarstjórn 14.12.22