Miðvikudaginn 24. september 2003 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi kl. 17:00.
Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Inga Hersteinsdóttir.
Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.
Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.
Fundargerð síðasta fundar staðfest.
Óskað var eftir að fá yfirlit yfir undirnefndir sveitarfélagsins og kjör þeirra.
1. Lögð var fram tillaga að endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2003. Bæjarstjórinn, Jónmundur Guðmarsson, gerði grein fyrir áætluninni. Tekjur hækka um 25.000.000.- og gjöld um 20.630.705.- að teknu tilliti til breytinga á afskriftum og innri leigu.
Til máls tóku: Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson, Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir.
Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:
Fulltrúar NESLISTANS sitja hjá við afgreiðslu endurskoðaðri fjárhagsáætlun 2003 og leggja fram eftirfarandi bókun.
1. Rekstrarkostnaður málaflokka sem hlutfall af skatttekjum er nú kominn í 93%. Það er langt yfir hættumörkum. Skilgreind hættumörk Félagsmálaráðuneytisins er 85%. Lítið samræmi virðist vera við flokkun verkefna í fjárfestingar annars vegar og til rekstrargjalda hinsvegar. Sú flokkun skiptir rekstrarlega mjög miklu máli. T.d. má sjá að áætlað viðhald á þaki Eiðistorgs kr. 15. millj. er flokkað sem eignabreyting, en ætti með réttu að teljast viðhald og gjaldfæra.
2. Afskriftahlutfall fasteigna hefur verið lækkað úr 2.5% í 1.5%. Almenna reglan er sú að afskrifa fasteignir með 2% þ.e á 40 árum. Meirihlutinn notar nú í endurskoðaðri áætlun 1.5% til afskrifta þ.e. 67 ár. Lækkun afskriftahlutfalls bætir umtalsvert rekstrarniðurstöðu bæjarsjóðs. Rekstur bæjarsjóðs er í járnum og er þessi leið því notuð til að bæta afkomuna. Ekki virðast vera nein önnur haldbær rök fyrir því að færa afskrifahlutfallið langt undir því sem almennt tíðkast.
3. Fulltrúar NESLISTANS geta ekki fallist á forgangsröðun verkefna hjá meirihlutanum. Á sama tíma og fjármagn er sett í að fegra umhverfi, sem er í sjálfu sér mjög gott, þá er ekki hirt um að sinna brýnu viðhaldi á fasteignum bæjarfélagsins, sem liggja undir skemmdum. Má sem dæmi nefna þak Tónlistarskólans, sem hefur lekið lengi. Það er óforsvaranlegt að forgangsraða með þeim hætti að ráðast fyrst og fremst í það sem er sýnilegt og hægt er að láta mynda sig við, á sama tíma og fasteignir bæjarfélagsins liggja undir skemmdum. Það er yfirborðsmennska en alls ekki ábyrg fjármálastjórnun.
4. Fulltrúar NESLISTANS draga líka í efa að víðtækt samráð hafi verið haft við forstöðumenn stofnana bæjarins við endurgerð áætlunarinnar eins og gefið er í skyn. Samráð og samvinna er forsenda þess að vel takist til við vinnu af þessu tagi.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson
(sign) (sign) (sign)
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
1. Rekstrarhlutfall bæjarsjóðs er sambærilegt við fyrri ár. Lengi hefur legið fyrir að rekstur bæjarins, sem þykir traustur sbr. m.a. sérstaka úttekt Grant Thornton endurskoðenda, er afar næmur fyrir breytingum á rekstrarkostnaði auk þess sem nýjar reglur um reikningsskil sveitarfélaga torvelda samanburð við fyrri ár. Bent skal á að mun fleiri þættir en rekstrarhlutfallið eitt liggja til grundvallar viðmiðunum nefndar um fjármál sveitarfélaga enda hefur nefndin ekki gert athugasemdir við rekstur Seltjarnarnesbæjar.
Fram hefur komið að fjárhagsstaða Seltjarnarness er án efa með því sem best gerist meðal sveitarfélaga og skal m.a. vísað til samanburðar í Árbókum sveitarfélaga síðustu ára í því sambandi. Þá er vert að minna á að væru gjaldtökuheimildir bæjarsjóðs fullnýttar hefði tekjuauki ársins numið um 150 mkr. með tilheyrandi lækkun á rekstarhlutfalli. Fyrir slíkum álögum er hins vegar ekki áhugi hjá meirihluta SJÁLFSTÆÐISFLOKKS.
Með tilliti til skilgreiningar á viðhaldi og eignabreytingum skal jafnframt bent á að 15 mkr. framkvæmdir við Norðurströnd geta auðveldlega talist til fjárfestingar og þannig lækkað rekstarkostnað bæjarsjóðs um rúmlega 1%.
2. Fjárhags- og launanefnd, þar með talið oddviti minnihlutans samþykktu samhljóða í júní sl. að lækkun afskriftahlutfalls úr 2,5% í 1,5% væri ein af forsendum við gerð fjárhagsáætlunar fyrir 2004. Bæjarstjórn hefur afgreitt fundargerð fjárhags- og launanefndar. Þar sem þessi breyting er bæði flókin og tímafrek og þar sem ný fjárhagsáætlun byggir í öllum grundvallaratriðum á endurskoðaðri áætlun bæjarins þykir eðlilegt að nýta þessa vinnu við endurskoðun áætlunar fyrir 2003. Dylgjum um að hér sé á ferðinni tilraun til fegrunar á rekstri bæjarsjóðs þarf vart að hafna þar sem hver maður getur séð, að það sem lækkar vegna afskrifta í rekstri kemur niður á reiknuðum rekstrarafgangi bæjarsjóðs í staðinn.
3. Ekki er gerð krafa um að minnihlutinn sé sammála forgangsröðun meirihluta SJÁLFSTÆÐISFLOKKS í framkvæmdum og viðhaldi. Til viðhaldsátaks í ár er varið um 60 mkr. sem er í fullu samræmi við viðhaldsþörf og mun því framhaldið á næstu árum sbr. langtímaáætlun bæjarins. Til viðbótar er lagt ærið fé til fegrunar bæjarins og eflingar bæjarbrags og harmar undirritaður afstöðu minnihlutans til þeirra aðgerða.
Jónmundur Guðmarsson
(sign)
Fulltrúi Neslistans Guðrún Helga Brynleifsdóttir lagði fram eftirfarandi bókun:
Því er mótmælt að fulltrúi minnihlutans hafi samþykkt að lækka afskriftarhlutfall vegna endurskoðunar fjárhagsáætlunar 2003. Bent skal á að rekstrarkostnaður sem hlutfall af skatttekjum hafi við endurskoðun hækkað um 4 prósentustig. Verður að telja það umtalsverða hækkun og ber að taka slíka hækkun mjög alvarlega.
Guðrún Helga Brynleifsdóttir
(sign)
Bæjarstjóri lagði fram eftirfarandi bókun:
Vakin er athygli á að forsendur við endurskoðun fjárhagsáætlunar voru kynntar á fundi fjárhags- og launanefndar hinn 11. september sl. þ.m.t. breytingar á afskriftarhlutfalli. Nefndin samþykkti samhljóða að vísa tillögunni til bæjarstjórnar án athugasemda.
Jónmundur Guðmarsson
(sign)
Fjárhagsáætlunin var samþykkt með 4 atkvæðum meirihlutans en fulltrúar Neslistans sátu hjá.
2. Lögð var fram fundargerð 334. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness dagsett 11. september 2003 og var hún í 13 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
3. Lögð var fram fundargerð 128. (23.) fundar Skólanefndar Seltjarnarness dagsett 15. september 2003 og var hún í 11 liðum.
Til máls tóku: Bjarni Torfi Álfþórsson og Sunneva Hafsteinsdóttir.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
4. Lögð var fram fundargerð 26. fundar Skipulags- og mannvirkjanefndar Seltjarnarness dagsett 21. ágúst 2003 og var hún í 2 liðum.
Til máls tóku: Inga Hersteinsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
Lagðar voru fram fyrirspurnir fulltrúa NESLISTANS vegna samþykktar meirihluta Skipulags- og mannvirkjanefndar á fundi nefndarinnar 21. ágúst 2003 um verklag við vinnu við aðal- og deiliskipulag Hrólfskálamels. Óskað er eftir skriflegum svörum:
1. Á hvaða stigi verður unnið úr þeim hugmyndum sem koma og komið hafa um nýtingu svæðisins á Hrólfskálamel?
2. Hverjir eiga að fjalla um og taka ákvarðanir úr fram komnum hugmyndum?
3. Hvar er þetta verkefni statt í dag?
Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Árni Einarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir
(sign) (sign) (sign)
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
5. Lögð var fram fundargerð 291. fundar Félagsmálaráðs Seltjarnarness dagsett 18. september 2003 og var hún í 6 liðum.
Til máls tóku: Sunneva Hafsteinsdóttir og Bjarni Torfi Álfþórsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
6. Lögð var fram fundargerð 6. fundar Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness dagsett 5. september 2003 og var hún í 1 lið.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
7. Lögð var fram fundargerð 6. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og MATVÍS dagsett 10. september 2003 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
8. Lögð var fram fundargerð 56. fundar samstarfsnefndar Launanefndar sveitarfélaga og Kennarasambands Íslands, dagsett 2. september 2003 og var hún í 3 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
9. Lögð var fram fundargerð 259. fundar stjórnar Samtaka sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu (SSH) dagsett 8. september 2003 og var hún í 5 liðum.
Til máls tók: Árni Einarsson.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
10. Lögð var fram fundargerð 6. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis ársins 2003, dagsett 9. september 2003 og var hún í 5 liðum.
Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.
11. Erindi:
a) Lagt var fram bréf SSH dagsett 17. september 2003 varðandi tilnefningar til setu í ráðum á vegum SSH.
Samþykkt var að fulltrúar Seltjarnarnesbæjar verði endurkjörnir þeir sömu og verið hafa.
Til vara í Svæðisskipulagsráð SSH voru tilnefnd þau Ingimar Sigurðsson og Guðrún Helga Brynleifsdóttir.
b) Lögð var fram dagskrá 27. aðalundar SSH sem haldinn verður 17. október 2003.
c) Lagt var fram bréf fjárlaganefndar Alþingis dagsett 4. september 2003 þar sem sveitarstjórnamönnum er boðið að hitta nefndina.
Til máls tóku: Ásgerður Halldórsdóttir og Inga Hersteinsdóttir.
Samþykkt að afþakka boðið.
Fundi var slitið kl. 18:52