Fara í efni

Bæjarstjórn

12. maí 2021

Miðvikudaginn 12. maí 2021 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar bæjarstjórnarsal að Austurströnd 2.

Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.


Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2020, fyrri umræða.
    Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2020. Gerði bæjarstjóri grein fyrir helstu niðurstöðum.
    Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi Grant Thorton gerði grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og lykiltölum. Sturla tengdist fundinum með fjarfundarbúnaði.
    Ásgerður þakkaði starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra hlut að góðum rekstri bæjarins.
    Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.

    Til máls tóku: ÁH, GAS, SB, KPJ, MÖG

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar 2020 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem er 26. maí 2021.

    Bókun meirihluta:
    Sjálfstæðismenn leggja nú til við bæjarstjórn í dag að ársreikningur bæjarins fyrir árið 2020 verði vísað til seinni umræðu. Gott og mikið samstarf hefur verið við minnihlutann allt covid19 árið 2020 til að bregðast við ýmsum þáttum, í þeirri vinnu var haft að leiðarljósi að verja grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Einnig var gert ráð fyrir auknum fjárveitingum vegna lögbundinna skuldbindinga bæjarins um að tryggja félagslegt öryggi íbúa og stuðla að velferð þeirra. Niðurstöður ársreikningsins sýna að starfsfólk bæjarins hefur staðið sig mjög vel á erfiðum tímum. Starfsfólk Seltjarnarnesbæjar hefur tekið á sig aukin verkefni sem fylgt hafa Covid19 og starfsfólkið hefur forgangsraðað út frá öryggissjónarmiðum og brýnni þörf. Starfsfólk bæjarins hefur sýnt æðruleysi og brugðist við síbreytilegum veruleika og haldið úti eins mikilli þjónustu og mögulegt hefur verið, oft við mikla óvissu um eigið öryggi. Það er á engan hallað þó framlínustarfsfólk í leikskólum bæjarins sé nefnt sérstaklega.

    Ekki var gripið til niðurskurður á árinu 2020 heldur þvert á móti bætt í. Skoðaðir voru einstaka útgjaldaþættir og spurt áleitinna spurninga um eðli og tilgang. Bæjarstjórn samþykkti útgjaldaaukningu að fjárhæð 170 mkr til að mæta kostnaði og samdrætti í tekjum vegna ástandsins vegna Covid19. Haldin var úti sama þjónustu fyrir minni útsvarstekjur sem skýrir hallarekstur á árinu 2020. Veltufé frá rekstri nam 253 mkr. sem er sterkt í ljósi ástandsins og nettófjárfestingar numu um 260 mkr. á liðnu ári. Engin ný langtímalán voru tekin á árinu 2020 og skuldaviðmið sveitarfélagsins stóð í 67% í árslok sem er með því besta sem gerist

    Halli á samstæðureikningi Seltjarnarnesbæjar árið 2020 er alls 230 milljónir króna, sem er viðunandi niðurstaða í ljósi efnahagssamdráttarins vegna Covid19 og beins kostnaðar og tekjutaps sem af honum hlaust. Hægt er að rekja að lágmarki 160 mkr. til heimsfaraldurs Covid-19 og 216 mkr. til óvenjulegrar hækkunar á lífeyrisskuldbindingu inn í framtíðina vegna breytinga á lífslíkum. Án ofangreindra áfalla hefði orðið afgangur af rekstri samstæðu upp á rúmar 100 milljónir króna. Niðurstaða ársreiknings 2020 er því áfangasigur í ljósi þess heimsfaraldurs sem einkenndi liðið ár. Á liðnu ári voru miklar framkvæmdir hjá bænum. Á síðustu fjórum árum hefur verið framkvæmt fyrir tæpa fjóra milljarða króna. Á yfirstandandi ári verður helsta og mikilvægasta verkefnið að byggja sambýli fyrir fatlað fólk við Kirkjubraut 20.

    Covid árið 2020 og sá heimsfaraldur sem reið yfir hefur skilið eftir sig sviðna jörð. Ríkisstjórnir, fyrirtæki og almenningur um allan heim hafa þurft að berjast á móti þeim afleiðingum sem faraldur hefur haft í för með sér. Sama gildir um öll sveitarfélög í landinu, sem fengu það hlutverk í samstarfi við ríkisstjórnina að standa vörð um íbúa sína og sitt starfsfólk.

    Markmið bæjarins á Covid tímum hefur verið að styðja við og styrkja efnahag, samfélag og þjónustu bæjarins. Bærinn hefur axlað byrðar með ríkinu og má þar benda á niðurskurð Jöfnunarsjóðsframlaga. Bæjarfélagið hefur einnig tekið á sig tekjulækkun og kostnaðarauka vegna sérstakra eigin aðgerða og utanaðkomandi aðstæðna.

    Enn er mikil óvissa um þróun helstu hagstærða á næstunni og erfitt að leggja fram traustar forsendur fyrir komandi fjárhagsáætlun ársins 2022 eins og fyrir núverandi ár. Ljóst er að árið 2021 verður afar erfitt í íslenskum þjóðarbúskap og markast þær forsendur sem hér koma fram í ársreikningi bæjarins fyrir árið 2020 mjög af því. Stefnan í ríkisfjármálum er einn helsti áhættuþátturinn fyrir næstu fjárhagsáætlun 2022. Vinnumarkaður, allar spár s.s. Seðlabanka og fjármálaráðuneytis, gera ráð fyrir að atvinnuleysi verði svipað á næsta ári. Viðbúið er að atvinnuleysi í heild verði á bilinu 9,5% til 11,5% á landinu. Svo mikið atvinnuleysi mun vafalítið hafa mikil áhrif á tekjumyndun og því umtalsverð óvissa um þróun atvinnulífsins á næstu misserum.


    Bókun bæjarfulltrúa Viðreisnar/Neslista við dagskrárlið 1.

    Ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana 2020
    Árið 2020 var erfitt fyrir alla. Ekki síst sveitarfélög. Um þetta leiti í fyrra var fyrirséð að tekjur myndu lækka mikið vegna atvinnuleysis auk þess sem kostnaður myndi hækka nokkuð. Á árinu 2020 stóð starfsfólk bæjarins og stjórnendur sig vel við að veita þjónustu við erfiðar aðstæður og eiga þakkir og hrós skilið fyrir það.

    Fjárhagsniðurstaða ársins gefur hinsvegar ekki tilefni til hróss. Hún kemur ekki á óvart, en er umtalsvert verri en hún hefði getað orðið. Undir stjórn meirihluta Sjálfstæðisflokksins hefur fjármálastjórn bæjarins verið óábyrg. Sorgleg niðurstaða ársreikningsins fyrir 2020 er fyllilega á ábyrgð meirihluta bæjarstjórnar, sem neitar að horfast í augu við það að reksturinn er gamaldags, lélegur og keyrður áfram á skringilegri hugmynd um að hægt sé að veita nútímalega og vandaða þjónustu á sama tíma og Seltjarnarnes er einhvers konar skattaparadís.

    Þrátt fyrir 4,4% aukningu útsvarstekna tókst meirihluta bæjarstjórnar að reka A-hluta bæjarins með 344 milljóna króna halla á síðasta ári. Bætist þessi halli við nánast stanslausan taprekstur frá árinu 2015 og er nú svo komið að uppsafnaður halli A-hluta bæjarsjóðs á þessu sex ára tímabili nemur ríflega milljarði króna.

    Uppsafnaður halli á hvern íbúa er þá orðinn 215 þúsund krónur, eða 1.290 þúsund krónur á mínu heimili.

    Minnihlutinn hefur ekki farið leynt með þá skoðun sína að Seltjarnarnes hafi ekki efni á skattastefnu Sjálfstæðisflokksins. Það getur ekki talist vera ábyrg fjármálastjórn að lofa íbúum skattaparadís á meðan rekstur bæjarfélagsins er ósjálfbær.

    Á sama tíma og nánast öll orka stjórnenda bæjarins fer í að uppfylla loforð bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um lágar álögur, hefur ánægja íbúa með þjónustuna snarminnkað – hefur farið úr 4,3 í 3,4 af 5 mögulegum á sex árum. Á sömu árum og bærinn hefur nánast undantekningalaust verið rekinn með tapi.

    Einhver myndi segja að tími sé kominn til að einstaklingar í meirhlutanum opni augun fyrir þeirri staðreynd að þeirra stefna gengur ekki upp og getur valdið íbúum bæjarins meiriháttar skaða.

    Karl Pétur Jónsson

  2. Fundargerð 117. fundar Bæjarráðs.
    Ákvörðun sem fram kom í fundargerðinni sem er 10 tl. er staðfestur samhljóða.

    Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.

  3. Fundargerð 114. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

    Eftirfarandi liðir í fundargerð 114. fundar Skipulags-og umferðarnefndar voru borin upp til staðfestingar:

    1. Mál nr. 2020100154
    Heiti máls: Breyting á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 og á deiliskipulagi Vestursvæðis, verslun og þjónusta í Ráðagerði.
    Lýsing: Tekin er fyrir endanleg útgáfa breytingar á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 vegna verslunar og þjónustu í Ráðagerði, í kjölfar auglýsingar, dags. 28. apríl 2021. Athugasemdir um varúð vegna fuglalífs á svæðinu komu frá Jóhanni Óla Hilmarssyni og Umhverfisstofnun. Náttúrufræðistofnun gerði athugasemd við aukin bílastæði vegna fuglalífs og fágætra tegunda plantna. Minjastofnun fór fram á að vakin væri athygli á aldursfriðun hússins. Brugðist hefur verið við þessum atriðum í endanlegri útgáfu skipulagsskilmála. Lögð fram deiliskipulagstillaga, dags, 5. maí 2021, í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
    Afgreiðsla: Nefndin samþykkir að vísa framlagðri útgáfu, tillögu um breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033, dags. 28. apríl 2021, til staðfestingar Skipulagsstofnunar í samræmi við 32. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar. Nefndin samþykkir jafnframt að auglýsa framlagða deiliskipulagstillögu, dags, 5. maí 2021, í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    2. Mál nr. 2019010347
    Heiti máls: Aðal- og deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - breyting vegna nýrrar lóðar að Kirkjubraut 20.
    Lýsing: Tekin fyrir tillaga að breytingu á deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæðis, dagsett 29. maí 2020, en breytt 20. október 2020. Breytingin felur í sér skilgreiningu á nýrri lóð við Kirkjubraut 20. Stærð lóðar um 1.900 m2 og innan lóðar er heimilað reisa hús að hámarki 560 m2 á einni hæð með samtals 6 íbúðum. Deiliskipulagsbreytingin er í samræmi við aðalskipulagsbreytingu sama efnis sem auglýst var með athugasemdafresti til 21. mars 2021.
    Afgreiðsla: Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framlögð tillaga að breytingu á deiliskipulagi, dags. 20. október 2020, verði auglýst skv. 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, með þeim breytingum sem ræddar voru á fundi nefndarinnar. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.

    Bæjarstjórn samþykkir með 6 atkvæðum og einn situr hjá afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    3. Mál nr. 2019110082
    Heiti máls: Aðalskipulag Seltjarnarness 2015-2033 og deiliskipulag – breyting vegna byggingar leikskóla við Suðurströnd.
    Lýsing: Tillaga að deiliskipulagi fyrir reit S-3 á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 vegna byggingar leikskóla við Suðurströnd, dags. 1. nóvember 2020, lögð fram.
    Afgreiðsla: Nefndin leggur til við bæjarstjórn að framlögð tillaga verði auglýst skv. 1. mgr. 41. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson sat hjá við afgreiðslu málsins og leggur fram eftirfarandi bókun: „Undirritaður fagnar að nú sé lögð fram deiliskipulagstillaga fyrir Leikskóla Seltjarnarness. Undirritaður hefur gert athugasemdir vegna aðkeyrslu frá Nesvegi og getur því ekki samþykkt fyrirliggjandi tillögu.“

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    4. Mál nr. 2020110219
    Heiti máls: Lindarbraut – umferðaröryggismál.
    Lýsing: Nefndin samþykkti á 113. fundi að lækka hámarkshraða á Lindarbraut úr 50 km/klst. niður í 30 km/klst. og fól sviðsstjóra að vinna að frekari útfærslu hraðalækkandi aðgerða og vísaði til staðfestingar bæjarstjórnar. Bæjarstjórn samþykkti með fjórum atkvæðum gegn tveimur að vísa málinu aftur til nefndarinnar til frekari skoðunar.
    Afgreiðsla: Samkvæmt Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 eru Lindarbraut og Nesvegur skilgreindar safngötur, þ.e. meginleiðir innan hverfa sem flytja umferð frá húsagötum að tengibrautum, en húsagötur eru með hámarkshraða 30 km/klst. Nefndin samþykkir að lækka hámarkshraða á Lindarbraut úr 50 km/klst. niður í 40 km/klst. og lækka hámarkshraða á Nesvegi samhliða úr 50 km/klst. niður í 40 km/klst. og vísar til staðfestingar bæjarstjórnar og lögreglustjóra. Sviðsstjóra er enn fremur falið að vinna að frekari útfærslu hraðalækkandi aðgerða á Lindarbraut og Nesvegi til samræmis við það sem rætt var á fundinum.

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 7 liðum.

    Til máls tóku: BTÁ, SB, GAS

  4. Fundargerð 305. fundar Umhverfisnefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  5. Fundargerð 144. fundar Veitustofnunar.
    Fundargerðin lögð fram.

  6. Fundargerð 392. fundar samstarfsnefndar Skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerðir 523. og 524. fundar stjórnar SSH.
    Fundargerðirnar lagðar fram.

  8. Fundargerðir 224., 225., 226. og 227. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðb.svæðisins bs.
    Fundargerðirnar lagðar fram.

    Til máls tóku: GAS, ÁH

  9. Fundargerðir 445. og 446. fundar stjórnar Sorpu bs.
    Fundargerðirnar lagðar fram.

  10. Fundargerð 338. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðin lögð fram.

  11. Fundargerð 897. fundar Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Fundargerðin lögð fram.

  12. Tillögur og erindi:
  1. Málsnúmer 2021050054. Boðun XXXVI landsþings Sambands ísl. sveitarfélaga lagt fram.

    Til máls tóku: ÁH

Fundi slitið kl. 18:07

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?