Miðvikudaginn 24. mars 2021 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar bæjarstjórnarsal að Austurströnd 2.
Fundinn sátu: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
- Fundargerð 115. fundar Bæjarráðs.
Ákvörðun sem fram kom í fundargerðinni sem er 11 tl. er staðfestur samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.
Til máls tóku: SB, GAS, KPJ
Bókun Samfylkingar:
Niðurstaða könnunar Gallup um þjónustu sveitarfélaga sem unnin var í nóvember og desember 2020 er í stuttu máli áfellisdómur yfir stjórn meirihluta Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi á þessu kjörtímabili. Ánægja íbúa á stjórnsýslu og þjónustu fellur í öllum spurningum, nema þegar spurt er um hversu ánægt fólk er með aðstöðu til íþróttaiðkunar.
Einkunnir sem gefnar eru í svörum er á skalanum 1-5 þannig að 5 er hæsta einkunn sem gefin er. Þegar fólk er spurt um hversu ánægt það er með þjónustu Seltjarnarnesbæjar í heildina litið þá erum við komin frá því að vera yfir meðaltali allra sveitarfélaga árin 2008-2016 með einkunnina 4,1-4,3 niður í að vera undir meðaltali með einkunnina 3,4, en meðaltal allra sveitarfélaga árið 2020 er 3,8.
Sveitarfélagið sem staður til að búa á hefur lækkað ár frá ári frá árinu 2008 þegar einkunn var 4,6 og vel yfir meðaltali sem var 4,3 niður í að vera undir meðaltali 2020 (4,2) með einkunnina 4.
Þjónusta við börn, ánægja með grunnskólann og leikskólann, þjónusta við fatlað fólk, ánægja með skipulagsmál, eigið umhverfi, sorphirðu og þjónustu skrifstofu sveitarfélagsins – allstaðar var sveitarfélagið yfir meðaltali allra sveitarfélaga en er nú árið 2020 komið undir meðaltalið. Þjónusta við aldraða er á pari við meðaltalið árið 2020 með einkunnina 3,5 sem er lækkun frá því að vera hæst 4,2 árið 2014 en þá var Seltjarnarnes með ánægjueinkunn langt yfir meðaltali sveitarfélaga.
Þessar niðurstöður sýna trend – ekki bara í einum þætti þjónustunnar heldur á öllum sviðum. Mikilvægt er að taka þessar niðurstöður alvarlega, kynna og kafa dýpra svo hægt sé að vinna að úrbótum.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Samfylkingu Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Samfylkingu Seltirninga
Bókun við lið 5 í 115. fundargerð bæjarráðs
Frá Viðreisn/Neslista
Frá árinu 2015 hefur ánægja bæjarbúa á Seltjarnarnesi með þjónustu bæjarins fallið gífurlega. 2015 gáfu bæjarbúar bænum 4,3 af 5, en árið 2020 er sama einkunn 3,4.
Þetta er verulegur skellur fyrir okkur öll sem sitjum í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar, en þó einkum fyrir meirihluta bæjarstjórnar, sem eingöngu er skipuð bæjarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins og hafa haldið fast í stjórnartaumana á þessu kjörtímabili.
Við verðum að líta á þessa könnun sem ákall bæjarbúa til að bæjarfulltrúar taki höndum saman um að bæta þjónustuna og bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista lýsir sig reiðubúinn til þess.
Karl Pétur Jónsson
Fundargerð 116. fundar Bæjarráðs.
Ákvörðun sem fram kom í fundargerðinni sem er 7 tl. er staðfestur samhljóða.
Eftirfarandi liður í fundargerð 116. fundar Bæjarráðs var borin upp til staðfestingar:
Mál nr. 2021030013
Bréf Strætó bs. Dags. 02.03.2021 varðandi heimild fyrir sækja um yfirdráttarheimild að fjárhæð kr. 300.000.000.- hjá viðskiptabanka sínum Arion banka lögð fram til samþykktar. Bæjarráð samþykkir beiðni Strætó bs. Um heimild til að sækja um yfirdráttarheimild að fjárhæðir 300 mkr. til að tryggja í öryggisskyni að nægt fjármagn sé til að tryggja fjárstreymi Strætó bs. út árið 2021.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.
Til máls tóku: GAS, KPJ, MÖG, SEJ, ÁH
Bókun Samfylkingar:
Undirrituð vilja þakka starfsfólki grunnskólans fyrir þá greinargerð sem unnin var um stöðu og endurnýjun á upplýsingatæknibúnaði skólans. Nú hefur verið fjallað um erindið í skólanefnd og bæjarráði ásamt því að starfsmaður bæjarins hefur rýnt erindið. Verið er að vísa málinu aftur til sviðsstjóra til frekari vinnu án þess að bærinn sé búinn að taka afstöðu um auka fjármagn til endurnýjunar á tæknibúnaði.
Í fjárhagsáætlunargerð fyrir árið 2021 lögðu fulltrúar Samfylkingar Seltirninga til breytingartillögu við tillögu meirihlutans sem fjallaði um að auka við fjármagn á lið 04-213-2813 Hugbúnaður, tölvur úr 300.000 í 3.000.000 og lið 04-010-4992 Skólanefnd v./ skólaþróunar og fleira úr 700.000 í 1.700.000. Breytinguna átti að fjármagna með nýtingu af hluta af tekjum sem koma af sölu á Ráðagerði.
Hugmyndafræðin að baki tillögunarinnar er að bæjarstjórn gefi út skýr skilaboð um að við viljum styðja við skólaþróun og lærdómssamfélag kennara og treysta þeim fyrir því að skipuleggja verkefni og ráðstafa fjármunum sjálf. Bæjarstjórn á ekki að þurfa að vera með puttana í hvaða tegund af tölvum eru keyptar eða hversu margar. Hlutverk bæjarstjórnar er að marka stefnu og skapa svigrúm fyrir skólann til þess að þróast og styrkja sig sem sjálfstætt lærdómssamfélag.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Samfylkingu Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Samfylkingu Seltirninga
- Fundargerð 112. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Eftirfarandi liðir í fundargerð 112. fundar Skipulags- og umferðarnefndar voru borin upp til staðfestingar:
1. Mál nr. 2019110082
Heiti máls: Aðalskipulag Seltjarnarness – breyting vegna byggingar leikskóla við Suðurströnd.
Lýsing: Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkti á 922. fundi sínum þann 13. janúar 2021 að kynna tillögu á vinnslustigi um breytingu á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033, vegna byggingar leikskóla við Suðurströnd, sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Tillaga um breytingu á aðalskipulagi var kynnt á vinnslustigi og rann athugasemdafrestur út þann 21. febrúar sl. Umsagnir bárust frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Minjastofnun Íslands, Reykjavíkurborg, Vegagerðinni og Umhverfisstofnun.
Afgreiðsla: Tekin er fyrir breyting á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033. Kynningu á vinnslustigi er lokið og bárust umsagnir frá Heilbrigðiseftirliti Kjósarsvæðis, Minjastofnun, Reykjavíkurborg, Vegagerðinni og Umhverfisstofnun. Umsagnirnar gáfu ekki tilefni til efnislegra breytinga á tillögunni en haft var samráð við Vegagerðina um ábendingu sem fram kom í umsögn hennar. Haft verður samráð við Minjastofnun um fornleifakannanir á framkvæmdastigi. Skipulagsnefnd samþykkir að auglýsa tillöguna í samræmi við 31. gr. skipulagslaga nr. 123/2010 að undangenginni athugun Skipulagsstofnunar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bókun Samfylkingar:
Við fögnum því að nú eigi að auglýsa breytingu á aðalskipulagi vegna byggingu nýs leikskóla við Suðurströnd. Þetta er löngu tímabært skref og í raun með ólíkindum að málið sé búið að vera fast á fyrstu stigum skipulagsvinnu í svona langan tíma þrátt fyrir að engin mótstaða sé um tillöguna hjá fulltrúum nefndarinnar eða umsagnaraðilum. Það er nú ljóst að Sjálfstæðismenn á Seltjarnarnesi munu ekki geta staðið við fögur kosningaloforð sín um að reisa nýjan leikskóla á kjörtímabilinu, að taka við börnum að loknu fæðingarorlofi eða að taka inn í leikskólann tvisvar á ári.
Guðmundur Ari Sigurjónsson – Samfylkingu Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir – Samfylkingu Seltirninga
2. Mál nr. 2020120322
Heiti máls: Deiliskipulag Bakkahverfis - breyting á deiliskipulagi vegna Melabrautar 16.
Lýsing: Uppdráttur skv. 1. mgr. 43. gr., dags. 24.02.2021, lagður fram ásamt öðrum gögnum.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að auglýsa framlagða tillögu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
3. Mál nr. 2019050407
Heiti máls: Deiliskipulag Bakkahverfis - breyting vegna Melabrautar 20 og Valhúsabrautar 19.
Lýsing: Sótt er um deiliskipulagsbreytingu á lóðunum. Stærð lóða og byggingarreitur er óbreyttur en nýtingarhlutfall aukið og íbúðum fjölgað.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir að auglýsa framlagða tillögu í samræmi við 1. mgr. 43. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
4. Mál nr. 2021030049
Heiti máls: Ferðavagnar á bílastæðum við leikskóla.
Lýsing: Erindi frá Leikskóla Seltjarnarness, dags. 3. mars 2021, varðandi merkingu bílastæðis við leikskóla sem banni stöðu eftirvagna, báta, húsbíla og annarra svipaðra tækja, sbr. 29. og 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og 20. gr. lögreglusamþykkt Seltjarnarnesbæjar nr. 555/2010.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd tekur undir röksemdafærslu leikskólastjóra og samþykkir að bílastæði við Leikskóla Seltjarnarness, Mánabrekku og Sólbrekku, á horni Suðurstrandar og Nesvegar, verði merkt með þeim hætti að bönnuð verði þar staða eftirvagna, báta, húsbíla og annarra svipaðra tækja, sbr. 29. og 84. gr. umferðarlaga nr. 77/2019 og 20. gr. lögreglusamþykktar Seltjarnarnesbæjar nr. 555/2010. Vísað til staðfestingar bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 16. liðum.
Til máls tóku: GAS, KPJ, MÖG, ÁH, BTÁ, SEJ
- Fundargerð 450. fundar Fjölskyldunefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB
- Fundargerð 143. fundar Veitustofnunar Seltjarnarness.
Fundargerðin lögð fram.
- Fundargerð 391. fundar Samstarfsnefndar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins.
Fundargerðin lögð fram.
- Fundargerð stjórnar Reykjanesfólkvangs .
Fundargerðin lögð fram.
- Fundargerð 521. fundar stjórnar SSH.
Fundargerðin lögð fram.
- Fundargerð 98. fundar svæðisskipulagsnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 99. fundar svæðisskipulagsnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundi slitið kl. 17:50