Miðvikudaginn 25. mars 2020 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Magnús Örn og Karl Pétur notuðu fjarfundarbúnað á fundinum.
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Varaforseti bæjarstjórnar, Sigurún Edda Jónsdóttir setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
Í upphafi fundar upplýsti forseti að hann hefði móttekið undirskriftarlista frá Sunnu Maríu Helgadóttur vegna tómstundamiðstöðvar Selsins sem afhentur var bæjarstjórn á rafrænan hátt í ljósi ástandsins.
-
Málsnúmer 2020030135 Aukin heimild til notkunar fjarfundabúnaðar á fundum sveitarstjórnar. Bæjarstjóri lagði fram samþykkt frá Alþingi.
Alþingi hefur samþykkt breytingar á sveitarstjórnarlögum sem ætlað er að skapa sveitarfélögum svigrúm til að bregðast við neyðarástandi og tryggja að sveitarstjórnir verði starfhæfar. Breytingarnar kveða á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Þetta er gert til að bregðast við aðstæðum sem hafa skapast vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins. „Samkvæmt ákvörðun samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, sem gildir til 18. júlí 2020, er sveitastjórnum heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir:
Að nota fjarfundarbúnað á fundum sveitarstjórnar og nefndum sveitarfélagsins, án þess að fjarlægðir séu miklar, samgöngur innan sveitarfélags séu erfiðar eða mælt sé fyrir um notkun slíks búnaðar í samþykktum sveitarfélagsins.
Að ákveða að engin takmörk verði á fjölda fundarmanna sem taka þátt í fundum sveitarstjórnar og nefndum sveitarfélagsins í fjarfundarbúnaði.
Að ákveða að valdsvið nefnda verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í samþykktum sveitarfélagsins.
Að fela fastanefnd eða einstökum starfsmönnum fullnaðarafgreiðslu tiltekinna mála sem varða ekki verulega fjárhag sveitarfélags og lög eða eðli máls mæla ekki sérstaklega gegn, þrátt fyrir að kveðið sé um annað í samþykktum sveitarfélagsins.
Að ákveða að staðfesting fundargerða sveitarstjórnar verði með öðrum hætti en mælt er fyrir um í 10 og 11. gr. leiðbeininga innanríkisráðuneytisins, frá 15. janúar 2013, um ritun fundargerða, nr. 22/2013.
Bæjarstjórn samþykkir að heimilað verða að nota fjarfundarbúnað á fundum bæjarstjórnar, bæjarráðs og nefnda sveitarfélagsins og víkja frá skilyrði í 3. mgr. 17. gr. sveitarstjórnlaga þar sem áskilnaður er um miklar fjarlægðir eða erfiðar samgöngur innan sveitarfélagsins.
Bæjarstjórn samþykkir að fundargerðir verði lesnar upp í í lok fundar og samþykktar. Fundargerðir skulu sendar fundurmönnum með tölvupósti og undirritaðar þegar nefndir koma að nýja saman samkvæmt hefðbundnu fundarformi.
Forseti bar upp tillöguna til samþykktar, samþykkt samhljóða, samþykkt þessi gildir til 18. júlí 2020, sbr. auglýsingu um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, skv. VI:bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011. -
Lagður var fram ársreikningur Seltjarnarnesbæjar og stofnana fyrir árið 2019, fyrri umræða.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri fylgdi úr hlaði ársreikningi Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019. Gerði bæjarstjóri grein fyrir helstu niðurstöðum.
Sturla Jónsson, löggiltur endurskoðandi Grant Thornton gerði grein fyrir helstu niðurstöðum reikningsins og lykiltölum. Sturla tengdist fundinum með fjarfundarbúnaði.
Ásgerður þakkaði starfsmönnum bæjarins fyrir þeirra hlut að góðum rekstri bæjarins.
Bæjarstjóri lagði til að vísa ársreikningnum til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Til mál tóku: ÁH, GAS, SB, MÖG
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa ársreikningi Seltjarnarnesbæjar 2019 til annarrar og síðari umræðu á næsta fundi bæjarstjórnar sem er 15. apríl 2020. -
Fundargerð 97. fundar Bæjarráðs.
Ákvarðanir sem fram komu í fundargerðinni sem er 4 tl. eru staðfestir samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir afgreiðslu Bæjarráðs samhljóða.
Til máls tóku: SB, SEJ, ÁH
Bókun bæjarfulltrúa Samfylkingar Seltirninga vegna umræðu um Covid faraldur
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirningar vilja þakka og hrósa starfsfólki Seltjarnarnesbæjar sem leggur mikið á sig á þessum skrítnu tímum við að veita íbúum Seltjarnarness þjónustu og halda nauðsynlegum stofnunum gangandi.
Við erum öll saman í liði á slíkum tímum og teljum við mikilvægt að kjörnir fulltrúar jafnt og aðrir bæjarbúar standi með starfsfólki á þessum erfiðu tímum.
Til þess að það gerist þurfa fagnefndir, bæjarráð og bæjarstjórn að vera tilbúin til að styðja við þær aðgerðir sem nauðsynlegar eru og þarfnast breytinga á áætlunum. Því leggjum við áherslu á að þessar nefndir séu vel upplýstar í þeim einstöku aðgerðum sem grípa þarf til. Sérstaklega þurfum við að skoða alla þjónustu við okkar viðkvæmustu íbúa.
Þannig getum við unnið saman að því að vernda íbúa og starfsfólk, um leið og við leggjum upp úr að allir fái þann stuðning og þjónustu sem möguleg er.
Guðmundur Ari Sigurjónsson
Sigurþóra Bergsdóttir -
Fundargerð 100. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 100 voru borin upp til staðfestingar:
Mál nr. 2019010347
Heiti máls: Deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - Kirkjubraut 20 - uppbygging þjónustuíbúðar. Lýsing fyrir breytingar á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 og deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða sbr. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010. Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd heimilar skipulags- og byggingarfulltrúa að leggja fram tillögu að breytingu á aðal- og deiliskipulagi með hliðsjón af ábendingum sem bárust við verkefnislýsinguna. Skipulags- og byggingarfulltrúa er falið að svara athugasemdum sem bárust í samræmi við framlögð drög að svörum á fundi. Vísað til bæjarstjórnar til staðfestingar.
Bæjarstjórn samþykkir tillögu skipulags- og umferðarnefndar, lýsing fyrir breytingar á Aðalskipulagi Seltjarnarnesbæjar 2015-2033 og deiliskipulagi Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða sbr. 1. mgr. 30. gr. og 1. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir með 6 atkvæðum og 1 sat hjá afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bæjarstjórn samþykkir fundargerðina í heild sinni sem er í 10.
Til máls tóku: ÁH, GAS, SB, -
Fundargerð 421. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram. -
Fundargerð 484. fundar stjórnar SSH.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: ÁH, GAS, -
Fundargerð 191. fundar stjórnar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins bs.
Fundargerðin lögð fram. -
Ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf.
Lagðar fram hugmyndir og ábendingar Sambands íslenskra sveitarfélaga að aðgerðum til viðspyrnu fyrir íslenskt atvinnulíf. Þar má nefna þætti sem snúa að fasteignagjöldum og gjaldskrám, framkvæmdum, markaðsátak í ferðaþjónustu og laga- og reglugerðarbreytingum varðandi skattheimtu. Lagt fram.
Til máls tóku: ÁH, GAS, -
Bréf SSH varðandi tillögur að fyrirkomulagi afslátta af þjónustugjöldum leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila, dags. 23.03.2020. Bæjarstjóri kynnti tillögu SSH um fyrirkomulag afslátta af þjónustugjöldum leik-, grunnskóla og frístundaheimila.
,,Í þeim tilvikum sem þjónusta leik-, grunnskóla og frístundaheimila fellur niður eða skerðist vegna verkfalls, samkomubanns, veikinda eða sóttkvíar starfsmanna eða af öðrum sambærilegum ástæðum verða gjöld fyrir viðkomandi þjónustu leiðrétt í samræmi við hlutfall skerðingarinnar.
Í þeim tilvikum sem börn geta ekki nýtt sér þjónustu vegna sóttkvíar eða veikinda verða gjöld leiðrétt hlutfallslega. Ef foreldrar kjósa að nýta sér ekki þjónustu, t.a.m. með vísan til tilmæla yfirvalda um að foreldrar og forráðamenn haldi börnum sínum heima ef kostur er á hið sama við.,
Ofangreint nær til þjónustugjalda leikskóla, grunnskóla og frístundaheimila.
Ákvörðunin er tímabundin og gildir til loka maí. Endurskoðun fer fram að teknu tilliti til aðstæðna og verður fyrirkomulagið auglýst að nýju eigi síðar en 15. Maí n.k.“
Bæjarstjóri upplýsti að á næsta fundi bæjarráðs yrði lagður fram viðauki vegna þeirra aðgerða sem gripið yrði til. Lagði hún fram drög að þeim viðauka.
Bæjarstjórn samþykkir tillöguna og felur bæjarstjóra að vinna að útfærslu hennar.
Til máls tóku: ÁH, GAS,
Fundi slitið kl. 17:40