Miðvikudaginn 12. júní 2019 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri, ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.
Undir lið 2-5 vék MÖG af fundi og tók SEJ við fundarstjórn.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
-
Fundargerð 80. fundar Bæjarráðs.
Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni er 9 tl. eru staðfestar samhljóða.
Bæjarstjórn staðfestir samhljóða sérstaklega lið nr. 7 í fundargerð Bæjarráðs nr. 80.
Bæjarstjórn staðfestir sérstaklega lið nr. 3 í fundargerð Bæjarráðs nr. 80.
Bókun Sigrúnar Eddu Jónsdóttur, Bjarna Torfa Álfþórssonar og Ásgerðar Halldórsdóttur.
Borgarlína er samstarfsverkefni sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu til að bregðast við fyrirsjáanlega auknum umferðarþunga á næstu 25 árum. Skipulagning Borgarlínu er lykilverkefni í þróun byggðar á höfuðborgarsvæðinu. Með henni er stuðlað að því að fjölgun íbúa og ferðamanna næstu áratugi hafi ekki þau áhrif á umferð að tafir í henni margfaldist. Borgarlína mun auka afköst almenningssamgangna, sér í lagi þar sem byggð er þétt eða hægt er að þétta hana.
Vinna er nú hafin við endurskoðun leiðakerfis Strætós en markmiðið er að tengja vagna strætó við stofnleiðanet Borgarlínu. Í gangi er könnun hjá Strætó þar sem almenningur er hvattur til að taka þátt og upplýsa um ferðavenjur sínar og viðhorf til almenningssamgangna. Faghópur sem skipaður var í febrúar sl. á vegum Strætó hefur unnið stefnumótunarvinnu og næsti áfangi þess verkefnis hefst í sumar við hönnun og greiningu á nýju leiðarkerfi. Með því að nútímavæða almenningssamgöngur minnkar þörf margra fyrir einkabíl og fjölgun þeirra á götunum verður minni en ella. Borgarlína mun greiða fyrir umferð og stytta ferðatíma allra, líka þeirra sem kjósa að ferðast á einkabílum.
Undirrituð teljum að það samræmist bókun meirihluta Sjálfstæðismanna frá mars 2018 þar sem fram kemur að meirihluti vilji leggja megináherslu á frekari eflingu Strætó. Og jafnframt að meirihluti telji hugmyndir um nýja Borgarlínu hæpnar, ekki síst forsendur um heildarkostnað við verkefnið, áætlaða nýtingu og rekstrarkostnað. Því viljum við undirstrika að með þeirri vinnu sem nú á að fara fram í samstarfi SSH og Vegagerðarinnar (ríkisins) með aðkomu þriggja ráðuneyta, verður unnið að því að skilgreina verkefnið betur og fjárhagslegt umfang þess.Þannig liggi fyrir skýrari línur um kostnað og ekki síst um kostnaðarskiptingu milli ríkis og sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu sem ekki liggur fyrir nú.
Þetta samkomulag og næsta skref mun kosta sveitarfélögin 300 milljónir króna samkvæmt þeim samningi sem liggur fyrir en Vegagerðin (ríkið) mun leggja til 300 milljónir króna á móti. Hlutur Seltjarnarness í þessum fasa verður 6 milljónir króna. Næsta skref þar á eftir samkvæmt samningnum sem felur í sér að sveitarfélögin leggi til 500 milljónir króna mun ekki koma til nema samþykkt allra sveitarfélaganna liggi fyrir og háð því að ásættanlegur samningur náist við ríkið samanber grein 7 í samkomulagi SSH og Vegagerðarinnar. Sá hluti samnings mun því þurfa að koma fyrir bæjarstjórn á nýjan leik áður en farið verður af stað með þann hluta og tækifæri gefst til að skoða forsendur áður en lengra er haldið.
Nú hafa öll sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu samþykkt að leggja í kostnað við þessar 300 milljónir króna og því teljum við rétt að taka þátt í þessum fyrsta hluta fyrir íbúa Seltjarnarness. Inni í þeirri vinnu sem nú verður farið í er meðal annnars endurskipulag á leiðakerfi strætó og framtíðarsýn. Ef við tökum ekki þátt í þessu verkefni höfum við útilokað aðkoma okkar að þeirri vinnu og stefnumörkun að framtíðarskipulagi almenningssamgangna. Eitt og sér hefur Seltjarnarnes ekki bolmagn til að efla Strætó bs frekar án aðkomu annarra sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu. Við styðjum frekari eflingu almenningssamgangna og forgangsreinar fyrir strætó og teljum að þessi vinna sé hluti af þeirri vegferð sem við þurfum að fara í til þess. Við í Sjálfstæðisflokki erum í stjórnarsamstarfi sem hefur það á stefnuskrá sinni að fara í þessa vegferð og því ljóst að þunginn verður settur í þessa vinnu. Samhliða skoðun á Borgarlínu á að fara í mikla uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu þar á meðal stofnbrauta sem mikil þörf er á.
Það er ekki rétt að taka ekki þátt í þessari könnun sem nú á að fara í gang með ríkinu, það er ekki rétt að útiloka Seltjarnarnesbæ frá aðkomu að stefnumótun um almenningssamgöngur á höfuðborgarsvæði og hvernig kostnaðarskipting milli ríkis og sveitarfélaga verður. Við viljum taka undir með öðrum sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu að þessi samningur við ríkið nú er mjög mikilvægur til að geta tekið ábyrga afstöðu til framhaldsins. Einnig til að geta haft áhrif á hvernig kostnaðarskipting og umfang framkvæmda verður en það verður ákvarðað í næstu skrefum í þessari vinnu. Jafnframt er það okkar skoðun að þetta verkefni sé það umfangsmikið og stórt að áður en farið verður í seinni hlutann verði verkefnið rækilega kynnt á íbúafundi áður en bæjarstjórn taki afstöðu til seinni hlutans.
Skýrslur sýna að ef ekki verður af Borgarlínu verður óhjákvæmilegt að fjárfesta í vega-, gatna- og bílastæðakerfi höfðurborgarsvæðisis fyrir á fjórða hundrað milljarða á næstu 20 árum. Umferðartafir myndu þrátt fyrir það aukast umfram núverandi ástand, en áætlað er að bílferðum muni fjölga um 30% eða í um 1,3 milljónir bílferða á dag. Við fögnum fyrirliggjandi samningum um undirbúning að lagningu Borgarlínunnar. Um er að ræða tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að hágæða almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu og fyrirkomulag og verkefnaskiptingu Vegagerðarinnar og SSH vegna þessa. Uppbygging samgangna á höfuðborgarsvæðinu, stofnbrauta, almenningssamgangna og hjóla- og göngustíga, er afar brýnt viðfangsefni til að ná fram markmiðum um betra umferðarflæði, meira öryggi vegfarenda og til að draga úr mengun á svæðinu. Samþykkt á fyrirliggjandi samkomulagi um næstu skref hvað almenningssamgöngurnar varðar er mikilvæg en framhald heildaruppbyggingar samgöngumannvirkjanna ræðst síðan af því hvort ásættanlegt samkomulag náist á milli ríkis og sveitarfélaga. Framlag sveitarfélaganna kr. 500 mkr er með fyrirvara, sbr. 5. tl. samkomulagsins þar sem fram kemur að gert er ráð fyrir sama framlagi frá ríki og að samkomulag náist milli ríkis og sveitarfélaga um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033.
Undirrituð styðja að taka þátt í næsta fasa þessa verkefnis þar sem um er að ræða tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að hágæða almenningssamgöngum á höfuðborgarsvæðinu, fyrirkomulag og verkefnaskiptingu Vegagerðarinnar og SSH um verkefnið. Undirrituð gera fyrirvara á hluta framlags sveitarfélaganna (500 millj.kr.) er varðar 2. áfanga undirbúnings (verkhönnun, útboð), náist ekki samkomulag milli ríkis og sveitarfélaganna innan SSH um uppbyggingu samgangna á höfuðborgarsvæðinu til ársins 2033.
Sigrún Edda Jónsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Ásgerður Halldórsdóttir.
Bókun forseta bæjarstjórnar:
Undirritaður leggst gegn því að Seltjarnarnesbær skrifi undir samninga um forhönnun, skipulagsvinnu verkhönnun og gerð útboðsgagna vegna fyrsta áfanga svokallaðrar Borgarlínu. Samningarnir hljóða uppá 1,6 milljarða frá SSH og ríki. Hugmyndir um verkefnið eru að mínu mati óraunhæfar með öllu eins og þær liggja fyrir. Áætlanir um heildarkostnað og fjármögnun eru í besta falli óljósar og engin umræða um rekstrarforsendur og rekstrarkostnað hefur farið fram. Það er óábyrgt af kjörnum fulltrúum að skrifa undir samninga sem hafa svo óþekkta útkomu fyrir skattgreiðendur. Að öðru leyti vísa ég til ítarlegrar bókunar minnar gegn Borgarlínu á fundi bæjarráðs þann 23. maí 2019.
Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar
Bókun Viðreisnar/neslista
Viðreisn/Neslistinn hvetur til þess að bæjarstjórn Seltjarnarness ákveði að halda áfram þátttöku Seltjarnarnesbæjar í þróun Borgarlínunnar.
Borgarlínan er mikilvægasta þróunarmálið sem sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu koma sameiginlega að. Bærinn er nú þegar þátttakandi í nokkrum byggðasamlögum þar sem hinir 211 þúsund íbúar höfuðborgarsvæðisins sameinast um að skipuleggja og greiða fyrir almannagæði.
Á milli sveitastjórna á höfuðborgarsvæðinu hefur ríkt traust um að allir íbúar taki jafnan þátt í að byggja upp innviði sem væru ekki á færi neins eins sveitarfélags. Ef Seltjarnarnesbær ákvæði á einhverjum tímapunkti að ganga úr slíku samstarfi má segja að bæjarbúar hafi sagt sig úr lögum við önnur sveitarfélög og slíkt myndi vega alvarlega að röksemdinni fyrir Seltjarnarnesi sem sjálfstæðu sveitarfélagi.
Karl Pétur Jónsson
Bókun fulltrúa Samfylkingar:
Samfylkingin leggur ríka áherslu á að Seltjarnarnesbær loki engum dyrum og verði áfram virkur þátttakandi í samstarfi SSH um skipulag á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Sá undirbúningur sem hér er til umfjöllunar nær til borgarlínu, stofnvegaframkvæmda og hjólreiðakerfis höfuðborgarsvæðisins.
Borgarlínan er vissulega stórt og mikið verkefni sem krefst skýrrar framtíðarsýnar og pólítísks þors en við teljum algjört glapræði ef Seltjarnarnesbær stimplar sig út úr samstarfi á þessu stigi málsins. Borgarlínuverkefnið er framtíðarlausn á samgöngumálum innan höfuðborgarsvæðisins og mun hún verða lífæð hverfa og sveitarfélaga í framtíðinni. Það mun vera gífurleg skerðing á lífsgæðum Seltirninga ef við verðum ekki hluti af undirbúningi Borgarlínukerfisins sem mun bitna á fasteignaverði, möguleikum fólks ferðast milli staða, óhagræði við að reka fyrirtæki og stofnanir á Nesinu ásamt því að erfiðara mun verða að fá starfsfólk til að vinna hjá Seltjarnarnesbæ sem ekki býr í sveitarfélaginu.
Borgarlínuverkefnið er samstarfsverkefni um svæðisskipulag, samgöngur,aðgerðir í loftslagsmálum og sjálfbæra þróun á höfuðborgarsvæðinu sem við tilheyrum og tölum um á tyllidögum sem eitt búsetu og atvinnusvæði. Enda starfa flestir Seltirningar og sækja sér þjónustu utan sveitarfélagsins.
Guðmundur Ari Sigurjónsson, Sigurþóra Bergsdóttir
Samþykkt með 6 atkvæðum og 1 á móti, að taka þátt í þessari greiningar- og hönnunarvinnu með sveitarfélögum á höfuðborgarsvæðinu enda liggi fyrir samþykkt allra sveitarfélaganna og að greiðsla þeirra á kr. 500 mkr séu háðar því að ásættanlegur samningur náist við ríkið samanber grein 7. í samkomulagi SSH og Vegagerðarinnar. Náist ekki ásættanlegur samningur við ríkið fellur síðari hluti samningsins niður.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 9 liðum.
Til máls tóku: SB, ÁH, KPJ, GAS, SEJ, MÖG -
Fundargerð 89. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 89 voru borin upp til staðfestingar:Mál nr. 2019040217
Heiti máls: Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík.
Lýsing: Sjómannaskólareitur og Veðurstofuhæð. Breytt landnotkun og fjölgun íbúða.
Tillaga um breytingu á aðalskipulagi. Lögð fram sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Afgreiðsla: Ekki eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaðar breytingar á aðalskipulagi Sjómannaskólareits.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Mál nr. 2019050123
Heiti máls: Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík.
Lýsing: Korpulína. Jarðstrengur frá Geithálsi að tengivirki við Korpu. Niðurfelling háspennulínu – breytt lega Rauðavatnslínu.
Afgreiðsla: Ekki eru gerðar athugasemdir við fyrirhugaða lagningu jarðstrengs.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Mál nr. 2018080508
Heiti máls: Aðalskipulagsbreyting í Reykjavík.
Lýsing: Esjumelar – breytt skilgreining landnotkunar.Tillaga að breytingu á aðalskipulagi samkvæmt 31.gr. skipulagslaga nr. 123/2010 ásamt umhverfisskýrslu sbr. lög nr. 105/2006.
Afgreiðsla: Ekki eru gerðar athugasemdir við breytta skilgreiningu landnotkunar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Mál nr. 2019010347
Heiti máls: Aðalskipulag og deiliskipulag Valhúsahæðar og aðliggjandi útivistarsvæða - breytingartillaga - ný lóð, Kirkjubraut 20 - uppbygging þjónustuíbúða.
Lýsing: Verkefnislýsing og breytingartillaga á deiliskipulagi lögð fram.
Afgreiðsla: Farið var yfir tillögu að deiliskipulagi á Valhúsahæð fyrir nýja lóð að Kirkjubraut 20 ásamt breytingu á aðalskipulagi þessu samfara. Nefndin samþykkir tillöguna og leggur áherslu á að hún verði til kynningar skv. 4. mgr. 40. gr. skipulagslaga nr. 123/2010.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða að vísa til Umhverfisnefndar.
Mál nr. 2018090207
Heiti máls: Endurskoðun á skipulagi Bygggarðasvæðisins.
Lýsing: Tillaga Landeyjar um endurskoðun á deiliskipulagi Bygggarðasvæðis lögð fram.
Afgreiðsla: Nefndin samþykkir með öllum greiddum atkvæðum breytta tillögu og vísar henni til bæjarstjórnar til afgreiðslu og auglýsingar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bókun fulltrúa Samfylkingar:
Fulltrúar Samfylkingar Seltirninga hefðu kosið að skipulaginu hefði verið vísað til umhverfisnefndar til umsagnar. Við föllumst þó á rök meirihluta að ekki sé verið að breyta mörkun deiluskipulagsins og að hægt sé að auglýsa skipulagið. Umhverfisnefnd fær þá kost við að senda inn sína afstöðu.
Mál nr. 2017120083
Heiti máls: Skerjabraut 1.
Lýsing: Breyting á sorpgerði.
Afgreiðsla: Tillaga um breytingu á sorpgerði er samþykkt og vísað til afgreiðslu bæjarstjórnar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Mál nr. 201905111
Heiti máls: VSÓ ráðgjöf.
Lýsing: Einstefna um Suðurmýri - umferðaröryggismál.
Afgreiðsla: Nefndin þakkar Svanhildi Jónsdóttur, samgönguverkfræðingi VSÓ, kynningu á hugmyndum að umferðaröryggismálum á Eiðistorgi og Nesvegi. Einstefna um Suðurmýri frá gatnamótum Kolbeinsmýrar að Eiðistorgi sérstaklega skoðuð og samþykkt enda í samræmi við samþykkt deiliskipulag. Skipulagsfulltrúa falið að vinna með málið áfram.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 12 liðum.
Til máls tóku: GAS, KPJ, ÁH, SEJ
Fundargerð 90. Fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Bæjarstjórn vísar lið 11-2 til Umhverfisnefndar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er í 12 liðum.
Til máls tóku: SB, ÁH, KPJ, GAS -
Fundargerð 298. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SEJ, GAS -
Fundargerð 293. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Bæjarstjórn falið að vinna áfram með lið 1
Til máls tóku: SB, ÁH, BTÁ, MÖG, SEJ, GAS,
-
Fundargerð 416. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS, KPJ
-
Fundargerð 14. fundar Öldungaráðs.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS.
-
Fundargerð 46. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 304. fundar stjórnar Strætó bs.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerðir 407. og 408. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðirnar lagðar fram.
-
Fundargerð 471. fundar stjórnar SSH.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 871. fundar stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram.
-
Tillögur og erindi:
a) Umsagnarbeiðni vegna rekstrarleyfis í flokki III – veitingahús Rauða ljónið, umsækjandi Matti ehf.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða
b) Grænbók – stefna um málefni sveitarfélaga lögð fram.
c) Tillaga Samfylkingar Seltjarnarness lögð fram.
Tillögunni vísað til bæjarráðs.
Til máls tóku: GAS, ÁH, BTÁ, SB, KPJ, SEJ, MÖG
Fundi slitið kl. 18:56