Fara í efni

Bæjarstjórn

28. nóvember 2018

Miðvikudaginn 28. nóvember 2018 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).

Gunnar Lúðvíksson, fjármálastjóri ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 – síðari umræða –

    Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019.
    Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árin 2019-2022.
    „Fjárhagsáætlun 2019 var unnin af fjármálastjóra og sviðstjórum bæjarins, með það að leiðarljósi að styðja vel við grunnþjónustu bæjarfélagsins, s.s. fræðslustarfsemi og félagslega þjónustu. Þetta verklag hefur gefist vel og undirstrikar skilning stjórnenda stofnana á fjármálum bæjarins. Vil ég þakka starfsmönnum bæjarins gott samstarf á liðnu ári. Við fjárhagsáætlunargerðina var einnig litið til 3ja ára áætlunar bæjarfélagsins fyrir árið 2020-2022.
    Forsendur fjárhagsáætlunarinnar gera ráð fyrir að verðbólga verði 4% frá upphafi til loka ársins 2019.
    Forsendur við gerð fjárhagsáætlunar 2019 er m.a.:
    Álagningarhlutfall útsvars verður 13,70% með vísan til 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

    Fasteignagjöld:
    A- hluti – íbúðarhúsnæði, álagningarhlutfall 0,175% af fasteignamati
    B- hluti - opinbert húsnæði, álagningahlutfall 1,32% af fasteignamati
    C- hluti – atvinnuhúsnæðis og óbyggt land, álagningarhlutfall 1,1875% af fasteignamati
    b. Lóðarleiga: A-hluta 0,40% og B-hluta 1,75% af lóðarhlutamati
    Vatnsgjald: Álagningarhlutfall 0,09% af fasteignamati húsa ásamt lóðarréttindum, sbr. heimild reglugerð um vatnsveitur.
    Fráveitugjald: Álagningahlutfall 0,15% af fasteignamati.
    Sorp- og urðunargjald kr. 38.124.- á hverja eign
    Elli og örorkulífeyrisþegar fá afslátt af fasteignaskatti og fráveitugjaldi af íbúðarhúsnæði til eigin nota, skv. samþykktum reglum þar um.
    Gert er ráð fyrir lántöku á árinu 2019 framkvæmd.
    Laun eru hækkuð til samræmis við gildandi kjarasamninga Launanefndar sveitarfélaga við þau stéttarfélög sem starfsmenn Seltjarnarnesbæjar taka laun samkvæmt.
    Gert er ráð fyrir fjölgun íbúa árinu u.þ.b. 1,6%.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign).

    Minnihlutinn lagði fram eftirfarandi breytingatillögu að fjárhagsáætlun 2019:
    Tillaga um breytingar á fjárfestingum fyrir árið 2019
    Tillaga Samfylkingar og Neslista/Viðreisnar um breytingar á fjárhagsáætlun fyrir árið 2019
    Í núverandi áætlun er lagt til að 100 milljónir fari í byggingu íbúakjarna fyrir fólk með fötlun. Við styðjum eindregið áætlanir um byggingu á íbúakjarna fyrir fatlaða en teljum miðað við stöðu verkefnis ekki raunhæft að hægt verði að eyða þessum fjármunum í bygginguna á næsta ári. Staðarvali er ekki lokið, ekki ljóst hvort að aðal- og deiliskipulagi þurfi að breyta miðað við staðsetningu og í raun ansi margir óljósir þættir við verkefnið sem gerir mjög ólíklegt að það komist svo vel af stað á næsta ári. Nefna má að árið 2018 voru teknar frá 125 milljónir í verkefnið sem ekki hafa verið notaðar.
    Við leggjum því til að áætlaðar verði 70 milljónir í verkefnið árið 2019 sem ætti að koma því vel af stað þegar skipulagsvinnu lýkur. Við leggjum svo til að það 30 milljón króna svigrúm sem skapast verður nýtt til að bæta gæði þjónustu bæjarins og ráðast í nauðsynlegt viðhald.

    Tillögur:
    1. Breyta fjárfestingu í Sérbýli fyrir fatlað fólk úr 100.000.000 í 70.000.000kr

    2. Setja 5.000.000 í viðhald og endurbætur á Sæbraut 2. Það þarf að klára að setja klæðningu og mála húsið að utan. Laga rakaskemmdir í útveggjum og lofti. Laga ofna, vaska, sprungur í veggjum ásamt ýmsum öðrum smáverkum.

    3. Setja 10.000.000 kr í endurnýjun á húsgögnum í Grunnskóla Seltjarnarness eins og skólastjóri hafði óskað eftir til að hefja nauðsynlega endurnýjun á innviðum í kennslustofum.

    4. Setja 5.000.000 kr í endurnýjun á Félagsheimili Seltjarnarness. Nú stendur yfir stefnumótun um félagsheimili Seltjarnarness og framtíðar rekstrarfyrirkomulag hússins. Það liggur þó fyrir að sama hvaða leið verður farin þarf að ráðast í nauðsynlegt viðhald og endurbætur.

    5 Setja 10.000.000 í félagsaðstöðu aldraðra við Skólabraut. Á næsta ári verður nýtt hjúkrunarheimili með dagvistunarrýmum tekið í notkun og við það flyst dagvistunin á Skólabraut og skapast kjörið tækifæri til að koma loksins upp almennilegri félagsmiðstöð eldri borgara á Seltjarnarnesi með því að breyta núverandi dagvistun í félagsaðstöðu. Einnig þarf að að endurgera púttvöll eldri borgara sem skemmdist við framkvæmdir á íþróttahúsinu en búið er að óska eftir að hann verði upphitaður með gervigrasi svo hægt sé að nýta hann allt árið um kring. Einnig þarf að endurnýja handrið, innviði, tæki og tól.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
    Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    Að lokinni umræðu um fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir starfsárið 2019, ásamt gjaldskrá og greinargerð, var gengið til atkvæðagreiðslu um áætlunina í heild sinni.
    Til máls tóku: SB, ÁH, MÖG, GAS, SEJ, KPJ
    Breytingartillögu minnihlutans við fjárhagsáætlun 2019 er felld með 4 atkvæðum gegn 3 atkvæðum.
    Fjárhagsáætlunin var samþykkt með fjórum atkvæðum, þrír voru á móti.

    Bókun N og S lista um fjárhagsáætlun Seltjarnarnessbæjar fyrir árið 2019
    Við lestur fjárhagsáætlunar Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 er fyrst og fremst áberandi hversu naumur fjárhagur bæjarins er. Afgangur bæjarsjóðs er áætlaður um 22 milljónir króna, sem nemur um hálfu prósenti af heildarútgjöldum bæjarins. Ljóst er að ekki má mikið útaf bera til að reksturinn verði neikvæður og skuldasöfnun bæjarsjóðs haldi áfram.

    Við skoðun áætlunarinnar verður ljóst að ekki er fyrirséð að bærinn sinni á árinu 2019 eðlilegu viðhaldi á eignum sínum, bærinn hækkar allar gjaldskrár á bæjarbúa svo sem leikskólagjöld, gjöld fyrir frístundastarf, heimaþjónustu og tómstundastarf aldraðra. Raunlækkun er til félagsmála milli ára þrátt fyrir aukna þjónustuþörf og upplýsingar frá félagsmálastjóra um að þörf hefði verið að hækka útgjöld til málaflokksins milli ára.

    Það stingur einnig í stúf hversu lítið af þeim fjárfestingum sem settar voru inn í áætlun 2018 hafa verið framkvæmdar og birtast þær nú aftur fyrir árið 2019. Árið 2018 voru áætlaðar 125 milljónir í byggingu sérbýlis fyrir fatlað fólk sem ekki eru hafin. Nú eru settar 100.000.000 í verkefnið án þess að búið sé að taka endanlega ákvörðun um staðsetningu og ljúka skipulagi fyrir verkefnið. Viðhald á klæðningu Mýrarhúsaskóla var á áætlun 2018 60 milljónir en birtist nú aftur fyrir árið 2019 sem 50 milljónir.

    Eðlilegt er að spurt sé hvernig standi á því að rekstur bæjarfélagsins sé svo naumur, nú þegar efnahagsuppsveifla hefur verið viðvarandi í landinu undanfarin sjö ár?

    Til að allrar sanngirni sé gætt, er rétt að hafa á því orð að bærinn er að fara í gegn um sögulegt breytingartímabil. Barnafjölskyldum hefur fjölgað mikið í bænum undanfarið og því fylgja vaxtarverkir fyrir sveitarfélög. Þannig hækka framlög til fræðslumála um rúmar 300 milljónir, sem mikið til er tilkomið vegna fjölgunar barna.

    Þetta ástand sem bæjarstjórn horfist nú í augu við er tilkomið vegna fyrirhyggjuleysis. Bæjarstjórn hefði mátt vera ljóst þegar árið 2014 að framundan væri mikil fjölgun barnafólks. Þá þegar hefði þurft að gera ráðstafanir til þess að undirbúa þessa fjölgun, með nauðsynlegum áformum.

    Meirihluta bæjarstjórnar, sem verið hefur sá sami frá miðri síðustu öld, hefur skort framtíðarsýn og fyrirhyggju til að viðhalda því þjónustustigi sem fólk sem býr í bænum gerir ráð fyrir.

    Á kjörtímabilinu má búast við því að Seltjarnarnes verði svo að segja fullbyggt. Áframhaldandi andvara- og fyrirhyggjuleysi má ekki vera leiðarstef komandi ára. Bærinn verður að vinna áætlanir sínar um uppbyggingu þjónustu fyrir þann fjölda fólks sem mun að lokum byggja bæinn af kostgæfni og yfirvegun. Áframhaldandi lausatök og áberandi vandræðagangur verður ekki bæjarbúum til heilla.

    Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
    Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    Bókun sjálfstæðismanna:
    Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2019 hefur nú verið samþykkt. Fjárhagsáætlun skal gefa glögga mynd af rekstri sveitarfélagsins, efnahag og breytingum á handbæru fé. Bæjarstjórn ber að sjá til þess að rekstri, fjárfestingum og ráðstöfun eigna og sjóða sé þannig hagað á hverjum tíma að bæjarfélagið muni til framtíðar geta sinnt skyldubundnum verkefnum sínum.

    Það að minnihlutinn telji að þessi fjárhagsáætlun fyrir árið 2019 beri vott um niðurskurð til grunnþjónustu, á sama tíma og þjónusta á fræðslusviði og velferðarsviði hefur aldrei verið meir. Markmið og áherslur um forgangsröðun í þágu barnafjölskyldna hafa náð fram að ganga í þessari fjárhagsáætlun, tal um eitthvað annað ber vott um að minnihlutinn hefur ekki sett sig vel inn í þau mál sem verið er að leggja hér fram. Fram hefur komið á þessu ári að með því að fara út í stækkun á leikskólanum með tilkomu smáhýsa á lóðina við Nesveg/Suðurströnd hélt bærinn áfram sama þjónustustigi að bjóða börnum 14 mánaða inntöku í leiksskólans eins og bærinn hefur gert undanfarin ár þrátt fyrir mikla fjölgun barna á þessu ári. Á sama tíma og meirihlutinn tók ákvörðun um að halda óbreyttu þjónustustigi lagðist minnihlutinn gegn því að farið yrði í þessa góðu laust að stækka skólann með bráðabirgðahúsnæði. Lausn minnihlutans var engin í þessu máli og engar tillögur lagðar fram í bæjarráði sem gætu uppfyllt sama þjónustustig og undanfarin ár. Fram hefur komið hjá foreldrum sem njóta þessara þjónustu frá sl. hausti að þeir eru mjög ánægðir með bæði inni og útisvæðið og þá faglegu þjónustu sem Leikskóli Seltjarnarnes veitir eins og kannanir Capacent hafa sýnt undanfarin ár.

    Við erum að bjóða upp á lægstu leikskólagjöldin, niðurgreiðslur til foreldra með börn hjá dagforeldrum er sú hæsta sem bæjarfélög greiða, fyrir utan að við höfum stutt við foreldra sem ekki hafa fengið dagforeldravistun fyrir barn sitt með heimgreiðslum, tillaga sem meirihlutinn lagði til í vor sem foreldrar hafa lýst mikilli ánægju sinni með.

    Að minnihlutinn skuli leyfa sér að tala um skerta þjónustu á sama tíma og útgjöld bæjarins eru að hækka um hundruði milljóna ber vott um vanþekkingu. Meirihlutinn innheimtir eitt lægsta útsvar á landinu og álagningarstuðull fasteignagjalda er einnig það lægsti á landinu. 

    Það er stefna meirihlutans að leikskólagjöld á Seltjarnarnesi séu með þeim lægstu á höfuðborgarsvæðinu. Tómstundastyrkir eru hæstir á landinu með hverju barni 6 – 18 ára eru greiddar kr. 50.000,- nú hefur meirihlutinn samþykkt að taka upp tómstundastyrki frá 5 ára aldri frá 1. janúar nk. Þessi atriði sem hér hafa verið talin upp koma til móts við barnafjölskyldur, en þeim hefur fjölgað mjög á þessu ári. 

    Helstu framkvæmdir á næsta ári felast í áframhaldandi byggingu á stækkun og endurnýjun íþróttamiðstöðvar bæjarins, og byggja þjónustukjarna fyrir fatlað fólk með sex íbúðum.

    Endurbætur og viðhald á stofnunum bæjarins hefur gengið vel eftir undanfarin ár, og halda áfarm á nýju ári. Undirbúningur fyrir gatnaframkvæmdir ern ú í gangi við Bygggarða.

    Skuldastaða sveitarfélagsins er með því lægsta er gerist á landinu, það mun hækka óverulega við þær framkvæmdir sem bærinn hefur staðið fyrir á þessu ári, byggingu hjúkrunarheimilis og stækkun íþróttamiðstöðvar, þar sem leigusamningar koma til frádráttar frá ríki og Reykjavíkurborg.

    Seltjarnarnesbær hefur staðið fyrir miklum framkvæmdum í bænum, framkvæmt hefur verið fyrir rúman milljarð á liðnum fjórum árum.

    Það sýnir sig að það er mikill áhugi fólks að flytja á Seltjarnarnesið, þjónustukannanir Capacent í gegnum árin sýna að íbúar eru ánægðir með þjónustuna, lágar álögur og styrk fjármálastjórn gerir bæjarfélagið eftirsóknarvert eins og tilflutningur íbúa til bæjarins á þessu ári sýnir. 

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign) Sigrún Edda Jónsdóttir (sign)

    Bókun minnihlutans:
    Fulltrúar minnihlutans sjá sér skylt að svara rangfærslum bæjarstjóra í bókun meirihlutans. Síendurtekin mantra um að minnihlutinn sé ekki inni í málunum og að minnihlutinn hafi ekki verið með lausnir fyrir leikskólann eru einfaldlega rangar. Einnig sýnir bókun meirihlutans hversu erfitt það er að verja eigin tillögu án þess að höggva í minnihlutann.

    Fyrir það fyrsta tók minnihlutinn þátt í öllum þeim samráðsverkefnum sem bærinn stóð að fyrir framtíðaruppbyggingu leikskólans og einnig voru lagðar fram tillögur um framtíð leikskólans sem ekki náðu fram að ganga.

    Varðandi samdrátt í þjónustu þá er það einfaldlega staðreynd að verið er að lækka framlög til félagsmála.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
    Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

  2. Tillaga um álagningu útsvars og fasteignaskatts 2018.

    Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkir með fjórum atkvæðum og þrír sitja hjá, að álagningarhlutfall útsvars verði 13,70% á tekjur manna á árinu 2019 samkvæmt heimild í 23. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995, sbr. 24. gr. laganna, og að fasteignaskattur á íbúðarhúsnæði verði 0,175%.

    Samþykkt bæjarstjórnar skal tilkynnt fjármála- og efnahagsráðuneytinu fyrir 15. desember 2018 samkvæmt 2. mgr. 24. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga.

  3. Lögð var fram til síðari umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árin 2020-2022.

    Forseti gaf bæjarstjóra orðið og fór bæjarstjóri yfir fyrirliggjandi fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar og stofnana hans fyrir árið 2022-2022.

    Fjárhagsáætlun til 3ja ára fyrir árin 2020-2022 samþykkt með fjórum atkvæðum meirihluta, þrír á móti.

    Til máls tóku:

    Bókun minnihluta:
    Bókun vegna þriggja ára áætlunar Seltjarnarnesbæjar
    Minnihlutinn hefur ítrekað bent á mikilvægi þess að þriggja ára fjárhagsáætlun bæjarins sé ítarleg og endurspegli framtíðarsýn og áherslur Seltjarnarnesbæjar um þjónustu og uppbyggingu.

    Með þeirri þriggja ára fjárhagsáætlun sem hér liggur fyrir er engin tilraun gerð til að leggja mat á þarfir og þróun samfélagsins til næstu ára. Samkvæmt áætluninni á ekki að fjárfesta í eftirtöldum atriðum á kjörtímabilinu:
    - Bætingu á umferðaröryggi
    - Ferðamálastefnu og aðgerðum sem henni munu fylgja 
    - Bætingu almenningssamgangna, göngu- og hjólastíga
    - Landvarsla á Vestursvæðunum
    - Fjarlægja safnhauga á Vestursvæðum

    Þetta eru aðeins þau atriðin úr Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins sem ekki hafa náð inn á fjárhagsáætlun kjörtímabilsins. 
    Við í minnihlutanum vildum að auki sjá:
    - Endurbætur og endurnýjun á aðbúnaði í Grunnskóla Seltjarnarness
    - Fjölgun á félagslegum íbúðum
    - Endurbætur á félagsaðstöðu aldraðra
    - Endurbætur á félagsheimilinu
    - Að koma upp mælum á affall skólps sem rennur í fjörurnar á Seltjarnarnesi svo hægt séð upplýsa bæjarbúa um hvenær sjór er mengaður og hvenær fjörurnar eru örugg útivistarsvæði

    Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
    Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar og Neslista
    Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    Bókun Sjálfstæðismanna:
    Það er rangt hjá minnihlutanum að 3ja ára áætlun endurspegli einungis að takmörkuðu leyti viðamiklar framkvæmdir sem framundan eru á næstu árum. Í dag erum við að ljúka við byggingu hjúkrunarheimilis fyrir fjörtíu íbúa ásamt nýju húsnæði fyrir dagvistun. Framkvæmdir við stækkun íþróttamiðstöðvar eru nú hálfnaðar og endurnýjun á gamla handboltasalnum lokið. Komið er í ferli uppbygging á þjónustu fyrir fatlað fólk í samstarfi við ÁS styrktarfélag um byggingu á sambýli fyrir sex einstaklinga við Kirkjubraut. Haldinn var stefnumótandi íbúafundur um málefni fatlaðs fólks á liðnu ári, sem fjölskyldusviðið hefur haft til stuðnings við þjónustu sína. Þegar minni hlutinn talar um að nú þurfi að hefja heildarendurskoðun á uppbyggingu skólamála á Seltjarnarnesi, bæði leik- og grunnskólans. Vill meirihlutinn minna á að stjórnendur Grunnskólans vinna eftir stefnu menntamálaráðuneytisins og nýrri aðalnámskrá. Hvað á minni hlutinn við um heildarendurskoðun á uppbyggingu skólamála á ekki að fara eftir aðalnámskrá og kjarasamningum, engar tillögur minni hlutans liggja fyrir og hafa verið teknar til umræðu í skólanefnd hvað þetta mál varðar. Meirihlutinn hefur talað um að inntökualdur í leikskólann tengist ákvörðun ríkisstjórnarinnar um lengingu á fæðingarorlofi. En meirihlutinn kemur til móts við fólk með því að veita foreldrum val um leikskóla, niðurgreiðslur fyrir dagvistun og heimgreiðslur.

    Þessir þættir er snerta grunnþjónustu bæjarfélagsins hafa ekki afgerandi áhrif á rekstur sveitarfélagsins eins og minnihlutinn gefur í skyn, lögbundinnar þjónustu sveitarfélagsins eru gerð góð skil í þessari áætlun. Eins og fram kemur í þessari áætlun er stærsti einstaki liður hennar launakostnaður.

    Tilgangur þriggja ára áætlana er að bæjarstjórn horfi til framtíðar við vinnslu hennar og setji ramma um rekstur, framkvæmdir og fjármál bæjarfélagsins með ákveðin markmið í huga. Við slíka vinnu hljóta að koma upp ýmis sjónarmið varðandi ákvarðanatöku, umfang framkvæmda, áherslur og fjárhagslega getu bæjarins út frá ýmsum sjónarmiðum.

    Í þriggja ára áætlun birtist sýn sjálfstæðismanna á hvernig starfsemi og fjármál sveitarfélagsins komi til með að þróast á næstu þremur árum út frá gefnum forsendum. Við gerð þriggja ára áætlunar ríkir óvissa um ýmsa þætti sem skipta verulega máli við áætlanagerð. Óvissan eykst eftir því sem lengra er skyggnst inn í framtíðina m.a. óvissa um verðlagsþróun. Því eru niðurstöður þriggja ára áætlunar ætið háðar ákveðnum óvissuatriðum. Grundvallaratriði er aftur á móti að mati Sjálfstæðismanna að vandað sé til allra vinnslu þriggja ára áætlunar til að hún komi að því gagni sem ætlast er til, útsvarstekjur, fasteignaskattur, greiðslur úr Jöfnunarsjóði hefur verið áætlaðar með tilliti til fyrri ára og fjárhagsáætlunar ársins 2019. Varðandi gjöldin er laun og launatengd gjöld stærsti einstaki liðurinn.

    Við samþykkt 3ja ára fjárhagsáætlun bæjarins fyrir árin 2020-2022 skal tekið fram að niðurstaða fyrir seinni þrjú ár fjárhagsáætlunar er ekki bindandi enda áætlun þar sem bæjarstjórn horfir til framtíðar m.v. stöðuna í dag.

    Ásgerður Halldórsdóttir (sign) Magnús Örn Guðmundsson Sigrún Edda Jónsdóttir (sign) Bjarni Torfi Álfþórsson (sign)
    Til máls tóku: GAS, ÁH

  4. Fundargerð 71. fundar Bæjarráðs.
    Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 9 tl. eru staðfestar samhljóða.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Bæjarráðs.
    Til máls tóku: SB, SEJ, KPJ, GAS

  5. Fundargerð 84. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
    Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefnd nr. 84 voru borin upp til staðfestingar:
    1. Mál nr. 2017070035
    Heiti máls: Miðbraut 13, umsókn um byggingarleyfi.
    Lýsing: Innra skipulagi í bílskúr breytt og útliti.
    Afgreiðsla:Byggingarfulltrúi vék af fundi. Nefndin samþykkir umsóknina.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    2. Mál nr. 2018100225
    Heiti mál: Sólbraut 4.
    Lýsing: Stækka glugga og breyta í rennihurð.
    Afgreiðsla: Byggingarfulltrúi hefur samþykkt umbeðna breytingu.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    3. Mál nr. 2018100224
    Heiti mál: Bollagarðar 73-75.
    Lýsing: Byggingarleyfi á geymslu í samræmi við samþykkt deiliskipulag.
    Afgreiðsla: Byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingarleyfi.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    4. Mál nr. 2018100174
    Heiti mál: Kirkjubraut 13.
    Lýsing: Breytingar á innra skipulagi.
    Afgreiðsla: Byggingarfulltrúi hefur samþykkt umbeðna breytingu.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    5. Mál nr. 2018030089
    Heiti mál: Melabraut 54, viðbygging.
    Lýsing: Byggingarleyfi í samræmi við deiliskipulag.
    Afgreiðsla: Byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingarleyfi.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.

    6. Mál nr. 2018110100
    Heiti mál: Tjarnarmýri 4,
    Lýsing: Byggingarleyfi lítil viðbygging - forstofa. Í samræmi við deiliskipulag.
    Afgreiðsla: Byggingarfulltrúi hefur samþykkt byggingarleyfi.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða fundargerðina sem er 26 tl.

  6. Fundargerð 294. fundar Skólanefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  7. Fundargerð 428. fundar Fjölskyldunefndar.
    Fundargerðin lögð fram.

  8. Fundargerð 132. fundar Veitustofnana.*
    Fundargerðin lögð fram.

  9. Fundargerð Reykjanesfólkvangs, dags. 24.10.2018.
    Fundargerðin lögð fram.

  10. Fundargerð 41. fundar Heilbrigðisnefndar Kjósarsvæðis.
    Fundargerðin lögð fram.

  11. Fundargerð 463. fundar stjórnar SSH.
    Fundargerðin lögð fram.
    Til máls tóku: GAS, ÁH

  12. Fundargerð 295. fundar stjórnar Strætó bs.
    Fundargerðin lögð fram.

  13. a) Drög að nýrri eineltisáætlun Seltjarnarnesbæjar lögð fram.
    Bæjarstjórn staðfestir eineltisáætlun Seltjarnarnesbæjar samhljóða.
    Til máls tóku: ÁH, KPJ, SB

    b) Drög að Persónuverndar- og upplýsingaöryggisstefnu Seltjarnarnesbæjar lögð fram.
    Bæjarstjórn staðfestir Persónuverndar- og upplýsingaöryggisstefnu Seltjarnarnesbæjar samhljóða.
    Til máls tóku: ÁH, KPJ

    c) Tillaga frá Samfylkingu og Viðreisn/Neslista um aðalmann og varamann í stjórn Veitustofnana lögð fram:
    Aðalfulltrúi Viðreisnar/Neslista í stjórn Veitustofnana verði Garðar Gíslason, kt. 020669-3499, Melabraut 22, 170 Seltjarnarnesi.
    Varamaður Viðreisnar/Neslista í stjórn Veitustofnana verði Páll Árni Jónsson kt. 051050-8199, Nesbali 78, 170 Seltjarnarnesi.
    Samþykkt samhljóða.

    d) Fyrirspurn Viðreisnar/Neslista lögð fram, forseti bæjarstjórnar óskar eftir að bæjarstjóri svari fyrirspurninni á næsta fundi bæjarstjórnar.

Fundi slitið kl. 18:07

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?