Fara í efni

Bæjarstjórn

10. október 2018

Miðvikudaginn 10. október 2018 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.

Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Ragnhildur Jónsdóttir (RJ), Þorleifur Örn Gunnarsson (ÞÖG, Sigurþóra Bergsdóttir (SB) og Karl Pétur Jónsson (KPJ) .

Ásgerður Halldórsdóttir bæjarstjóri ritaði fundargerð í tölvu.

Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.

Fyrsti varaforseti bæjarstjórnar, Sigrún Edda Jónsdóttir setti fund og stjórnaði.

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Fundargerð 68. fundar Bæjarráðs.

    Liður nr. 1 borin upp til samþykktar, samþykkt samhljóða.

    Fundargerðin sem er 8 tl. er samþykkt samhljóða.

  2. Fundargerð 395. fundar stjórnar SORPU bs.

    Fundargerðin lögð fram.

    Fundargerð 396. fundar stjórnar SORPU bs.

    Fundargerðin lögð fram.

  3. Fundargerð 291. fundar stjórnar Strætó bs.

    Fundargerðin lögð fram.

  4. Fundargerð 863. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.

    Fundargerðin lögð fram.

    Til máls tók: SB

  5. Ásgerður Halldórsdóttir, kvaddi sér hljóðs og gerði grein fyrir erindi Sorpu bs. um að Seltjarnarnesbær veiti einfalda ábyrgð, veðsetningu í tekjum til tryggingar ábyrgð og veitingu umboðs til að undirrita lánssamning og taka að sér skuldbindingar sem fram koma í lánasamningi vegna láns Sorpu bs. sem tekið er hjá Lánasjóði sveitarfélaga. Lánssamningur liggur frammi á fundinum.

    Ásgerður lagði fram eftirfarandi tillögu:

    "Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkir hér með á bæjarstjórnarfundi að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68. gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns Sorpu bs. hjá Lánasjóði sveitarfélaga að höfuðstól allt að kr. 750.000.000,- með lánstíma allt að 15 ár, í samræmi við skilmála að lánasamningi sem liggja fyrir á fundinum og sem sveitarstjórnin hefur kynnt sér. Ábyrgðin tekur til allra greiðslna sem og hvers kyns kostnaðar sem hlýst af vanskilum. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir.
    Er lánið tekið til fjármögnunar á byggingu á gas- og jarðgerðarstöð í Álfsnesi sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu, sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaga nr. 150/2006.
    Bæjarstjórnin skuldbindur hér með sveitarfélagið sem eiganda Sorpu bs. til að breyta ekki ákvæði samþykkta SORPU bs. sem leggur hömlur á eignarhald að félaginu að því leyti að félagið megi ekki fara að neinu leyti til einkaaðila.
    Fari svo að Seltjarnarnesbær selji eignarhlut í Sorpu bs til annarra opinberra aðila, skuldbindur Seltjarnarnesbær sig til að sjá til þess að jafnframt yfirtaki nýr eigandi á sig ábyrgð á láninu að sínum hluta.
    Jafnframt er Ásgerði Halldórsdóttur, kt. 060656-5929 veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. Seltjarnarnesbæjar að undirrita lánssamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, og afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns."

    Bæjarstjórn samþykkir samhljóða tillögu um að veita einfalda ábyrgð vegna lántöku Sorpu bs.

  6. Tillögur og erindi:

    1. Tillaga v/frumvarps um tvöfalt lögheimili

      Tillagan er borin upp til samþykktar.

      Tillagan er felld með fjórum atkvæðum sjálfstæðismanna gegn tveimur atkvæðum minnihlutans.

      Bókun Meirihluta:

      Í umsögn umboðsmanns barna um þingsályktunartillögu sem lögð var fram á 141. löggjafarþingi Alþingis, 152. mál, sagði: ,,Jafnt búsetuform barna snýst að mati umboðsmanns barna fyrst og fremst um jafna stöðu foreldra en ekki hagsmuni og réttindi barnsins”. Einnig segir í umsögn um frumvarpið frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga: ,,Löggjafinn þurfi hér því miklu fremur að hafa í huga að þarfir barns vega þyngra en sjónarmið foreldra um að barn verði að hafa tvöfalt lögheimili. Frekar á að ætlast til þess að foreldrar lagi sig að aðstæðum barnsins, til að tryggja því samfellu í daglegu lífi, öryggi og festu en að barnið aðlagi sig að aðstæðum foreldranna. Ekki fylgja þessu frumvarpi tölfræðileg gögn sem gætu gefið nokkra mynd af þeim fjárhagslegum áhrifum sem frumvarpið hefur á fjárhag sveitarfélaga.”

      Sjálfstæðismenn benda því á að greina þurfi áhrif breytinganna á þjónustu sveitarfélaga við börn, svo sem hvað varðar leik- og grunnskóla, áður en málið er tekið til afgreiðslu á Alþingi.

    2. Tillaga v/lækningaminjasafns

      Tillagan er borin upp til samþykktar.

      Tillagan er felld með fjórum atkvæðum sjálfstæðismanna, tveir sitja hjá minnihlutans (S).

      Bókun meirihluta:

      Meirihlutinn ítrekar að minnihlutinn hefur ávallt verið upplýstur um viðræður við ráðuneytið varðandi Safnatröð 5. Enn eru í gangi viðræður við ríkið sbr. bréf bæjarstjóra til menntamálaráðuneytisins 18. apríl sl. sem hér er lagt fram til upplýsinga, en bæjarstjóra var falið af bæjarráði að vinna áfram með málið. Engar deilur hafa staðið yfir milli ríkisins og læknafélaganna og furðar meirihlutinn sig á bókun Viðreisnar/Neslista að tala um að svo hafi verið í heilan áratug. Bæjarstjóri leggur því fram viljayfirlýsingu aðila frá liðnu ári þess til staðfestingar. Á fundi með þingmönnum kjördæmisins í sl. viku voru málefni Lækningaminjasafnsins reifuð, upplýst var um stöðuna og að fyrirspurnir varðandi kaup á húsinu hafi borist bænum óformlega en ekki standi til að auglýsa húsið til sölu nema í fullu samráði við aðila og eftir að bæjarráð hefur tekið ákvörðun um slíkt.

      Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna tillöga frá Viðreisn/Neslista – N-lista

      Samfylkingin fagnar því að framtíð þessa húss sem átti að hýsa Lækningaminjasafn sé komið til umræðu í bæjarstjórn. Við styðjum það að unnið verði verðmat á húseigninni. Við leggjum ennfremur til að unnið verði nýtt mat á aðgerðum og kostnaði sem þarf til að koma húsinu í lag. Til viðbótar að framkvæmt verði mat á því hvaða menningarlegu, félagslegu og hagrænu áhrif full starfsemi í Læknaminjasafninu og á safnasvæðinu í heild, hefði á bæinn og samfélagið.

      Húsið hefur alla burði til þess að verða stolt og prýði bæjarins. Við leggjumst því gegn því að húseignin verði seld til þriðja aðila. Það er því okkar skoðun að bærinn eigi að eiga húsið og leigja undir skilyrtan rekstur. Þar mætti sameina safn, veitingasölu, upplýsingamiðlun til ferðamanna og aðra þjónustutengda starfsemi. Hefur húsið á síðustu árum hýst marga merka menningarviðburði og þegar stimplað sig inn sem fyrsta flokks viðburðastaður á höfuðborgarsvæðinu.

      Endurskoðað hlutverk Lækningaminjasafnsins verður ekki síst að skoða í ljósi væntanlegrar uppbyggingar og fjölgunar íbúa á svæðinu, sem og staðsetningu þess við helsta útivistarsvæði bæjarfélagsins. Við teljum einnig að Lækningaminjasafnshúsið geti verið hornsteinn í gerð ferðamálastefnu og uppbyggingu þjónustu við íbúa og ferðamenn þar sem saman koma fleiri hús á svæðinu svo sem Nesstofa og Lyfjasafnið en saman mynda þessi hús sérstöðu í safnaflórunni á landsvísu.

      Virðingafyllst

      Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

      Þorleifur Örn Gunnarsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga

    3. Bæjarstjórnarfundur nr. 876, Fyrirspurn frá N-lista - Viðreisn/Neslista 3. október 2018.
      Í ljósi nýrrar umfjöllunar sjónvarpsþáttarins Kveiks um vinnumansal og kjör erlends starfsfólks á Íslandi og laga um keðjuábyrgð vill bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista spyrja bæjarstjóra um með hvaða hætti Seltjarnarnesbær fylgist með kjörum starfsmanna sem starfa að umsvifamiklum byggingaframkvæmdum sem nú og í fyrirsjáanlegri framtíð fara fram á vegum bæjarins.

      Svar bæjarstjóra lagt fram:
      Í ljósi þeirra umræðu sem fram hafa komið í fjölmiðlum undanfarið um vinnumannsal og kjör erlends starfsfólks á Íslandi telur bæjarstjóri eðlilegt að beina þeim tilmælum til stjórnar Sambands ísl. Sveitarfélaga, að taka málið á dagskrá og til umræðu. Á þann hátt og með sameiginlegu átaki sveitarfélaga má ætla að hægt sé að koma í veg fyrir ójöfnuð í meðferð einstaklinga á vinnumarkaði.
      Einnig er lagt til í þessu sambandi; að Byggingar- og skipulagsfulltrúum verði falið að kanna stöðu mála hjá þeim atvinnurekendum sem starfa innan marka hvers sveitarfélags sem hafa samþykkt og útgefin byggingarleyfi. Og að óskað verði eftir staðfestingu atvinnurekenda á hve margir starfa á vegum fyrirtækisins og að launakjör allra starfsmanna og aðbúnaður sé í samræmi við íslensk lög.

      Bæjarstjóri Seltjarnarnes leggur áherslu á og það á öllum að vera ljóst, að atvinnurekendum er óheimilt að mismuna starfsmönnum sínum í tengslum við laun og önnur kjör enda sinni starfsmenn þeirra sömu eða jafnverðmætum störfum sbr. innkaupareglum bæjarins.

      Skipulags- og byggingarfulltrúi Seltjarnarnesbæjar hefur nú þegar haft samband við Vinnumálastofnun er varðar þau verkefni sem eru með útgefinn byggingarleyfi. Engar kærur eða kvartanir eru til staðar hjá verktökum og hafa þeir sent umbeðin gögn til Vinnumálastofnunar eins og lög og reglur kveða á um. Hægt er hinsvegar að óska eftir úttekkt og heimsókn frá starfsmönnum hjá VMS á vinnustaði og hefur bæjarstjóri falið Skipulags- og byggingarfulltrúa að óska eftir slíkri úttekt á verkefnum sem bæjarfélagið tengist.
      Til máls tóku: ÁH og SB

      Karl Pétur Jónsson mætti á fund bæjarstjórnar kl. 5:18
      SB lagði til við fundinn að umræður við tillögur verði endurteknar. Forseti bar upp tillöguna og var hún felld með fjórum atkvæðum, tveir voru samþykktir og einn sat hjá.

    4. Tillaga Sjálfstæðismanna um að draga úr plastmengun í rekstri Seltjarnarnesbæjar og stofnana á vegum bæjarins lögð fram.
      Bjarni Torfi Álfþórsson kvaddi sér hljóðs og lagði fram eftirfarandi tillögu sem hann flytur fyrir hönd sjálfstæðismanna í bæjarstjórn.

      "Bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar samþykkir að fela umhverfisnefnd og umhverfissviði bæjarins að hefja vinnu við undirbúning sem miðar að því að koma í veg fyrir og draga sem mest úr plastmengun í rekstri sveitarfélagsins og stofnana á vegum þess."

      Greinargerð: 
      Plastmengun í hafinu er ein alvarlegasta umhverfisvá samtímans. Sveitarfélög geta ekki skorast undan þeirri ábyrgð að stuðla að lausn vandans. Möguleikar nærsamfélagsins til þess eru margir og felur bæjarstjórn umhverfisnefnd og umhverfissviði að kanna hvaða möguleikar eru að draga úr plastnotkun hjá bæjarfélaginu. Seltjarnarnesbær hefur ávallt verið leiðandi sveitarfélag varðandi umhverfismál og á öðrum sviðum umhverfisverndar.
      Bæjarstjórn vísar tillögunni til næsta bæjarstjórnarfundar.

Fundi slitið kl.17:24

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?