Miðvikudaginn 22. ágúst 2018 kl. 17:00 kom bæjarstjórn Seltjarnarness saman til fundar í fundarsal sínum að Austurströnd 2, Seltjarnarnesi.
Mættir voru: Ásgerður Halldórsdóttir (ÁH), Magnús Örn Guðmundsson (MÖG), Sigrún Edda Jónsdóttir (SEJ), Bjarni Torfi Álfþórsson (BTÁ), Karl Pétur Jónsson (KPJ), Guðmundur Ari Sigurjónsson (GAS) og Sigurþóra Bergsdóttir (SB).
Ritari bæjarstjórnar, Gunnar Lúðvíksson ritaði fundargerð í tölvu.
Fundurinn er sendur út samtímis á netinu og vistaður á heimasíðu bæjarins.
Forseti bæjarstjórnar, Magnús Örn Guðmundsson setti fund og stjórnaði.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
-
Fundargerð 65. fundar Bæjarráðs.
Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 18 tl. eru staðfestar samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Bæjarráðs.
Til máls tóku: GAS, ÁH, KPJ, SB
Fundargerð 66. fundar Bæjarráðs.
Ákvarðanir sem fram koma í fundargerðinni sem er 4 tl. eru staðfestar samhljóða.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Bæjarráðs.
Til máls tóku:
Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna arkitektasamkeppni Leikskóla Seltjarnarness:
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga óska eftir áætlun um uppbyggingu nýs leikskóla. Í stefnuskrá Sjálfstæðismanna stendur að strax á þessu ári eigi að hanna og byggja nýjan leikskóla. Á 65. fundi bæjarráðs segja Sjálfstæðismenn að nýr leikskóli eigi á rísa ráðhúsreitnum en nú er stefnt að því að reisa tímabundið húsnæði á reitnum seinna á þessu ári. Eru tímabundnu einingarnar nýi leikskólinn sem Sjálfstæðismenn hyggjast reisa eða er hugmyndin að setja upp þessar tímabundnu einingar og færa þær aftur seinna í vetur með tilheyrandi kostnaði?
Þar sem ólíklegt er að tímalínan úr stefnuskrá Sjálfstæðismanna um að hanna og byggja nýjan leikskóla á þessu ári haldist þá spyrjum við: Hver er tímalínan á byggingu nýs leikskóla og á skipulags- og umferðarnefnd að fá aðkomu að þessu risavaxna skipulagsmáli?
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna stefnu um þjónustumiðstöð
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga hvetja til þess að vinna við framtíðarskipulag þjónustumiðstöðvar hefjist sem allra fyrst. Núverandi stöðuleyfi á óleyfisframkvæmd bæjarins gildir til 15. mars 2019 og var fyrirvari við veitingu stöðuleyfisins sá að bæjaryfirvöld myndu finna hentuga framtíðarlausn fyrir þjónustumiðstöðina áður en að leyfið rennur út.
Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
-
Fundargerð 78. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 78 voru borin upp til staðfestingar:
1. Mál nr. 2018060010
Heiti máls: Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Sundahöfn.
Lýsing: Lögð fram verklýsing umhverfis- og skipulagssviðs frá því í maí um að stækka hafnarsvæðið í Sundahöfn með landfyllingum við Klettagarða og Skarfabakka-Kleppsbakka.
Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemdir við verklýsinguna.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
4. Mál nr. 2018050393
Heiti máls: Kirkjubraut 1 – umsókn um byggingarleyfi, bílskúr minnkaður.
Lýsing: Sótt er um leyfi til að rífa niður gafl og minnka bílskúr.
Afgreiðsla: Nefndin vísar til afgreiðslu máls nr. 2018020002. Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir umsóknina.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
5. Mál nr. 2018060186
Heiti máls: Þjónustumiðstöð – umsókn um stöðuleyfi fyrir þjónustugám á Vallarbrautarvelli.
Lýsing: Sótt er um stöðuleyfi í tvo mánuði fyrir aðstöðu fyrir vinnuskóla.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir umsóknina til 31. ágúst 2018 en gámurinn verði staðsettur á malbiki við suðurenda sparkvallar.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
6. Mál nr. 2018060187
Heiti máls: Þjónustumiðstöð – umsókn um stöðuleyfi fyrir gám á athafnasvæði Þjónustumiðstöðvar Seltjarnarnesbæjar.
Lýsing: Um er að ræða stöðuleyfi fyrir einn 40 feta gám á athafnasvæði Þjónustumiðstöðvar fyrir ofan Bygggarðagötu. Hætt hefur verið við að staðsetja gám á milli Bygggarða 8 og 10 sem sótt var um fyrr á árinu þar sem ný staðsetning er talin henta starfseminni betur.
Afgreiðsla: Skipulags- og umferðarnefnd samþykkir umsóknina til 21. mars 2019. Staðsetning gáms verði í samráði við byggingarfulltrúa.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerð 79. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 80. fundar Skipulags- og umferðarnefndar.
Eftirfarandi málsnúmer í fundargerð Skipulags- og umferðarnefndar nr. 80 voru borin upp til staðfestingar:
1. Mál nr. 2018070083
Heiti máls: Aðalskipulag Reykjavíkur 2010-2030, Iðnaður og önnur landfrek starfsemi. Tillaga að breytingu á aðalskipulagi (drög).
Lýsing: Lögð fram sbr. 2. mgr. 30. gr. skipulagslaga nr. 123/2010, ásamt umhverfisskýrslu, sbr. lög nr. 105/2006 um umhverfismat áætlana.
Afgreiðsla: Nefndin gerir ekki athugasemdir en hefur áhyggjur af þungaflutningum að og frá Örfirisey.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða afgreiðslu Skipulags- og umferðarnefndar.
Til máls tóku: SB, KPJ, ÁH, SEJ -
Fundargerð 291. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Fundargerð 292. fundar Skólanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB, SEJ, KPJ, GAS, ÁH, MÖG
Bókun Samfylkingar og Viðreisnar/Neslista vegna inntöku barna í Leikskóla Seltjarnarness
Samkvæmt upplýsingum frá fræðslusviði Seltjarnarnesbæjar bíða 27 börn sem búið var að úthluta plássi á Leikskóla Seltjarnarness eftir að fá tímasetningu á inntöku í leikskólann.
Foreldrar þessara 27 barna fengu bréf í apríl þar sem þeim var tilkynnt að börnin þeirra fengju leikskólapláss í haust. Þessi foreldrar sögðu upp öðrum dagvistarúrræðum, skipulögðu endurkomu í vinnu eða gerðu aðrar eðlilegar ráðstafanir varðandi haustið miðað við þessar upplýsingar. Þau vissu ekki til þess að börnin fengju plássið þyrfti að bæta við tveimur deildum við leikskólann og ráða inn 8-10 nýjar starfsmenn.
Við í minnihlutanum vöruðum mjög við þessum loforðum og töldum ekki raunhæft að stækka nú þegar sprunginn leikskóla á svo stuttum tíma.
Því miður höfðum við rétt fyrir okkur, því staðan er eins og hún er. Enn vantar nokkuð upp á að búið sé að ráða í stöður kennara og leiðbeinanda til að geta tekið börnin inn, þar að auki eru færanlegu kennslustofurnar sem eiga að hýsa börnin ekki einu sinni komnar til landsins.
Við í minnihlutanum lögðum okkar að mörkum að reyna að leysa vandamálið með því að krefjast fundar í Skólanefnd í sumar. Þar komum við með tillögur að bættum kjörum til að bæta samkeppnisstöðu Leikskóla Seltjarnarness og auka líkur á að fá hæft fólk til starfa. Tillögur þess efnis voru samþykktar og vonandi næst að ráða starfsfólk sem allra fyrst.
Við vonum að í framtíðinni vandi stjórnvöld bæjarins meira til verka okkur öllum til heilla.
Sigurþóra Bergsdóttir bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Guðmundur Ari Sigurjónsson bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Karl Pétur Jónsson bæjarfulltrúi Viðreisnar/Neslista
Bókun meirihlutans:
Fulltrúi samfylkingarinnar talar hér eins og hann viti ekkert um málið. Hann situr bæði í bæjarstjórn og bæjarráði og er fullkunnugt um þá miklu vinnu sem fræðslustjóri og skólastjórnendur hafa staðið frammi fyrir eftir að ljóst varð að mikill tilflutningur var af fjölskyldufólki á Nesið frá því í mars sl.
Til upplýsinga mun ég nú fara yfir málið, en vek athygli á því að þessi mál hafa verið rædd í skólanefnd og foreldrar barna með yngstu börnin hafa verið upplýst um stöðu mála.
Börn frá 14 mánaða aldri hafa verið tekin inn í Leikskóla Seltjarnarness við upphaf skólaárs undanfarin ár. Á síðasta skólaári voru 213 börn í leikskólanum og við gerðum ráð fyrir að fara upp í 232 í haust.
Teknar verða í notkun tvær lausar kennslustofur sem rýma tvær nýjar leikskóladeildir með útisvæði fyrir þann aldur sem þar verður staðsettur. Með nýju deildunum erum við ekki eingöngu að mæta fjölgun barna á milli ára heldur erum við einnig aðeins að fækka börnum á öðrum deildum leikskólans og auka þannig við leikrými barnanna og draga úr álagi á starfsfólk.
Fram hefur komið á fundum okkar og einnig í fjölmiðlum, því mikil umræða hefur farið fram um þessi mál og stöðu þeirra á höfuðborgarsvæðinu undanfarna daga. Það bárust 80 umsóknir um leikskólapláss fyrir 1. apríl sl., en umsóknarfrestur um pláss fyrir skólaárið sem nú er að hefjast rann út 31. mars. Ég vil vekja athygli bæjarfulltrúa á að það bárust um 20 umsóknir í marsmánuði. Vegna þessarar fjölgunar upplýsti fræðslustjóri strax að núverandi aðstaða gat ekki fullnægt þjónustutilboði okkar að taka inn börn með sama hætti og undanfarin ár nema grípa til aðgerða.
Ég tel rétt að fara yfir forsendur ákvarðanatöku varðandi lausar kennslustofur.
Eins og fram hefur komið skoðaði fræðslustjóri mánaðarlega þróun á stöðu umsókna fyrir skólaárið 2018-2019, en haustið 2017 voru 212 börn tekin inn á LS og allar deildir þá fylltar. Það lá fyrir að stór árgangur mundi útskrifast að vori, sá stærsti sem verið hefur í leikskólanum um langan tíma eða um 60 börn, það leit því út fyrir að ekki þyrfti að grípa til sér aðgerða nú í sumar. Um sl. áramót og um mánaðamótin janúar/febrúar var ekkert sem benti til annars en að það næðist að halda inntöku með óbreyttum hætti m.v. undanfarin ár, að óbreyttu , þ.e.a.s. að taka inn börn frá 14 mánaða aldri að hausti.
Í febrúarmánuði fjölgaði umsóknum talsvert þannig að um mánaðamótin febrúar/mars var fjöldi umsókna að nálgast það að vera á pari við þann fjölda sem leikskólinn gat tekið við. Að öllu óbreyttu mætti koma til móts við þann hóp án þess að til kæmu sértækar ráðstafanir.
Þegar að umsóknir um leikskólapláss tóku að streyma inn í marsmánuði eins og fram hefur komið og 20 höfðu bæst við þegar upp var staðið, var ljóst að bæta þyrfti við húsnæði og ráða fleira starfsfólk til þess að það tækist að taka inn börn frá 14 mán.
Í mars var leitað lausna í húsnæðismálum og ýmsir kostir voru skoðaðir áður en ákvörðun var tekin um kost uppfyllti kröfur um þarfir starfseminnar og afhendingartíma. Það lá fyrir áður en ákvörðun var tekin um inntöku barna í LS fyrir haustið 2018 að húsnæði ætti að vera tilbúið til notkunar í fyrir miðjan ágústmánuð.
Þegar leið að mánaðamótum mars/apríl var sú ákvörðun tekin af bæjaryfirvöldum að stækka LS og fjölga börnum svo að óbreytt þjónustustig væri í boði og börn sem hefðu náð 14 mán. aldri í ágústmánuði yrði boðið leikskólapláss.
Fræðslustjóra og stjórnendum leikskólans var falið að fylgja þessari ákvörðun þau fengu það verkefni að koma upp tveimur nýjum leikskóladeildum og bregðast þar með við fjölgun leikskólabarna og jafnframt við ósk starfsfólks LS um að draga úr fjölda barna á þeim deildum sem fyrir eru í leikskólanum.
Vitað var að við þyrftum að byrja að auglýsa strax eftir leikskólakennurum þar sem þeir sem gætu hugsað sér að koma til okkar hefðu ráðrúm til að segja upp þar sem þeir störfuðu og vinna út uppsagnarfrestinn. Það var einnig búist við því að þeir sem kæmu til með að sækja um störf leikskólaleiðbeinenda færu væntanlega ekki að sækja um í miklu mæli fyrr en komið væri fram í ágústmánuð.
Auglýst heftur verið eftir fólki til starfa frá því í aprílmánuði, en fáar umsóknir borist. Til þess að bregðast við þeirri stöðu sem upp var komin samþykkti bæjarráð viðbótarkjör til handa starfsfólki leikskólans, á fundi sínum í fyrrihluta júlímánaðar. Vonast var til að samþykkt viðbótarframlag hjálpi til við að ráða fleira fólk:
- viðbótarlaunagreiðslur
- aukinn undirbúningstími og sveigjanleiki við að sinna undirbúningi
- hvatakerfi í tengslum við mætingar
- könnun á möguleikum aukinnar frítöku starfsmanna í kringum jól og páska.
Eins og gefur að skilja er það ekki svo að allar umsóknir skili sér í ráðningu. Gerðar eru ákveðnar kröfur til þeirra sem ráðnir eru til starfa, fyrir utan það að viðkomandi sé yfir höfuð treystandi til starfans, m.a. er farið fram á ákveðna lágmarkskunnáttu í íslensku.
Vonir eru einnir bundnar við að umsóknum úr yngsta hópi umsækjenda fjölgi þegar lengra kemur fram í ágúst, þegar það skýrist hverjir fá skólavist / hafa náð inntökuprófum í háskóla. Framhaldsskólarnir skiluðu út tveimur árgöngum í vor og því ætti mengi umsækjenda vonandi aðeins að stækka.
Gengið hefur verið frá ráðningu deildarstjóra á nýju deildirnar og eru þær báðar úr röðum leikskólakennara sem fyrir eru í leikskólanum. Starfsfólk nýju deildanna verður blanda af reynslumiklu starfsfólki, sem nú þegar starfar í leikskólanum og nýráðnum. Það fólk sem ráðið er í dag getur e.t.v. ekki hafið störf fyrr en eftir nokkrar vikur.
Í byrjun apríl var því sent út bréf frá Leikskóla Seltjarnarness þar sem foreldrum barna sem fædd eru t.o.m. maí 2017 var boðið pláss frá hausti. Í bréfinu kom fram að áætlað væri að inntaka nýrra barna hæfist í ágústmánuði og að nánari upplýsingar yrðu sendar síðar varðandi upphafsdagsetningar og kynningarfund.
Ábendingar frá foreldrum hafa verið vel teknar varðandi upplýsingaflæði en þau hafa bent á að setja hefði mátt enn meiri fyrirvara um inntöku í bréfið. Þetta ber að færa til betri vegar ef sambærileg staða kemur upp að ári.
Ég vil benda bæjarfulltrúum á að inntaka nýrra barna hófst þriðjudaginn 7. ágúst, en þá hófu 50 ný börn leikskólagöngu sína. Gert er ráð fyrir að 232 börn dvelji í leikskólanum þegar upp er staðið í haust.
Nýju deildirnar verða opnaðar hver um sig um leið og hún er mönnuð.
Ég vil samt árétta að 50 ný börn hafa hafið aðlögun nú eftir verslunarmannahelgina, en foreldrar 30 barna hafa fengið bæði bréf og fundur var haldinn með foreldrum sem ekki hafa fengið staðfesta upphafsdagsetningu fyrir aðlögun barna sinna í Leikskóla Seltjarnarness haustið 2018. Fundurinn var haldinn í Tónlistarskóla Seltjarnarness mánudaginn 13. ágúst kl. 17:00-18:00. Fundinn sátu, auk þeirra foreldra sem sáu sér fært að mæta, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri, Sigrún Edda Jónsdóttir, form. skólanefndar, Baldur Pálsson, fræðslustjóri, Margrét Gisladóttir, leikskólastjóri og Sonja Jónasdóttir, aðstoðarleikskólastjóri. Á fundinum var m.a. farið yfir forsendur ákvarðanatöku um inntöku barna, ráðningar starfsfólks, húsnæðismál og starfsemi nýrra leikskóladeilda. Foreldrar lýstu ánægju sinni með þennan upplýsingfund og óskuðu eftir að upplýsingar um stöðu mála yrði senda út oftar. Óskað fundarmenn eftir samantekt frá fundinum og sendi fræðslustjóri út samantekt yfir þau atriði sem rædd voru á fundinum í sömu viku.
Við stöndum mjög vel hvað varðar leikskólakennarar sem starfa við leikskólann okkar. Leikskólinn er vel mannaður leikskólakennurum og öðru háskólamenntuðu fagfólki eða um 60% starfsmanna. Stefna okkar er ávallt sú að ráða til okkar fagmenntaða leikskólakennara og viljum við sjá sem flestar umsóknir frá þeim, en það verður að koma í ljós úr hverju við höfum að velja við höfum verið að auglýsa undanfarna daga eftir starfsfólki. Nú þegar höfum við ráðið 8 starfsmenn frá því í sumar fyrir komandi skólaár til þess að mæta starfsmannaveltu og þeirri fjölgun sem stækkun LS hefur í för með sér. Nokkrar umsóknir eru auk þess til skoðunar í dag. Við þurfum að ráða í um 7 stöðugildi alls til viðbótar.
Árétta að byrjað var að auglýsa störf strax í apríl og oftast hefur verið auglýst í atvinnublaði Fréttablaðsins, en einnig í nýju atvinnublaði Morgunblaðsins. Jafnhliða birtingum í prentmiðlum hafa auglýsingarnar birst á vefjum þeim tengdum, þann tíma sem þær hafa verið í gildi og á heimasíðu Seltjarnarnesbæjar. Við höfum einnig auglýst eftir deildarstjórum og leikskólakennurum á heimasíðu KÍ og á Facebook-síðu Félags Leikskólakennara síðan í apríl. Einnig hefur verið auglýst á netmiðlum s.s. job.is og alfreð.is.
Nú stendur yfir undirbúningur að taka á móti tveimur nýjum leikskólabyggingum á Ráðhúsreit. En eins og fram hefur komið þurfti til að mæta fjölgun barna sem ekki varð upplýst um fyrr en í mars sl. Að reista tvær lausar kennslustofur alls um 270 m2. Hvor deild er 108 m2 og tengibygging með starfsmannaaðstöðu og andyri er 54 m2. Upplýst var um að afhending húsnæðist hafi tafist, en að nú liggi fyrir staðfesting á að það komi til landsins 4. sept. og að uppsetning eigi að geta hafist 6. sept. nk. Áætlað að deildirnar séu komnar í starfhæft ásigkomulag á u.þ.b. einni viku. Til þess að það gangi sem hraðast fyrir sig verður allur búnaður sem til þarf tiltækur. Fræðslustjóri hefur hitt forsvarsmenn eignasjóðs til að ganga úr skugga um að allt sé til reiðu þegar stofurnar koma á staðinn og frágangur lóðar með leiktækjum verður gerður jafnhliða.
Sigrún Edda Jónsdóttir,
Magnús Örn Guðmundsson,
Bjarni Torfi Álfþórsson
Ásgerður Halldórsdóttir. -
Fundargerð 410. fundar Íþrótta- og tómstundanefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS
-
Fundargerð 287. fundar Umhverfisnefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB, ÁH
-
Fundargerð 425. fundar Fjölskyldunefndar.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: SB, KPJ, ÁH, GAS
Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna biðlista eftir félagslegum íbúðum hjá Seltjarnarnesbæ
Samkvæmt upplýsingum frá Félagsþjónustu Seltjarnarness eru nú 10 fjölskyldur eða einstaklingar á biðlista eftir félagslegum íbúðum. Þessir aðilar eru í mismikilli þörf en ljóst að nokkrir eru í sárri þörf eftir hentugu húsnæði.
Þegar síðasta fjárhagsáætlun var samþykkt var gert ráð fyrir kaupum á einni félagslegri íbúð á Seltjarnarnesi, þessi íbúð hefur enn ekki verið keypt og engin svör fengist varðandi það hvenær hún verður keypt. Við krefjumst þess að yfirvöld bæjarins uppfylli loforð sitt um að kaupa nýja íbúð sem allra fyrst svo að að minnsta kosti ein fjölskylda á biðlistanum fá húsnæði við hæfi.
Við leggjum einnig til að við gerð næstu fjárhagsáætlunar verði fjármunir teknir frá til að kaupa fleiri félagslegar íbúðir svo fólk í neyð geti átt öruggt heimili fyrir sig og sína. -
Fundargerð 10. fundar Öldungaráðs.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 392. fundar stjórnar SORPU bs.
Fundargerðin lögð fram.
Til máls tóku: GAS, BTÁ
-
Fundargerð 861. fundar stjórnar Sambands ísl. sveitarfélaga.
Fundargerðin lögð fram.
-
Fundargerð 459. fundar stjórnar SSH.
Fundargerðin lögð fram.
-
Tillögur og erindi:
a) Tillaga að breytingu á bæjarmálasamþykkt sbr. 3. kafla um fundi bæjarstjórnar lögð fram og vísað til bæjarráðs.
Til máls tóku: GAS, SEJ, ÁH
Bókun Samfylkingar Seltirninga vegna höfnunar bæjarstjóra á að setja málefni Leikskóla Seltjarnarness á dagskrá bæjarstjórnar
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga gera alvarlegar athugasemdir við það að framkvæmdarstjóri bæjarins taki sér það vald að ákveða fyrir hönd bæjarfulltrúa hvaða mál eiga erindi á borð bæjarstjórnar.
Bæjarfulltrúar Samfylkingar Seltirninga óskuðu í tvígang eftir því að málefni Leikskóla Seltjarnarness væri sett á dagskrá fundarins undir sér lið svo hægt væri að ræða stöðu leikskólans frá öllum hliðum. Staða Leikskóla Seltjarnarness er eitt stærsta verkefnið sem bæjarstjórn Seltjarnarness stendur frammi fyrir þar sem um 30 börn fengu loforð um leikskólapláss þrátt fyrir að ekki var búið að manna deildir eða útvega húsnæði fyrir börnin. Fulltrúar minnihlutans í skólanefnd þurftu að beita sér til þess að skólanefndarfundur sem var á dagskrá í sumar yrði ekki felldur niður og svo hægt væri að leggja fram tillögur um að bæta kjör leikskólakennara á Seltjarnarnesi
Þessi framkoma bæjarstjóra er klárt brot á 27. grein sveitarstjórnarlaga 138/2011 sem segir:
27. gr. Réttur til að bera upp mál.
Sveitarstjórnarmaður á rétt á að tekið verði á dagskrá sveitarstjórnarfundar hvert það málefni sem sérstaklega varðar hagsmuni sveitarfélagsins eða verkefni þess.
Þessi framkoma gerir einnig lítið úr stöðu leikskólans og stöðu þeirra foreldra sem eru margir hverjir í mjög erfiðri stöðu á meðan beðið er eftir leikskólaplássinu sem þeim var lofað í vor.Guðmundur Ari Sigurjónsson - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Sigurþóra Bergsdóttir - Bæjarfulltrúi Samfylkingar Seltirninga
Bókun bæjarstjóra.
Bæjarfulltrúi Samfylkingarinnar óskaði eftir að sett yrði sérstakur liður á dagskrá bæjarstjórnarfundar í dag varðandi stöðu leikskólans. Ég svarði viðkomandi bæjarfulltrúa að á fundinum yrðu teknar fyrir tvær fundargerðir skólanefndar og því hægt að ræða mál leik- og grunnskóla undir þeim liðum, ekki væri ástæða til að hafa sérstakan lið. Einnig benti ég viðkomandi bæjarfulltrúa á að setja sig í samband við fræðslustjóra ef eitthvað væri óljóst varðandi þessi mál, en annars yrðu þau rædd undir þessum tveimur fundargerðum.
Mér þykir miður að reynt sé að gera þessa ákvörðun mína tortryggilega en það kemur skýrt fram í 10. gr. bæjarmálasamþykktar að:
10. gr.
Dagskrá bæjarstjórnarfundar.
Forseti bæjarstjórnar semur dagskrá bæjarstjórnarfundar og skal dagskráin fylgja fundarboði.
Á dagskrá bæjarstjórnarfundar skal taka:
1. Fundargerðir bæjarráðs, nefnda, ráða og stjórna á vegum bæjarstjórnar.
2. Ályktanir og tillögur sem fram koma í fundargerðum, sbr. 2. tölul., og þarfnast staðfestingar bæjarstjórnar, skal tilgreina sérstaklega í dagskrá.
3. Önnur mál sem falla undir verksvið bæjarstjórnar og bæjarstjóri ákveður að taka á dagskrá eða einhver bæjarfulltrúi óskar að tekin verði á dagskrá.
Það var mat mitt að hér væri ekki um önnur mál heldur væri hægt að fjall um leikskólamál og spyrjast fyrir um þau undir fundargerðum dagsins.
Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri.
Bókun N-lista vegna tillögu að breytingu á bæjarmálasamþykkt
Sjálfstæðisflokkurinn hefur lagt til að fundum bæjarstjórnar verði fækkað um helming. Tillagan felur í sér að aðkoma kjörinna fulltrúa sem ekki eru í bæjarráði verði takmörkuð við mánaðarlega bæjarstjórnarfundi, þegar bæjarstjórn er ekki í sumarfríi. Þetta mun þýða að bæjarssjórnarfundir verði í mesta lagi 11 á ári.
Bæjarfulltrúi N-listans, sem var kjörinn af tæplega 16% bæjarbúa til að gæta hagsmuna bæjarbúa hefur enga aðra aðkomu að málefnum bæjarins en bæjarstjórnarfundi. Möguleikar hans til að hafa áhrif á gang bæjarmála munu skerðast verulega, ef tillaga Sjálfstæðisflokksins um breytingu á bæjarmálasamþykkt fæst samþykkt.
N-listinn mótmælir breytingunni og hvetur frekar til þess að lýðræðisleg vinnubrögð verði styrkt með aukinni aðkomu bæjarfulltrúa að stefnumótandi ákvörðunum um málefni bæjarins.
b) Starfsmannastefna Seltjarnarnesbæjar lögð fram.
Bæjarstjórn samþykkir samhljóða
Til máls tóku: SB, KPJ, ÁH
c) Sameiginleg tillaga frá S-lista og N-lista
S-listi og N-listi leggja til að fulltrúi N-lista verði áheyrnafulltrúi í bæjarráði, líkt og gefin er heimild fyrir í 40. grein samþykktar um stjórn Seltjarnarnesbæjar nr. 831/2013.
Hlutverk bæjarráðs er meðal annars að hafa eftirlit með stjórnsýslu bæjarfélagsins. Það er mikilvægt að öll stjórnmálasamtök sem eiga kjörna fulltrúa í bæjarstjórn hafi aðkomu að því hlutverki, auk þess sem mikið af upplýsingum sem nauðsynlegar teljast fyrir bæjarfulltrúa fást eingöngu með setu í ráðinu.
Það er því sameiginleg tillaga okkar undrirritaðra, bæjarfulltrúa S-lista og N-lista að bæjarfulltrúi N-lista fái seturétt sem áheyrnarfulltrúi í bæjarráði.
Vísað til næsta fundar
Fundi var slitið kl.: 18:10