Fara í efni

Bæjarstjórn

607. fundur 24. nóvember 2004

Mættir voru: Jónmundur Guðmarsson, Ásgerður Halldórsdóttir, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Sunneva Hafsteinsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson, Árni Einarsson og Inga Hersteinsdóttir.

Fundi stýrði Ásgerður Halldórsdóttir.

Fundargerð ritaði Stefán Bjarnason.

Fundargerð 606. fundar samþykkt.

 

1.           Lögð var fram til seinni umræðu fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2005.

Jónmundur Guðmarsson, bæjarstjóri, gerði grein fyrir breytingum og leiðréttingum sem orðið hafa á milli umræðna og lagði fram lista yfir tillögu að breytingum.   Niðurstöður breytinga á málaflokka við seinni umræðu eru eftirfarandi:

A-hluta aðalsjóðs og stofnana.

Málaflokkur 02. Gjöld lækka um 450.000.-

Málaflokkur 04. Gjöld hækka um 14.200.000.-

Málaflokkur 05. Gjöld hækka um  50.000.-

Málaflokkur 06. Gjöld hækka um  200.000.-

Málaflokkur 09. Gjöld hækka um 200.000.-

Málaflokkur 28. Tekjur lækka um 400.000.-

Niðurstöður gjalda A-hluta aðalsjóðs og stofnana eru því áætlaðar kr. 1.269.331.000.- og tekna kr. 1.432.000.000.-

Rekstrarkostnaður aðalsjóðs er kr. 1.223.208.380.- sem er 85.420% af skatttekjum.

Rekstrarhagnaður A-hluta aðalsjóðs og stofnana af rekstri er áætlaður kr. 162.669.000.- sem er 11,360%.

 

B- hluta fyrirtækja og stofnana.

Rekstrarhagnaður Hitaveitu Seltjarnarness lækkar um kr 3.463.000.-

og arðgreiðsla til Seltjarnarnesbæjar lækkar um kr. 400.000.-

Rekstrarhagnaður Hrólfskálamels  hækkar um  kr. 7.350.-

Rekstrarhalli B-hluta fyrirtækja og stofnana er áætlaður kr. 49.880.000.

Til að mæta gjaldaaukningu umfram tekjur og lækkun arðgreiðslu, er ráðstöfun til eignabreytinga vegna hjúkrunarheimilis lækkuð um kr. 17.655.650.-  Niðurstaða eignabreytinga er því 517.081.000.-

 

Til máls tóku: Jónmundur Guðmarsson, Sunneva Hafsteinsdóttir, Árni Einarsson, Guðrún Helga Brynleifsdóttir, Bjarni Torfi Álfþórsson og Ásgerður Halldórsdóttir.

Breytingartillögurnar voru samþykktar með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en fulltrúar Neslistans sátu hjá.

Fjárhagsáætlunin fyrir árið 2005 með ofangreindum breytingum var borin undir atkvæði bæjarstjórnar og var hún samþykkt með 4 atkvæðum fulltrúa Sjálfstæðismanna en 3 fulltrúar Neslistans sátu hjá.

Fulltrúar Neslistans lögðu fram eftirfarandi bókun:

Fulltrúar Neslistans sitja hjá við afgreiðslu fjárhagsáætlunar 2005 með eftirfarandi bókun:

“Fjárhagsáætlun vegna ársins 2005 einkennist m.a. af framkvæmdagleði, sem byggist á áætlaðri sölu á landi bæjarsjóðs við Hrólfskálamel, en áætlað er að með henni komi aukalega 350 millj. kr. inn í kassa bæjarsjóðs strax árið 2005. Meirihluta sjálfstæðismanna hefur enn ekki lánast að koma skipulagsmálunum í farsæla höfn. Það er áhyggjuefni að í þessari áætlun endurspeglast sú fyrirætlun meirihlutans að ráðast í það byggingarmagn á Suðurströnd og Hrólfskálamel sem 44% bæjarbúa hafa mótmælt þrátt fyrir yfirlýsingar um annað. En umrædda tekjuaukningu á að nota m.a. í endurbætur á sundlauginni, sem er mjög þarft og gott verkefni, en sýnir auðvitað það sem fulltrúar Neslistans hafa haldið fram að mörg mannvirki í bæjarfélaginu hafa ekki fengið það viðhald sem nauðsynlegt var árum saman, sem þýðir auðvitað að verður kostnaðarsamar þegar loks á að ráðast í það.

Kostnaður við yfirstjórn bæjarins er mikill, um 50 milljónir fara í að greiða fjórum framkvæmdastjórum, bæjarstjóra og verkefnastjóra hans laun. Þetta er mjög há tala sé tekið mið af stærð sveitarfélagsins. Þá hefur bæjarstjóri kynnt til sögunnar endurráðningu verkefnastjórans, sem kostar bæjarfélagið um 7 millj. kr. á ári. Þetta er gert þrátt fyrir hástemmd loforð við ráðningu hans fyrir tveimur árum að ráðningin væri tímabundin. Þá vekur það sérstaklega athygli að allir yfirmenn bæjarins eru karlkyns. Jafnréttisáætlun Seltjarnarness var samþykkt fyrir nokkrum árum og þar eru tilmæli til bæjarstjórnar að auglýsa öll ný ströf og vinna þannig að jafnrétti á öllum sviðum. Það er full ástæða til þess að gæta sérstaks aðhalds í starfsmannahaldi og launakostnaði við yfirstjórn bæjarins þegar bæjarbúum er að fækka. Hagkvæmara kann að vera að kaupa sérhæfða þjónustu eftir því sem þörf er hverju sinni ef ekki er hægt að ganga að henni hjá starfsfólki bæjarins.

Fræðslumálin er lang stærsti útgjaldaliður bæjarins. Í greinargerð bæjarstjóra er farið hástemmdum orðum um afrek meirihlutans í fjármálastjórn bæjarins og tilgreint að stór hluti útgjalda bæjarfélagsins á sviði fræðslumála fari í málaflokka sem ekki eru skilgreindir sem lögbundin verkefni sveitarfélaga. Þegar það er skoðað, verður ekki séð að Seltjarnarnesbær sé að veita aðra þjónustu í þessum málaflokki en önnur nágrannasveitarfélög gera. Öðru nær er hér um þjónustu að ræða sem er einnig veitt í öðrum sveitarfélögum og þykir sjálfsögð og eðlileg í nútíma þjóðfélagi.”

Guðrún Helga Brynleifsdóttir  Sunneva Hafsteinsdóttir  Árni Einarsson

                 (sign)                                   (sign)                      (sign)

 

Fulltrúar Sjálfsstæðismanna lögðu fram eftirfarandi bókun:

Meirihlutinn hafnar með öllu fullyrðingum minnihluta um framhald skipulagsmálanna. Fjárhagsáætlun Seltjarnarnesbæjar fyrir árið 2005 ber með sér að fjárhagur bæjarsjóðs er í traustum skorðum og áfram verður unnt að veita bæjarbúum góða þjónustu á flestum ef ekki öllum sviðum.  Tekjur næsta árs eru varlega áætlaðar, útgjöld til málaflokka eru aukin, rekstrarhlutfall aðalsjóðs verður með því lægsta sem þekkist á meðal sveitarfélaga, skuldir lækka og veltufé frá rekstri eykst verulega.    Peningaleg staða Seltjarnarnesbæjar er sterk og með því besta sem gerist á  meðal sveitarfélaga. Áætlað veltufé frá rekstri nemur um  170 mkr. sem auk fjár fyrir sölu lands getur nýst til nýframkvæmda, fjárfestinga og niðurgreiðslu langtímaskulda. Skuldir bæjarins eru með allra minnsta móti miðað við önnur sveitarfélög og sé miðað við veltufé frá rekstri getur Seltjarnarnesbær greitt upp allar sínar skuldir á um 3 árum sé miðað við óbreytta afkomu bæjarsjóðs. Með sölu lands á Hrólfsskálamel og við Suðurströnd gefst einstakt færi á að vinna að ýmsum framfaramálum, s.s gagngerri endurnýjun á sundlaug bæjarins, byggingu gervigrasvallar, ljósleiðaravæðingu, byggingu hjúkrunarheimilis, endurnýjun á Mýrarhúsaskóla og  endurbyggingu Nesstofu.  Árið 2005 getur því orðið eitt mesta framkvæmdaár í sögu Seltjarnarnesbæjar og ávinningur bæjarsjóðs af sölu landsins ef af verður getur skilað sér þegar í auknum lífsgæðum Seltirninga.   Þá er umtalsverðum fjármunum varið til endurbóta og viðhalds fasteigna svo ljóst er að ekki er verið að ganga á eignir og verðmæti bæjarins á því sviði.

Meginmarkmið meirihluta bæjarstjórnar er að veita góða þjónustu með sem hagkvæmasta hætti. Álögum á bæjarbúa er sem fyrr stillt í hóf.  Ekki er gert ráð fyrir hækkun útsvarsprósentu enda ljóst að reksturinn stendur undir sér miðað við gefnar forsendur.  Holræsagjald er ekki lagt á og mun Seltjarnarnesbær eitt sveitarfélaga um þá tilhögun og    ekki er gert ráð fyrir nýjum lántökum á árinu 2005.

Jónmundur Guðmarsson           Inga Hersteinsdóttir

                       (sign)                                        (sign)

Bjarni Torfi Álfþórsson             Ásgerður Halldórsdóttir

                       (sign)                                        (sign) 

 

2.           Lögð var fram fundargerð 349. fundar Fjárhags- og launanefndar Seltjarnarness, dagsett 10. nóvember 2004 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

3.           Lögð var fram fundargerð 152. (47.) fundar Skólanefndar  Seltjarnarness, dagsett 8. nóvember 2004 og var þetta vinnufundur í 1 lið.

4.           Lögð var fram fundargerð 14. fundar Starfsmenntasjóðs Seltjarnarness, dagsett 19. október 2004 og var hún í 1 lið.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

5.           Lögð var fram fundargerð 9. fundar ársins 2004 hjá Heilbrigðisnefnd Kjósarsvæðis, dagsett 9. nóvember 2004 og var hún í 7 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

6.           Lögð var fram fundargerð 241. fundar Stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, dagsett 15. september 2004, og var hún í 8 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

7.           Lögð var fram fundargerð 242. fundar Stjórnar skíðasvæða höfuðborgarsvæðisins, dagsett 27. október 2004, og var hún í 10 liðum.

Fundargerðin gaf ekki tilefni til samþykktar.

8.           Tillögur og erindi:

a)       Lagður var fram samningur við VST um hönnun og ráðgjöf vegna framkvæmda við Sundlaug Seltjarnarness.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Samningurinn samþykktur samhljóða.

b)      Lagt var fram minnisblað bæjarstjóra dagsett 28. júlí 2004 samkvæmt lið 15b á 601. fundi bæjarstjórnar, með tillögu um breytingar á skipuriti Seltjarnarnesbæjar, ásamt drögum að starfslýsingum skólastjóra, skólasálfræðings, framkvæmdastjóra fræðslusviðs, fagráðgjafa grunnskóla og leikskólafulltrúa.

Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

Samþykkt að fresta afgreiðslu til næsta fundar.

c)   Lagt var fram bréf Ferðamálasamtaka höfuðborgarsvæðisins dagsett 1. nóvember 2004 þar sem beðið er um tilnefningu í stjórn samtakanna.

      Til máls tók: Jónmundur Guðmarsson.

      Bæjarstjórn tilnefnir í stjórn samtakanna Hrafnhildi Sigurðardóttur starfsmann Seltjarnarnesbæjar.

d)  Lagt var fram bréf Landverndar dagsett 15. nóvemeber 2004 þar sem þeir tilkynna veitingu Grænfánans til leikskólans Mánabrekku á Seltjarnarnesi, sem umhverfisráðherra mun afhenda þann 1. desember nk.

      Bæjarstjórn lýsir yfir ánægu sinni með umrædda viðurkenningu og óskar starfsmönnum Mánabrekku innilega til hamingu með verðlaunin.

           

Fundi var slitið kl.  17:52



Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?