Mættir: Magnús Örn Guðmundsson, Svana Helen Björnsdóttir, Þór Sigurgeirsson og Guðmundur Ari Sigurjónsson.
Fundarritari: Svava Sverrisdóttir sviðsstjóri fjármálasviðs og Þór Sigurgeirsson bæjarstjóri.
Dagskrá:
1. 2024080183 – Samgöngusáttmáli
Fyrir fundinum liggja gögn varðandi nýsamþykktan samgöngusáttmála.
Páll Björgvin Guðmundsson og Birgir Björn Sigurjónsson koma inn á fundinn kl. 17:00.
Páll og Birgir Björn fóru yfir helstu breytingar sem fylgja uppfærslu á samgöngusáttmálanum og hvað er framundan í vinnu varðandi hann. Umræður. Eftirfarandi bókun var lögð fram undir dagskrárliðnum:
Bæjarráð Seltjarnarnesbæjar, 28. október 2024
Viðauki við samgöngusáttmálann, bókun bæjarfulltrúa Sjálfstæðisflokks
Þann 26. september 2019 var undirritað samkomulag um skipulag og fjármögnun uppbyggingar á samgönguinnviðum til ársins 2033. Aðilar voru sveitarfélögin sex á höfuðborgarsvæðinu og ríkið. Samkvæmt fjárhagsáætlun samgöngusáttmálans átti kostnaður við hann að nema 120 milljörðum króna. Samkomulagið var samþykkt að loknum tveimur umræðum í bæjarstjórn með sex atkvæðum gegn einu atkvæði, með skýrum fyrirvara í formi lausnarskilyrðis sem kveður á um að ef breyting verður á samkomulaginu fellur það um sjálft sig og skuldbinding bæjarsins þar með. Fljótlega varð ljóst að umfang og kostnaður vegna verkefna sáttmálans hafði hækkað verulega. Í mars 2023 hóf viðræðuhópur ríkis og sveitarfélaga vinnu við uppfærslu á samgöngusáttmálanum, en þá höfðu engar uppfærðar fjárhagsupplýsingar borist svo mánuðum skipti til kjörinna fulltrúa og forsendur brostnar.
Þegar samgöngusáttmálinn var undirritaður 2019 voru drög kynnt sveitarstjórnum á kynningarfundi áður en kom til undirritunar. Við undirritun á uppfærslu hans þann 21. ágúst 2024 var annar háttur hafður á og boðað var til undirritunar með skömmum fyrirvara. Meiri háttar breytingar voru gerðar með viðaukanum og gildistími sáttmálans framlengdur til ársins 2040. Fjárhagsáætlun hljóðar nú upp á 311 milljarða króna og framkvæmdum einstakra verkefna hefur verið hliðrað til. Kostnaður við rekstur almenningssamgangna fer, skv. viðaukanum, úr 10 milljörðum í rúmlega 17 milljarða á ári. Ekkert samráð var haft við kjörna fulltrúa um framkvæmdir, forgangsröðun eða upplýsingar um uppfærðar fjárhæðir fyrr en á kynningu sem haldin var degi fyrir undirritun. Það er í besta falli óþægilegt að vera sett í slíka stöðu og fá þá skýringu að um væri að ræða trúnaðarmál og kjörnum fulltrúum væri vart treystandi til að fara með slík trúnaðargögn fyrir undirritun. Með þessu var okkur ekki gefinn kostur á að benda á þá gríðarlegu áhættu sem fylgir markmiðum og verkefnum samgöngusáttmálans. Þetta verklag teljum við verulega ófaglegt auk þess sem það skapar óeðlilegan þrýsting á kjörna fulltrúa.
Ekki hefur verið unnið að raunverulegum samgöngubótum á höfuðborgarsvæðinu svo árum skiptir og hafa samgöngur á höfuðborgarsvæðinu orðið sífellt torveldari, þ.m.t. til og frá Seltjarnarnesi. Á þetta hafa bæjarfulltrúar Seltjarnarnesbæjar lengi bent en ástandið versnar stöðugt. Uppfærsla samgöngusáttmálans breytir engu fyrir Seltirninga sem máli skiptir í fyrirsjáanlegri framtíð. Ekkert hefur t.d. verið gert í betri og skilvirkari umferðarljósastýringu eins og lofað var við undirritun sáttmálans árið 2019. Einnig hefur samgöngumannvirkjum sem bætt geta umferðarflæði fljótt og örugglega verið slegið á frest.
Það er margt í uppfærðum samgöngusáttmála sem er jákvætt. Ekki síst aðkoma ríkisins að rekstri almenningssamgangna en löngu er orðið ljóst að sveitarfélögin ein og sér ráða ekki við það verkefni. Það er líka góð hugsun að flýta nauðsynlegum framkvæmdum en fram til þessa hafa stofnvegaframkvæmdir ekki verið á hendi sveitarfélaga, sem hafa nóg á sinni könnu. Það eitt og sér er afar umhugsunarvert. Gríðarleg áhætta fylgir markmiðum og verkefnum samgöngusáttmálans eins og hann liggur fyrir í núverandi mynd:
§ Í gögnum er ekki að finna neina áhættugreiningu einstakra verkefna í sáttmálanum.
§ Upplýsingar um vandað stjórnkerfi verkefnastjórnsýslu til að stjórna verkefnaáætlun og framkvæmd einstakra verkefna vantar í gögn með sáttmálanum.
§ Samkvæmt framkvæmdaáætlun kemur fram að uppsöfnuð fjárþörf fram til ársins 2034 sé allt að 43,5 milljarðar króna, að því gefnu að áætlanir standist allar.
§ Staðreyndin er hins vegar sú, að samkvæmt rannsóknum fara nær allar opinberar framkvæmdir fram úr áætlun og viðamikil rannsókn á opinberum framkvæmdum á Íslandi sýnir að 90% líkur eru á framúrkeyrslu og að meðaltali fer kostnaður slíkra framkvæmda 60% fram úr kostnaðaráætlun.
§ Í áætlanir vantar uppkaup á landi sem fara eiga undir samgöngumannvirki, skaðabætur vegna eignarnáms og raunhæfar áætlanir um veitukostnað. Betri samgöngur ohf. fá lántökuheimild til þess að brúa bilið með lánum sem sveitarfélög og ríki ábyrgjast.
§ Sáttmálinn, sem er til 2040, er aðeins formlega fjármagnaður til ársins 2029 með láni upp á 22,1 milljarða króna. Samkvæmt fjárstreymisáætlun verður lánið komið í 33,5 milljarða króna strax árið 2031, en um er að ræða kúlulán þar sem það má ekki hafa áhrif á framkvæmdaféð samkvæmt viðaukanum.
§ Forsendur fyrir rekstri Borgarlínunnar eru óraunhæfar. Gert er ráð fyrir að fargjöld verði 40% af rekstrarkostnaði. Rekstrarkostnaður mun aukast úr 10 milljörðum í rúmlega 17 milljarða. Í dag nema fargjöld einungis rúmlega 20% af rekstrarkostnaði. Rekstrarkostnaðurinn er varlega áætlaður miðað við núverandi rekstur en rekstraráætlanir eru á verðlagi ársins 2023.
§ Umræða á Alþingi um vegtolla, sem fjármagna eiga 46% af sáttmálanum, hefur ekki farið fram. Alþingi hefur ekki samþykkt þær lagabreytingar sem samgöngusáttmálinn kveður á um.
§ Bein framlög ríkisins, án tillits til sölu Keldnalands, nema 2,8 milljörðum króna á ári til ársins 2040, með fyrirvara um samþykki Alþingis, auk 4 milljarða króna á ári aukalega á árabilinu 2025-2029 (samtals 20 milljarðar) sem hefur verið samþykkt í fjármálaáætlun ríkisins.
§ Sveitarfélögin greiða á móti tæpa 2 milljarða árlega til ársins 2040.
§ Afganginn, 193 milljarða, skal greiða með sölu á Keldnalandi og vegtollum, m.ö.o. 62% af fjármögnun samgöngusáttmálans skv. grunnáætlun er ekki í hendi.
Af ofangreindu má ljóst vera að gríðarleg fjárhagsleg áhætta er fólgin í samgöngusáttmálanum, ekki síst vegna óumflýjanlegrar framúrkeyrslu kostnaðar. Í sveitarstjórnarlögum er skýrt kveðið á um að sveitarstjórn beri ábyrgð á fjármálum sveitarfélagsins og skal hún sjá til þess að þau séu ávallt í góðu horfi og að ekki ríki veruleg óvissa um einstaka stóra útgjaldaliði. Samkvæmt lögunum er sveitarfélögum heimilt að taka þátt í verkefnum í ljósi brýnna samfélagslegra hagsmuna en þó þannig að áhætta vegna þátttöku í þeim gangi ekki gegn ábyrgri meðferð fjármuna. Ekki er ljóst að Seltjarnarnesbær muni uppfylla lagaleg fjárhagsleg viðmið eða geta sinnt grunnskyldum til framtíðar ef áætlanir samgöngusáttmálans fara úr skorðum og lántökur í tengslum við verkefnið keyra úr hófi. Þannig er skyldubundnum verkefnum sveitarfélagsins stefnt í verulega hættu. Samandregið er áhættan við undirritun sáttmálans svo mikil að vafi leikur á um hvort sveitarfélagið verði gjaldfært og geti með tryggum hætti staðið undir þeirri þjónustu sem íbúar eiga rétt á. Það er a.m.k. mat okkar að óábyrgt sé að staðfesta samning sem hefur svo óþekkta útkomu fyrir skattgreiðendur.
Það er ljóst að betra hefði verið að veita bæjarfulltrúum upplýsingar um uppfærslu samgöngusáttmálans fyrr en einum degi fyrir undirritun. Með þessu fyrirkomulagi var bæjarstjóri Seltjarnarnesbæjar settur í verulega óþægilega stöðu, enda undirritaði hann viðaukann með fyrirvara um samþykki bæjarstjórnar. Nær hefði verið að skoða betur ódýrari kosti eins og léttari Borgarlínu eða hreinlega bæta núverandi strætisvagnakerfi sem hefur ýmsa kosti. En fyrst og síðast þarf að taka færri verkefni fyrir í einu, undirbúa þau hvert í sínu lagi, áhættugreina hvert um sig og meta framhaldið eftir því hversu vel gengur að fylgja bæði tíma- og kostnaðaráætlunum, án skuldbindinga fram til ársins 2040 með tilheyrandi óvissu og áhættu.
Við, undirritaðir fulltrúar Sjálfstæðisflokksins í bæjarráði, munum því ekki greiða atkvæði með sáttmálanum eins og hann liggur fyrir í dag, án fyrirvara.
Magnús Örn Guðmundsson, formaður bæjarráðs
Svana Helen Björnsdóttir
Páll og Birgir Björn víkja af fundi 18:25.
Bæjarráð samþykkir að vísa málinu til afgreiðslu hjá bæjarstjórn.
2. 2024090212 – Viðauki 7 - Málefni fatlaðra – aukin þjónustuþörf
Sviðsstjóri fjölskyldusviðs og fjármálastjóri sækja um viðauka í málefnum fatlaðra til að mæta aukinni þjónustuþörf í málaflokknum. Samþykkt að undibúa kröfugerð á ríkið vegna málsins og bæjarstjóra falið að vinna með lögmanni bæjarins.
Baldur Pálsson kemur inn á fundinn kl. 18:30.
Bæjarráð samþykkir viðaukann.
3. 2024100228 – Verkfall í Leikskóla Seltjarnarness
Baldur upplýsir um stöðu mála í kjaraviðræðum.
Baldur víkur af fundi kl. 19:18.
4. 2024100163 – Fjárhagsáætlun 2025 - Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Fjárhagsáætlun Slökkviliðs höfuðborgarsvæðissins fyrir árið 2025 er lögð fram til samþykktar
Bæjarráð samþykkir fjárhagsáætlunina.
5. 2024100196 – Gjaldskrá 2025 - Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins
Gjaldskrár Slökkviliðs höfuðborgarsvæðissins fyrir árið 2025 er lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir gjaldskrána.
6. 2024100164 – Fjárhagsáætlun 2025 - HEF
Fjárhagsáætlun Heilbrigðiseftirlits Garðabæjar, Hafnarfjarðar, Kópavogs, Mosfellsbæjar og Seltjarnarness fyrir árið 2025 er lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir fjárhagsáætlunina.
7. 2024100165 – Fjárhagsáætlun 2025 – Svæðisskipulagsnefnd höfuðborgarsvæðisins
Fjárhagsáætlun Svæðisskipulagsnefndar höfuðborgarsvæðisins fyrir árið 2025 er lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir fjárhagsáætlunina.
8. 2024100166 – Fjárhagsáætlun 2025 – Samráðshópur um vatnsvernd og nýtingu
Fjárhagsáætlun Samráðshóps um vatnsvernd og nýtingu fyrir árið 2025 er lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir fjárhagsáætlunina.
9. 2024100200 – Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins
Þróunaráætlun höfuðborgarsvæðisins er lögð fram til samþykktar.
Bæjarráð samþykkir þróunaráætlunina.
Fundi slitið: 19:40