9. desember, 2021 kl. 08:15 kom bæjarráð Seltjarnarnesbæjar saman til fundar í fundarsal bæjarstjórnar á Austurströnd 2,
Fundinn sátu: Magnús Örn Guðmundsson, formaður, Sigrún Edda Jónsdóttir , aðalmaður, Guðmundur Ari Sigurjónsson, aðalmaður, Karl Pétur Jónsson áheyrnafulltrúi, Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri.
Fundargerð ritaði: Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri.
Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:
Dagskrá:
- 2021110189 - Akstursþjónusta fyrir fatlað fólk úr dreifbýli 2021
Bréf Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins dags. 15.11.2021 varðandi akstursþjónustu fyrir fatlað fólk úr dreifbýli 2021. Lagt fram.
- 2021100052 - Samstarf í stafrænni umbreytingu sveitarfélaga 2022
Bréf Sambands íslenskra sveitarfélaga dags. 7.10.2021 varðandi þátttöku í verkefninu stafrænt samstarf sveitarfélaga 2022. Bæjarráð samþykkir að taka þátt í samstarfi sveitarfélaga um stafræna umbreytingu samkvæmt samstarfsverkefnalista fyrir árið 2022. Tengiliður við verkefnið er María Björk Óskarsdóttir sviðstjóri bæjarins.
- 2021120081 - Þorrablót Gróttu – Styrkbeiðni
Bæjarráð samþykkir að styrkja íþróttafélagið með þeim fyrirvara að sóttvarnaryfirvöld leyfi samkomuna og hægt verði að fara eftir sóttvarnarreglum sem þá verða.
- 2021120150 Lántaka Strætó bs.
Erindi Strætó bs. þar sem þess er ósk að samþykkt verði einföld ábyrgð, veðsetning tekna til tryggingar ábyrgðar og umboð til að undirrita lán Lánasjóðs sveitarfélaga og Arion banka til Strætó bs.
Bæjarráð Seltjarnarnesbæjar samþykkir á 126. fundi þann 9. desember 2021 að veita einfalda ábyrgð og veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds, sbr. heimild í 2. mgr. 68 gr. og 2. mgr. 69. gr. sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011, til tryggingar láns hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð allt að kr. 400.000.000 með lokagjalddaga 15. ágúst 2029, í samræmi við skilmála lánasamnings sem liggur fyrir á fundinum og sem sveitastjórnin hefur kynnt sér. Nær samþykki sveitarstjórnar jafnframt til undirritunar lánasamnings og að sveitarfélagið beri þær skyldur sem þar greinir. Þá hefur sveitarstjórnin kynnt sér gildandi græna umgjörð Lánasjóðs sveitarfélaga og samþykkir að ráðstöfun lánsins falli að henni.
Er lánið tekið til fjárfestingar í rafvögnum til endurnýjunar í flota Strætó bs með það að markmiði að lækka kolefnisspor Strætó, sem felur í sér að vera verkefni sem hefur almenna efnahagslega þýðingu sbr. 3. gr. laga um stofnun opinbers hlutafélags um Lánasjóð sveitarfélaganna nr. 150/2006.
Jafnframt er Ásgerði Halldórsdóttur, bæjarstjóra Seltjarnarnesbæjar, kt. 060656-5929, veitt fullt og ótakmarkað umboð til þess f.h. sveitarfélagsins að undirrita lánasamning við Lánasjóð sveitarfélaga sbr. framangreint, sem og til þess að móttaka, undirrita og gefa út, afhenda hvers kyns skjöl, fyrirmæli og tilkynningar, sem tengjast lántöku þessari, þ.m.t. beiðni um útborgun láns.
Með sama hætti samþykkir bæjarráð beiðni Strætó bs. að veðsetja til tryggingar ábyrgðinni tekjur sínar í samræmi við hlutfall eignarhalds til tryggingar ábyrgðar á rekstrarláni að fjárhæð kr. 300.000.000 hjá Arion banka til fimm ára, í samræmi við skilmála lánasamnings sem liggur fyrir á fundinum og sem sveitastjórnin hefur kynnt sér.
- 2021060098 - Reglur Seltjarnarnesbæjar um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum
Á fundi skólanefndar nr. 317, sem haldinn var 24.11.2021 voru reglur Seltjarnarnesbæjar um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum samþykktar og vísað til staðfestingar bæjarráðs. Bæjarráð samþykkir tillögur skólanefndar um endurskoðaðar reglur um tónlistarnám í öðrum sveitarfélögum og vísar til staðfestingar bæjarstjórnar.
- 2021120151 Lánaheimild 2021-2022
Fjármálastjóri gerði grein fyrir tillögu um lánalínu hjá Lánasjóði sveitarfélaga að fjárhæð kr. 1.100.000.000.-, verðtryggt með 1,52% föstum vöxtum, vegna framkvæmda ársins og næsta árs. Lánið er jafngreiðslulán til 34 ára. Lagt er til að draga strax á lánalínuna og taka 400 mkr. núna fyrir áramótin. Bæjarráð vísar afgreiðslu málsins til bæjarstjórnar til staðfestingar, fyrir liggja drög að lánasamningi.
- 2021120054 Áramótabrenna
Bæjarstjóri upplýsti um stöðuna í dag vegna sóttvarnarreglna sem nú eru í gildi um takmörkun á samkomuhaldi. Vegna þeirra er lagt til að fella niður áramótabrennu á Valhúsahæð á gamlárskvöld. Bæjarráð tekur undir þau sjónarmið sem fram komu á fundinum að áramótabrennur draga að sér fjöld fólks og vill sveitarfélagið sýna ábyrgð í verki og aflýsa því áramótabrennunni í ár.
- 2021120137 Þjónustusamningi vegna búsetukjarna við Kirkjubraut
Bæjarstjóri kynnti drög að þjónustusamningi vegna búsetukjarna við Kirkjubraut 20, bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram með drögin.
Fleira ekki tekið fyrir og fundi slitið kl. 8:55