Fara í efni

Bæjarráð

21. maí 2019

Haldinn í fundarsal bæjarráðs á bæjarskrifstofunum við Austurströnd 2,

Fimmtudaginn 23. maí, 2019 og hófst hann kl. 08:00

Fundinn sátu: Magnús Örn Guðmundsson, formaður, Sigrún Edda Jónsdóttir aðalmaður, Guðmundur Ari Sigurjónsson, aðalmaður.

Ennfremur sat fundinn Ásgerður Halldórsdóttir, bæjarstjóri og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóri, sem ritaði fundargerð í tölvu

Gengið var til dagskrár og fyrir tekið:

  1. Fjárstreymisyfirlit janúar til mars 2019.

    Fjármálastjóri bæjarins fór yfir fjárstreymisyfirlit fyrir tímabilið janúar og mars 2019. Gunnar fór yfir fyrstu þrjá mánuði ársins.

  2. Gististarfsemi á Seltjarnarnesi.

    Fyrirspurn Samfylkingar frá fundi bæjarstjórnar nr. 885 frá 13.3.2019: ,,Hvert er umfang skráðrar og óskráðarar gististarfsemi á Seltjarnarnesi og er tilefni til að setja reglur um staðsetningu og fjölda gistiheimili líkt og gert er t.d. í Reykjavík“. Bæjarstjóri leggur til að settar séu málsmeðferðarreglur varðandi umsóknir um rekstrarleyfi veitingastaða og gististaða, þær verði skýrar og aðgengilegar. Bæjarráð samþykkir að settar verði málsmeðferðarreglur og skipulags- og byggingarfulltrúi falið að vinna samkvæmt þeim.

  3. 2019050108 Samkomulag um tæknilegan og fjárhagslegan undirbúnings Borgarlínu.

    Á fund bæjarráðs mættu Páll Björgvin Guðmundsson, framkvæmdastjóri SSH og Hrafnkell Proppé, svæðisskipulagsstjóri og gerðu grein fyrir tillögu stjórnar SSH um að aðildarsveitarfélögin geri samning sín á milli um samstarf um tæknilegan og fjárhagslegan undirbúning að lagningu hágæða almenningssamgangna á höfuðborgarsvæðinu og gangi sameiginlega til samninga við Vegagerðina um undirbúning málsins.

    Bókun formanns bæjarráðs, Magnúsar Arnar Guðmundssonar:
    Ég leggst gegn undirritun samninganna af hálfu Seltjarnarnesbæjar. Hugmyndir um svokallaða Borgarlínu eru að mínu mati óraunhæfar eins og þær liggja fyrir, ekki síst forsendur um heildarkostnað við verkefnið, áætlaða nýtingu og rekstrarkostnað. Þetta er í samræmi við bókun Sjálfstæðismanna á Seltjarnarnesi á bæjarstjórnarfundi þann 21. mars 2018 við afgreiðslu Svæðisskipulags höfuðborgarsvæðisins og stefnuskrá flokksins fyrir sveitarstjórnarkosningarnar í maí 2018.
    Heildarkostnaðaráætlun við Borgarlínu er á miklu reiki og rekstrarkostnaður ekki kynntur, ef yfir höfuð er búið er að skoða hann. Samkvæmt lauslegu svari frá SSH dags. 21. febrúar 2018 gæti árlegur rekstrarkostnaður numið 10-15 milljörðum króna, eða ríflega tvöfalt meira en rekstrarkostnaður Strætó. Sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu borga nú þegar þrjá og hálfan milljarð með rekstri strætó árlega og ríkið tæpan einn milljarð. Fargjöld ná ekki 30% af kostnaði.
    Ef miðað er við rannsóknir á framúrkeyrslu í stórum opinberum framkvæmdum á Íslandi má gera ráð fyrir að fjárfestingin muni kosta vel á annað hundruð milljarða króna, jafnvel hundruði. Inní kostnaðaráætlun er ekki kostnaður við eignanám. Nýjasta dæmið um framúrkeyrslu „borgarlínu“ er að finna í Stavanger í Noregi, en sú framkvæmd er komin úr 60 milljörðum í 200 milljarða ISK.
    Hlutfall þeirra sem nota almenningssamgöngur á Íslandi hefur staðið óbreytt í um áratug, eða 3-4%. Á sama tíma hefur nánast ekkert verið gert vegna mikillar fjölgunar bíla í umferðinni, en langstærstur hluti landsmanna kýs einkabílinn sem hentugasta samgöngumátann af ýmsum ástæðum. Eingöngu hefur verið þrengt að umferð í borginni á sama tíma og fjölga hefði þurft akreinum og mislægum gatnamótum á sama tíma.
    Nær væri að efla Strætó sem almenningssamgöngumáta. Nú þegar hefur verið fjárfest í 14 rafmagnsvögnum og 5 vetnisvagnar á leiðinni. Hægt er auka tíðni ferða verulega á annatímum, fjölga forgangsakreinum, lækka fargjöld og ekki síst koma í veg fyrir að Strætó stoppi á miðri götu. Það er í það minnsta fyrirhafnarinnar virði til að þrefalda hlutfall þeirra sem vilja nota almenningssamgöngur á Íslandi, eins og draumarnir um Borgarlínuna gera ráð fyrir.
    Magnús Örn Guðmundsson (sign)

    Bókun fulltrúa Samfylkingar:
    Samfylkingin leggur ríka áherslu á að Seltjarnarnesbær loki engum dyrum og verði áfram virkur þátttakandi í samstarfi SSH um skipulag á samgöngum á höfuðborgarsvæðinu. Sá undirbúningur sem hér er til umfjöllunar nær til borgarlínu, stofnvegaframkvæmda og hjólreiðakerfis höfuðborgarsvæðisins.
    Borgarlínan er vissulega stórt og mikið verkefni sem krefst skýrrar framtíðarsýnar og pólítísks þors en við teljum algjört glapræði ef Seltjarnarnesbær stimplar sig út úr samstarfi á þessu stigi málsins. Borgarlínuverkefnið er framtíðarlausn á samgöngumálum innan höfuðborgarsvæðisins og mun hún verða lífæð hverfa og sveitarfélaga í framtíðinni. Það mun vera gífurleg skerðing á lífsgæðum Seltirninga ef við verðum ekki hluti af undirbúningi Borgarlínukerfisins sem mun bitna á fasteignaverði, möguleikum fólks ferðast milli staða, óhagræði við að reka fyrirtæki og stofnanir á Nesinu ásamt því að erfiðara mun verða að fá starfsfólk til að vinna hjá Seltjarnarnesbæ sem ekki býr í sveitarfélaginu.
    Borgarlínuverkefnið er samstarfsverkefni um svæðisskipulag, samgöngur,aðgerðir í loftslagsmálum og sjálfbæra þróun á höfuðborgarsvæðinu sem við tilheyrum og tölum um á tyllidögum sem eitt búsetu og atvinnusvæði. Enda starfa flestir Seltirningar og sækja sér þjónustu utan sveitarfélagsins.
    Guðmundur Ari Sigurjónsson
    Bæjarráð vísar málinu til afgreiðslu bæjarstjórnar.

  4. 2018050206 Bréf mennta- og menningarmálaráðherra varðandi stefnumótun í íþróttamálum 2019-2030, dags. 2.5.2019.

    Bæjarráð vísar bréfinu til kynningar í ÍTS.

  5. Úttekt á fjölskyldusviði.

    Bæjarstjóri lagði fram úttekt HLH á verkefnum fjölskyldusviðs, bæjarstjóri lýsti ánægju sinni með þessa samantekt, hér er tækifæri til að gera enn betur og fylgja eftir ábendingum ráðgjafa. Bæjarráð felur bæjarstjóra að vinna áfram með þessar tillögur og upplýsa að sex mánuðum liðnum stöðu þeirra.

  6. Úttekt á stjórnsýslu, rekstri og fjárhag Seltjarnarnesbæjar.

    Bæjarstjóri leggur til við bæjarráð að fela HLH ehf. úttekt á öðrum sviðum bæjarins í framhaldi af úttekt á fjölskyldusviði. Úttektinni verði lokið 30. september 2019.

    Bæjarráð samþykkir samhljóða.

  7. 2018050206 Jafnlaunastefna Seltjarnarnesbæjar.

    Bæjarstjóri leggur fram drög að jafnlaunastefnu Seltjarnarnesbæjar. Bæjarráð samþykkir drögin og vísar þeim til staðfestingar í bæjarstjórn.

  8. Innkaupareglur Seltjarnarnesbæjar.

    Bæjarstjóri kynnti breytingar á innkaupareglum og nýjum lögum. Frestað til næsta fundar.

  9. 2019050038 Ráðargerði.

    Erindi frá BHS varðandi leiga á Ráðargerði. Bæjarráð hafnar erindinu.

    Fleira ekki tekið fyrir.

    Fundi slitið kl. 09:50

Loka
Var efnið á síðunni hjálplegt?